Síðasta vika var rosaleg. Ég held að ég hafi sjaldan átt jafn mikil samskipti við fólk, á jafn mismunandi vegu. Fundir, hittingar, samningaviðræður, símtöl og tölvupóstar, og nánast allt um málefni sem hafa mikil áhrif á það sem ég er að gera í dag. Vikan kláraði þó stórann pakka sem hefur verið í gangi síðan í byrjun árs, og ég myndi segja að ég gæti ekki hafa klárað þann pakka á betri hátt.

Ég skipti um styrktaraðila í hjólum, kvaddi Kríu eftir 8 ár og Specialized hjólin í leiðinni. Ég gerði samning við Örninn um að æfa og keppa á Trek hjólum á þessu ári, og breytingin er vægast sagt stór fyrir mig. Svona breytingar hafa ekki bara með mig að gera, heldur líka sambönd milli mín og annarra styrktaraðila, en það skiptir öllu að allir séu sáttir og geti unnið saman. Það eru mjög spennandi tímar framundan, og mjög margt skemmtilegt að fara að gerast.

En á meðan þetta gengur á þarf lífið að halda áfram, í mínu tilfelli er það að halda áfram að æfa á fullu, og sinna aukavinnunni í vefsíðugerð. Nokkur skemmtileg vefverkefni eru að hefjast, og það á frábærum tíma fyrir mig á meðan ég get fylgt ákveðinni rútínu, en það flækist svolítið þegar keppnistímabilið, og ferðalögin sem fylgja, hefst. Þessi vetur er búinn að vera merkilega þægilegur þegar kemur að æfingaskipulagi. Ég held áfram að læra meira á sjálfann mig samhliða því að ég er að aðstoða aðra með sín markmið og framför, sem þjálfari. Mér finnst mjög gaman hvað þannig vinna, að þjálfa aðra, getur gefið mikið af sér í báðar áttir. Sem einhver sem stundar íþróttina sem ég er að þjálfa í, er ég sífellt að rekast á nýja hluti sem geta hjálpað mér að setja mínar þjálfunarpælingar fram fyrir aðra, og ég læri líka á sjálfann mig sem íþróttamann. +

Þjálfunarstarfið í sjálfu sér gengur mjög vel, og ég er sáttur við að ég gat haldið hugmyndinni gangandi eins og ég lagði hana upp fyrir sjálfann mig í upphafi. Að vera að þjálfa fáa einstaklinga, sem eru allir metnaðarfullir og vilja leggja meira af mörkum til að ná langt, er akkúrat það sem ég vil að þetta sé. Gæði umfram magn er fín lýsing á þessu, en að kalla þetta persónulega einkaþjálfun virkar líka.

Comments

comments