Á föstudaginn síðasta kláraði ég Andalucia Bike Race í annað skipti á tveimur árum. Keppnin var eins ólík fyrra árinu og mögulegt var, þökk sé veðri og ýmsum öðrum hlutum. Í stuttu máli er þetta 6 daga löng fjöldægrakeppni á fjallahjóli, 400km löng samtals, með leiðum í Cordoba, Andújar og Linares á Spáni. Keppnin er einstaklings, en var áður parakeppni, og er með UCI C1 merkingu sem er næst efsta stig.
Eins og í fyrra lét ég mig fljóta með nokkrum Dönskum félögum, en fyrst og fremst með besta fjallahjólara Færeyja, Helga Winther Olsen. Við gerðum allt saman, sem getur hjálpað ótrúlega mikið í svona langri keppni, en með öllu tekur ævintýrið um 8 daga, og það getur margt gerst á þeim tíma.

Það er margt sem er hægt að segja um hvernig keppnin þróaðist fyrir mig, bæði neikvætt og jákvætt, en ég fókusa yfirleitt á það jákvæða í öllu, þó verandi raunsæismaður. Keppnin byrjaði vel fyrir mig, en tók nokkrar dýfur á leiðinni, og sumar af þeim höfðu ekki bara áhrif á mig. Ég átti góðann fyrsta dag, var með fremstu mönnum og allt leit vel út fyrir framhaldið. Smá óheppni með staðsetningu setti strik í reikninginn á öðrum degi, en ég barðist vel og lengi og náði að lokum ágætum tíma og var ekki of ósáttur, enda nóg eftir. Á degi 3 byrjaði veðurspáin að stríða öllum keppendum, en á dögunum fyrir keppni leit alltaf út fyrir að það yrði rigning á seinni hluta keppninnar. Ég get ekki sagt að mig hafi grunað hversu slæmt það varð samt!

Dagur 3 var högg fyrir mig, bleyta í brautinni hafði þó minni áhrif en mig grunaði, en ég fékk vænann skammt (vonandi ársskammt) af óheppni þegar ég sprengdi dekk þrisvar á einum degi. Ég get engu öðru kennt um en sjálfum mér, var búinn að setja öflug og þykk dekk á hjólið og hafði engar áhyggjur, enda ekki þekktur fyrir að sprengja oft. Eftir þann dag var egóið búið að minnka og ég farinn að hugsa um að eiga bara góða daga það sem eftir var, en allar hugmyndir um heildarúrslit voru farin út um gluggan, ég kom í mark tæplega klukkutíma á eftir sigurvegaranum.

Eftir þetta varð keppnin bara erfiðari, og dagur 4 sennilega sá allra versti, en á sama tíma finnst mér hann hafa sýnt líka góða hluti. Þann dag rigndi stanslaust, kuldinn var mikill og ég var alltaf á bláþræði milli þess að keyra hitann upp, og slakna niður í ofkólnun. Ég eyddi fyrstu 2 tímunum af tæplega 3 með hóp sem var að keppa um 14.sæti, aðeins nokkrum mínútum á eftir fremstu mönnum. Ég tók vel á því á hjólinu, og skv mælingum virðist vera í töluvert betra formi en á sama tíma í fyrra. En ég sprengdi aftur. Ég datt aftur úr, eyddi hellings tíma í að laga dekkið, og þegar ég lagði af stað aftur var ég orðinn kaldur í gegn og kom mér ekki aftur á strik, sem sýndi sig í leiðinlegri dettu á fleygiferð niður grjótakafla um 15 mín eftir að ég lagði af stað. Ég kláraði daginn í mjög óþægilegu ástandi, gat varla haldið um stýrið og fann að ég var búinn að slasa mig í kringum bringuna.

Kvöldið eftir dag 4 var mjög erfitt andlega. Ég fann meira og meira til í rifbeinunum og grunaði oft að ég væri brákaður, en eftir svipuð meiðsli á EM í Slóvakíu í fyrra, vissi ég að þetta væri ekki svo slæmt. En vont var það. Marblettir og rispur á löppum og handleggjum voru ekkert að hjálpa til, en ég hugsaði lítið um það. Morguninn eftir verður að segjast að ég var nálægt því að hætta við að mæta á startlínuna.

Startið var í 50 mín akstri frá Cordoba þannig að það þurfti að fleygja öllu inn í bíl kl 7 um morguninn og leggja af stað í hellirigningu. Rigningin er sennilega sú mesta sem ég hef nokkurn tíman keyrt í, og það á Spáni af öllum stöðum. Þegar við vorum hálfnaðir á keppnisstað og ég enn að reyna að hvetja sjálfann mig til dáða var gefin út tilkynning: degi 5 aflýst vegna veðurs. Flóð í smábæjum og árfarvegir byrjaðir að myndast í brautinni. Ég var ekki ósáttur, fúll eða svekktur yfir þessu, það get ég sagt. Ég tók þessu sem merki um að ég hefði fengið hvíldardag til að koma hausnum í lag.

Ég kláraði dag 6 með öllu sem ég átti eftir, en það var því miður ekki mikið. Ég átti erfitt með að anda vegna rifbeinsins, og bleytan og kuldinn var verri en hina dagana, en samt var ákveðið að starta öllum á lokadegi. Ég gaf allt í þetta, átti ágætt klifur í byrjun og setti mínar bestu afltölur þá vikuna í pedalana, en átti í erfiðleikum með niðurbrekkurnar vegna kulda og einbeitingarleysis. Það var samt gaman að ná þessum 5 sem tóku fram úr mér í síðustu brekkunni. Sótti þá á 2km löngum malbikskafla og sprettaði í burtu að markinu. En marklínan var ekki mín marklína, heldur var löngu búið að ákveða að það yrði heitt bað á hótelinu. Ég gleymdi næstum því að sækja medalíuna, rauk af stað í óráði og tókst að villast í hellidembunni á leiðinni á hótelið. Komst þó þangað á endanum, setti í heitasta bað ævi minnar, og settist þar niður í öllum fötum, skóm og hjálmi. Ég hafði sigrað þessa keppni, og sjálfann mig í leiðinni. Ég náði ekki þeim úrslitum sem ég sóttist eftir, en ég komst yfir aðra erfiðleika og kem frá þessarri keppni enn spenntari fyrir vorinu.