Keppnin

WOW Cyclothon. Lengsta og stærsta hjólreiðakeppni ársins, sé umgjörð, vegalengd og heildartími mældur. Það er í raun engin keppni eins og þessi, einstaklingar, 4 manna lið eða 10 manna lið keppast um að hjóla hringveginn, 1332 kílómetra á sem styðstum tíma. Liðin eru með bíl fyrir alla liðsmenn og setja út 1-2 menn í einu til að dreifa álagi, og reyna að hjóla nokkur lið saman til að mynda hóp sem hjálpast að við að brjóta vindinn og gera ferðina skemmtilegri. Álagið sem hvílir á öllum, hvort sem þeir eru hjólreiðamenn eða ökumenn, er ótrúlegt og úthaldið sem keppnin krefst er ekki síður andlegt heldur en líkamlegt.

Það er ógleymanleg lífsreynsla að taka þátt í þessarri keppni, en ég tók þátt árið 2012 þegar keppnin var haldin í fyrsta skipti. Ég var settur inn í WOW liðið á síðustu stundu, ásamt Skúla Mogensen, Gunna Gylfa og Emil Tuma, og var þá nýbúinn að taka mín fyrstu spor í götuhjólreiðum, og átti langa leið á þann stað sem ég er á í dag. Við tókum þátt með það í huga að hafa gaman að þessu, en þá var langsterkasta liðið, lið Hafsteins, Árna, Pálmars og Kára, og við þóttumst vissir um að þeir myndu taka þetta. Það árið var þetta mjög skemmtileg upplifun, við tókum flott 2.sæti ásamt 2 öðrum liðum, og deildum góðum stundum inn í húsbíl á fleygiferð.

Workforce A

10356315_724837114239410_5956405335708170098_n

Mynd: Workforce

Í ár var kominn aðeins annar tónn í mig, eftir að hafa sleppt keppninni í fyrra var áhuginn fyrir þáttöku orðinn ansi mikill. Helsti munurinn var að sjálfsögðu sá, að nú skyldum við sigra keppnina. Ég var meira að segja minntur á það að ég hafði lofað að taka ekki þátt aftur fyrr en ég vissi að liðið mitt gæti sigrað. Undanfarið hefur verið skemmtileg þróun í keppnisliðum í hjólreiðum á Íslandi, menn eru að vinna mun betur saman en áður, og ég tel að Kría-Specialized liðið eigi stórann hluta af þeirri þróun. Við settum saman góðann grunn að liði sem samanstóð af Emil Þór, Óskari og sjálfum mér, en okkur vantaði fjórða manninn. Erfitt er að finna góðann hjólara á Íslandi sem hefur áhuga, og uppfyllir þær kröfur sem þetta dúndurlið hafði sett. Bjargvætturinn var enginn annar en fyrrverandi atvinnuhjólarinn Tigran Korkotyan, frá Armeníu, en Tigran er starfsmaður hjá Specialized og mikill hjólari, ekta klifurköttur og hafði hann mikinn áhuga á að kíkja til Íslands og upplifa landið á þennan hátt. Það kom á daginn að hann var dúndurgóður hjólari og fullur af reynslu sem hann miðlaði vel til okkar áhugamannana, frábær gaur og topp liðsmaður!

Ekki má gleyma aðalmönnunum, ökumönnunum eða “managerunum” eins og við köllum þá í dag, en án þeirra hefði maður gleymt að borða, gleymt að vakna og jú, gleymt hjálminum og einum hanska inn í bíl á leiðinni út að hjóla 😉 Sölvi Sig og Ingi Már voru svo sannarlega hetjur keppninnar, og héldu lífinu í þessu liði. Það er ómetanlegt að geta einbeitt sér 100% að keppninni, að því einu að hjóla, þegar maður hefur þvílíka snillinga sem aðstoðarmenn, og ég er ekki lítið þakklátur fyrir það.

Startið

10514365_912395478777096_1653686379187875761_o

Mynd: Hjólamyndir

Startið var mjög mikilvægt í þessarri keppni, en fjölmörg lið voru á svæðinu og ekki öll á sama stað hvað varðar form og kunnáttu. Einnig var ákveðin regla í gildi, sem var þannig að séu fleiri en 4 lið að hjóla saman, mættu skiptingar ekki vera oftar en á 25 mínútna fresti. Allt í lagi fyrir okkar lið, en gæti skemmt samvinnuna með öðrum liðum. Það var því ákveðið, eftir létt eyrnahvísl með öðrum vel völdum liðum, að setja út mig og Emil til að keyra upp hraðann og teygja á hópnum, en við vorum tveir vegna þess að fyrsti leggurinn var frá bænum og alla leið að afleggjaranum inn í Hvalfjörð, þannig að ekkert mátti klikka á leiðinni. Við vissum fyrir að Trek liðið myndi setja út tvo af sínum bestu mönnum, Haffa og Árna, og var víst að hraðinn yrði mikill strax og fylgdarhjólið gæfi okkur stjórn á keppninni.

Sú var aldeilis raunin, um leið og við komum framhjá N1 í Ártúnsbrekku fór fylgdarhjólið og Haffi kom fljúgandi framhjá mér, “eigum við að byrja þetta?”. Þarna hófst leikurinn og uþb 4-5 lið byrjuðu strax að skiptast á að hjóla fremst, með nokkur önnur lið í aftursætinu, vonandi að þau gætu haldið hópinn. Ég, Haffi, Árni, Emil og Steinar í Hleðsluliðinu vorum e.t.v. duglegastir við að keyra upp hraðann, en þarna vorum við að hjóla á svipuðum hraða og við myndum gera í 60-100km keppni, ekki 1332km keppni! Planið heppnaðist mjög vel og þegar komið var undir Esjuna og í átt að Hvalfirði voru liðin afar fá eftir, og stuttu seinna byrjuðu sterkari menn að missa af okkur. Niðurstaðan var sú að aðeins þrjú lið héldu forystu, Trek, Hleðsla, og Workforce A. Ég henti mér fljótlega inn í bíl og leyfði Óskari að taka við taumunum, þarna var fjörið byrjað og strax kominn fiðringur í magann, spennandi tímar framundan!

Ferðalagið

Ó hvað ég saknaði húsbílsins þegar nokkrir tímar voru liðnir, inn í pínulitlu 13 manna rútunni okkar. 6 gaurar, 7 hjól og heill ruslahaugur af búnaði og mat, það var ekki mikið um pláss hjá okkur. Sem betur fer hafði Sölvi græjað frábært rúm aftast í bílnum, þannig að við gátum allavega lagt okkur, ef ekki sofnað í nokkrar mínútur. Við vorum þó ansi hressir, strákarnir, og var mórallinn góður alla leiðina. Jafnvel á erfiðustu tímum þegar þreytan var mikil, var hressleikinn til staðar.

Við duttum inn í ágæta rútínu sem byggðist á 25 mínútna skiptingum, menn hjóluðu 25 mínútur og fengu á móti 75 mínútna hvíld, sem var langþráð þegar liðið var á keppnina. En það sem gerði gæfumuninn voru næturvaktirnar, þar sem menn fengu að skiptast á að taka þriggja manna vaktir á meðan einn svaf yfir tvær vaktir, sem þýddi að á meðan þrír hjóluðu 25 mín hver, fékk fjórði maðurinn 150 mín (2,5 klst) hvíld, sem var yfirleitt nóg til að leggjast niður og sofna í smá stund. Ég fékk svo leyfi til að taka tvisvar sinnum 50 mínútur á hjólinu, sem uppskar örlítið meiri hvíld, en verandi í ákveðnu lykilhlutverki í liðinu var sú hvíld aldeilis velkomin!

Það er erfitt að lýsa því hvernig er að keppa í svona keppni, þegar svefnleysið og andleg þreyta byrjar að sýna sig. Minnið verður gloppótt og alls konar hlutir fara að renna saman í huganum, en maður reynir sitt besta að fókusa á verkefnið, og missa ekki jákvæðann andann. Við hjóluðum í gegnum tvær nætur, sú fyrra auðveld þar sem flestir höfðu fengið nægann svefn nóttina fyrir keppni (þó ekki nema 5 tímar hjá mér), en ég man að það var mjög hressandi að vakna rétt eftir Akureyri eldsnemma morguns og fá nýbakaðann snúð í hendurnar. Líkamlega þreytan var ekki svo mikil, í raun mikið minni en mátti búast við. Formið sýndi sig vel í þessarri keppni, og langar æfingar vetursins komu heldur betur að gagni þegar leið á.

Það var þó seinni nóttin, sú sem leið frá Öxi og inn á suðurlandið sem var erfiðasti kafli keppninnar. Ég hafði gert árás bæði rétt fyrir Egilstaði sem var ekki svo kostnaðarsöm, en einnig var ég með smá læti á Öxi og kláraði dæmið með stórárás strax og brekkan niður Öxi var búin. Þessu fann ég vel fyrir, og ég var feginn að fá smá hvíld eftir það. Ég var svo vakinn uþb 2 tímum síðar til að halda áfram keyrslunni, ég var tímastilltur nákvæmlega við Haffa í Trek liðinu og við hjóluðum aldrei hægt saman félagarnir. Þarna hófust 6 vaktir með tveimur öðrum hjólurum þar sem ég var aftastur í röðinni á leið í langa hvíld. Fullkomin tímasetning þar sem ég myndi fá mína hvíld seint, og myndi vakna rétt fyrir stærstu átökin í lok keppninnar. Þessar 6 vaktir voru þó sennilega með því erfiðara sem ég gerði á þessarri hringferð, ég byrjaði fljótlega að finna fyrir rosalegri syfju og gat engann veginn hrist hana af mér. Í hvert sinn sem ég fór út byrjaði ég að fá einhverskonar slikju yfir augun, stór grænn hringur sem huldi allt sem ég sá, og stækkaði og breytti formi eftir því sem leið á keyrsluna, og olli því að ég sá varla hvert ég var að fara. Ég man lítið eftir umhverfinu eða leiðinni sem við fórum og líðanin var ansi slæm. Fæturnir voru sennilega það eina sem virkaði, en þarna var ég sennilega hálfnaður á leið í gúmmíkallaástandið sem fylgdi á eftir undir lokin. Ástandið var líka ansi skringilegt þegar komið var inn í bílinn fyrir stutta hvíld, ég byrjaði að reyna að bæta svefnleysið með því að borða nánast hvað sem ég sá, og gat ekki hætt að borða þegar ég sat inn í bíl, matarlystin var örugglega það eina sem virkaði í hausnum á mér. Í rauninn mætti segja að það eina sem hélt mér gangandi var það að ég var alltaf úti með Haffa, við hjólum alltaf hratt saman og það er alltaf jafn öruggt að hjóla með þessum meistara, samvinnan fullkomin og allt gengur eins og í vél, en ég var þó á tímabili hræddur um að ég myndi sofna á hjólinu og hjóla kallinn út af veginum. Feginn að það gerðist ekki.

Egilsstaðir

Mynd: Emil Þór Guðmundsson

Mynd: Emil Þór Guðmundsson

Hleðsluliðið hafði staðið sig frábærlega í samvinnunni við bæði mitt lið og Trek liðið, og keyrslan var þétt og góð hjá öllum sem hjóluðu. En ég vissi frá upphafi, og ég held að það hafi allir vitað, að það kæmi sá tími þegar keppnin milli okkar og Trek liðsins myndi virkilega byrja. Það var fljótlega eftir Akureyri sem þreytumerkin byrjuðu að sjást á mönnum, fyrsta nóttin var liðin og ekkert víst að allir hefðu fengið að sofa eins og þeir vildu. Ég tók fljótlega þá ákvörðun fyrir hönd liðsins að í brekkunni fyrir Egilsstaði yrði klippt á Hleðsluliðið og forystan tekin af aðeins 2 liðum. Þetta var ekki mikið verk, í hreinskilni sagt, ég hafði hjólað úti einhverja 40km þar sem mælingar að þessarri brekku voru örlítið skakkar og ég þurfti að bíða lengur en ég átti von á. En fæturnir voru ferskir, ég hafði verið duglegur að hvíla á milli keyrslna og var tilbúinn í árásina. Bjarki og Benni voru með mér úti þegar komið var í brekkuna, en allir bílarnir tóku framúr okkur fyrir hana, og skiptu bæði mótherjaliðin út sínum mönnum, Steinar og Árni komu út á meðan ég hélt áfram að hjóla. Ég beið ekki mjög lengi þegar brekkan hófst, stóð upp og kom mér í stöðu með strákunum, og gaf svo hressilega í, en þó ekki þannig að ég myndi stressa Trek liðið of mikið. Árásin þurfti að vera hnitmiðuð til að losna við eitt lið, á meðan samvinnan við hitt liðið héldist. Þannig sprettaði ég í stutta stund, sneri mér svo við og sá að Steinar svaraði ekki, Árni nálgaðist og ég leyfði honum að loka bilinu og taka þátt í klifrinu. Nokkur  hundruð metrum síðar fóru Haffi og Óskar út og þar með var þessu lokið; toppliðin voru nú ein.

Öxi

Öxi er einstakt fyrirbæri. Enginn annar staður á hringleiðinni er jafn hættulegur, bæði tæknilega á hjólinu og taktískt fyrir liðin og einstaklingana sem keppa. 27km af þéttum malarvegi og uþb 400 metra klifur, sem er fylgt eftir af hröðu bruni niður hlykkjóttann veg, alla leið inn Berufjörðinn, Öxi er hressandi kafli sem gerir keppnina ótrúlega spennandi. Eitt af mínum verkefnum í þessarri keppni var að hjóla Öxi, ég hafði sérstakann áhuga á því, og þegar komið var að teikniborðinu fyrir keppnina var hugmyndinni að árás þar oft kastað á milli manna. Það var áhugaverð pæling, þarna hafði ég tvo styrkleika í klifri og malarvegi, og á blaði lítur enginn annar staður á landinu betur út fyrir tilraun til að slíta sig frá hinu liðinu. Ókosturinn? Bara uþb 600km af spennu, stressi og endalausri keyrslu í bæinn þegar malarveginum lýkur, ekki alveg það hentugasta, og þegar á hólminn er komið, ekki eitthvað sem menn eru tilbúnir í. Það var tekin sú ákvörðun einhverstaðar á norðurlandinu að þarna myndum við ekki gera tilraun til að komast burt, en það var haldið opnu fyrir árásum, helst til að láta reyna á Trek liðið.

Við mættum spenntir að malarkaflanum og sáum að Raggi og Bennsi voru að græja einhvern út, við sáum ekki hver það var eða á hvernig hjóli hann yrði þegar hann kæmi niður brekkuna að bílnum okkar. David hafði botnað Audiinn sinn til að athuga aðstæður áður en liðin mættu á svæðið, og hann sagðist viss um að Trek menn myndu notast við götuhjól. Ég bjóst þarna við að sjá annaðhvort Árna eða Haffa, og var vel viðbúinn þeim. Ákvörðunin var tekin, út með götuhjólið og ekkert pælt í að lækka loftþrýsting í dekkjum, Árni var kominn út og var á leiðinni og það var ekkert annað í stöðunni en að keyra á eftir honum.

Árni var með skemmtilegann stíl sem gekk í gegnum alla keppnina, amk þegar hann hjólaði gegn mér. Þetta minnti svolítið á track hjólreiðar, þar sem menn hjóla rólega til að reyna að plata andstæðinginn til að taka forystuna, það er nefnilega betra í þannig stöðu að vera fyrir aftan og geta þannig komið á óvart. Árni hjólaði í raun alltaf í vörn, fylgdist vel með mér og var alltaf tilbúinn fyrir hasa, en var þó aldrei fyrri til að gera eitthvað. Þetta sá ég hjá honum þegar við tveir tókum næstum öll mikilvægu klifur hringferðarinnar. Ég hélt á eftir honum upp malarveginn og spilaði með honum, lét hann þó yfirleitt leiða og hægði á mér í takt við það þegar hann reyndi að ýta mér framfyrir sig.

Það kom að því að mig langaði að gera eitthvað, þannig að ég setti smá kraft í þetta og athugaði hvernig Árni tók í það, hann hélt vel í við mig þannig að ég slakaði aftur á. Meiningin var aldrei að reyna að stinga af, heldur frekar að athuga formið hjá hinu liðinu. Fljótlega eftir grófa beygju gaf ég meira í og þá aðeins lengur, bjó fljótlega til bil og Árni þurfti að gefa vel í til að loka því, sló þá aftur af. Restin af leiðinni var tíðindalaus, við hjóluðum saman inn í þokuna og fljótlega sáum við aðeins framdekkin á hjólunum okkar, ekkert annað. Þegar komið var á toppinn sáum við bílana og Bjarka og Óskar klára í slaginn, við skiptum og ég stökk inn í bíl til að fylgjast með bruninu niður.

Eftir æsilegann bílaeltingaleik komum við loksins niður úr skýiinu og mér til mikillar gleði sá ég að Óskar var kominn töluvert á undan Bjarka þegar þeir komu niður á flatann. Ég sagði við strákana að mig langaði út til að gera eitthvað úr þessu tækifæri, þannig að bíllinn var botnaður (70km/klst!) og mér fleygt út þegar nokkurhundruð metrar voru eftir af malarveginum. Ég leit aftur fyrir mig og brá pínu, þarna var Hafsteinn mættur á hjólið og alveg helillur! Ég gaf hressilega í og byrjaði nánast strax að hamra á pedulunum til að ná að halda bilinu, sem mér tókst að gera. Árna var fleygt út til að aðstoða Haffa og þegar ég sá það kom smá bros á vör; þeir voru smeykir við þessa árás og voru greinilega ekki nógu öruggir með að setja einn út á móti mér. Við tók ansi æsilegur eltingaleikur, þar sem ég á einum tímapunkti taldi gróflega 15 sek forskot, en ég setti þarna í 20 mínútur hæstu afltölur sem ég hef séð fyrir þessa tímalengd. Við komum inn á malbikið og æsingurinn hélt áfram, ég sá að Haffi skipti um hjól, TT hjólið var tilbúið fyrir hann og Valli fylgdi á eftir á öðru TT hjóli. Það var greinilega mikil alvara í mönnum og ég hrópaði á strákana í bílnum að setja einhvern út. Út kom Emil sem reyndi sitt besta en var ekki alveg nógu heitur til að halda hraðanum, enda nýmættur út. Þess má einnig geta að Haffi var svo æstur í fjörið að hann hafði líka stungið Valla af og við vorum einir í eltingaleik.

Þarna var nóg komið af fjöri, ég hafði fengið langþráða spennu og sá ekki fram á að hjóla alla leið í bæinn á þennan hátt. Ég hætti keyrslunni, lækkaði hraðann og sá Haffa og hans lið ná mér á augabragði. Þarna fór ég inn og Óskar út, og á nákvæmlega sama tíma fórum við Haffi í langþráðann svefn, til að gera okkur klára fyrir hið skemmtilega óendanlega suðurland.

Kambarnir

Mynd: Arnold Björnsson

Mynd: Arnold Björnsson

Við vissum að Trek liðið væri með tvö TT hjól. Við vissum líka að það væri erfitt, ef ekki ómögulegt að ná einhverjum sem fer einn af stað á slíku hjóli efst á heiðinni eftir Kambana upp frá Hveragerði. Þarna var komin stór áhætta í leikinn og klárlega eitthvað sem við vildum hafa áhrif á. Eftir æsinginn á Öxi róuðust bæði liðin og stífar 25 mín vaktir hófust, þar sem mönnum var spilað saman skv formi til að koma í veg fyrir ójafnvægi og einnig halda báðum liðum rólegum. Ingi og Sölvi tóku eftir að í hvert sinn sem ég var settur út, var Haffi settur á móti mér. Árni gegn Óskari, Emil gegn Bjarka og Valli gegn Tigran.

Þegar lokaspenningurinn byrjaði að magnast upp, uþb þegar við fórum að nálgast Selfoss, vorum við búnir að leggja örlítið á ráðin. Okkur datt í hug að Trek liðið væri líklegt til að hvíla Haffa og Árna eins mikið og hægt væri, svo þegar kæmi að Kömbunum myndu þeir setja Árna út til að klifra, og Haffi myndi vera klár með TT hjólið á toppnum, til að reyna að keyra allt í botn alla leið í markið. Við vorum nokkuð öruggir með að láta þetta ráðast af endaspretti, þannig að næsti hluti plansins fór að snúast um hvernig við gætum spilað með hitt liðið. Við tókum til ráðs að setja mig út með öðrum hjólara, til að plata þá til þess að setja Haffa út. Svo þegar allir væru komnir saman myndi ég strax hætta að hjóla og fara aftur inn í bíl. Þetta myndi riðla til planinu þeirra. Þetta var svo sett í gang, fyrst milli Selfoss og Hveragerðis, en þá kom það fyrir að Haffi lenti í vandræðum með hjólið, keðjan var föst og hann virtist ekki ætla að ná skiptingu. Þarna voru tveir möguleikar, annaðhvort myndum við notfæra okkur þetta eða ekki. Ég held ekki mikið upp á það að sigra keppnir út á mistök eða óheppni annarra, ég gaf Óskari merki um að halda áfram og stökk sjálfur inn í bíl og beið næsta tækifæris. Við endurtókum leikinn rétt fyrir Hveragerði, settum út mig og Tigran, og Haffi fór út á móti. Ég lét eins og ég ætlaði að halda áfram en stoppaði og fór aftur inn í bíl.

Þannig hófst klifrið á því að Haffi, Tigran og Óskar fóru saman inn í Kambana, ég beið spenntur nokkur hundruð metrum ofar og Árni líka. Við skiptum allir og við Árni tókum við. Taflið hélt áfram milli okkar Árna, með þeirri undantekningu að vörubílstjóri á vegum Eimskips virtist halda að hann ætti eina af tveim akreinum og hafði hug á að keyra okkur út af veginum. Nokkrum orðaskiptum síðar héldum við upp bröttustu brekkuna og þá síðustu á leið upp á heiðina. Árni sló skyndilega af og hægði mikið á sér, en mér tókst að bregðast við og hanga fyrir aftan hann, og nokkrum auglitum aftur fyrir mig til að athuga með umferð síðar, gerði ég öfluga árás. Það verður að segjast að þarna setti ég allt sem ég átti í þetta og sikksakkaði upp brekkuna. Fyrir aftan mig sá ég Árna fjarlægjast, og bíl Arnarins koma á fullri ferð framhjá mér, mér hafði tekist að sprengja Árna og neyða Haffa út, og það á götuhjóli því þarna voru allir orðnir svo spenntir að það var sennilega stutt í raflost í rigningunni, ekkert mátti klikka og TT hjólið var út úr myndinni. Ég sló strax af, settist niður og beið eftir að Haffi næði mér, sem tók ekki langann tíma. Við hjóluðum upp á heiðina og sáum að báðir bílarnir voru komnir fyrir framan okkur og voru að dæla út mönnum.

Lokaspretturinn

10421619_1437631889848728_8799100543861757452_n

Mynd: Arnold Björnsson

“Allir út” heyrði ég Haffa segja inn í bílinn sinn, og það var sko raunin. Bæði liðin hentu út öllum sínum hjólurum og á augabragði vorum við 8 talsins á veginum þegar hann hætti loks að fara upp í móti. Þarna voru 27 kílómetrar í mark, rúmlega 1300 kílómetrar búnir og allir hjóluðu eins og það hefði bara verið upphitun. Andrúmsloftið var ansi magnað, það hellirigndi, smá vindur og brjálað stress í mönnum. Við byrjuðum að raða okkur upp í einhverskonar fylkingu, ég passaði að nýta Óskar sem skjól og Emil til að fylgjast með hinum, en Tigran datt aftur úr hópnum þegar við byrjuðum að nálgast Litlu kaffistofuna. Þarna varð ég viti af þvílíkum krafti sem Bjarki og Valli sýndu, en fyrir þetta var ég alveg viss um að þeir yrðu ekki til vandræða þegar hraðinn myndi aukast á leið í markið. Svo var ekki, báðir voru oftar en ekki fremstir í hópnum og unnu sína vinnu mjög vel, Haffi var að miklu leyti laus við að vera fremstur, en Árni kom svo líka inn í spilið þegar lítið var eftir.

Ég var alveg að farast úr spennu þegar við skutumst framhjá beygjunni sem liggur inn í Heiðmörk. Þarna voru aðeins nokkur hundruð metrar eftir og einn pínulítill hóll stóð á milli okkar og marklínunnar. Ég sá að Árni setti allt í botn fyrir framan Haffa og hraðinn jókst rosalega. Það munaði ekki miklu að ég missti af hópnum þarna, ég þurfti að taka svoleiðis rosalega á til að hanga í hópnum en það rétt hafðist. Við komum yfir hæðina og Árni fór þá aftar í hópinn og var uppröðunin þá Haffi, Óskar, ég. Ég fylgdist vel með og reyndi að vera eins slakur og hægt var, sá að Haffi byrjaði að keyra upp hraðann, og tók þá ákvörðun að koma mér fyrir framan Óskar til að vera eins nálægt Haffa og hægt var. Þetta var að mestu leyti vegna þess að ég var hjólandi á vegöxlinni og hafði ekkert pláss til að vinna með, þannig að það mátti ekki taka neina sénsa. Spretturinn fór í gang og ég stóð upp, en beið í örskamma stund beint fyrir aftan Haffa, áður en ég sá línuna og byrjaði minn sprett. Allt var sett í þetta, mér leið eins og fæturnir væru úr gúmmíi og ég væri á deyfilyfjum, tilfinningin var engin og mér fannst eins og ég væri að ýta mér áfram með hugaraflinu einu. Kanski var það svoleiðis, en það var greinilega nóg, ég rétt skaust framúr, og kom yfir línuna, fyrstur með hjólalengd í Haffa.

Tilfinningin var ótrúleg, þetta var án efa einn stærsti sigur í mínum ferli og það frábæru liði og einstakri samvinnu milli liðsfélaga og keppinauta að þakka. Það er í raun ólýsanlegt, hvernig það er að taka endasprett eftir rúmlega 39 tíma ferðalag umhverfis landið, ýmist á hjóli eða sitjandi í keng í lítilli rútu. Menn sögðu að þessi keppni færi í sögubækurnar, og það er vægast sagt frábært að vera hluti af þeirri sögu.

 

Comments

comments