Það er áhugavert þegar frábært keppnistímabil byrjar og endar á stórri keppni í útlöndum. Sú fyrri sigur, en sú síðasta biturt klúður.

Birkebeinerrittet er Bláalónsþraut Noregs. 92km löng keppnin dregur sögu sína af því þegar Norskur krónprins, þá aðeins ungabarn, var fluttur á baki skíðamanna yfir hálendi Noregs á slóðum Lillehammer. Uþb 1500 metrar af klifri fara fram að mestu leyti á sléttum malarvegum og einhverju malbiki, en brautin er lang frá því að geta talist tæknileg. Þetta gerir að verkum að keppnin virkar meira eins og götuhjólakeppni og reynir mun meira á götuhjólataktík og styrk á flötum vegum í langann tíma.

Mér var boðið að taka þátt í keppninni fyrir hönd Lauf forks, kanski eðlilegt þar sem ég hef keppt fyrir þá í allt sumar og gengið ágætlega við að sannfæra landsmenn um gott gildi TR29 gaffalsins. Ég var auðvitað mjög spenntur enda farinn að horfa mun meira til útlanda til að halda áfram að bæta mig sem hjólreiðamaður, tækifærin eru vissulega fyrir utan landssteinana. Allt leit vel út í sambandi við keppnina, hún hentar að vísu ekki mínum bestu hæfileikum en það breytti litlu. Eina sem stóð upp úr var tímasetningin, á meðan bestu hjólarar í Noregi “toppa” í formi fyrir þessa keppni, kemur hún fyrir undir lok tímabilsins hjá okkur heima og því líklegt að formið sé ekki upp á sitt besta á þessum árstíma.

Spennan var þó orðin mikil þegar við Iðunn og Hafsteinn lentum í Osló á þriðjudaginn í síðustu viku, en við mættum fyrr til að kanna aðstæður og koma okkur fyrir í hæðunum vestan við Lillehammer, á meðan strákarnir í Lauf kláruðu orðafjöldann út árið á Eurobike hjólasýningunni. Eftir nokkrar brautarskoðanir, þar sem fyrstu og síðustu kílómetrarnir voru hjólaðir vorum við ansi klár í slaginn. Eitt atriði við keppnina er sú skylda að vera með bakpoka sem ásamt innihaldi sínu verður að vikta 3,5 kíló (eða uþb. einn ungur Norskur prins). Þetta var áhugaverð áskorun, og átti eftir að hafa ákveðin áhrif á framgang keppninnar.

Kvöldið fyrir keppnisdaginn mætti restin af hópnum, en Óskar, Benni, Bjarki og Helgi voru allir skráðir til leiks í keppnina ásamt mér og Hafsteini. Þeir mættu svo á svæðið eldsnemma á laugardagsmorgni til að setja saman hjól og gera sig klára. Benni, Bjarki og Helgi voru skráðir í almenna flokkinn í keppninni og störtuðu aftarlega í hópnum sem spannaði mörg þúsund manns. Seinna um daginn startaði svo Elite flokkurinn, sem ég, Óskar og Hafsteinn vorum skráðir í, og innihélt marga af bestu hjólreiðamönnum Noregs, ásamt topp hjólurum frá öðrum löndum. Uþb 140 manns voru í hópnum og var útlit fyrir harðri keppni.

Ég viðurkenni örlítið stress fyrir keppni, en ég vaknaði einhvernveginn voðalega illa og seint, og komst engann veginn í réttan gír áður en við lögðum af stað til Rena, þar sem keppnin startar. Ég náði ekki að koma ofan í mig miklum mat og var mikið að pæla í alls konar hlutum. En ég var þó hress og félagsskapurinn góður, veðrið leit vel út og hópurinn almennt bara hress. Við mættum á svæðið uþb 2 tímum fyrir start og vorum klár snemma, en eftir stutta upphitun komum við okkur að startsvæðinu. Þar var búið að hólfa niður hópinn og við komumst að því okkur til mikillar ánægju að við vorum í fremsta hólfinu. Ekki var gamaninu lokið þar heldur vorum við kallaðir upp með nafni eins og stórstjörnurnar fyrir framan okkur, en allir Norsku topparnir voru á fremstu línu.

Byssuskot heyrðist og allir flugu af stað, og áður en ég vissi af var ég umkringdur brjáluðum hjólurum. Þetta var eins og að vera í hafsjó, ég var alveg í miðjunni og hafði engin áhrif á hvað var að gerast. Sá ekki fremst fyrir hrúgu af hjólurum og þorði ekki að horfa í kring um mig því á engri stundu var hraðinn orðinn svakalegur. Þetta var eins og að vera í götuhjólakeppni, nema allir með 700mm breið stýri og samanlagður vattafjöldi mun hærri en fyrirfinnst heima á klakanum. Fyrsta verkefni dagsins var að lifa af 11km langt klifur að mestu leyti á malbiki sem innihélt 400 metra klifur, jafnt og þétt. Brekkan sem slík leit ekki illa út í brautarskoðun en í miðri keppni var hraðinn svo svakalegur að maður átti varla til orð, eða andardrátt yfir öllum látunum. Hópurinn var allur kominn saman og hraðinn að meðaltali rétt undir 30km/h. Eftir ca 20 mínútur af þessum lífs og sálarkvölum, af stærðargráðu sem ég hef sjaldan upplifað, fann ég að púlsinn ætlaði ekkert að hætta að hækka. Hann skreið yfir þröskuldspúls (maður vill það helst ekki í langann tíma) og hækkaði og hækkaði. Ég vissi að Óskar og Hafsteinn voru nálægt í hópnum og planið var að vera á sömu slóðum og þeir, en það var þó mikil löngun til að komast framar í hópinn til að eiga möguleika á að komast inn á þrengri slóða sem byrjuðu eftir klifrið með hröðu mönnunum. Ég sá bil opnast vinstra megin í hópnum og kom mér þangað og var skyndilega mættur fremst með öllum aðal spöðunum. Ég hjólaði í smá stund beint fyrir aftan gæja með númerið 1, klæddur í Norsku fánalitina og áttaði mig á að ég væri sennilega ekki á besta stað, en nokkrum sekúndum seinna gaf einhver hressilega í og fremstu menn eltu, og ég fann bara hvernig ég sprakk eins og blaðra. Fæturnir sögðu stopp og haltu kjafti, og ég gat bara ekki meira. Púlsinn var kominn í 10 slög yfir þröskuld og byrjaði að lækka, á meðan hrúgur af hjólagæjum þeyttust fram úr mér. Tilfinningin er ólýsanlega vond, og á meðan fæturnir virðast ætla að breytast í passlega grillaða sykurpúða byrjar hausinn að pæla í einhverju allt öðru en að hjóla. Neikvæðnin flæðir inn og allt fer til fjandans í kollinum. Keppnin er búin, þetta er ónýtt og varla 10km búnir.

Ég djöflaðist eins og ég gat upp restina af brekkunni, og reyndi að líma mig við hvern hópinn á fætur öðrum, en eftir 10-20 sekúndur varð ég að sleppa takinu og beið eftir næsta hóp þar sem sama gerðist aftur, og aftur. Fyrsta drykkjarstöð birtist og ég greip einn versta brúsa í heiminum sem ætlaði að sprauta meira vatni á hjólið heldur en upp í mig. Tróð í mig geli og hugsaði bara um að andskotast aftur í gang og klára þetta, en ég neita því ekki að þarna var hausinn alveg kominn úr keppnisgírnum og ég var lítið að nenna þessu. Ég hélt áfram upp malarveginn og inn í fyrstu þrengingu, þegar Óskar birtist allt í einu sprækur. Ég var ánægður að sjá hann og hugsaði að hann hefði tæklað klifrið á skynsamlegastann hátt. Ég krækti mér í afturdekkið hjá honum og við þutum niður fyrstu brekkuna, inn í rosalega grýtta og erfiða beygju og beint inn í skóg fullann af rótum. Þarna var mikilvægur kafli, en framundan var rúmlega kílómeters langt klifur sem menn voru almennt að tækla hlaupandi með hjólið. Ég sá afhverju það var þegar ég byrjaði að hjóla upp stórgrýttann slóðann sem minnti meira á steinafjöru heldur en hjólabraut. Af hjólinu, byrjaði að labba upp drasli og var eiginlega bara ánægður með að fá að fara af hjólinu í smá stund, en fljótlega gafst færi til að byrja að hjóla upp. Kunnuglegir taktar létu sjá sig, og ég hresstist smá við þegar ég byrjaði að taka fram úr nokkrum gaurum sem áttu augljóslega ekki heima í bröttum brekkum. Ég hélt áfram inn á malarveg þar sem myndaðist örlítill hópur, en þarna hafði Óskar misst af mér í klifrinu. Ég reyndi allt sem ég gat til að hanga með 2-3 gæjum sem fóru svo einn af öðrum burt til að mynda stærri hóp fyrir framan. Ég átti ekki séns í þessa gæja og reyndi bara að hjóla á mínum eigin hraða. Óskar náði mér svo aftur á flatari kaflanum, en honum fylgdi stærðarinnar hópur sem ég henti mér inn í. Ég heyrði kunnuglega rödd fyrir aftan mig, og brá pínulítið þegar ég sá Haffa koma fram úr mér, en þarna var ég handviss um að hann væri í fjörinu fyrir framan. Seinna komst ég að því að hann hafði lent í samskonar líkamsárás í fyrstu brekkunni og ég, og hafði dregist afturúr. Reynslan og gífurlegur fjöldi ára í fótunum hjálpuðu honum að ná sér og hjóla okkur bræðurna uppi, en þarna vorum við félagarnir saman komnir í ágætlega stórum hóp.

Við hjóluðum ágætann spöl saman og samvinnan ágæt miðað við fjallahjólara samankomna í eins konar götuhjólakeppni. Ég fann þó að hraðinn var of mikill fyrir mig, en ég var langt frá mínu besta á þessum tíma. Fljótlega fór ég að detta aftur úr hópnum og þurfti að draga mig áfram að aftasta manni. Mér leið ótrúlega illa, var með slæma verki í rifbeinunum og tilfinningin var eins og það væri verið að þrengja að lungunum. Ég gat einhvernveginn ekki andað almennilega og kenndi bakpokanum á tímabili um, en ég hefði mátt pæla pokann og innihald hans mun betur. Ég gat ekki meir og sleppti takinu á hópnum til að jafna mig örlítið, en þarna datt ég inn á erfiðasta kafla keppninnar. Ég hjólaði sennilega 40-50 mínútur aleinn, á milli hópa, í einskismannslandi. Ég hafði allt of mikinn tíma til að hugsa um hvað keppnin var alveg klúðruð og pældi bara of mikið í hinu og þessu á meðan ég reyndi að keyra mig í gang með öllum mat og drykk sem ég var með á mér. Ég hjólaði nokkrum sinnum upp brekkur þar sem fjöldi fólks hafði komið sér fyrir til að kalla eina orðið sem ég heyrði hrópað í keppninni og hljómaði eins og íslenska orðið “hægja” sem var mjög hressandi. Það var erfitt að koma sér í stuð á þessum langa kafla sem ætlaði aldrei að enda, en svo kom hópur að mér sem ég reyndi að hanga í, en átti allt of erfitt með það og dróst afturúr. Þetta gerðist 3-4 sinnum til viðbótar, hópur kom, ég fór með í 30-60 sek og missti svo af þeim. En á endanum kom hópur sem ég gat þraukað með, en þar voru kanski 45 mínútur eftir af keppninni. Þetta bætti þó daginn, enda gaman að hjóla í hóp. Þetta voru uþb 10 strákar á öllum aldri, en við fórum saman upp síðustu klifrin og inn á malbikskaflann þar sem lokakílómetrarnir voru mjög hraðir og alfarið niður í móti.

Lokaspretturinn er mjög áhugaverður í þessarri keppni, en eftir braut sem verður sennilega ekki lýst sem mest spennandi braut sem má hugsa  sér kemur afskaplega skemmtilegur kafli til að hressa menn við undir lok keppninnar. Hjólað er af malbiksvegi inn á skíðasvæði sem fer í gegnum húsaþyrpingu nálægt skíðalyftu ofan við Lillehammer, og þaðan niður hraðann malarveg aftur inn á malbik. Menn koma almennt á 60-70 kílómetra hraða niður malbikið og þá er skotist inn á útsýnissvæði við hliðina á ólympíska skíðastökkpallinum í miðjum bænum. Þar byrjar fjörið með bruni niður 200 metra langa brekku, Balletbrekkuna, í 23% halla. Þetta er nánast eins og að hjóla niður lóðréttann vegg, því brekkan er alveg slétt og nánast engar ójöfnur í henni, að skransförum keppenda undanskyldum. Þarna ná menn hátt í 100km hraða á góðum degi og ekkert lítið fjör að hjóla niður, en eftir brekkuna er farið aftur inn á malbik og teknar nokkrar beygjur um skíðasvæðið þar til loks er endað á grassvæði sem er búið að breyta í nokkurskonar stórsvigsbraut með nokkrum góðum begyjum, rétt áður en komið er inn á lokametrana í mark. Allt er þetta niður í móti og gerist ótrúlega hratt, búið áður en maður veit af.

Ég ætlaði ekki að trúa því hvað það var gott að komast inn á þennan kafla, ég fann að löngunin til að berjast um lokasprettinn við hina 10 í hópnum var engin og ég vildi ekki taka neina sénsa. Ég kom mér öruggum í mark án vandræða á 2 klukkutímum og 58 mínútum, og var hress með að ná undir 3 tímana.

Svona keppni inniheldur ótrúlega mikinn lærdóm og það væri slæm frammistaða að taka ekki eitthvað gott frá þessum degi. Stuttu eftir að ég kláraði leið mér ekki vel, ég var alls ekki ánægður með sjálfann mig enda væntingarnar miklar, en fljótlega fór ég að hugsa út í að þetta væri bara einn liður í stóru stökki frá hæsta stigi íþróttarinnar heima á Íslandi, yfir í ótrúlega erfiðann heim hjólreiða í útlöndum. Ég er alltaf að komast betur og betur að því að það eru ákveðnir hlutir sem einfaldlega gerast ekki heima og því ekki hægt að læra þá. Sjaldan sem 100 manns starta hjólakeppni heima og maður á erfitt með að ráða við þá alla. Lausnin er einfaldlega sú að mig vantar meiri reynslu af stærri og erfiðari keppnum, og þá fer boltinn loksins að rúlla og möguleikarnir aukast.

Ég byrjaði þessa frásögn með því að minnast á að fyrsta keppni sumarsins hefði verið sigur í útlöndum og sú síðasta biturt klúður. Þetta skilur mig eftir á léttum nótum, en það eina sem ég hef hugsað um eftir keppnina er það að ég get enn gert betur. Sumarið heima hefur verið frábært og nánast hægt að segja að það hefði ekki getað gengið betur, en ég hef sennilega aldrei verið jafn spenntur fyrir því að byrja upp á nýtt með betri æfingum, og auknum gæðum í öllum mínum hjólreiðum.

Snillingar

Snillingar

Mig langar til að þakka strákunum í Lauf fyrir að leyfa mér að taka þátt í ævintýrum þeirra. Allt frá því ég var kynntur fyrir grófri prótótýpu af gafflinum þeirra hef ég verið spenntur fyrir verkefninu og sé mig í dag sem mikilvægann lið í markaðsmálum hjá fyrirtækinu, sem einn fremsti hjólreiðamaður Íslands. Ég get ekki beðið eftir fleiri svona tækifærum, hver sem þau mega vera.