Mynd: Hjólreiðafélag CFRvk

Í gær fór fram 2.bikarmót í götuhjólreiðum, að þessu sinni á Þingvöllum. Hjólaðir eru 4 hringir í A-flokk, í frá þjónustumiðstöðinni á Þingvallavegi þar til beygt er til hægri hinum megin við nokkra hóla og hæðir og farið inn á Vallarveg sem liggur meðfram Þingvallavatni. Keppnin var 67km í heildina, og veðurspáin sagði til um austanátt og rigningu, en þegar komið var á staðinn uþb klukkutíma fyrir start var veðrið fínt, blautt en engin rigning og hlýtt.

Ég var ágætlega ferskur fyrir keppnina en hef þó verið að glíma við einhverja langtímaþreytu undanfarna daga, sem ég held að sé vegna of mikils æfingaálags. Ég var þó bjartsýnn fyrir átök dagsins, enda búið að vera frábær byrjun á sumrinu og sigur í fyrsta bikarmótinu. Farið var vel yfir samkeppnina og ég gat mér til að hópurinn yrði strax frekar lítill, eða um 7-8 manns, þeir sterkustu sem voru skráðir. Að vanda var minn helsti andstæðingur og fyrirmynd í íþróttinni skráður, og ég vissi vel að Hafsteinn ætlaði sér að grípa sinn fyrsta sigur á árinu.

Keppnin fór af stað og fljótlega fór að rigna, en góða veðrið virtist aðeins hafa verið bókað út upphitunina en ekki keppnina sjálfa. Ég stillti mér og nokkrum öðrum sem eru með mér í liði vel fyrir í hópnum, en keppnin fór rólega af stað upp hæðirnar á Þingvöllum. Fyrri hluti brautarinnar inniheldur slatta af fölskum flata og stuttum en þó ekki bröttum brekkum, og þegar hraðinn fór að aukast byrjuðu menn að tínast úr hópnum. Það var þó ekki fyrr en við fórum í einu bröttu brekku brautarinnar sem hópurinn slitnaði og við vorum örfáir eftir. Árni, Miro, Óskar, Emil, Siggi, Hafsteinn og ég. Seinni hluti brautarinnar var langur og nokkurnveginn beinn vegur meðfram vatninu, en aðstæður dagsins gerðu það að verkum að þar var góður meðvindur og hægt að hjóla mjög hratt, en í svona meðvind getur verið erfitt að hanga aftan í mönnum sem eru sterkari og menn nýttu sér það þarna, sér í lagi Hafsteinn. Marklínan var einnig á enda þessa vegar og það voru allir með eitt á hreinu; endaspretturinn verður ekki sá hægasti.

Fljótlega byrjuðu menn að þreytast, og það kom að því að Siggi gat ekki haldið í við okkur lengur og hann lét sig falla aftur í næsta hóp fyrir aftan, en bilið var orðið umtalsvert. Miro var duglegur að rykkja í þegar kom að honum í samvinnu hópsins, og hann virtist vera mjög sterkur eftir góðann vetur á skíðunum. Ég passaði að spara kraftana og gera ekki neitt sem gæti valdið því að menn færu að gera árásir, til að halda því sem eftir var af mínu liði ennþá saman, en það kom að því í kringum miðja keppni að Emil dróst aftur úr og náði okkur ekki aftur. Þá vorum við orðnir 5, og styrkur allra meðlima hópsins slíkur að það var ekki líklegt að hópurinn myndi minnka mikið meira. Við héldum áfram að keyra og börðumst í mótvindinum á leiðinni upp brekkurnar og reyndum að halda okkur saman í hóp í meðvindinum á leið í markið.

Undir lok 4 hrings byrjuðu menn að setja sig í stellinar, spennan fyrir endasprettinum byrjuð og menn voru örlítið farnir að líta á hvorn annan, bíðandi eftir að eitthvað myndi gerast. Árni var fyrstur til að gera árás, en þá var enn amk 2-3km í markið. Þetta var þó sniðugt hjá honum, því þarna voru sterkari menn í sprett heldur en hann, og bestu sigurlíkur hans væru með árás sem myndi senda hann einann í mark, fyrir endasprettinn. Hann reyndi nokkrum sinnum en var alltaf svarað vel af Óskari sem var að búa sig undir að leiða mig inn í endasprettinn. Árni komst aldrei burt en þegar síðasti litli hóllinn kom, 300 metrum fyrir markið byrjaði mesti hasarinn. Ég stóð upp og byrjaði að hjóla örlítið hraðar, og beið eftir að Óskar myndi klára sinn sprett og fara til hliðar til að opna fyrir mér, en áður en það gat gerst hafði Haffi byrjað sinn sprett frá því fyrir aftan mig og kom fljúgandi framhjá. Ég setti allt í botn og var við það að ná honum þegar ég festist á milli Haffa og Óskars, en vegurinn var það mjór að menn höfðu ekki mikið svigrúm og þarna var ekki nógu stórt bil á milli þeirra þannig að ég varð að slá af, Óskar færði sig og ég gaf aftur í, en það var of seint, Haffi var búinn að grípa verðskuldaðann sigur. Ég endaði þó í 2.sæti sem er ekkert til að skammast sín fyrir.

Það er ekki auðvelt að leyna því að maður sé vonsvikinn eftir svona góða keppni sem endar ekki á þann hátt sem maður hafði óskað sér. Ekkert mál að vera fúll yfir svona en það þýðir lítið, keppnin er búin og þær aðstæður sem sköpuðust í endasprettinum algjörlega tilviljanakenndar, og engum um að kenna þar. Ég er áfram jákvæður enda horfi ég fram á við; fyrsta stóra markmið sumarsins er næstu helgi og kallast það Bláalónsþrautin. Spennan er gríðarleg og ég held að ég hafi aldrei verið jafn lítið stressaður en á sama tíma jafn mikið spenntur fyrir einni keppni.

Ég vil þakka Hjólamönnum fyrir frábærlega vel heppnaða keppni. Þeir stóðu sig mjög vel í tímatöku, mótsstjórn og voru svo flottir að vera með bíl fyrir framan hópinn allan tímann, fjórhjól sem sá um að loka vegum og fengu leyfi fyrir að loka veginum sem endaspretturinn var á, sem skapaði mikla öryggistilfinninu. Það er óhætt að segja að ég hlakki smá til að taka þátt í stærstu keppni þeirra eftir 2 vikur , Jökulmílunni. Óskar, Emil og Siggi eiga þakkir skildar fyrir að sjá frábærlega um sín störf innan liðsins, sem og restin af hópnum mínum, Miro, Árni og Hafsteinn, það klikkar ekki að þessir bjóða alltaf upp á hörkukeppni!

Comments

comments