Month: May 2014

RR – 2.bikar – Þingvellir

Mynd: Hjólreiðafélag CFRvk

Í gær fór fram 2.bikarmót í götuhjólreiðum, að þessu sinni á Þingvöllum. Hjólaðir eru 4 hringir í A-flokk, í frá þjónustumiðstöðinni á Þingvallavegi þar til beygt er til hægri hinum megin við nokkra hóla og hæðir og farið inn á Vallarveg sem liggur meðfram Þingvallavatni. Keppnin var 67km í heildina, og veðurspáin sagði til um austanátt og rigningu, en þegar komið var á staðinn uþb klukkutíma fyrir start var veðrið fínt, blautt en engin rigning og hlýtt.

Ég var ágætlega ferskur fyrir keppnina en hef þó verið að glíma við einhverja langtímaþreytu undanfarna daga, sem ég held að sé vegna of mikils æfingaálags. Ég var þó bjartsýnn fyrir átök dagsins, enda búið að vera frábær byrjun á sumrinu og sigur í fyrsta bikarmótinu. Farið var vel yfir samkeppnina og ég gat mér til að hópurinn yrði strax frekar lítill, eða um 7-8 manns, þeir sterkustu sem voru skráðir. Að vanda var minn helsti andstæðingur og fyrirmynd í íþróttinni skráður, og ég vissi vel að Hafsteinn ætlaði sér að grípa sinn fyrsta sigur á árinu.

Keppnin fór af stað og fljótlega fór að rigna, en góða veðrið virtist aðeins hafa verið bókað út upphitunina en ekki keppnina sjálfa. Ég stillti mér og nokkrum öðrum sem eru með mér í liði vel fyrir í hópnum, en keppnin fór rólega af stað upp hæðirnar á Þingvöllum. Fyrri hluti brautarinnar inniheldur slatta af fölskum flata og stuttum en þó ekki bröttum brekkum, og þegar hraðinn fór að aukast byrjuðu menn að tínast úr hópnum. Það var þó ekki fyrr en við fórum í einu bröttu brekku brautarinnar sem hópurinn slitnaði og við vorum örfáir eftir. Árni, Miro, Óskar, Emil, Siggi, Hafsteinn og ég. Seinni hluti brautarinnar var langur og nokkurnveginn beinn vegur meðfram vatninu, en aðstæður dagsins gerðu það að verkum að þar var góður meðvindur og hægt að hjóla mjög hratt, en í svona meðvind getur verið erfitt að hanga aftan í mönnum sem eru sterkari og menn nýttu sér það þarna, sér í lagi Hafsteinn. Marklínan var einnig á enda þessa vegar og það voru allir með eitt á hreinu; endaspretturinn verður ekki sá hægasti.

Fljótlega byrjuðu menn að þreytast, og það kom að því að Siggi gat ekki haldið í við okkur lengur og hann lét sig falla aftur í næsta hóp fyrir aftan, en bilið var orðið umtalsvert. Miro var duglegur að rykkja í þegar kom að honum í samvinnu hópsins, og hann virtist vera mjög sterkur eftir góðann vetur á skíðunum. Ég passaði að spara kraftana og gera ekki neitt sem gæti valdið því að menn færu að gera árásir, til að halda því sem eftir var af mínu liði ennþá saman, en það kom að því í kringum miðja keppni að Emil dróst aftur úr og náði okkur ekki aftur. Þá vorum við orðnir 5, og styrkur allra meðlima hópsins slíkur að það var ekki líklegt að hópurinn myndi minnka mikið meira. Við héldum áfram að keyra og börðumst í mótvindinum á leiðinni upp brekkurnar og reyndum að halda okkur saman í hóp í meðvindinum á leið í markið.

Undir lok 4 hrings byrjuðu menn að setja sig í stellinar, spennan fyrir endasprettinum byrjuð og menn voru örlítið farnir að líta á hvorn annan, bíðandi eftir að eitthvað myndi gerast. Árni var fyrstur til að gera árás, en þá var enn amk 2-3km í markið. Þetta var þó sniðugt hjá honum, því þarna voru sterkari menn í sprett heldur en hann, og bestu sigurlíkur hans væru með árás sem myndi senda hann einann í mark, fyrir endasprettinn. Hann reyndi nokkrum sinnum en var alltaf svarað vel af Óskari sem var að búa sig undir að leiða mig inn í endasprettinn. Árni komst aldrei burt en þegar síðasti litli hóllinn kom, 300 metrum fyrir markið byrjaði mesti hasarinn. Ég stóð upp og byrjaði að hjóla örlítið hraðar, og beið eftir að Óskar myndi klára sinn sprett og fara til hliðar til að opna fyrir mér, en áður en það gat gerst hafði Haffi byrjað sinn sprett frá því fyrir aftan mig og kom fljúgandi framhjá. Ég setti allt í botn og var við það að ná honum þegar ég festist á milli Haffa og Óskars, en vegurinn var það mjór að menn höfðu ekki mikið svigrúm og þarna var ekki nógu stórt bil á milli þeirra þannig að ég varð að slá af, Óskar færði sig og ég gaf aftur í, en það var of seint, Haffi var búinn að grípa verðskuldaðann sigur. Ég endaði þó í 2.sæti sem er ekkert til að skammast sín fyrir.

Það er ekki auðvelt að leyna því að maður sé vonsvikinn eftir svona góða keppni sem endar ekki á þann hátt sem maður hafði óskað sér. Ekkert mál að vera fúll yfir svona en það þýðir lítið, keppnin er búin og þær aðstæður sem sköpuðust í endasprettinum algjörlega tilviljanakenndar, og engum um að kenna þar. Ég er áfram jákvæður enda horfi ég fram á við; fyrsta stóra markmið sumarsins er næstu helgi og kallast það Bláalónsþrautin. Spennan er gríðarleg og ég held að ég hafi aldrei verið jafn lítið stressaður en á sama tíma jafn mikið spenntur fyrir einni keppni.

Ég vil þakka Hjólamönnum fyrir frábærlega vel heppnaða keppni. Þeir stóðu sig mjög vel í tímatöku, mótsstjórn og voru svo flottir að vera með bíl fyrir framan hópinn allan tímann, fjórhjól sem sá um að loka vegum og fengu leyfi fyrir að loka veginum sem endaspretturinn var á, sem skapaði mikla öryggistilfinninu. Það er óhætt að segja að ég hlakki smá til að taka þátt í stærstu keppni þeirra eftir 2 vikur , Jökulmílunni. Óskar, Emil og Siggi eiga þakkir skildar fyrir að sjá frábærlega um sín störf innan liðsins, sem og restin af hópnum mínum, Miro, Árni og Hafsteinn, það klikkar ekki að þessir bjóða alltaf upp á hörkukeppni!

RR – HFR Criterium – Vellir

Mynd: Arnold Björnsson

Í gær var haldin criterium götuhjólakeppni í boði HFR – Hjólreiðafélag Reykjavíkur og Porche á Íslandi, fyrir þá sem ekki þekkja til þá er criterium sérstakt form götuhjólreiða þar sem menn og konur hjóla stuttann hring margoft, eða hátt í 14 sinnum eins og í gær, og einkennast af miklum hraða, spennu og æsingi þar sem keppnin er töluvert styttri en vanalega og lítill tími til að gera hluti eða bregðast við þeim.

Keppnin fór ekki eins og ég hafði viljað, og strax eftir keppni var ég ekki sá hressasti, en eftir á að hyggja mætti kanski reka það til þess að hingað til á árinu hefur lítið farið úrskeiðis, og sennilega ekki jafn mikið sem klikkaði og á horfðist strax eftir keppni; það gengur ekki alltaf jafn vel  Svo fór að eftir nokkra hringi byrjuðu svipaðir hlutir að gerast og í fyrra, ég fékk strax á tilfinninguna að það væru í raun 3 “lið” í keppninni, auk fjölmargra sem voru að keppa aðeins fyrir sjálfa sig. Ég var fyrirliði einna þessarra liða, og þegar 1, og svo 2 meðlimir annars hinna liðanna byrjuðu að fylgja sínu plani, fóru á sama tíma hlutirnir mín megin að ganga verr. Þegar þetta gerðist kom á stuttri stundu í ljós að það var nauðsynlegt að breyta til, og hugsa frekar með hjartanu, frekar en hausnum, en það var of seint, 2 Trek-menn voru farnir, annar þeirra einn sterkasti hjólari á landinu.

Stærstu mistökin voru svo gerð þegar sigurvegari keppninnar, Árni Már Jónsson, stakk af fljótlega eftir brekkuna þar sem ég hafði tekið hressilega á því. Hann fór nánast án svars frá neinum öðrum, og ég var sjálfur of þreyttur til að ná í hann. Fljótlega eftir þetta fór megnið af hópnum í vörn, eða hreinlega gerðu ekki neitt, en með nokkrum löngum og öflugum keyrslum fráÓskar Ómarsson og sprettum upp brekkuna frá sjálfum mér fór bilið að minnka, og var ansi stutt í þremeningana fremst á tímapunkti, en þarna var sennilega rétti tíminn til að hætta taktík og keyra bara á eftir þeim, eyða sennilega of mörkum eldspýtum til að draga hópinn saman aftur, en það bara gerðist ekki, erfitt að útskýra það.

Það stóð þó upp úr í keppninni að þegar kom að lokum áttum við Hafsteinngóðann endasprett, ég rétt hafði hann en þykist viss um að hann hafi átt meira inni, enda spretturinn um 4.sæti ekki sá sami og sprettur í átt að sigri. Maður getur ekkert annað gert en að læra af svona keppni og koma klárari í næstu keppni!

Ég þakka mótshöldurum fyrir flott mót og veðurguðunum fyrir að gefa öllum nema þeim hörðustu gott veður  Styrktaraðilarnir góðu voru Kria Cycles,IronViking, Hreysti, Optical Studio og Gló

XC – 2.bikar – Öskjuhlíð

Mynd: Georg Vilhjálmsson

2.bikar í fjallahjólreiðum fór fram í gærkvöldi í Öskjuhlíðinni, í einni af tæknilegustu brautum sem keppt er í á Íslandi. Tindur hélt keppnina og stóð sig frábærlega í brautarmerkingum, þjónustu og almennum skemmtilegheitum.

Ég hef alltaf verið spenntur fyrir þessarri keppni enda held ég mikið upp á tæknilegar fjallahjólreiðar, og ég vissi að framundan væri sennilega ein af erfiðustu keppnum vorsins, enda verðugir andstæðingar skráðir til leiks.

Keppnin byrjaði hratt og örugglega, Hafsteinn Ægir tók kunnuglega til forystunnar og brunaði í gegn um blauta drulluna og sleipar ræturnar, en ég ákvað svo að gefa hressilega í þegar komið var að fyrstu brekku, og opnaði þar ágætis forskot.

Við tóku 45 mínútur, eða 3 hringir af erfiðum, og ég þurfti að leggja mig allan fram til að halda íslandsmeistaranum í afturspeglinum, en fann þó að forskotið jókst með hverjum hring. Sénsar voru teknir og beygjur farnar yfir þægilegum hraða, og oftar en einu sinni var ég við það að fljúga á hausinn, en var heppinn að sleppa við það.

Að 3 hringjum loknum heyrði ég gleðitíðindi frá Karen Axelsdottir, en þær voru að ég væri með rúmlega 30 sek forskot, langur tími í svona stuttri keppni. Ákvað strax að byrja að taka því rólega og passa að gera engin mistök. Það gerði góða hluti og náði ég að koma fyrstur í mark, litlum 12 sekúndum á undan Hafsteini.

Þetta var glæsileg keppni, og ég þakka öllum kærlega fyrir mig 

Þessir hjálpuðu mér að sigra: Kria Cycles, Lauf Forks, IronViking, Hreysti,Optical Studio, Gló

TT – 1.bikar – Krýsuvík

Mynd: Óskar Ómarsson

2.sæti í fyrstu tímatökukeppni sumarsins… hvað get ég sagt?

Þetta kemur ótrúlega mikið á óvart enda hafði ég fyrir kvöldið aðeins tekið þátt í einni alvöru TT keppni, en þetta var líka fyrsta keppnin á nýju hjóli, þannig að ég var ekki 100% viss um hvernig þetta yrði. Markmiðin voru að ná undir 28 mínútur og komast í top 4, en það gekk vægast sagt betur með lokatímann 27:20.

Þetta var snilld og ég þakka kærlega fyrir mig, beint í háttinn enda 2.bikar í fjallahjólreiðum annað kvöld! 

© 2021 On your left

Theme by Anders NorenUp ↑