Mynd: Bjarki Freyr Rúnarsson

Það er ekki hægt að byrja þessa sögu á laugardagsmorgni, heldur verður hún að byrja síðasta mánudagskvöld.Ég var að æfa með nokkrum félögum í fjallahjólabrautinni “Bleikur” við Hvaleyrarvatn í Hafnarfirði síðasta mánudagskvöld þegar ég ákvað að taka smá tímatökuhring, til að sjá hversu hratt ég gæti hjólað brautina á þröskuldspúls (180bpm). Hringurinn gekk vel og setti ég met í brautinni sem ég held að standi enn eftir keppni dagsins, svo var pakkað saman og haldið heim en þegar heim var komið byrjaði ég að fá verk í bakið. Hélt fyrst að þetta væri einhver verkur í rófubeininu en myndataka sýndi að þetta væru neðstu hryggjarliðirnir sem væru að valda þessu. Við tók svakalegur sársauki sem olli því að ég gat varla setið, legið né staðið uppréttur, komst ekki í vinnu og hvaðekki.

En nú var gott að eiga góða að, og uppgvötaði ég kosti þess að hafa ákveðinn “status” í hjólreiðasamfélaginu. Gísli Ólafsson læknir hringdi í mig og byrjaði strax að spyrja út í málið, var ekki lengi að mynda kenningu um þetta og benti mér á hann Örnólf í Orkuhúsinu. Á svipuðum tíma byrjaði ég að heyra í fleiri sjúkraþjálfurum og læknum heldur en ég hef tölu á, og voru allir tilbúnir til að veita mér ráð og aðstoð. Ég fór svo til Örnólfs og hann skoðaði mig, sendi í myndatöku, svo sjúkraþjálfara sem hnykkjaði mig og skellti mér svo í nálastungu. Myndirnar sýndu á endanum að það var bólga í neðstu hryggjarliðum, en ekkert brot eða neitt hættulegt. Þarna var komið grænt ljós á að keppa í dag. Það var alveg frábært að heyra í öllu þessu frábæra fólki og ég þakka kærlega fyrir aðstoðina!

Ég fór í keppnina með engar væntingar, enda búinn að missa alla trú á að ná að verja titilinn, en það þýddi ekki að ég gæfist upp. Planið var einfalt: byrja þetta eins og ég myndi gera vanalega, reyna að halda í við fremstu menn en slá af um leið og sársaukinn væri orðinn of mikill. Keppnin byrjaði með látum, Hafsteinn tók sitt vanalega hlutverk fremstur og leiddi hópinn, ég kom þar á eftir og svo voru Kári og Helgi ekki langt undan. Við fórum svo inn í skóginn með tæknilega kaflanum en þar voru ræturnar sleipar og voru ekki sem auðveldastar. Kári lenti í einhverjum vandræðum og stökk af hjólinu, en ég hjólaði þetta, komst þó ekki fram úr honum og beið rólegur eftir næsta tækifæri. Ég tók svo fram úr Kára um leið og við komum úr skóginum og náði strax í Helga, en þá hafði Hafsteinn náð ægilegu forskoti og ég sá fram á að þurfa að taka hressilega á því. Rétt fyrir aðalklifrið tók ég svo fram úr Helga, en ég vildi ná eins miklu af forskotinu hans Hafsteins þar, og ég gæti. Eftir klifrið var komið að bruninu niður en það var tekið rólega til að passa að sprengja ekki, en eftir það var ég allt í einu kominn beint fyrir aftan Hafstein (komst að því eftir keppnina að hann hafði dottið á þessum stað, þar var komin skýringin). Ég náði að taka fram úr honum í “Parketbrekkunni” og leiða keppnina út fyrsta hringinn og byrjun annars hrings, en þar var bakið farið að vera ansi vont við mig. Hafsteinn náði mér og tók fram úr mér þegar ég gerði mistök í skóginum.

Eftir þetta breyttist staðan lítið, ég sá aldrei aftur í Helga en sá eitthvað í skottið á Hafsteini í 2. og 3. hring. Púlsinn byrjaði að lækka jafnt og þétt þrátt fyrir að ég væri að drekka mjög vel, en ég áttaði mig fljótt á að í hvert sinn sem ég reyndi að gera eitthvað til að klóra mig aftur til Hafsteins sagði bakið bara nei, en það var lítið í því að gera.

Marklínan kom á endanum og endaði ég í öðru sæti. Hafsteinn kláraði á frábærum tíma, 1:34, og átti glæsilega keppni, enn og aftur til hamingju með sigurinn og titilinn, það er einhvernveginn alltaf skemmtilegast að keppa við þennan spaða!

Ég væri að ljúga ef ég segðist ekki vera vonsvikinn eftir þessa keppni, enda veit ég að ég átti meira inni en ég gat nýtt. Ljóst er að maður er aðeins mannlegur og allt getur gerst, sérstaklega með svona góðri tímasetningu. En ég hugga mig þó við það að vera bikarmeistari í fjallahjólreiðum með fullt hús stiga, séu 3 keppnir taldar af 4.