Mynd: Iðunn Arna Björgvinsdóttir

Sigraði í dag KexReiðina í miðbæ Reykjavíkur, eftir skemmtilega keppni gegn Óskari, Helga og Davíð. Hjólaðir voru 16 hringir á Hverfisgötu niður á Skúlagötu og aftur upp á Hverfisgötu hjá Seðlabankanum.

Keppnin byrjaði vel, hraðinn var keyrður upp og nokkrir hringir teknir á góðum hraða en við 4 slitum okkur frá hópnum nánast strax á fyrsta hring. Brekkan hjá Seðlabankanum var minn staður til að hrista upp í hópnum, en ýmislegt gekk á á næstu hringjum þó hópurinn héldist óbreyttur til enda. Lenti reyndar í óþægilegu atviki þegar farið var niður brekkuna frá Hverfisgötu niður á Skúlagötu, en þar hafði leigubíll lagt hægra megin á veginum sem ég sá ekki, var aftast í hópnum, en það leit út fyrir að ég myndi fara beint í hann. Læsti afturbremsunni í hamaganginum og fann dekkið renna utan í bílinn, en sjálfur rétt strauk ég hann og uppskar ekki mikið meira en svartann blett á fætinum. Tæpara verður það ekki.

Gerði eina tilraun þegar örfáir hringir voru eftir til að slíta mig frá hópnum, en það dugði ekki lengi, eða um hálfann hring. Ákvað þá að reyna ekki aftur, heldur klára keppnina í endasprett. Keppnin varð “taktísk” þegar nokkrir hringir voru eftir, en menn voru ýmist að hægja á og tóku ekki allir þátt í að keyra upp hraðann, en á síðasta hring var svo reynt við sprettinn fyrst upp brekkuna hjá Seðlabankanum og upp að horninu inn á Hverfisgötu, en þaðan er um 400m í markið. Náði ekki stóru bili þar í næstu menn, þannig að ég sló af, hópurinn náði saman aftur og fékk þar nokkrar sek til að hvíla. Svo var gefið allt í botn fyrir þreföldu hraðahindrunina góðu, en hún var bara um 50 metra í markið, endaði rúmlega hjólalengd fyrir framan Helga, en nálægt honum var Davíð, og Óskar á eftir þeim.

Þakka Kex hostel fyrir frábæra keppni og glæsilegt framtak, Kríu, Hreysti og IronViking fyrir að styrkja mig og öllum keppendum og áhorfendum fyrir góðann dag! — at KexReið 2013