Það er hvíldardagur í dag, í æfingabúðum á Spáni. Nokkrir erfiðir dagar eru framundan en það er líka mikilvægt að geta sest niður við og við, slappað af og hlaðið batteríin.

Ég nýti tímann til að pæla í næsta sumri, sem virðist alveg vera að bresta á. Mér finnst eins og Nóvember hafi verið í gær, tíminn líður svo hratt. Áður en maður veit af verður kominn Apríl, allir komnir út á götuhjólið og hjólað í stórum hópum til Þingvalla um hverja helgi. Eitt af því besta sem ég veit um sem fylgir því að æfa samkvæmt ströngu skipulagi, er hvað tíminn líður hratt á meðan. Mér finnst ég alltaf vera að hugsa um næstu viku, hvað það eru fáir dagar í henni og að ég þurfi að ná hverjum degi fullkomnlega til að uppfylla mín pínulitlu og vikulegu markmið.

Þessa dagana er ég að setja saman keppnisdagskránna mína í ár. Eins og staðan er í dag virðist árið ætla í 30-40 keppnir. Það hljómar eins og hellingur, og er það líka. En það eru ekki allar keppnir jafnar.

Mér finnst frábært að geta bætt inn í planið litlum og skemmtilegum keppnum eins og Canon Criterium mótunum, sem voru frábær æfingamót í fyrra og eitthvað sem ég vildi að væri gert meira af. Við þurfum fleiri mót sem eru gerð með lágmarks vinnu og gefa samt helling af sér. Fleiri mót sem eru pínulítil, gefa engin stig, titla eða verðlaun, heldur gefa reynslu, þekkingu, félagsskap og metnað fyrir stærri mótum.

Bikarmótin á Íslandi eru alltaf mikilvæg fyrir mér, þó ég hafi átt erfitt undanfarin ár með að koma nógu mörgum inn í planið til að geta keppt um heildarúrslit. Það eru áberandi meiri verðmæti í góðum árangri á bikarmóti, sem mér finnst skipta máli fyrir keppendur og skipuleggjendur. Erlendis eru stök mót oftast ekki svo merkileg, en allir mæta þó, en þegar kemur að mótum sem eru skilgreind sem hluti af „national series“ eða slíku, mæta allir með meiri metnað og kraft. Þetta gerir skemmtilega dýnamík í keppnisandann yfir tímabilið, og maður sér hvar menn setja sín markmið.

Einu stigi ofar, og að mínu mati efst á landsskalanum eru Íslandsmeistaramótin. Þrátt fyrir að sumir líti á Íslandsmeistaramót sem full mikla áskorun og sleppa þáttöku vegna þess að þeir segjast ekki nógu góðir, held ég að þetta séu mót sem allir ættu að mæta á. Það er fátt stærra en að vera „national champion“ (hvað segjum við, þjóðarmeistari, landsmeistari?) í sinni íþrótt, og í hjólreiðamenningunni á heimsvísu er þetta alltaf verðugt markmið. Í sumum löndum er titillinn stærri en í öðrum, dæmi má taka um cyclocross titilinn í Belgíu (land sem nokkurn veginn „á“ greinina), fjallahjólatitilinn í Sviss (þar sem heimsmeistari undanfarinna ára mætir til leiks) og götuhjólatitilinn á Spáni (þar sem fjöldi ofurhjólara er svo mikill, að það er oftar en ekki ómögulegt að setja saman gott landslið).

Svo koma erlendu mótin, stórmótin sem eru haldin undir merkjum UCI eða UEC, heimsmeistaramótin og evrópumótin, og heimsbikarmótin. Það er ótrúleg upplifun að taka þátt í svona mótum, eitthvað sem er erfitt að lýsa í orðum. En að taka þátt er ekki allt, heldur er algjörlega magnað að horfa á svona mót, vera á staðnum þegar einhver ofurhetja nær sögulegum sigri fyrir framan tugi þúsunda, sjónvarpað um allan heim og í blöðunum strax næsta dag. Þetta er það sem kveikir í mér, heldur mér á tánum og fær mig til að halda fast í þau tækifæri sem mér eru gefin: að geta verið með í þessum mótum.

Comments

comments