Month: March 2019

Æfingaferð og byrjun keppnistímabilsins

Síðasta æfingaferðin í vetur er nýliðin, en ég var á Spáni í 2 vikur í þetta skiptið. Í vetur hef ég farið í þrjár æfingaferðir, og allar voru á Calpe svæðinu á Spáni, sem mér finnst henta mjög vel fyrir mínar æfingar, gefur mikið af fjölbreyttu landslagi, og nóg af möguleikum í leiðavali. Ferðin sjálf gekk vel, náði mér í 13 daga á hjólinu með einum hvíldardegi inniföldum, hjólaði nokkra daga einn, og nokkra með félögum á svæðinu, og svo var heil vika með æfingahóp Breiðabliks sem var í æfingaferð á sama svæði. Ég var með í þeim hóp sem leiðsögumaður og tæknimaður, ásamt því að ausa yfir alla óþolandi afrekssögum og tala um hvað ég ráði við marga diska af eftirrétt yfir kvöldmatnum alla dagana.

Nokkrar áhugaverðar tölur úr ferðinni:

  • 55 klst af æfingum
  • 1400 km
  • 2500 TSS stig
  • 23.000 metrar af klifri

Það styttist í fyrstu UCI keppni á árinu en fyrst fæ ég 2 vikur af hvíld og æfingum á Íslandi. Lappirnar eru búnar að kvarta í nokkra daga og ég held ég gefi þeim loksins verðskuldaða hvíld, en það er þó mikilvægt að halda áfram að æfa, og nú fer ég í svokallað „race conditioning“ tímabil þar sem ég er ekki endilega að byggja upp form, heldur frekar að skerpa formið, til að vera tilbúinn í hámarks átök í Apríl. Fyrir þá sem eru forvitnir þá þýðir þetta að ég minnka æfingamagnið sjálft, þeas fækka klukkutímum á hjólinu, en færi meiri áherslu á erfiðar interval æfingar eins og spretti nálægt eða á hámarks álagi.

Eitt af því sem kemur stöðugt á óvart, í þeim skilningi að sú tilfinning virðist aldrei fara, er óöryggið sem maður fær fyrir eigin formi og styrk í byrjun keppnistímabilsins. Yfirleitt er maður í fínu formi, og stundum kemur það á óvart miðað við árstíma, en ég losna ekki við að vera óviss um sjálfann mig fyrir fyrstu keppni(r) á árinu. Ég myndi ekki kalla þetta hræðslu, frekar að það eru svo mörg atriði sem er einfaldlega ekki hægt að lesa út úr mælingum frá aflmæli, eða klukkutímafjölda, að það er erfitt að vita nákvæmlega hver staðan er fyrr en í fyrstu keppni. Margir segja að það sé hægt að mæla allt, en enginn mælikvarði er betri en keppni.

8.apríl hefst Andalucia Bike Race, sem hefur í ár verið færð upp um flokk hjá UCI, úr S2 upp í S1, sem er næst hæsta stigið á eftir HC (sem finnst í keppnum eins og Cape Epic). Þetta þýðir að það verður harðari samkeppni, fleiri keppendur, og fleiri stig í boði. Keppnin hefur einnig verið færð á árinu, en vanalega hefur hún verið í lok Febrúar. Stefnan í ár er að komast í top 30 í heildarkeppninni, en þar sem keppnin er 6 daga fjöldægrakeppni þá þarf að vanda vinnubrögðin og lágmarka allt sem getur kostað tíma og orku. Þetta verður mín fyrsta keppni á TREK hjóli, en ég fæ bráðum í hendurnar nýtt Top Fuel hjól frá Erninum, sem er fulldempað cross-country fjallahjól, og verður aðal keppnishjólið mitt í ár í alþjóðlegum UCI keppnum, ásamt helstu fjallahjólakeppnum á Íslandi. Spennandi tímar framundan!

05/03/2019

Undanfarin ár hef ég fengið með nokkuð reglulegu millibili spurningar um hvert ég stefni í þessu sporti, og hvort ég ætli mér á Ólympíuleikana. Það er auðvelt að gefa ódýra svarið, „ÓL eru draumurinn og auðvitað langar mig að taka þátt“, en það er svo margt sem tengist þessu verkefni sem er erfitt að útskýra hálfa leið. Í stuttu máli, þá væri það eitt að taka þátt á Ólympíuleikunum í hjólreiðum, fyrir Ísland, margfalt stærra en öll afrek sem náðst hafa í íþróttinni á Íslandi.

Til að komast á ólympíuleikana eru þrjár leiðir sem ég veit af. Fyrsta, og hefðbundna leiðin, er að ná lágmarksfjölda stiga sem land, og þannig vera meðal efstu 23 þjóða á heimslistanum. Stigin eru samanlögð stig efstu þriggja einstaklinga, í hvoru kyninu, og í hverri grein. Í mínu tilfelli karlar í fjallahjólreiðum (XCO). Þetta geta verið á bilinu 1300-1500 stig, en til samanburðar fást 200 stig fyrir að sigra heimsbikarmót og 250 fyrir að sigra heimsmeistaramót. Önnur leiðin er að taka þátt á heimsmeistaramótinu í ár, og ná besta árangri af öllum þjóðum sem eru ekki meðal efstu 23 þjóða. Það gefur eitt sæti fyrir karl og eitt fyrir konu, í fjallahjólreiðum. Þetta er vanalega að ná top 30 í þessarri keppni, sem er gríðarlega mikið afrek fyrir hvern sem er, en svo sannarlega ekki ómögulegt. Þriðja leiðin er að sækja um svokallað „wildcard“ eða að fá sérstakt boðskort til að taka þátt frá Alþjóða Ólympíusambandinu. Það sem ég veit um þetta er takmarkað, en umsóknin er gerð af sambandi þess einstaklings sem vill sækja um, eða Hjólreiðasambandi Íslands, og er rökstutt með afrekum og sögu einstaklingsins, til að sannfæra nefndina sem tekur við umsókninni um að viðkomandi eigi efni á að taka þátt.

Það telst eðilegast að sá einstaklingur sem hefur náð mestum árangri á alþjóðasviði íþróttarinnar sé valinn til að sækja um svona verkefni, þannig að ég hef gert það sem ég get til að biðja HRÍ um að aðstoða mig í þessu. Það er spennandi að sjá hvort það er hægt að ná svona langt, en í mínum huga eru engar líkur á að þetta gerist nema allir sem geta haft áhrif á ferlið hérna á Íslandi taki þátt í því.

Mig dreymir um að taka þátt í þessarri keppni, en finnst ég líka þurfa að vera upp á mitt allra besta til að „eiga heima þarna“. Ólympíuleikarnir eru á næsta ári og heil tvö keppnistímabil í millitíðinni, nóg af keppnum og tækifærum til að gera mitt besta, ná betri árangri og sýna framför í alþjóðakeppnum. Það þýðir að ég fórna keppnum á Íslandi, tek erlendar keppnir og set þær í fyrsta, annað og þriðja sæti, en eftir 4 ár af þessu er ég orðinn nokkuð vanur þeirri nálgun.

01/03/2019

Í síðustu viku fann ég í fyrsta skipti fyrir söknuði til Danmerkur, síðan við fluttum heim í vetur. Allt í einu langaði mig rosalega mikið til að komast út að leika á fjallahjólinu, finna einhverja tæknilega leið úti í skógi og hjóla hana eins hratt og ég get. Finna stökkpalla og æfa að stjórna hjólinu í loftinu, finna bestu línurnar yfir sleipar trjárætur og fíflast með félögunum, að finna nýja staði sem áður voru óhjólanlegir.

Það er svo margt öðruvísi núna í vetur, miðað við síðasta vetur. Á sama tíma í fyrra var ég alltaf úti að leika, eyddi ekki jafn miklum tíma í að æfa formið, heldur fókusaði ég á tækni á hjólinu og eyddi meiri tíma í rólega túra. Var nánast alltaf á fjallahjóli eða cyclocross hjóli, en í dag eru þau hjól í biðstöðu eftir betra veðri. Núna er veturinn búinn að einkennast af töluvert stífari og erfiðari æfingum, samkvæmt plani sem ég hannaði fyrir sjálfann mig og er rosalega ólíkt því sem ég hef gert undanfarin ár. Ég tileinkaði mér það að hjóla inni á trainer, með Wahoo Kickr græjuna að slá í gegn, og Zwift hjólatölvuleikinn til að halda metnaðinum og ánægjunni gangandi. Þetta hefur gengið vel, en það verður að segjast að ég finn alltaf jafn vel fyrir því, þegar ég fer út að hjóla á sunnudögum, hvað það mun alltaf vera það sem ég lifi fyrir í þessu sporti.

Keppnistímabilið er alveg að detta í gang, og með síðustu æfingaferð vetrarins á næstu dögunum, er prógrammið farið að þéttast ansi vel. 2 vikur á Spáni í Mars, þar sem ég ætla að hjóla bæði einn, og með félaginu mínu Breiðablik, verða mikilvægar til að klára að byggja upp formið, stimpla inn erfiðu æfingarnar í vetur og nýta góða veðrið til að moka inn klukkutímum á hjólinu. Aðeins tvær vikur líða á milli æfingaferðarinnar og fyrstu keppni, sem verður einnig á Spáni, þannig að það skiptir máli að skipuleggja sig vel.

Það sem gerir Mars rosalega spennandi fyrir græjukallinn í mér, eru tvö ný hjól sem eru væntanleg í lok mánaðarins. Trek Top Fuel, fulldempað fjallahjól, verður aðalhjólið mitt í sumar, og fer með mér á margar af stærstu fjallahjólakeppnum heims. Trek Madone verður keppnisgötuhjólið mitt í sumar, en það verður gaman að ná að nýta tímann hérna heima til að vera með í Íslenskum keppnum. Þetta eru spennandi græjur, ýmislegt nýtt sem þarf að gefa tíma til að venjast og læra á, og ég eiginlega get ekki beðið.

© 2024 On your left

Theme by Anders NorenUp ↑