Hér er keppni sem ég er búinn að vera að bíða eftir síðan ég byrjaði æfingar vetrarins í Nóvember á síðasta ári. Á meðan hjólað var á hverjum degi í frosti/snjó/ískaldri drullu/salti var mikið hugsað út í hvernig það skyldi virka að keppa á “heimavelli” í stórri UCI keppni, eins og útlitið var þegar keppnisdagatalið var birt í byrjun árs. Það gat ekki annað verið, hugsaði ég, en að það hefði áhrif að hafa svona keppni nálægt, á svæði sem maður hjólar reglulega á, og kannski það helsta, að sleppa við vanalegu rútínuna sem inniheldur að pakka hjóli, fara á flugvöllinn, fljúga, ná í bílaleigubíl, keyra á hótel, setja saman hjól, finna brautina, og svo mætti áfram telja.

DSC01688

Flammen Liga mótaröðin (áður kölluð SRAMLiga) hófst í gær með fyrstu umferð í Rude skov, sem er skógur í nágrenni Holte, rétt fyrir utan Kaupmannahöfn. Brautin bauð upp á allt sem þarf að hafa í braut á þessu stigi, brött klifur, hraða niðurkafla, þröngar beygjur, grjótakafla og jafnvel stökkpalla. Startlistinn innihélt mörg af stærstu nöfnum Norðurlandanna, þar á meðal þá bestu frá Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Einnig voru keppendur frá Þýskalandi og Hollandi, þannig að það stefndi allt í erfiða keppni á háu stigi. Keppnin er skilgreind sem UCI C2, en á UCI þrepalistanum er C2 einskonar milliþrep, og algengast að keppnir fái þann stimpil. Stig fyrir top 10, alþjóðlegir þáttakendur og allt skv UCI reglum.

Undanfarnar vikur hef ég tekið mataræðið í gegn, og með aðstoð nokkurra aðila, þar á meðal Sigurjóns Ernis hjá Fitness Sport, óvenju miklum bókalestri og nýjum venjum sem allir sem mig hafa þekkt í gegn um tíðina myndu ekki tengja við mig og mína matarsiði. Þetta hefur breytt ýmsu, hvort sem það er keppnisþyngd, vellíðan, geta til að jafna mig og halda mér vel nærðum á erfiðum æfingatímabilum, eða bara almenn heilsa, þá verður því ekki neitað að ég er að gera þetta í einum tilgangi. Mikið af því sem ég hef lesið hefur með markmið og hugarástand að gera, og þá þarf maður að vera hreinskilinn við sjálfann sig og spyrja sig, afhverju er ég að þessu? Í mínu tilfelli er það einfalt: ég er ekki að hugsa um að vera hollur og heilsusamlegur, ég er að hugsa um að hjóla hraðar.

Á keppnisdag var hressleikinn til staðar. Veðrið var ágætt miðað við undanfarna daga, en það hefur verið einhver kuldi yfir landinu (og restinni af meginlandi Evrópu). En það var þurrt, það var logn, og það glitti í sólina, og þá verður ekki kvartað. Pabbi var í heimsókn og kom með sem sérlegur ljósmyndari og aðstoðarmaður, ásamt Iðunni sem er alltaf tilbúin á hliðarlínunni, hvort sem það er til að rétta mér vatnsbrúsa, hrópa á mig hvar ég er í röðinni, eða rétta mér loft í sprungið dekk. Keppnir á þessu þrepi væru ómögulegar án öruggra aðstoðarmanna, það er klárt mál.

DSC01819

Ég fékk númerið 9 í startlistanum, af 48, og var því kallaður upp í 2.röð á startlínunni. Þetta var þægilegur staður til að vera á, rétt hjá sterkustu mönnum og með góða möguleika á að koma mér framarlega á fyrstu metrunum áður en komið var í þrengri kafla þar sem framúrakstur er ómögulegur. Keppnin hófst og ég náði að vinna mig í gegn um hópinn á fyrstu 500 metrunum og var uþb 6-7. maður inn í fyrsta klifrið. Þegar það var klárað og næsti tæknilegi kafli búinn áttaði ég mig á að ég hafði komið mér í óvenju góða stöðu, og hafði ekki fórnað neinum kröftum í það. Þetta var skemmtileg staða til að vera í, og ég lifnaði allur við þegar ég hugsaði út í þetta, en passaði þó að halda mér innan þægilegra marka, og ganga ekki fram af mér í tilraun til að ná lengra. Á fyrstu hringjunum var ég um 6-8 sæti, með fremstu menn komna úr augsýn, en hægt og rólega tíndust menn saman í einn hóp, á 3-4 hring (af 7 hringjum). Það var kominn ágætis hópur í kring um mig, og fljótlega bættust fleiri við, en ég passaði að hugsa þetta örlítið taktískt. Í staðinn fyrir að líta á hópinn sem ógn, og gefa í til að losna við hann, hélt ég mig aftarlega og hafði augun á fremsta manni til að fylgjast með stöðunni. Ég var tilbúinn í lætin ef einhverjum skyldi detta í hug að stinga af, og þegar Emil Linde, Evrópumeistarinn í eliminator cross country, keyrði frá hópnum rétt áður en síðasti hringur hófst, var ég með honum. Fljótlega minnkaði hópurinn niður í 4, og í næsta klifri stakk Jonas Lindberg af, en hann er einn af þeim bestu hér í Danmörku. Emil náði ekki að halda í hópinn og þegar aðeins nokkrar mínútur voru eftir af keppninni var komið að síðasta klifrinu þar sem Anders Laustsen ætlaði að stinga af, og ég setti allt í botn til að ná honum. Aðeins nokkrir metrar voru á milli okkar á toppnum á þessu klifri, en svo kom uþb 500 metra langur beinn kafli þar sem við vorum báðir í þyngsta gír, með allt í botni. Ég náði honum ekki, og kom í mark örfáum metrum fyrir aftan, en var ótrúlega feginn þegar ég heyrði frá pabba að ég væri í 9.sæti.

DSC01920

Þetta er minn besti árangur í keppni í Danmörku, UCI keppni og mögulega alþjóðlegum keppnum yfir höfuð. Eftir langann og erfiðann vetur, og óheppni og veikindi í síðustu keppnum, fékk ég loksins þá staðfestingu sem ég þurfti. Bætingin er augljós, hvort sem það er hausinn, tæknin eða formið. Ég gæti ekki verið spenntari fyrir framhaldinu, og þeim stórmótum sem eru rétt handan við hornið.

Ég vil nýta tækifærið og þakka mínum stuðnings, og styrktaraðilum fyrir allt sem þeir hafa gert fyrir mig. Án styrktaraðila er þetta ómögulegt, að keppa á þessu stigi, og æfa svona mikið. Ég gæti þetta ekki án ykkar!

DSC02067