Mynd: David Robertson

Stærsta og flottasta cyclocrosskeppnin sem Tindur hefur haldið frá upphafi fór af stað í morgun með látum. 37 manns tóku þátt og þar af stærsti kvennaflokkur sem sést hefur í greininni.

Ég átti mjög góða keppni, en í fyrsta skipti í langann tíma var mættur maður sem getur veitt hverjum sem er í hjólreiðum á íslandi almennilega samkeppni,Hafsteinn Ægir Geirsson. Þetta breytti að sjálfsögðu öllu og var keppnin tekin ögn alvarlegar en vanalega, en það er svosem þannig að þegar á reynir er öllu gamani kastað út um gluggan og allt fókusað á að vera eins framarlega og mögulegt er.

Keppnin byrjaði með þéttu tempói sem Hafsteinn sá um, ég kom mér fyrir fyrir aftan hann en planið var að sjá hversu hratt hann færi fyrstu 2-3 hringina og ákveða svo hvað væri best að gera. Fyrsti hringur kláraðist á um 6 mínútum og vorum við strax komnir með gott forskot á alla. Það voru kunnuglegar aðstæður að við tveir værum fremstir, í okkar eigin keppni, með litlar sem engar áhyggjur af þeim sem hjóluðu fyrir aftan okkur. Ég tók strax eftir því á fyrsta hring að hlaupabrekkan, hressilega brött 100m brekka, ætlaði að reynast mér erfið en ég var með takka undir skónum sem eru sérgerðir til að hlaupa á. Gallin var að brekkan var gegnumfrosin og takkarnir gerðu lítið annað en að renna á grasinu, á meðan gúmmíið undir skónum greip mun betur. Takkarnir, að sjálfsögðu, voru alveg fyrir gúmmíinu þannig að ég var bara eins og á skautasvelli í brekkunni.

En áfram hélt keppnin, og eftir nokkra hringi gerði ég árás rétt fyrir hlaupabrekkuna, sem mistókst algjörlega þegar ég byrjaði að hlaupa og rann og rann. Hafsteinn náði mér strax og örugglega og staðan var sú sama og áður.

Nokkru seinna reyndi ég aftur, í þetta skipti var það um miðja brautina, rétt fyrir þungann graskafla sem innihélt hindranir í formi tveggja trjádrumba með uþb 6 metra millibili. Ég vissi að ég gæti farið ögn hraðar þar í gegn og nýtti mér það, en ég náði góðu forskoti á Hafstein, hoppaði yfir drumbana og keyrði mig í botn. Þetta hélst í tæpa 2 hringi, en á endanum náði Hafsteinn mér aftur, og þá fór ég strax í að pæla hvað væri best að gera til að grípa sigurinn. Hvíldin hófst og ég kom mér aftur fyrir fyrir aftan hann, og ég beið eftir síðasta hringnum.

Síðasti hringurinn kom, á 44.mínútu og ég fann að það átti ekki að vera auðveldur hringur. Eins og vanalega missti ég Hafstein frá mér í hlaupabrekkunni og náði honum aftur með glæfraskap niður aðra grófari brekku fyrir miðja brautina. Ég beið fyrir aftan hann þar til komið var að drumbunum, hann hljóp yfir á meðan ég stökk á hjólinu. Stuttu seinna var ég kominn í góða stöðu, púlsinn ekki of hár og ég ferskur, uþb 1000 metrar í mark. Ég setti allt í botn og tók fram úr, náði góðri línu og keyrði mig alveg upp og yfir þann púls sem mér líður best í í hámarksátökum. Ég reyndi að horfa ekkert aftur fyrir mig og hélt áfram hraðanum, sá marklínuna og tók sprett og rétt hafði sigurinn, örfáum sekúndum á undan Hafsteini.

Þetta var frábær keppni, ég þakka samkeppnina og öllum sem mættu til að keppa eða horfa á, mótshöldurum og öllum öðrum fyrir góðann dag. Sjáumst hress í desember í 3.umferð í Crossbollanum!