Síðasta æfingaferðin í vetur er nýliðin, en ég var á Spáni í 2 vikur í þetta skiptið. Í vetur hef ég farið í þrjár æfingaferðir, og allar voru á Calpe svæðinu á Spáni, sem mér finnst henta mjög vel fyrir mínar æfingar, gefur mikið af fjölbreyttu landslagi, og nóg af möguleikum í leiðavali. Ferðin sjálf gekk vel, náði mér í 13 daga á hjólinu með einum hvíldardegi inniföldum, hjólaði nokkra daga einn, og nokkra með félögum á svæðinu, og svo var heil vika með æfingahóp Breiðabliks sem var í æfingaferð á sama svæði. Ég var með í þeim hóp sem leiðsögumaður og tæknimaður, ásamt því að ausa yfir alla óþolandi afrekssögum og tala um hvað ég ráði við marga diska af eftirrétt yfir kvöldmatnum alla dagana.

Nokkrar áhugaverðar tölur úr ferðinni:

  • 55 klst af æfingum
  • 1400 km
  • 2500 TSS stig
  • 23.000 metrar af klifri

Það styttist í fyrstu UCI keppni á árinu en fyrst fæ ég 2 vikur af hvíld og æfingum á Íslandi. Lappirnar eru búnar að kvarta í nokkra daga og ég held ég gefi þeim loksins verðskuldaða hvíld, en það er þó mikilvægt að halda áfram að æfa, og nú fer ég í svokallað „race conditioning“ tímabil þar sem ég er ekki endilega að byggja upp form, heldur frekar að skerpa formið, til að vera tilbúinn í hámarks átök í Apríl. Fyrir þá sem eru forvitnir þá þýðir þetta að ég minnka æfingamagnið sjálft, þeas fækka klukkutímum á hjólinu, en færi meiri áherslu á erfiðar interval æfingar eins og spretti nálægt eða á hámarks álagi.

Eitt af því sem kemur stöðugt á óvart, í þeim skilningi að sú tilfinning virðist aldrei fara, er óöryggið sem maður fær fyrir eigin formi og styrk í byrjun keppnistímabilsins. Yfirleitt er maður í fínu formi, og stundum kemur það á óvart miðað við árstíma, en ég losna ekki við að vera óviss um sjálfann mig fyrir fyrstu keppni(r) á árinu. Ég myndi ekki kalla þetta hræðslu, frekar að það eru svo mörg atriði sem er einfaldlega ekki hægt að lesa út úr mælingum frá aflmæli, eða klukkutímafjölda, að það er erfitt að vita nákvæmlega hver staðan er fyrr en í fyrstu keppni. Margir segja að það sé hægt að mæla allt, en enginn mælikvarði er betri en keppni.

8.apríl hefst Andalucia Bike Race, sem hefur í ár verið færð upp um flokk hjá UCI, úr S2 upp í S1, sem er næst hæsta stigið á eftir HC (sem finnst í keppnum eins og Cape Epic). Þetta þýðir að það verður harðari samkeppni, fleiri keppendur, og fleiri stig í boði. Keppnin hefur einnig verið færð á árinu, en vanalega hefur hún verið í lok Febrúar. Stefnan í ár er að komast í top 30 í heildarkeppninni, en þar sem keppnin er 6 daga fjöldægrakeppni þá þarf að vanda vinnubrögðin og lágmarka allt sem getur kostað tíma og orku. Þetta verður mín fyrsta keppni á TREK hjóli, en ég fæ bráðum í hendurnar nýtt Top Fuel hjól frá Erninum, sem er fulldempað cross-country fjallahjól, og verður aðal keppnishjólið mitt í ár í alþjóðlegum UCI keppnum, ásamt helstu fjallahjólakeppnum á Íslandi. Spennandi tímar framundan!

Comments

comments