Í síðustu viku fann ég í fyrsta skipti fyrir söknuði til Danmerkur, síðan við fluttum heim í vetur. Allt í einu langaði mig rosalega mikið til að komast út að leika á fjallahjólinu, finna einhverja tæknilega leið úti í skógi og hjóla hana eins hratt og ég get. Finna stökkpalla og æfa að stjórna hjólinu í loftinu, finna bestu línurnar yfir sleipar trjárætur og fíflast með félögunum, að finna nýja staði sem áður voru óhjólanlegir.

Það er svo margt öðruvísi núna í vetur, miðað við síðasta vetur. Á sama tíma í fyrra var ég alltaf úti að leika, eyddi ekki jafn miklum tíma í að æfa formið, heldur fókusaði ég á tækni á hjólinu og eyddi meiri tíma í rólega túra. Var nánast alltaf á fjallahjóli eða cyclocross hjóli, en í dag eru þau hjól í biðstöðu eftir betra veðri. Núna er veturinn búinn að einkennast af töluvert stífari og erfiðari æfingum, samkvæmt plani sem ég hannaði fyrir sjálfann mig og er rosalega ólíkt því sem ég hef gert undanfarin ár. Ég tileinkaði mér það að hjóla inni á trainer, með Wahoo Kickr græjuna að slá í gegn, og Zwift hjólatölvuleikinn til að halda metnaðinum og ánægjunni gangandi. Þetta hefur gengið vel, en það verður að segjast að ég finn alltaf jafn vel fyrir því, þegar ég fer út að hjóla á sunnudögum, hvað það mun alltaf vera það sem ég lifi fyrir í þessu sporti.

Keppnistímabilið er alveg að detta í gang, og með síðustu æfingaferð vetrarins á næstu dögunum, er prógrammið farið að þéttast ansi vel. 2 vikur á Spáni í Mars, þar sem ég ætla að hjóla bæði einn, og með félaginu mínu Breiðablik, verða mikilvægar til að klára að byggja upp formið, stimpla inn erfiðu æfingarnar í vetur og nýta góða veðrið til að moka inn klukkutímum á hjólinu. Aðeins tvær vikur líða á milli æfingaferðarinnar og fyrstu keppni, sem verður einnig á Spáni, þannig að það skiptir máli að skipuleggja sig vel.

Það sem gerir Mars rosalega spennandi fyrir græjukallinn í mér, eru tvö ný hjól sem eru væntanleg í lok mánaðarins. Trek Top Fuel, fulldempað fjallahjól, verður aðalhjólið mitt í sumar, og fer með mér á margar af stærstu fjallahjólakeppnum heims. Trek Madone verður keppnisgötuhjólið mitt í sumar, en það verður gaman að ná að nýta tímann hérna heima til að vera með í Íslenskum keppnum. Þetta eru spennandi græjur, ýmislegt nýtt sem þarf að gefa tíma til að venjast og læra á, og ég eiginlega get ekki beðið.

Comments

comments