Month: June 2014

XC – Heiðmerkuráskorunin

Myndir: David Robertson og Elvar Örn Reynisson

Einn af mikilvægustu hlutunum við að keppa, að mínu mati, eru mótherjarnir, andstæðingarnir, samkeppnin. Það eru líklega flestir sammála um að ef lítil samkeppni er, þá er lítið sem ýtir manni áfram til að gera betur en síðast, erfitt að bæta sjálfann sig, og kanski fyrst og fremst, þá dregur lítil samkeppni úr gildi góðs árangurs í keppni. Ég hef alltaf verið á þessarri skoðun og mér finnst þetta skipta höfuðmáli í þeim keppnum sem ég tek þátt í, en ég hef alltaf verið svolítið meira fyrir að einbeita mér að einum hlut og gera hann mjög vel, frekar en að dreifa mér yfir margar greinar eða áhugamál.

Það er annað sem er mér mjög mikilvægt, og eitthvað sem ég trúlega minnist oft á, og það eru andstæðingarnir sjálfir. Í gegnum tíðina hef ég kynnst alls konar fólki, ótrúlega mismunandi fólki og ekki aðeins þeim sem ég lít á sem mótherja mína heldur líka fullt af fólki sem er á öðrum stað í hjólreiðakeppnum. En allt þetta fólk skiptir máli, því þetta er jú samfélagsleg íþrótt og mikil samskipti fara fram milli fólks, sama hvort það eru handabendingar á 60km/h eða klassíska spjallið eftir keppni. Eðlilega pælir maður meira í þeim sem eru á svipuðu stigi og maður sjálfur, og eyðir því meiri tíma með þeim í keppnum og í öðrum hjólreiðum. Að hafa einhvern sem maður ber virðingu fyrir, sem sýnir íþróttamannslega hegðun og tekur tillit til annarra, á sama tíma og keppnisskapið er til staðar, er ekki sjálfgefið, og alls ekki eitthvað sem maður getur stjórnað sjálfur. Ég tel mig því heppinn að eiga mér nokkra reglulega andstæðinga sem passa inn í ofangreinda lýsingu, ég er alltaf þakklátur fyrir að þessir einstaklingar séu til staðar, og tilbúnir til að berjast um gullið!

Í gær fór fram Heiðmerkuráskorunin, árleg fjallahjólakeppni í boði HFR, haldin á stígum og vegum Heiðmerkur í kvöldsólinni (eða rigningunni, eins og í gær). Þetta er skemmtileg keppni vegna þess að hún fær alltaf góða þáttöku og gott skap í fólki, skemmtileg krakkakeppni og auðvitað góðum hamborgurum í boði Arnarins að keppni lokinni. Keppnin er stutt, eða aðeins 24km fyrir A-flokk, og það á hröðum stígum þar sem má ná hátt í 30km meðalhraða, þannig að átökin eru mikil yfir þann stutta tíma sem tekur að ljúka keppni.

Heiðmerkuráskorunin var fyrsta hjólreiðakeppnin sem ég sigraði, árið 2012, þannig að hún er sérstök fyrir mér vegna þess. Ég var ansi vongóður með skráningu góðra manna fyrir keppni, og sá nöfn margra öflugra hjólreiðamanna, en þó vantaði eitthvað 🙂 (Hafsteinn þér er fyrirgefið, hamborgarinn bætti fyrir þetta!) Ég hafði þó sett stefnuna á að setja brautarmet þetta kvöld, þar sem keppnin er ein af fáum sem breytast ekkert á milli ára, þannig að það er hægt að miða við að bæta tímann sinn þarna með nokkuð góðri nákvæmni. Brautarmetið stóð í 49:07, og var sett af Helga Berg í fyrra, ég var aðeins einni sekúndu á eftir honum þá. Aðstæðurnar í ár voru mjög svipaðar þeim í fyrra, mjög blautt og einhver rigning, stígarnir gripu mjög vel vegna þess að mölin var þétt í bleytunni en það var þó svolítið meiri vindur í ár.

Keppnin fór af stað á slaginu 20:30 og ég tók start sem ég hafði vanið mig á í vetur í cyclocrosskeppnunum: allt í botn. Ég tók strax forystu og keyrði stutta kaflann á veginum sem liggur að fyrsta einbreiða stígnum. Á þeim tímapunkti, aðeins nokkrum mínútum eftir start, hafði ég dregið Helga og Óskar frá hópnum, og það var strax komið bil í næstu menn. Ég hélt áfram að keyra mig út, og var kominn í þægilegann timetrial-hjartslátt, sem ég get haldið í að minnsta kosti klukkutíma, með smá jákvæðri hugsun 🙂 Mjög fljótlega eftir að við komum inn á stíginn stækkaði bilið milli mín og Helga og ég var sloppinn, ég kíkti ekki fyrir aftan mig fyrr en ég var kominn aftur upp á veginn hinum megin í brautinni, en þar tók við smá slagur við mótvindinn, á örlítið lengri beinum kafla á flötum malarvegi. Ég sá þar að Óskar hafði skilið strákana eftir og var kominn í hörkueltingarleik við mig. Fljótlega eftir að ég komst aftur inn á stíginn af veginum hélt keyrslan áfram meðfram vatninu og í átt að markinu, til að klára fyrsta hring af tveimur. Ég var hættur að sjá nokkurn fyrir aftan mig, og sá að tíminn á hringnum var 24:01, brautarmet. Hress með þetta hélt ég áfram, en ég var þó farinn að finna kunnuglega tilfinningu. Þegar mann vantar einhvern til að sparka í rassinn á sér, er auðvelt að slaka örlítið á þrátt fyrir að geta farið hraðar. Ég held að þetta sé eðlilegt, maður á alltaf sínar bestu keppnir þegar það er erfiðast að hafa fyrir vinnunni, erfiðara er að ýta sjálfum sér áfram. Þetta er aðdáunarverður hæfileiki sem timetrial sérfræðingar eru mjög góðir í.

1512108_10203655033114887_2886886926986872978_o

Ég kláraði keppnina á nýju brautarmeti, 48:39, eitthvað um einni og hálfri mínútu á undan Óskari, sem var svo fylgt eftir af Bjarka Bjarnasyni, glæsilega hjólað af þeim, og gaman að sjá sterka menn eins og Sigurð Hansen taka 4.sætið og nýja menn koma sterka inn, td. Helga Pál í 7.sæti. Keppnin var stórgóð, og verður klárlega betri með hverju árinu. HFR eiga heiður skilinn fyrir að standa að góðu móti, tímanlega í öllu og með allt á hreinu, þeir voru líka flottir að taka skrefið að því að nota Hjólamót.is sem skráningarkerfi fyrir keppnina. Örninn var flottur eins og vanalega, og borgararnir ekki síðri en glæsimennin sem mönnuðu grillið!

RR – Jökulmílan

Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson

Jökulmílan er ein af þessum keppnum sem þarf meiri undirbúning en aðrar, ekki bara vegna þess að verandi lengsta eins-dags götuhjólakeppni ársins, 160km, heldur líka vegna þess að það þarf að ferðast dágóðann spotta upp í Grundarfjörð til þess að taka þátt. Ég hef svolítið gaman að þessu, það er ekkert leiðinlegt að eyða heilum degi í hjólreiðakeppni, og ferðalagið til og frá gerir þetta bara skemmtilegra. Í fyrra var þessi keppni á sama degi og KexReiðin sem ég sigraði, þannig að það var fúlt að geta ekki verið með þá, en stærri hópur og stóraukin samkeppni gerðu það að verkum að keppnin í ár leit út fyrir að ætla að vera enn betri en í fyrra.

Ég tel mig hafa ágætis úthald á hjólinu, enda er það með betri hlutunum sem koma til manns eftir mikinn æfingavetur, þannig að ég var spenntur fyrir að sjá hvernig ég myndi tækla svona langa keppni. Brautin leit vel út, þessi týpíski Íslenski flati staðreynd sem maður venst með hverju ári (afhverju eru Íslenskir hjólreiðamenn hræddir við brekkur?), en ég hafði keyrt þetta áður og vissi að landslagið væri frábært og vegirnir góðir. Aðalpælingin hinsvegar, var hverjum maður myndi hjóla með, og startlistinn gaf góðar vísbendingar. Þarna voru kunnugleg nöfn frá síðustu keppnum, Hafsteinn, Miro, Árni og Óskar, auk nokkurra annarra sem gætu komið sterkir inn. Ég var með í kollinum hugmynd að 6-8 manna hóp sem ég vissi að gætu verið í formi til að hjóla í fremsta hóp, en maður veit svo aldrei hvernig menn eru, eða hvað gerist í keppninni.

Veðrið var bara mjög fínt þegar komið var á staðinn. Það var léttskýjað og þurrt, hiti í loftinu, og lítill vindur; uppáhaldsaðstæðurnar mínar, stuttermaveður! Það fór aðeins meiri tími en vanalega í að pæla hvernig væri best að vera klæddur, en hér á landi getur ýmislegt gerst í veðrinu á 4-5 tímum. Ég endaði á því að vera öruggur með þetta, stutta kittið toppað með stökum skálmum og ermum til að vera alveg pottþéttur í bæði miklum hita og vægum kulda. Þá tók við hin stóra pælingin, hvað tekur maður með sér að borða og drekka í svona ævintýri? Sem betur fer hafði ég kíkt í heimsókn til vina minna í Hreysti daginn áður og var með tonn af drasli með mér. Niðurstaðan var að ofan í vasana fóru 4 gel, 4 kókos-súkkulaði orkustangir, 2 hafrakubbar og 1 sími sem var þó ekki étinn. 2 stórir brúsar af orkudrykkjum dugðu hinsvegar ekki, og það byrjuðu einhverjar pælingar með að stoppa kanski á drykkjarstöð á leiðinni, ef hópurinn væri með nógu gott forskot, og allir meðlimir drengilegir 🙂

Keppnin hófst á slaginu 11:00 og við vorum leidd út úr bænum, á leið í öfugann klukkuhring í kring um Snæfellsnes. Ég held að það hafi verið eitthvað um 90-100 manns í hópnum sem fór heila Jökulmílu, og það var gaman að sjá alla langlokuna þeysa í átt að fyrstu brekkunni. Ég og nokkrir aðrir vorum með svipaðar hugmyndir um að minnka hópinn aðeins, og jafnvel mynda lítinn hóp fremst og stinga af þannig. Brekkan var tekin sæmilega rólega, og ekki mikill æsingur þar, en fljótlega eftir klifrið sást kunnuglegt “múv” frá Hafsteini, öflug keyrsla strax eftir að hópurinn hafði teygst yfir klifrið. Þetta gerði það að verkum að allir áttu erfitt með að ná hópnum saman aftur. Ég tók einhvern þátt í þessu, og kunnugleg andlit voru framarlega í hópnum. Þegar við fórum svo niður brekkuna hinum megin hélt keyrslan áfram, en ég lét mig falla rólega aftur úr hópnum, til að láta líta út fyrir að það væri ekkert of mikið að gerast. Þegar ég sá að Hafsteinn var kominn með ágætis bil í næstu menn, en þar voru Miro og Árni saman, Helgi Páll og Óskar framarlega. Ég hóf þá aðra keyrslu og brunaði fram úr öllum til að ná í skottið á Haffa, en þeir fylgdu allir með. Enginn annar náði að hanga í okkur, og þá var litli fallegi 6 manna hópurinn okkar myndaður, og samanstóð af prýðishjólurum sem er gaman að eyða 4 tímum á hjóli með.

Samvinnan gekk mjög vel hjá okkur eftir að hópurinn róaðist. Við hættum að sjá í næstu menn og byrjuðum að skipta vinnunni á milli okkar, sem gekk mjög vel enda allir góðir hjólarar. Helgi Páll kom skemmtilega á óvart sem nýliðinn sem sneri á marga vana hjólara sem voru aldrei að fara að ná okkur, og fær rokkstig dagsins. Þegar keppnin var hálfnuð sáum við drykkjarstöð númer 2, og voru menn almennt sammála um að taka pissustopp og fylla á brúsana, en það var þó ábótavant að það var enginn heitur pottur á svæðinu þannig að við vorum fljótir að koma okkur burt. Við keyrðum og keyrðum um flata vegina og það verður að segjast að á köflum var þetta ansi þurrt, en hraðinn var góður og það kom einn hóll á leiðinni sem var hægt að standa hjólið á leiðinni upp til að teygja úr fótunum. Ég byrjaði að pæla aðeins í hvernig væri best að taka lokakaflann, en ég vissi af ágætu klifri á Vatnaleiðinni, uþb 100m hækkun yfir 1.9km. Mig hefur alltaf langað að gera árás seint í keppni og komast einn eða með einum öðrum burt í markið, og þarna var fínt tækifæri til þess.

Við fyrstu beygju hjá sjoppunni Vegamót voru uþb 130km búnir og við byrjuðum að hjóla í átt að brekkunni, allir saman. Það var engin sýnileg þreyta í mönnum, og meðalhraðinn búinn að vera um 35km/klst sem er bara fínt fyrir svona hóp held ég. Þegar við komum í brekkuna sat ég annar fyrir aftan Hafstein með hina fyrir aftan. Haffi byrjaði að setja gott tempó upp brekkuna og var greinilega tilbúinn fyrir einhvern hasar því þegar brekkan var uþb hálfnuð stökk ég fram úr honum og setti hátt í 1300w til að sleppa frá hópnum. Ég stóð upp og spretti aðeins lengur og leit fyrir aftan mig, sá að Haffi var sá eini sem gat svarað og var á leiðinni til mín, hinir hurfu strax. Ég tók ákvörðun um að setjast niður og bíða eftir Haffa, en ég taldi best að hafa hann með til að eiga meiri möguleika á að sleppa. Við keyrðum vel og jafnt yfir heiðina og að næstu gatnamótum þar sem 22km af mótvindi tóku við. Fyrir aftan mig sá ég að Óskar reyndi að stinga þá félaga af, en mótvindurinn gerði það að verkum að hann komst aldrei yfir til okkar, þannig að við vorum þá ansi öruggir. Þrátt fyrir það hjóluðum við ansi vel restina af leiðinni, en síðustu 25km voru farnir á 41km/h.

Á endanum komum við inn í Grundarfjörð aftur, og hjóluðum saman þessa löngu og aflíðandi hægribeygju í átt að markinu. Vindurinn kom vinstra megin frá og ég giskaði á að þegar við færum í átt á markinu myndi hann vera örlítið í bakið, en samt smá krossvindur. Ég hafði áður lent í því að láta plata mig til að taka vindinn á leið í endasprett, og þrátt fyrir að gera það full snemma þá ákvað ég að fara út í kantinn hægra megin til að koma í veg fyrir að Hafsteinn kæmist þangað og gæti verið í skjóli af mér. Stressið byrjaði að byggjast upp og ég lækkaði hraðann töluvert, en út í kantinum voru nokkrir sandkaflar og nóg af möl og holóttu malbiki, pókerinn var byrjaður og ég vissi að eins og vanalega var ég sá reynsluminni. Ég ákvað að vera ekki sá fyrri til í sprettinn, en þegar við vorum komnir mjög, mjög nálægt markinu, held það hafi verið ekki meira en 100 metrar, tók Haffi á rás fyrir aftan mig og gaf allt í botn, mér brá pínu og allar sprettæfingar fóru út um gluggann þegar ég tvískipti niður og setti í allt of þungann gír en reyndi þó allt sem ég gat til að ná honum. Það verður að segjast að ég átti ekki séns, Haffi var með þetta frá fyrsta andartaki í sprettinum og átti sigurinn fyllilega skilinn.

Fúlt að taka 2.sætið, fjórða skiptið í röð í sumar, en eftirá að hyggja þá er alls ekki svo slæmt að taka silfur í svona keppni. Maður lærir af þessu en það eru víst margar óskrifaðar blaðsíður í sprettkaflanum í reynslubókinni 🙂

Hjólamenn eiga heiður skilinn fyrir flotta keppni og frábært framtak. Allt í kring um keppnina var glæslega framkvæmt, og fílingurinn bara góður eftir þetta. Ég benti þeim á, eftir keppnina að það hefði ekki verið þægilegt að spretta í átt að ósýnilegri línu, en án þess að hljóma leiðinlega þá gerði þetta ekki góða hluti í sprettinum sjálfum. Fallegi blái sigurboginn var þó flottur, og ég er viss um að þegar allar götuhjólakeppnir á Íslandi skarta slíkum boga og þykkri, góðri, hvítri línu til að setja framdekkið yfir, verður lífið gott!

XC – Blálónsþrautin

Bláalónsþrautin er ansi mögnuð keppni. Það er engin hjólreiðakeppni á keppnisárinu sem hefur jafn stórt nafn og jafn marga þáttakendur, og það eitt dugir til að gera þetta mót að einskonar árshátíð keppnishjólreiðamanna á Íslandi. Margir æfa sérstaklega fyrir þessarri keppni og bíða heilt ár á milli keppna til að bæta tímann sinn, sigra æfingafélagana og fá sér bjór í Lóninu eftirá. Það er ekki erfitt að sjá afhverju fólk hefur svona gaman að þessu sporti, þegar maður tekur þátt í þessu móti.

Keppnin hefur frá því ég byrjaði í þessu sporti aldrei verið “A-markmið” sem slíkt, fjallahjól eru vissulega mín uppáhaldsgrein en ég held mest upp á tæknilegar brautir með miklu klifri, tveir hlutir sem eiga ekki við brautina í þessarri keppni. Í ár ákvað ég að setja hana þó í hæsta forgang og var þetta því mín fyrsta A-keppni á þessu ári. Vikan fram að keppni var plönuð vandlega, og æfingar voru stigvaxandi styttri og léttari, með fleiri rólegum dögum en þó passað að vera ekki of slakur til að missa ekki skerpuna sem þarf til að bregðast við árásum í keppnum (og setja pressu sjálfur!).

Keppnisdagurinn var hinn rólegasti frá því ég byrjaði að keppa í þessu sporti. Startið var kl 16:00 sem þýddi að engin þörf var á að fara snemma að sofa daginn fyrir, vakna snemma og vera með allt klárt. Þvert á móti vaknaði ég um 11 leytið og kíkti út í sólina, veðrið gat ekki hafa verið betra. Tvær kjúklingabringur flugu á grillið og það var ansi mikil sumarstemmning í bakgarðinum heima, lognið fyrir storminn. Við félagarnir frá Kríu brunuðum uppeftir og vorum vel tímanlegir og lítið af fólki mætt þegar við settum allt upp. Upphitunin fór í gang og það var smá spenningur í loftinu. Af gömlum vana fann ég Hafstein og tók í spaðann á honum og óskaði honum góðs gengis.

Það var ansi magnað að sjá 600 manns raða sér upp við Ásvallalaug þegar Albert formaður HFR byrjaði að smala öllum saman fyrir startið, en það fór fram við hesthúsin hinum megin við hæðina sem við hjóluðum yfir til að mynda röðina. Ég kom með fyrir fremst, til að tryggja að ég væri með góðann stað á startlínunni, og fór yfir planið í hausnum. Þetta var einfalt; ég vissi hverjum átti að fylgjast með, uppstillingin á Krísuvíkurveginum skipti einhverju máli, en það var seinni brekkan eftir að við förum inn á mölina, Hrútagil, sem var fyrsta verkefnið. Þar þurfti að setja allt í botn til að hrista sem flesta af, en ná þó nokkrum lykilmönnum með til að hjóla restina af keppnina ekki einn. Ég vissi að vindáttin gerði það að verkum að það yrði mótvindur frá Ísólfsskálabrekku og inn að Grindavík, þannig að það þýddi lítið að vera með æsing í brekkunni. Niðurstaðan var einföld, þetta yrði að vera endasprettur, og þá minn fyrsti í þessarri keppni.

Keppnin hófst með látum, bókstaflega. Hafsteinn ákvað að taka smá moldartékk í fyrstu beygju og þurfti að snúa niður hjólið og athuga málin með annarri hlið líkamans. Niðurstaðan var laus möl, þurrt, og smá blóð, en kanski fullt af adrenalíni í staðinn sem er ekki verra. Við flugum upp Krísuvíkurveginn og það leið ekki á löngu þar til Hafsteinn var mættur á svæðið og hópurinn keyrði á fullri ferð með fínni samvinnu uppeftir. Þegar við fórum inn á Djúpavatnsleið kom ég mér fyrir fremstur en sá að Eirik, Norðmaðurinn frá Merida, 19 ára strákur sem keppnir í elite flokk í Noregi og var mættur til að sigra daginn, var með sínar eigin hugmyndir um staðsetningu í hópnum. Hann fór fyrir framan mig og ég beint fyrir aftan hann, Hafsteinn var með okkur og einhverjir aðrir líka, en eftir fyrstu brekku var hópurinn strax farinn að slitna. Ég setti aðeins meiri hraða í þetta á leiðinni í næstu brekku og hópurinn minnkaði furðu hratt, en þegar komið var að Hrútagili kom Hafsteinn sér fyrir fremst, trúlega vegna þess að hann vissi alveg hvað ég ætlaði mér, og við byrjuðum að hamra upp brekkuna, en þarna var allt sett í botn til að hrista sem flesta af. Ég fór fram úr Haffa og reyndi mitt besta til að valda sem mestum skaða, og niðurstaðan var sú að aðeins einn maður komst með okkur Hafsteini, Eirik.

Þarna var það komið á hreint sem maður spurði sig að fyrir keppnina, Eirik var klárlega einn af þeim sterkari þennan dag. Fljótlega eftir klifrið sló ég af til að fá strákana með mér til að vinna smá á meðan ég náði andanum, en þá sást ekki í neinn fyrir aftan okkur og við héldum áfram keyrslunni. Nokkrum kílómetrum síðar byrjaði ég að sjá glitta í bróður minn, Óskar, fyrir aftan okkur og leist vel á að leyfa honum að ná okkur til að hafa einhvern til að vinna með, þannig að ég byrjaði að vinna minna fyrir hópinn til að gera honum auðveldara fyrir, en það var ekkert smáverk fyrir að ná þessum 2 sem ég var með. Hann stimplaði sig vel inn í hópinn og þá vorum við 4, en á þessum tímapunkti vorum við alveg búnir að skilja við restina, við sáum hina aldrei aftur út keppnina. Keyrslan hélt áfram framhjá Djúpavatni, en ég var ennþá staðráðinn í að losna við Eirik, og nýtti nánast hverja brekku til þess. Pressan var alltaf há, og það var þægilegt að vita til þess að maður væri í þeirri stöðu að geta sett mesta pressu í brekkum. Hafsteinn tók alltaf vel í brekkurnar og virtist ráða best við þær af strákunum, en Eirik og Óskar þurftu nánast alltaf að loka bilinu eftir brekkuna, sem eflaust þreytti þá mikið. Ókosturinn við stöðuna var að til þess að losna við Eirik þurfti ég að gera hluti sem myndu líklega hrista Óskar af mér líka, sem var ekki alveg jafn gott, þannig að það þurfti að fara fínt í hlutina.

Þegar keppnin var rúmlega hálfnuð og við vorum farnir að nálgast Vigdísarvelli og drykkjarstöðina var Eirik farinn að dragast aftur úr hópnum, Óskar hafði hangsað aðeins hjá honum í von um að geta valdið því að hann næði mér og Haffa ekki, en ákvað svo að skilja strákinn eftir og kom yfir til okkar sjálfur. Þarna vorum við búnir að hrista Eirik af okkur, og um leið og við byrjuðum að keyra á grófum veginum í átt á Ísólfsskálabrekku, og mótvindinum sem tók við þar, var alveg á hreinu að hann myndi eiga erfitt með að ná okkur einn.

Ég hugsaði vel og lengi um möguleikann á að stinga sjálfur af í Ísólfsskálabrekunni, en fæturnir höfðu aldrei verið svona ferskir á þessum tímapunkti í fyrri keppnum, og ég vissi að ég væri líklega sterkastur í brekkunum þennan dag. En mótvindurinn sem við vissum allir af, sem þurfti að glíma við alla leið inn í Grindavík, sló öll slík plön í gólfið og ég byrjaði að hugsa meira um endasprettinn. Við þremeningarnir héldum áfram góðri siglingu með jafnri og þægilegri samvinnu, í gegn um Grindavík og í áttina að síðasta malarkaflanum áður en við fórum inn á 3km langann lokakaflann sem lá að Bláa lóninu. Eftir að komið var á malbikið hrósaði Haffi samvinnunni og allir voru sammála um að hafa skemmt sér konunglega síðustu 100 mínúturnar.

Við stilltum okkur upp og leikurin hófst. Hraðinn var ekki mikill og menn skiptust reglulega á að leiða hópinn. Óskar gaf hressilega í og Haffi neyddist til að elta á meðan ég elti hann. Keppnin hélt áfram og áður en við vissum af voru aðeins 1000 metrar í mark. Fljótlega gaf Óskar aftur í, en um leið og Haffi byrjaði að elta hann setti ég líka allt í botn og fór hinum meginn á veginn til að gera erfiðara fyrir hinum. Ég var ekki alveg með vegalengdina í markið á hreinu þannig að ég hugsaði í hita leiksins að betra væri að láta Haffa ná mér, stinga mér fyrir aftan hann og gefa svo aftur í. Ég gerði það, Haffi fór siglandi fram úr mér og ég kom mér fyrir, fyrir aftan hann. En þarna kom svolítið í ljós, eitthvað sem myndi kosta mig sigurinn. Við Haffi vorum báðir með sömu tannhjól og þar af leiðandi sömu gírahlutföll, við vorum einnig báðir í þyngsta gír, þannig að það var ekki hægt að þyngja og keyra upp hraðann. Haffi sat eins lágt og hann gat á hjólinu, sennilega búinn að átta sig á þessu. Það eina sem ég gat gert var að reyna að snúa sveifunum eins hratt og ég gat, en á þessum punkti var snúningurinn það hraður að það var nánast ómögulegt að auka hraðann. Nokkrum metrum fyrir markið sá ég að þetta var ekki að gerast, við höfðum hjólað á nákvæmlega sama hraða, snúandi nákvæmlega jafn hratt, og það var allt of stutt í línuna. Hafsteinn sigldi beint í mark, fyrstur í tíunda skiptið í þessarri keppni. Ég fylgdi á eftir í öðru sæti, þó minn besti árangur en óneitanlega einn súrasti ósigur á stuttum ferli. Óskar átti besta daginn af okkur öllum og skaut sér í 3.sæti.

Alltaf lærir maður eitthvað af svona keppnum og það er aðeins of auðvelt að vera snjall eftirá, þegar maður fer að hugsa “hvað ef ég hefði verið með stærra tannhjól, osfrv.”. En staðreyndin er sú að keppnin er búin og Haffi vann glæsilega. Það situr þó eftir að þetta var án efa skemmtilegasta Bláalónsþraut sem ég hef tekið þátt í, en frábært veðrið, skemmtilegir hjólarar, frábært form og góður árangur spilaði allt vel inn í. HFR eiga heiður skilinn fyrir að standa að frábæru móti, ég er strax orðinn spenntur fyrir næsta ári!

© 2021 On your left

Theme by Anders NorenUp ↑