Myndir: David Robertson og Elvar Örn Reynisson

Einn af mikilvægustu hlutunum við að keppa, að mínu mati, eru mótherjarnir, andstæðingarnir, samkeppnin. Það eru líklega flestir sammála um að ef lítil samkeppni er, þá er lítið sem ýtir manni áfram til að gera betur en síðast, erfitt að bæta sjálfann sig, og kanski fyrst og fremst, þá dregur lítil samkeppni úr gildi góðs árangurs í keppni. Ég hef alltaf verið á þessarri skoðun og mér finnst þetta skipta höfuðmáli í þeim keppnum sem ég tek þátt í, en ég hef alltaf verið svolítið meira fyrir að einbeita mér að einum hlut og gera hann mjög vel, frekar en að dreifa mér yfir margar greinar eða áhugamál.

Það er annað sem er mér mjög mikilvægt, og eitthvað sem ég trúlega minnist oft á, og það eru andstæðingarnir sjálfir. Í gegnum tíðina hef ég kynnst alls konar fólki, ótrúlega mismunandi fólki og ekki aðeins þeim sem ég lít á sem mótherja mína heldur líka fullt af fólki sem er á öðrum stað í hjólreiðakeppnum. En allt þetta fólk skiptir máli, því þetta er jú samfélagsleg íþrótt og mikil samskipti fara fram milli fólks, sama hvort það eru handabendingar á 60km/h eða klassíska spjallið eftir keppni. Eðlilega pælir maður meira í þeim sem eru á svipuðu stigi og maður sjálfur, og eyðir því meiri tíma með þeim í keppnum og í öðrum hjólreiðum. Að hafa einhvern sem maður ber virðingu fyrir, sem sýnir íþróttamannslega hegðun og tekur tillit til annarra, á sama tíma og keppnisskapið er til staðar, er ekki sjálfgefið, og alls ekki eitthvað sem maður getur stjórnað sjálfur. Ég tel mig því heppinn að eiga mér nokkra reglulega andstæðinga sem passa inn í ofangreinda lýsingu, ég er alltaf þakklátur fyrir að þessir einstaklingar séu til staðar, og tilbúnir til að berjast um gullið!

Í gær fór fram Heiðmerkuráskorunin, árleg fjallahjólakeppni í boði HFR, haldin á stígum og vegum Heiðmerkur í kvöldsólinni (eða rigningunni, eins og í gær). Þetta er skemmtileg keppni vegna þess að hún fær alltaf góða þáttöku og gott skap í fólki, skemmtileg krakkakeppni og auðvitað góðum hamborgurum í boði Arnarins að keppni lokinni. Keppnin er stutt, eða aðeins 24km fyrir A-flokk, og það á hröðum stígum þar sem má ná hátt í 30km meðalhraða, þannig að átökin eru mikil yfir þann stutta tíma sem tekur að ljúka keppni.

Heiðmerkuráskorunin var fyrsta hjólreiðakeppnin sem ég sigraði, árið 2012, þannig að hún er sérstök fyrir mér vegna þess. Ég var ansi vongóður með skráningu góðra manna fyrir keppni, og sá nöfn margra öflugra hjólreiðamanna, en þó vantaði eitthvað 🙂 (Hafsteinn þér er fyrirgefið, hamborgarinn bætti fyrir þetta!) Ég hafði þó sett stefnuna á að setja brautarmet þetta kvöld, þar sem keppnin er ein af fáum sem breytast ekkert á milli ára, þannig að það er hægt að miða við að bæta tímann sinn þarna með nokkuð góðri nákvæmni. Brautarmetið stóð í 49:07, og var sett af Helga Berg í fyrra, ég var aðeins einni sekúndu á eftir honum þá. Aðstæðurnar í ár voru mjög svipaðar þeim í fyrra, mjög blautt og einhver rigning, stígarnir gripu mjög vel vegna þess að mölin var þétt í bleytunni en það var þó svolítið meiri vindur í ár.

Keppnin fór af stað á slaginu 20:30 og ég tók start sem ég hafði vanið mig á í vetur í cyclocrosskeppnunum: allt í botn. Ég tók strax forystu og keyrði stutta kaflann á veginum sem liggur að fyrsta einbreiða stígnum. Á þeim tímapunkti, aðeins nokkrum mínútum eftir start, hafði ég dregið Helga og Óskar frá hópnum, og það var strax komið bil í næstu menn. Ég hélt áfram að keyra mig út, og var kominn í þægilegann timetrial-hjartslátt, sem ég get haldið í að minnsta kosti klukkutíma, með smá jákvæðri hugsun 🙂 Mjög fljótlega eftir að við komum inn á stíginn stækkaði bilið milli mín og Helga og ég var sloppinn, ég kíkti ekki fyrir aftan mig fyrr en ég var kominn aftur upp á veginn hinum megin í brautinni, en þar tók við smá slagur við mótvindinn, á örlítið lengri beinum kafla á flötum malarvegi. Ég sá þar að Óskar hafði skilið strákana eftir og var kominn í hörkueltingarleik við mig. Fljótlega eftir að ég komst aftur inn á stíginn af veginum hélt keyrslan áfram meðfram vatninu og í átt að markinu, til að klára fyrsta hring af tveimur. Ég var hættur að sjá nokkurn fyrir aftan mig, og sá að tíminn á hringnum var 24:01, brautarmet. Hress með þetta hélt ég áfram, en ég var þó farinn að finna kunnuglega tilfinningu. Þegar mann vantar einhvern til að sparka í rassinn á sér, er auðvelt að slaka örlítið á þrátt fyrir að geta farið hraðar. Ég held að þetta sé eðlilegt, maður á alltaf sínar bestu keppnir þegar það er erfiðast að hafa fyrir vinnunni, erfiðara er að ýta sjálfum sér áfram. Þetta er aðdáunarverður hæfileiki sem timetrial sérfræðingar eru mjög góðir í.

1512108_10203655033114887_2886886926986872978_o

Ég kláraði keppnina á nýju brautarmeti, 48:39, eitthvað um einni og hálfri mínútu á undan Óskari, sem var svo fylgt eftir af Bjarka Bjarnasyni, glæsilega hjólað af þeim, og gaman að sjá sterka menn eins og Sigurð Hansen taka 4.sætið og nýja menn koma sterka inn, td. Helga Pál í 7.sæti. Keppnin var stórgóð, og verður klárlega betri með hverju árinu. HFR eiga heiður skilinn fyrir að standa að góðu móti, tímanlega í öllu og með allt á hreinu, þeir voru líka flottir að taka skrefið að því að nota Hjólamót.is sem skráningarkerfi fyrir keppnina. Örninn var flottur eins og vanalega, og borgararnir ekki síðri en glæsimennin sem mönnuðu grillið!

Comments

comments