Category: Uncategorized (page 1 of 2)

Æfingaferð og byrjun keppnistímabilsins

Síðasta æfingaferðin í vetur er nýliðin, en ég var á Spáni í 2 vikur í þetta skiptið. Í vetur hef ég farið í þrjár æfingaferðir, og allar voru á Calpe svæðinu á Spáni, sem mér finnst henta mjög vel fyrir mínar æfingar, gefur mikið af fjölbreyttu landslagi, og nóg af möguleikum í leiðavali. Ferðin sjálf gekk vel, náði mér í 13 daga á hjólinu með einum hvíldardegi inniföldum, hjólaði nokkra daga einn, og nokkra með félögum á svæðinu, og svo var heil vika með æfingahóp Breiðabliks sem var í æfingaferð á sama svæði. Ég var með í þeim hóp sem leiðsögumaður og tæknimaður, ásamt því að ausa yfir alla óþolandi afrekssögum og tala um hvað ég ráði við marga diska af eftirrétt yfir kvöldmatnum alla dagana.

Nokkrar áhugaverðar tölur úr ferðinni:

 • 55 klst af æfingum
 • 1400 km
 • 2500 TSS stig
 • 23.000 metrar af klifri

Það styttist í fyrstu UCI keppni á árinu en fyrst fæ ég 2 vikur af hvíld og æfingum á Íslandi. Lappirnar eru búnar að kvarta í nokkra daga og ég held ég gefi þeim loksins verðskuldaða hvíld, en það er þó mikilvægt að halda áfram að æfa, og nú fer ég í svokallað „race conditioning“ tímabil þar sem ég er ekki endilega að byggja upp form, heldur frekar að skerpa formið, til að vera tilbúinn í hámarks átök í Apríl. Fyrir þá sem eru forvitnir þá þýðir þetta að ég minnka æfingamagnið sjálft, þeas fækka klukkutímum á hjólinu, en færi meiri áherslu á erfiðar interval æfingar eins og spretti nálægt eða á hámarks álagi.

Eitt af því sem kemur stöðugt á óvart, í þeim skilningi að sú tilfinning virðist aldrei fara, er óöryggið sem maður fær fyrir eigin formi og styrk í byrjun keppnistímabilsins. Yfirleitt er maður í fínu formi, og stundum kemur það á óvart miðað við árstíma, en ég losna ekki við að vera óviss um sjálfann mig fyrir fyrstu keppni(r) á árinu. Ég myndi ekki kalla þetta hræðslu, frekar að það eru svo mörg atriði sem er einfaldlega ekki hægt að lesa út úr mælingum frá aflmæli, eða klukkutímafjölda, að það er erfitt að vita nákvæmlega hver staðan er fyrr en í fyrstu keppni. Margir segja að það sé hægt að mæla allt, en enginn mælikvarði er betri en keppni.

8.apríl hefst Andalucia Bike Race, sem hefur í ár verið færð upp um flokk hjá UCI, úr S2 upp í S1, sem er næst hæsta stigið á eftir HC (sem finnst í keppnum eins og Cape Epic). Þetta þýðir að það verður harðari samkeppni, fleiri keppendur, og fleiri stig í boði. Keppnin hefur einnig verið færð á árinu, en vanalega hefur hún verið í lok Febrúar. Stefnan í ár er að komast í top 30 í heildarkeppninni, en þar sem keppnin er 6 daga fjöldægrakeppni þá þarf að vanda vinnubrögðin og lágmarka allt sem getur kostað tíma og orku. Þetta verður mín fyrsta keppni á TREK hjóli, en ég fæ bráðum í hendurnar nýtt Top Fuel hjól frá Erninum, sem er fulldempað cross-country fjallahjól, og verður aðal keppnishjólið mitt í ár í alþjóðlegum UCI keppnum, ásamt helstu fjallahjólakeppnum á Íslandi. Spennandi tímar framundan!

05/03/2019

Undanfarin ár hef ég fengið með nokkuð reglulegu millibili spurningar um hvert ég stefni í þessu sporti, og hvort ég ætli mér á Ólympíuleikana. Það er auðvelt að gefa ódýra svarið, „ÓL eru draumurinn og auðvitað langar mig að taka þátt“, en það er svo margt sem tengist þessu verkefni sem er erfitt að útskýra hálfa leið. Í stuttu máli, þá væri það eitt að taka þátt á Ólympíuleikunum í hjólreiðum, fyrir Ísland, margfalt stærra en öll afrek sem náðst hafa í íþróttinni á Íslandi.

Til að komast á ólympíuleikana eru þrjár leiðir sem ég veit af. Fyrsta, og hefðbundna leiðin, er að ná lágmarksfjölda stiga sem land, og þannig vera meðal efstu 23 þjóða á heimslistanum. Stigin eru samanlögð stig efstu þriggja einstaklinga, í hvoru kyninu, og í hverri grein. Í mínu tilfelli karlar í fjallahjólreiðum (XCO). Þetta geta verið á bilinu 1300-1500 stig, en til samanburðar fást 200 stig fyrir að sigra heimsbikarmót og 250 fyrir að sigra heimsmeistaramót. Önnur leiðin er að taka þátt á heimsmeistaramótinu í ár, og ná besta árangri af öllum þjóðum sem eru ekki meðal efstu 23 þjóða. Það gefur eitt sæti fyrir karl og eitt fyrir konu, í fjallahjólreiðum. Þetta er vanalega að ná top 30 í þessarri keppni, sem er gríðarlega mikið afrek fyrir hvern sem er, en svo sannarlega ekki ómögulegt. Þriðja leiðin er að sækja um svokallað „wildcard“ eða að fá sérstakt boðskort til að taka þátt frá Alþjóða Ólympíusambandinu. Það sem ég veit um þetta er takmarkað, en umsóknin er gerð af sambandi þess einstaklings sem vill sækja um, eða Hjólreiðasambandi Íslands, og er rökstutt með afrekum og sögu einstaklingsins, til að sannfæra nefndina sem tekur við umsókninni um að viðkomandi eigi efni á að taka þátt.

Það telst eðilegast að sá einstaklingur sem hefur náð mestum árangri á alþjóðasviði íþróttarinnar sé valinn til að sækja um svona verkefni, þannig að ég hef gert það sem ég get til að biðja HRÍ um að aðstoða mig í þessu. Það er spennandi að sjá hvort það er hægt að ná svona langt, en í mínum huga eru engar líkur á að þetta gerist nema allir sem geta haft áhrif á ferlið hérna á Íslandi taki þátt í því.

Mig dreymir um að taka þátt í þessarri keppni, en finnst ég líka þurfa að vera upp á mitt allra besta til að „eiga heima þarna“. Ólympíuleikarnir eru á næsta ári og heil tvö keppnistímabil í millitíðinni, nóg af keppnum og tækifærum til að gera mitt besta, ná betri árangri og sýna framför í alþjóðakeppnum. Það þýðir að ég fórna keppnum á Íslandi, tek erlendar keppnir og set þær í fyrsta, annað og þriðja sæti, en eftir 4 ár af þessu er ég orðinn nokkuð vanur þeirri nálgun.

01/03/2019

Í síðustu viku fann ég í fyrsta skipti fyrir söknuði til Danmerkur, síðan við fluttum heim í vetur. Allt í einu langaði mig rosalega mikið til að komast út að leika á fjallahjólinu, finna einhverja tæknilega leið úti í skógi og hjóla hana eins hratt og ég get. Finna stökkpalla og æfa að stjórna hjólinu í loftinu, finna bestu línurnar yfir sleipar trjárætur og fíflast með félögunum, að finna nýja staði sem áður voru óhjólanlegir.

Það er svo margt öðruvísi núna í vetur, miðað við síðasta vetur. Á sama tíma í fyrra var ég alltaf úti að leika, eyddi ekki jafn miklum tíma í að æfa formið, heldur fókusaði ég á tækni á hjólinu og eyddi meiri tíma í rólega túra. Var nánast alltaf á fjallahjóli eða cyclocross hjóli, en í dag eru þau hjól í biðstöðu eftir betra veðri. Núna er veturinn búinn að einkennast af töluvert stífari og erfiðari æfingum, samkvæmt plani sem ég hannaði fyrir sjálfann mig og er rosalega ólíkt því sem ég hef gert undanfarin ár. Ég tileinkaði mér það að hjóla inni á trainer, með Wahoo Kickr græjuna að slá í gegn, og Zwift hjólatölvuleikinn til að halda metnaðinum og ánægjunni gangandi. Þetta hefur gengið vel, en það verður að segjast að ég finn alltaf jafn vel fyrir því, þegar ég fer út að hjóla á sunnudögum, hvað það mun alltaf vera það sem ég lifi fyrir í þessu sporti.

Keppnistímabilið er alveg að detta í gang, og með síðustu æfingaferð vetrarins á næstu dögunum, er prógrammið farið að þéttast ansi vel. 2 vikur á Spáni í Mars, þar sem ég ætla að hjóla bæði einn, og með félaginu mínu Breiðablik, verða mikilvægar til að klára að byggja upp formið, stimpla inn erfiðu æfingarnar í vetur og nýta góða veðrið til að moka inn klukkutímum á hjólinu. Aðeins tvær vikur líða á milli æfingaferðarinnar og fyrstu keppni, sem verður einnig á Spáni, þannig að það skiptir máli að skipuleggja sig vel.

Það sem gerir Mars rosalega spennandi fyrir græjukallinn í mér, eru tvö ný hjól sem eru væntanleg í lok mánaðarins. Trek Top Fuel, fulldempað fjallahjól, verður aðalhjólið mitt í sumar, og fer með mér á margar af stærstu fjallahjólakeppnum heims. Trek Madone verður keppnisgötuhjólið mitt í sumar, en það verður gaman að ná að nýta tímann hérna heima til að vera með í Íslenskum keppnum. Þetta eru spennandi græjur, ýmislegt nýtt sem þarf að gefa tíma til að venjast og læra á, og ég eiginlega get ekki beðið.

20/02/19

Síðasta vika var rosaleg. Ég held að ég hafi sjaldan átt jafn mikil samskipti við fólk, á jafn mismunandi vegu. Fundir, hittingar, samningaviðræður, símtöl og tölvupóstar, og nánast allt um málefni sem hafa mikil áhrif á það sem ég er að gera í dag. Vikan kláraði þó stórann pakka sem hefur verið í gangi síðan í byrjun árs, og ég myndi segja að ég gæti ekki hafa klárað þann pakka á betri hátt.

Ég skipti um styrktaraðila í hjólum, kvaddi Kríu eftir 8 ár og Specialized hjólin í leiðinni. Ég gerði samning við Örninn um að æfa og keppa á Trek hjólum á þessu ári, og breytingin er vægast sagt stór fyrir mig. Svona breytingar hafa ekki bara með mig að gera, heldur líka sambönd milli mín og annarra styrktaraðila, en það skiptir öllu að allir séu sáttir og geti unnið saman. Það eru mjög spennandi tímar framundan, og mjög margt skemmtilegt að fara að gerast.

En á meðan þetta gengur á þarf lífið að halda áfram, í mínu tilfelli er það að halda áfram að æfa á fullu, og sinna aukavinnunni í vefsíðugerð. Nokkur skemmtileg vefverkefni eru að hefjast, og það á frábærum tíma fyrir mig á meðan ég get fylgt ákveðinni rútínu, en það flækist svolítið þegar keppnistímabilið, og ferðalögin sem fylgja, hefst. Þessi vetur er búinn að vera merkilega þægilegur þegar kemur að æfingaskipulagi. Ég held áfram að læra meira á sjálfann mig samhliða því að ég er að aðstoða aðra með sín markmið og framför, sem þjálfari. Mér finnst mjög gaman hvað þannig vinna, að þjálfa aðra, getur gefið mikið af sér í báðar áttir. Sem einhver sem stundar íþróttina sem ég er að þjálfa í, er ég sífellt að rekast á nýja hluti sem geta hjálpað mér að setja mínar þjálfunarpælingar fram fyrir aðra, og ég læri líka á sjálfann mig sem íþróttamann. +

Þjálfunarstarfið í sjálfu sér gengur mjög vel, og ég er sáttur við að ég gat haldið hugmyndinni gangandi eins og ég lagði hana upp fyrir sjálfann mig í upphafi. Að vera að þjálfa fáa einstaklinga, sem eru allir metnaðarfullir og vilja leggja meira af mörkum til að ná langt, er akkúrat það sem ég vil að þetta sé. Gæði umfram magn er fín lýsing á þessu, en að kalla þetta persónulega einkaþjálfun virkar líka.

12/02/19

Vikan er búin að vera rosalegt bland í poka. Æfingar eru að komast aftur á sinn vanalega stað, inni á trainer með Zwift í gangi, landsliðið í hjólreiðum var með ýmis þolpróf, fundi og æfingar, og ég er að koma mér í ákveðna rútínu með verktakavinnuna í tengslum við vefsíðugerð.

Ég hef aldrei verið mikill reglumaður þegar kemur að tímaskipulagi og rútínu. Það er eitthvað sem mér finnst ómögulegt að gera, að ná þessum litlu daglegu hlutum, alltaf á hverjum degi. Á sama tíma er ég góður í að taka tímabil sem ég geri eitthvað ákveðið mjög vel, en auðvitað er það á kostnað annarra hluta. Gott dæmi er þegar ég ákvað að lifa skv hollu mataræði í byrjun 2017, þá entist það í einhverja mánuði en um leið og ég missti áhugann þá féll ég hressilega og hef ekki komið mér á þann stað síðan. Ef það er eitthvað í lífinu sem ég get litið á sem fasta rútínu, þá er það að mæta á hjólaæfingar 😊

Þetta er tími ársins þegar allt sem tengist skipulagi í hjólavinnunni þarf að vera að smella saman. Nýr búningur þarf að vera tilbúinn fyrir fyrstu keppni, sem þýðir að ný hönnun, með réttum merkingum, þarf að vera tilbúin til að senda til framleiðandans, sem þýðir að ég þarf að vera búinn að ganga frá öllum samningum og samkomulögum við meira en 10 styrktaraðila og stuðningsmenn. Stundum gengur þetta fullkomnlega en stundum ekki, en það gengur þó töluvert betur núna heldur en fyrir ári síðan.

Ég byrjaði með nýtt samstarf við Sportvörur og 2XU æfingafatnað. Undanfarin ár hef ég átt í mjög góðu samstarfi við Ironviking með Compressport vörurnar og ég þakka þeim kærlega fyrir þeirra stuðning. 2XU virkar á mig sem spennandi vörulína, sem nýtist í ræktinni, á hlaupaæfingum á veturna, og svo er merkið að prufa sig áfram í hjólafatnaði líka, sem ég mun prufukeyra á næstu vikum.

Vikunni lauk á því að ég setti persónulegt met í afköstum á hjólinu, í svokölluðu FTP prófi. Það verður að segjast að allur minn ótti um að missa niður æfingaumhverfið sem ég naut erlendis í 3 ár, og eiga erfiðara með að koma mér í betra form, er farinn út um gluggann. Það er ekki oft sem maður lítur á stöðuna í byrjun Febrúar og telur sig tilbúinn til að stökkva beint í fyrstu keppni, en í dag líður mér þannig.

04/02/19

Það er gott að vera kominn heim, eftir mjög góða ferð til Spánar síðustu 2 vikur. Ein af mínum uppáhalds tilfinningum þegar ég er að ferðast, er þegar það kemur sá dagur sem ég hugsa að það væri frábært að vera áfram í útlandinu, en mig langar líka heim. Engin heimþrá eða neitt slíkt, engin þreyta á að vera erlendis, bara mín upplifun á því að ég sé búinn að nýta ferðina vel, og finn ekki fyrir neinni neikvæðni við það að fara aftur heim.

Ég var einn á ferð í þetta skiptið. Margar æfingaferðir hefur maður farið í, stundum með íþróttafélagi, stundum með góðum vinahóp, og stundum erum það bara ég og Iðunn, en þetta var í fyrsta skiptið sem ég fer einn í svona ferð. Mér finnst vera margir kostir við það, en líka ýmsir gallar:

Kostir:

 • Fullkomið frelsi til að eyða tímanum eins og ég vil, óháð lífsmynstri annarra. Hvenær er vaknað/borðað/sofið/hjólað, fer allt eftir mínum haus.
 • Ég fæ óhóflega mikinn tíma til að hugsa, og vera með sjálfum mér. Þetta eru tveggja vikna langar hugleiðslubúðir, og ég get pælt í hlutum sem komast aldrei vanalega að.
 • Vinnufriður. Ég reyni alltaf eftir bestu getu að vinna í verkefnum sem tengjast forritun og vefhönnun, ásamt öðru, þegar ég er að ferðast. Það gengur yfirleitt vel, og algjör lúxus að geta tekið vinnuna með sér hvert sem er, en einveran gefur mér allan þann frið til að koma mér inn í vinnuna eins lengi og ég þarf
 • Ég get hjólað alveg eins og ég vil. Þetta þekkja margir sem æfa og keppa á háu stigi í íþróttum. Eftir því sem maður verður betri, verður þörfin fyrir að æfa einn sterkari, og það verður erfiðara að samlagast stórum hópum. Kröfurnar verða meiri og planið minna sveigjanlegt.

Gallar:

 • Fullkomið frelsi til að eyða tímanum eins og ég vil. Já, það er ekki gott fyrir mig að vera einn, fara allt of seint að sofa, og vakna á skelfilegum tíma dags. Ég slepp með skrekkinn af því ég er bara fastur í einföldu móti: fer að sofa þegar ég er þreyttur, vakna þegar ég er úthvíldur, hjóla þar til ég er úrvinda, slappa af þar til ég er þreyttur, og hringurinn endurtekur sig héðan.
 • Einhæft og einangrað umhverfi. Mér finnst svona fyrirkomlag hafa ákveðinn tímaramma og mega ekki vera mikið lengur en 2-3 vikur, ekki mjög hollt að vera of lengi einn. Að hafa skýr markmið og verkefni er gríðarlega mikilvægt til að halda manni gangandi en ég fann alveg undir lokin að þetta var komið gott.

Ég hjólaði svolítið með tveimur flottum hjólurum frá Litháen. Báðir eru að keppa á WorldTour stigi í götuhjólreiðum, hafa unnið dagleiðir í stórmótum og jafnvel medalíur á heimsmeistaramótum. Og þeir koma frá 3 milljón manna landi þar sem hjólreiðar, þó stærri en hér á Íslandi, eru ekki á heimsmælikvarða. Fyrir nokkrum árum átti landið slatta af efnilegu fólki í unglinga og ungmennaflokkum, en vegna þess að það var lítill stuðningur fyrir þetta fólk þegar það fullorðnaðist og vildi fara að beita sér í stærri mótum, varð það að stóru vandamáli hversu margir hættu á ákveðnum aldri. Þessir tveir voru þeir fyrstu til að ná á svona hátt stig í sínu landi, en voru ansi neikvæðir þegar við fórum að tala um framtíð íþróttarinnar á afreksstigi heima hjá þeim, þeir sáu ekki fram á neinn sem myndi taka við keflinu.

Þrátt fyrir það fannst mér gaman að spjalla við þá, því það var áberandi mikil tenging á milli þróunar íþróttarinnar í Litháen og á Íslandi. Þeir eru vissulega komnir lengra en við, en margar af þeim hindrunum og verkefnum sem þeir lýstu eru einmitt það sem við erum að ganga í gegn um núna. Það er bara vonandi að þetta haldi áfram í rétta átt hjá okkur, og að við náum á staði sem til dæmis þessir tveir topphjólarar hafa náð.

28/01/19

Það er hvíldardagur í dag, í æfingabúðum á Spáni. Nokkrir erfiðir dagar eru framundan en það er líka mikilvægt að geta sest niður við og við, slappað af og hlaðið batteríin.

Ég nýti tímann til að pæla í næsta sumri, sem virðist alveg vera að bresta á. Mér finnst eins og Nóvember hafi verið í gær, tíminn líður svo hratt. Áður en maður veit af verður kominn Apríl, allir komnir út á götuhjólið og hjólað í stórum hópum til Þingvalla um hverja helgi. Eitt af því besta sem ég veit um sem fylgir því að æfa samkvæmt ströngu skipulagi, er hvað tíminn líður hratt á meðan. Mér finnst ég alltaf vera að hugsa um næstu viku, hvað það eru fáir dagar í henni og að ég þurfi að ná hverjum degi fullkomnlega til að uppfylla mín pínulitlu og vikulegu markmið.

Þessa dagana er ég að setja saman keppnisdagskránna mína í ár. Eins og staðan er í dag virðist árið ætla í 30-40 keppnir. Það hljómar eins og hellingur, og er það líka. En það eru ekki allar keppnir jafnar.

Mér finnst frábært að geta bætt inn í planið litlum og skemmtilegum keppnum eins og Canon Criterium mótunum, sem voru frábær æfingamót í fyrra og eitthvað sem ég vildi að væri gert meira af. Við þurfum fleiri mót sem eru gerð með lágmarks vinnu og gefa samt helling af sér. Fleiri mót sem eru pínulítil, gefa engin stig, titla eða verðlaun, heldur gefa reynslu, þekkingu, félagsskap og metnað fyrir stærri mótum.

Bikarmótin á Íslandi eru alltaf mikilvæg fyrir mér, þó ég hafi átt erfitt undanfarin ár með að koma nógu mörgum inn í planið til að geta keppt um heildarúrslit. Það eru áberandi meiri verðmæti í góðum árangri á bikarmóti, sem mér finnst skipta máli fyrir keppendur og skipuleggjendur. Erlendis eru stök mót oftast ekki svo merkileg, en allir mæta þó, en þegar kemur að mótum sem eru skilgreind sem hluti af „national series“ eða slíku, mæta allir með meiri metnað og kraft. Þetta gerir skemmtilega dýnamík í keppnisandann yfir tímabilið, og maður sér hvar menn setja sín markmið.

Einu stigi ofar, og að mínu mati efst á landsskalanum eru Íslandsmeistaramótin. Þrátt fyrir að sumir líti á Íslandsmeistaramót sem full mikla áskorun og sleppa þáttöku vegna þess að þeir segjast ekki nógu góðir, held ég að þetta séu mót sem allir ættu að mæta á. Það er fátt stærra en að vera „national champion“ (hvað segjum við, þjóðarmeistari, landsmeistari?) í sinni íþrótt, og í hjólreiðamenningunni á heimsvísu er þetta alltaf verðugt markmið. Í sumum löndum er titillinn stærri en í öðrum, dæmi má taka um cyclocross titilinn í Belgíu (land sem nokkurn veginn „á“ greinina), fjallahjólatitilinn í Sviss (þar sem heimsmeistari undanfarinna ára mætir til leiks) og götuhjólatitilinn á Spáni (þar sem fjöldi ofurhjólara er svo mikill, að það er oftar en ekki ómögulegt að setja saman gott landslið).

Svo koma erlendu mótin, stórmótin sem eru haldin undir merkjum UCI eða UEC, heimsmeistaramótin og evrópumótin, og heimsbikarmótin. Það er ótrúleg upplifun að taka þátt í svona mótum, eitthvað sem er erfitt að lýsa í orðum. En að taka þátt er ekki allt, heldur er algjörlega magnað að horfa á svona mót, vera á staðnum þegar einhver ofurhetja nær sögulegum sigri fyrir framan tugi þúsunda, sjónvarpað um allan heim og í blöðunum strax næsta dag. Þetta er það sem kveikir í mér, heldur mér á tánum og fær mig til að halda fast í þau tækifæri sem mér eru gefin: að geta verið með í þessum mótum.

EM í fjallahjólum í heimalandi Tikka Masala

Ég tók þátt á Evrópumeistaramóti í fjallahjólreiðum í 4.skiptið á ferlinum núna í vikunni, og eftir nokkrar vikur af keppnum á Íslandi kom á óvart hvað lappirnar gátu á meðal bestu manna í Evrópu. Keppnin var hluti af Evrópuleikunum, sem er nýtt fyrirbæri, tilraun til að sameina fleiri íþróttir í einn stórann viðburð, en ásamt öðrum keppnum fór þetta fram í Glasgow, Skotlandi.

Eitt merkilegt sem ég hef tekið eftir á síðustu árum, er að spenningurinn og stressið sem fylgir stórmótum minnkar og minnkar. Á sama tíma, á furðulegann hátt, minnkar sami spenningur ekki þegar kemur að Íslenskum mótum, þó töluvert minni séu. Það var þægilegt að mæta á svæðið á fimmtudegi, þegar keppni fór fram á þriðjudegi, nógur tími til að undir búa allt, og hvíla í leiðinni. Staðlaða rútínan að bögglast upp á flugvöll með fullt af farangri eldist ekki, en eftir flugið til Edinborgar var tekin rúta til Glasgow. Ég lagði ekki í að gera mína frumraun til aksturs vinstra megin vegarins á sama tíma og ég var að koma mér í keppnis hugarástandið. Tékkað inn á hótel nálægt miðbæ borgarinnar, og beint út að hjóla daginn eftir.

Það kom á óvart að það var ekkert mál að hjóla á öfugum vegarhelmingi. Ég reyndar lagði út með hugarfarið að ég væri á stríðssvæði og fylgdist með bókstaflega öllu sem hreyfðist í kring um mig. En eftir um 20 mínútur var ég bara orðinn þræl-breskur. Næstu dagar fóru í að skoða brautina, aðlagast hitanum og reyna að passa að hafa lappirnar í keppnisástandi. Það er merkilegt jafnvægi sem þarf til að vera í réttu standi fyrir stóra keppni. Mótsögnin að hugsa að það sé best að hvíla og gera ekki neitt getur komið öllum í vandræði, en á sama tíma gera sumir allt of mikið fram að keppni og mæta með tómann bensíntank að startlínunni. Það þarf nákvæmnisvinnu og góða tilfinningu fyrir líkamanum, að hafa fæturna “ferska”, en ekki “þunga” eða “lata”. Mér finnst best að stytta æfingarnar, en halda sama álagi, og stundum jafnvel bæta í álagið. Að taka hressilega á því daginn fyrir mót getur gert merkilega hluti fyrir vel þjálfaðann íþróttamann.

Brautin var skemmtileg, örlítið krefjandi, en fyrst og fremst þung. Hún hefst með stöðugu klifri upp í skóginn sem keppt er í, og fer í gegn um skóginn með nokkrum snöggum og stuttum brunköflum, smá grjóti en mest megnis gras og möl. Í miðri braut kemur svokölluð “dual slalom” eða svigbraut þar sem tveir keppendur geta hjólað hlið við hlið, sem er skemmtileg viðbót rétt fyrir lengsta klifur brautarinnar sem er allt í mjög þungu grasi. Eftir það kemur tæknilegur en sléttur kafli með helling af grjóti áður en farið er aftur niður við hliðina á svigbrautinni, eins konar mini-downhillbraut sem er mjög skemmtileg og hröð. Þannig er hringurinn, sem tekur um 14-16 mínútur fyrir hröðustu keppendur.

Á milli æfinga var farið um borgina með eins litlu labbi og mögulegt var. Hún Iðunn mín sem var með sem aðstoðarmaður/matarsækjari/borðpantari/búðahlaupari/liðsstjóri/brúsaréttari/ofl/ofl nýtti tímann og skoðaði helstu söfn, sýningar, háskóla og megnið af menningunni sem var boðið upp á, á meðan ég reyndi að slappa af. Það fylgir svona ferðum að keppnin sjálf er í öllum forgangi, og allt annað verður að víkja ef það hefur slæm áhrif á frammistöðu, en við vorum samt sniðug og náðum að skoða bæinn í 20 þúsund skrefum eða meira, daginn eftir keppni. Og já, ég mátaði skotapils 🙂

Þegar kom að keppni nýtti ég tímann og hjólaði á keppnisstað sem tók um 40 mín, fínasta upphitun og hugleiðsla til að komast í rétt hugarástand. Ég er alveg hættur að stressa mig á aðstæðum eða finna fyrir ögrun frá öðrum stærri nöfnum sem eru fyrir framan mig á startlínunni. Þetta er keppni eins og hver önnur, og það besta sem ég get gert er það besta sem ég get gert. Ég var settur á öftustu röð þrátt fyrir öll mín UCI stig, en það eitt og sér segir nóg um erfiðleikastigið á slíku móti. Aðeins tveir keppendur af 53 voru með færri en 200 stig, en til samanburðar fást 100 stig fyrir að sigra Íslandsmeistaramótið, og Nino Schurter heimsmeistarinn er með rúmlega 2000 stig.

Keppnin fór af stað af látum, en helsti ókostur brautarinnar kom strax í ljós eftir 2 mínútna langa startlúppu, þar sem var farið á einbreiðum stíg inn í skóg. Allir fóru inn í einfaldri röð, sem býr til umferðarteppu aftast, þar sem allir eru að reyna að troðast á staði sem er ekkert pláss. Ég varð að vera þolinmóður og bíða eftir að það opnaðist pláss, og keppnin hófst ekki af fullri alvöru fyrr en á öðrum hring. Ég eyddi keppninni í slag við mann frá Ísrael, annan frá Slóvakíu og enn annan frá Finnlandi. Eftir hörku eltingaleik þurfti ég að sleppa Ísraelanum, en fyrir þá sem þekkja mitt álit á Ísrael sem ríki þá má segja að það hafi verið leiðinlegt að geta ekki sigrað kauða. Slóvakinn stakk líka af og ég byrjaði að velta fyrir mér hvort ég væri nokkuð aftastur i keppninni, en sá svo að það var einn frá Portúgal og einn frá Írlandi fyrir aftan. Hélt bara áfram með mína vinnu, en þegar ég kláraði 4.hring af 6 kom nokkuð á óvart að ég var ekki tekinn úr keppni samkvæmt hringunarreglunni. Ég hlaut að vera að gera eitthvað rétt. Eftir smá stund kom Finnski keppandinn aftan að mér, fór fram úr og ég gerði allt sem ég gat til að ná honum. Ég náði honum næstum því, en á leiðinni í gegn um 5.hring sást aftur í gæjann frá Slóvakíu og við náðum honum báðir eins og hann væri standandi kyrr, greinilega orðinn þreyttur. Þegar ég sá að ég fengi að halda áfram inn á síðasta hring tók hjartað smá kipp. Það er erfitt að lýsa því fyrir þeim sem hafa ekki keppt á þessu leveli, hversu merkilegt það er að klára keppni í fullri lengd, ég var ansi hress með þetta. Ég hélt áfram að reyna að ná Finnanum, en eins og samlandar sínir þá vildi hann halda sínu “personal space” auðu, þannig að ég náði honum því miður ekki. Kom í mark einhverjum 30 sek á eftir honum, en var mest ánægður með að vera að klára án þess að vera hringaður.

Get ég kallað þetta minn besta árangur á EM/HM stiginu? Mér finnst ennþá eins og HM í maraþon XC 2016 sé mitt besta, þegar ég var í 75.sæti af 150 keppendum, en þetta kemst nokkuð nálægt. Það er gaman að sjá svona merki um bætingu, og að ég er á uppleið í sportinu. Það verður vægast sagt spennandi að sjá hvernig enn stærri mót fara, sem verða í September.

Stórmót? Já, tek öll, takk!

Íslenska hjólasumrinu mínu er að ljúka, og eftir frábæra keppni á Akureyri er gott að horfa á farinn veg og sjá góðann árangur í helstu mótum í sumar. Ég ákvað í byrjun árs að skipta keppnistímabilinu mínu, sem telur 7 mánuði, í þrjá hluta. Vorið fór í margar flottar keppnir erlendis, þar á meðal voru tvö World Cup mót í fjallahjólreiðum, og minn fyrsti sigur í fjallahjólakeppni í Danmörku. Júní/Júlí innihélt öll mín stærri markmið sem tengdust Íslandi þannig að ég ákvað að gera úr því eina langa ferð, með stuttu skreppi til Noregs fyrir flotta maraþon fjallahjólakeppni þar. Íslandsmeistaratitlar í þremur mismunandi greinum, sigrar í flestu stóru götuhjólamótum ársins fram að þessu, ásamt Bláalónsþrautinni og öðrum mótum, samtals 9 sigrar. Allt eitthvað til að vera stoltur af.

Og nú hefst þriðji hlutinn, sá stærsti og mikilvægasti af þeim öllum.

Hér er listi yfir þau mót sem eru framundan hjá mér:

 • Evrópumeistaramótið í ólympískum fjallahjólreiðum (XCO) – 7.ágúst í Glasgow, Skotlandi
 • UCI C1 Kolding Race Days – 12.ágúst í Kolding, Danmörku
 • UCI MTB World Cup La Bresse – 26.ágúst í La Bresse, Frakklandi
 • Skaidi Xtreme – 1.september í Skaidi, Noregi
 • Heimsmeistaramótið í ólympískum fjallahjólreiðum (XCO) – 9.september í Lenzerheide, Sviss
 • Heimsmeistaramótið í maraþon fjallahjólreiðum (XCM) – 16.september í Auronzo di Cadore
 • UCI C2 Shimano Liga Bagsværd – 23.september í Bagsværd, Danmörku

Þetta er vægast sagt metnaðarfullt. Tvö heimsmeistaramót, eitt evrópumeistaramót og eitt heimsbikarmót er nóg til að gera hvern sem er sáttann við ferilinn. Þetta ár er búið að ganga stórvel hjá mér, og þó ég segi sjálfur frá, þá er gaman að sjá að ég er á uppleið eftir bráðum fjögur keppnistímabil sem atvinnu keppnishjólari. Ég vil nýta tímann sem ég hef á þeim stað sem ég er á í dag, nýta formið og tækifærin sem mér eru gefin, og ná sem mestu út úr lífinu.

Þetta verður magnað ferðalag, og það verður gaman að njóta þess með Iðunni, en á sama tíma og hún er kærastan mín þá á hún líka til að vera yfiraðstoðarmaður, brúsaréttari, fundarmætari, matarreddari og jú, liðsstjóri landsliðsins í fjallahjólreiðum. Án hennar væri þetta ekki bara leiðinlegt og einmanalegt, heldur líka mjög erfitt og stundum of mikið fyrir mig einann.

Án styrktaraðilanna minna væri þetta ævintýri ómögulegt. 8 flug, 4 hótel og 2 bílaleigubílar yfir 7 vikna tímabil hleypur á hundruðum þúsunda króna, og er ekki auðvelt fyrir fólk í fullu starfi með nóg að gera í lífinu. Ég er heppinn að geta sett fullan kraft í þetta, og á sama tíma er ég með restina af lífinu á pásu, og fórna öðrum tækifærum. Ég kann ótrúlega vel að meta allt sem mínir stuðningsmenn, styrktaraðilar og góðir vinir gera fyrir mig, og verð þakklátur út ævina.

Fyrir þá sem vilja fylgjast með verð ég að sjálfsögðu duglegur á samfélagsmiðlum eins og Instagram og Facebook. Nokkur af þessum mótum verða sýnd í beinni útsendingu, í sjónvarpi eða á Youtube, og ég set inn linka þegar ég kemst í þá.

Drullumallið á Spáni

Á föstudaginn síðasta kláraði ég Andalucia Bike Race í annað skipti á tveimur árum. Keppnin var eins ólík fyrra árinu og mögulegt var, þökk sé veðri og ýmsum öðrum hlutum. Í stuttu máli er þetta 6 daga löng fjöldægrakeppni á fjallahjóli, 400km löng samtals, með leiðum í Cordoba, Andújar og Linares á Spáni. Keppnin er einstaklings, en var áður parakeppni, og er með UCI C1 merkingu sem er næst efsta stig.
Eins og í fyrra lét ég mig fljóta með nokkrum Dönskum félögum, en fyrst og fremst með besta fjallahjólara Færeyja, Helga Winther Olsen. Við gerðum allt saman, sem getur hjálpað ótrúlega mikið í svona langri keppni, en með öllu tekur ævintýrið um 8 daga, og það getur margt gerst á þeim tíma.

Það er margt sem er hægt að segja um hvernig keppnin þróaðist fyrir mig, bæði neikvætt og jákvætt, en ég fókusa yfirleitt á það jákvæða í öllu, þó verandi raunsæismaður. Keppnin byrjaði vel fyrir mig, en tók nokkrar dýfur á leiðinni, og sumar af þeim höfðu ekki bara áhrif á mig. Ég átti góðann fyrsta dag, var með fremstu mönnum og allt leit vel út fyrir framhaldið. Smá óheppni með staðsetningu setti strik í reikninginn á öðrum degi, en ég barðist vel og lengi og náði að lokum ágætum tíma og var ekki of ósáttur, enda nóg eftir. Á degi 3 byrjaði veðurspáin að stríða öllum keppendum, en á dögunum fyrir keppni leit alltaf út fyrir að það yrði rigning á seinni hluta keppninnar. Ég get ekki sagt að mig hafi grunað hversu slæmt það varð samt!

Dagur 3 var högg fyrir mig, bleyta í brautinni hafði þó minni áhrif en mig grunaði, en ég fékk vænann skammt (vonandi ársskammt) af óheppni þegar ég sprengdi dekk þrisvar á einum degi. Ég get engu öðru kennt um en sjálfum mér, var búinn að setja öflug og þykk dekk á hjólið og hafði engar áhyggjur, enda ekki þekktur fyrir að sprengja oft. Eftir þann dag var egóið búið að minnka og ég farinn að hugsa um að eiga bara góða daga það sem eftir var, en allar hugmyndir um heildarúrslit voru farin út um gluggan, ég kom í mark tæplega klukkutíma á eftir sigurvegaranum.

Eftir þetta varð keppnin bara erfiðari, og dagur 4 sennilega sá allra versti, en á sama tíma finnst mér hann hafa sýnt líka góða hluti. Þann dag rigndi stanslaust, kuldinn var mikill og ég var alltaf á bláþræði milli þess að keyra hitann upp, og slakna niður í ofkólnun. Ég eyddi fyrstu 2 tímunum af tæplega 3 með hóp sem var að keppa um 14.sæti, aðeins nokkrum mínútum á eftir fremstu mönnum. Ég tók vel á því á hjólinu, og skv mælingum virðist vera í töluvert betra formi en á sama tíma í fyrra. En ég sprengdi aftur. Ég datt aftur úr, eyddi hellings tíma í að laga dekkið, og þegar ég lagði af stað aftur var ég orðinn kaldur í gegn og kom mér ekki aftur á strik, sem sýndi sig í leiðinlegri dettu á fleygiferð niður grjótakafla um 15 mín eftir að ég lagði af stað. Ég kláraði daginn í mjög óþægilegu ástandi, gat varla haldið um stýrið og fann að ég var búinn að slasa mig í kringum bringuna.

Kvöldið eftir dag 4 var mjög erfitt andlega. Ég fann meira og meira til í rifbeinunum og grunaði oft að ég væri brákaður, en eftir svipuð meiðsli á EM í Slóvakíu í fyrra, vissi ég að þetta væri ekki svo slæmt. En vont var það. Marblettir og rispur á löppum og handleggjum voru ekkert að hjálpa til, en ég hugsaði lítið um það. Morguninn eftir verður að segjast að ég var nálægt því að hætta við að mæta á startlínuna.

Startið var í 50 mín akstri frá Cordoba þannig að það þurfti að fleygja öllu inn í bíl kl 7 um morguninn og leggja af stað í hellirigningu. Rigningin er sennilega sú mesta sem ég hef nokkurn tíman keyrt í, og það á Spáni af öllum stöðum. Þegar við vorum hálfnaðir á keppnisstað og ég enn að reyna að hvetja sjálfann mig til dáða var gefin út tilkynning: degi 5 aflýst vegna veðurs. Flóð í smábæjum og árfarvegir byrjaðir að myndast í brautinni. Ég var ekki ósáttur, fúll eða svekktur yfir þessu, það get ég sagt. Ég tók þessu sem merki um að ég hefði fengið hvíldardag til að koma hausnum í lag.

Ég kláraði dag 6 með öllu sem ég átti eftir, en það var því miður ekki mikið. Ég átti erfitt með að anda vegna rifbeinsins, og bleytan og kuldinn var verri en hina dagana, en samt var ákveðið að starta öllum á lokadegi. Ég gaf allt í þetta, átti ágætt klifur í byrjun og setti mínar bestu afltölur þá vikuna í pedalana, en átti í erfiðleikum með niðurbrekkurnar vegna kulda og einbeitingarleysis. Það var samt gaman að ná þessum 5 sem tóku fram úr mér í síðustu brekkunni. Sótti þá á 2km löngum malbikskafla og sprettaði í burtu að markinu. En marklínan var ekki mín marklína, heldur var löngu búið að ákveða að það yrði heitt bað á hótelinu. Ég gleymdi næstum því að sækja medalíuna, rauk af stað í óráði og tókst að villast í hellidembunni á leiðinni á hótelið. Komst þó þangað á endanum, setti í heitasta bað ævi minnar, og settist þar niður í öllum fötum, skóm og hjálmi. Ég hafði sigrað þessa keppni, og sjálfann mig í leiðinni. Ég náði ekki þeim úrslitum sem ég sóttist eftir, en ég komst yfir aðra erfiðleika og kem frá þessarri keppni enn spenntari fyrir vorinu.

Older posts

© 2021 On your left

Theme by Anders NorenUp ↑