Month: February 2019

20/02/19

Síðasta vika var rosaleg. Ég held að ég hafi sjaldan átt jafn mikil samskipti við fólk, á jafn mismunandi vegu. Fundir, hittingar, samningaviðræður, símtöl og tölvupóstar, og nánast allt um málefni sem hafa mikil áhrif á það sem ég er að gera í dag. Vikan kláraði þó stórann pakka sem hefur verið í gangi síðan í byrjun árs, og ég myndi segja að ég gæti ekki hafa klárað þann pakka á betri hátt.

Ég skipti um styrktaraðila í hjólum, kvaddi Kríu eftir 8 ár og Specialized hjólin í leiðinni. Ég gerði samning við Örninn um að æfa og keppa á Trek hjólum á þessu ári, og breytingin er vægast sagt stór fyrir mig. Svona breytingar hafa ekki bara með mig að gera, heldur líka sambönd milli mín og annarra styrktaraðila, en það skiptir öllu að allir séu sáttir og geti unnið saman. Það eru mjög spennandi tímar framundan, og mjög margt skemmtilegt að fara að gerast.

En á meðan þetta gengur á þarf lífið að halda áfram, í mínu tilfelli er það að halda áfram að æfa á fullu, og sinna aukavinnunni í vefsíðugerð. Nokkur skemmtileg vefverkefni eru að hefjast, og það á frábærum tíma fyrir mig á meðan ég get fylgt ákveðinni rútínu, en það flækist svolítið þegar keppnistímabilið, og ferðalögin sem fylgja, hefst. Þessi vetur er búinn að vera merkilega þægilegur þegar kemur að æfingaskipulagi. Ég held áfram að læra meira á sjálfann mig samhliða því að ég er að aðstoða aðra með sín markmið og framför, sem þjálfari. Mér finnst mjög gaman hvað þannig vinna, að þjálfa aðra, getur gefið mikið af sér í báðar áttir. Sem einhver sem stundar íþróttina sem ég er að þjálfa í, er ég sífellt að rekast á nýja hluti sem geta hjálpað mér að setja mínar þjálfunarpælingar fram fyrir aðra, og ég læri líka á sjálfann mig sem íþróttamann. +

Þjálfunarstarfið í sjálfu sér gengur mjög vel, og ég er sáttur við að ég gat haldið hugmyndinni gangandi eins og ég lagði hana upp fyrir sjálfann mig í upphafi. Að vera að þjálfa fáa einstaklinga, sem eru allir metnaðarfullir og vilja leggja meira af mörkum til að ná langt, er akkúrat það sem ég vil að þetta sé. Gæði umfram magn er fín lýsing á þessu, en að kalla þetta persónulega einkaþjálfun virkar líka.

12/02/19

Vikan er búin að vera rosalegt bland í poka. Æfingar eru að komast aftur á sinn vanalega stað, inni á trainer með Zwift í gangi, landsliðið í hjólreiðum var með ýmis þolpróf, fundi og æfingar, og ég er að koma mér í ákveðna rútínu með verktakavinnuna í tengslum við vefsíðugerð.

Ég hef aldrei verið mikill reglumaður þegar kemur að tímaskipulagi og rútínu. Það er eitthvað sem mér finnst ómögulegt að gera, að ná þessum litlu daglegu hlutum, alltaf á hverjum degi. Á sama tíma er ég góður í að taka tímabil sem ég geri eitthvað ákveðið mjög vel, en auðvitað er það á kostnað annarra hluta. Gott dæmi er þegar ég ákvað að lifa skv hollu mataræði í byrjun 2017, þá entist það í einhverja mánuði en um leið og ég missti áhugann þá féll ég hressilega og hef ekki komið mér á þann stað síðan. Ef það er eitthvað í lífinu sem ég get litið á sem fasta rútínu, þá er það að mæta á hjólaæfingar 😊

Þetta er tími ársins þegar allt sem tengist skipulagi í hjólavinnunni þarf að vera að smella saman. Nýr búningur þarf að vera tilbúinn fyrir fyrstu keppni, sem þýðir að ný hönnun, með réttum merkingum, þarf að vera tilbúin til að senda til framleiðandans, sem þýðir að ég þarf að vera búinn að ganga frá öllum samningum og samkomulögum við meira en 10 styrktaraðila og stuðningsmenn. Stundum gengur þetta fullkomnlega en stundum ekki, en það gengur þó töluvert betur núna heldur en fyrir ári síðan.

Ég byrjaði með nýtt samstarf við Sportvörur og 2XU æfingafatnað. Undanfarin ár hef ég átt í mjög góðu samstarfi við Ironviking með Compressport vörurnar og ég þakka þeim kærlega fyrir þeirra stuðning. 2XU virkar á mig sem spennandi vörulína, sem nýtist í ræktinni, á hlaupaæfingum á veturna, og svo er merkið að prufa sig áfram í hjólafatnaði líka, sem ég mun prufukeyra á næstu vikum.

Vikunni lauk á því að ég setti persónulegt met í afköstum á hjólinu, í svokölluðu FTP prófi. Það verður að segjast að allur minn ótti um að missa niður æfingaumhverfið sem ég naut erlendis í 3 ár, og eiga erfiðara með að koma mér í betra form, er farinn út um gluggann. Það er ekki oft sem maður lítur á stöðuna í byrjun Febrúar og telur sig tilbúinn til að stökkva beint í fyrstu keppni, en í dag líður mér þannig.

04/02/19

Það er gott að vera kominn heim, eftir mjög góða ferð til Spánar síðustu 2 vikur. Ein af mínum uppáhalds tilfinningum þegar ég er að ferðast, er þegar það kemur sá dagur sem ég hugsa að það væri frábært að vera áfram í útlandinu, en mig langar líka heim. Engin heimþrá eða neitt slíkt, engin þreyta á að vera erlendis, bara mín upplifun á því að ég sé búinn að nýta ferðina vel, og finn ekki fyrir neinni neikvæðni við það að fara aftur heim.

Ég var einn á ferð í þetta skiptið. Margar æfingaferðir hefur maður farið í, stundum með íþróttafélagi, stundum með góðum vinahóp, og stundum erum það bara ég og Iðunn, en þetta var í fyrsta skiptið sem ég fer einn í svona ferð. Mér finnst vera margir kostir við það, en líka ýmsir gallar:

Kostir:

  • Fullkomið frelsi til að eyða tímanum eins og ég vil, óháð lífsmynstri annarra. Hvenær er vaknað/borðað/sofið/hjólað, fer allt eftir mínum haus.
  • Ég fæ óhóflega mikinn tíma til að hugsa, og vera með sjálfum mér. Þetta eru tveggja vikna langar hugleiðslubúðir, og ég get pælt í hlutum sem komast aldrei vanalega að.
  • Vinnufriður. Ég reyni alltaf eftir bestu getu að vinna í verkefnum sem tengjast forritun og vefhönnun, ásamt öðru, þegar ég er að ferðast. Það gengur yfirleitt vel, og algjör lúxus að geta tekið vinnuna með sér hvert sem er, en einveran gefur mér allan þann frið til að koma mér inn í vinnuna eins lengi og ég þarf
  • Ég get hjólað alveg eins og ég vil. Þetta þekkja margir sem æfa og keppa á háu stigi í íþróttum. Eftir því sem maður verður betri, verður þörfin fyrir að æfa einn sterkari, og það verður erfiðara að samlagast stórum hópum. Kröfurnar verða meiri og planið minna sveigjanlegt.

Gallar:

  • Fullkomið frelsi til að eyða tímanum eins og ég vil. Já, það er ekki gott fyrir mig að vera einn, fara allt of seint að sofa, og vakna á skelfilegum tíma dags. Ég slepp með skrekkinn af því ég er bara fastur í einföldu móti: fer að sofa þegar ég er þreyttur, vakna þegar ég er úthvíldur, hjóla þar til ég er úrvinda, slappa af þar til ég er þreyttur, og hringurinn endurtekur sig héðan.
  • Einhæft og einangrað umhverfi. Mér finnst svona fyrirkomlag hafa ákveðinn tímaramma og mega ekki vera mikið lengur en 2-3 vikur, ekki mjög hollt að vera of lengi einn. Að hafa skýr markmið og verkefni er gríðarlega mikilvægt til að halda manni gangandi en ég fann alveg undir lokin að þetta var komið gott.

Ég hjólaði svolítið með tveimur flottum hjólurum frá Litháen. Báðir eru að keppa á WorldTour stigi í götuhjólreiðum, hafa unnið dagleiðir í stórmótum og jafnvel medalíur á heimsmeistaramótum. Og þeir koma frá 3 milljón manna landi þar sem hjólreiðar, þó stærri en hér á Íslandi, eru ekki á heimsmælikvarða. Fyrir nokkrum árum átti landið slatta af efnilegu fólki í unglinga og ungmennaflokkum, en vegna þess að það var lítill stuðningur fyrir þetta fólk þegar það fullorðnaðist og vildi fara að beita sér í stærri mótum, varð það að stóru vandamáli hversu margir hættu á ákveðnum aldri. Þessir tveir voru þeir fyrstu til að ná á svona hátt stig í sínu landi, en voru ansi neikvæðir þegar við fórum að tala um framtíð íþróttarinnar á afreksstigi heima hjá þeim, þeir sáu ekki fram á neinn sem myndi taka við keflinu.

Þrátt fyrir það fannst mér gaman að spjalla við þá, því það var áberandi mikil tenging á milli þróunar íþróttarinnar í Litháen og á Íslandi. Þeir eru vissulega komnir lengra en við, en margar af þeim hindrunum og verkefnum sem þeir lýstu eru einmitt það sem við erum að ganga í gegn um núna. Það er bara vonandi að þetta haldi áfram í rétta átt hjá okkur, og að við náum á staði sem til dæmis þessir tveir topphjólarar hafa náð.

© 2024 On your left

Theme by Anders NorenUp ↑