Það er ansi langt síðan ég tók upp “pennann” og bloggaði smá, en það segir líka margt um hvernig veturinn hefur verið. Eftir síðasta sumar var hausinn þreyttari en líkaminn, og mér fannst gott að taka smá tíma til að slappa af, njóta góðs árangurs síðasta árs, og meta stöðuna fyrir framtíðina.

Haustið getur verið merkilega skemmtilegur tími ef notað rétt. Ég hef prufað undanfarin ár að gera ekki neitt eftir að keppnistímabilinu lýkur, hvíla líkamann, eða svo segi ég. Í hvert skipti hef ég endað á að gefast upp á hvíldinni, byrja of snemma á erfiðum og löngum æfingum og klára andlega orku allt of snemma yfir veturinn, og kem inn í vorið með þreyttann haus. Ég hef líka prufað að halda bara áfram að hjóla eins og venjulega, hugsa haustið eins og það sé vor, og fara bara á fullri ferð inn í veturinn, en það kemur heldur ekki alltaf vel út, sérstaklega þegar álagið eykst með árunum.

 

Ég breytti aðeins til í haust. Kvaddi einkaþjálfarann og hætti að hjóla eftir plani, og það viljandi. Ég hætti ekki að hjóla, heldur tók ég nokkurra vikna tímabil þar sem ég hjólaði nákvæmlega eins og mér sýndist. Ef mig langaði út að æfa stökkpallana á fjallahjólinu gerði ég það, og ekkert annað. Ég fór stundum út á cyclocross hjólinu, fann mér grasflöt og setti upp keilur, hring með uþb 20 beygjum sem tók um 1 mínútu að hjóla, og hjólaði hann þar til grasið var orðið að mold. Rólegir rúntar um hverfið til að skoða nýja slóða og nýja vegi. Hópæfingar með hjólahópum sem ég hafði alltaf hætt við að hjóla með “af því það passaði ekki inn í planið”.

Þetta var frelsandi, svo lítið sé sagt. Ég er ansi vanur því að hjóla samkvæmt plani, taka mínar æfingar hárrétt og gera það aleinn vegna þess að þær passa ekki við hópæfingar, hvort sem það er að hjóla í 4 tíma undir ákveðnu álagi, eða taka interval æfingar inn í skógi. En þetta var mín leið til að brjóta upp hversdagsleikann og taka smá “alternative” frí frá því sem ég geri restina af árinu.

Cyclocross keppnir hafa aldrei verið rosalega ofarlega á forgangslistanum mínum, en mér finnst þær skemmtilegar af mörgum mismunandi ástæðum. Þetta er til að byrja með frábær leið til að finna tilbreytingu frá fjallahjólinu, og til að komast í gegn um vetraræfingarnar með pínulitlum markmiðum, sem finnast í smákeppnum hér og þar á höfuðborgarsvæðinu í Danmörku. Kannski er helsta ástæðan fyrir því að ég tek þátt í þessum keppnum sú staðreynd að þetta er tæknileg áskorun fyrir mig. Ég vinn keppnir með því að vera sterkur, ekki tæknilega góður, og þá veit ég að það er gott að leggja áherslu á að æfa veikleikana. Cyclocross hjálpar með það 🙂

Janúar er að verða búinn og vetrarundirbúningurinn búinn að ganga vel, og “samkvæmt plani”, en næstu helgi ætla ég að bæta einni heimsmeistarakeppni við ferilskránna, þegar ég fer til Valkenburg í Hollandi, á HM í cyclocross. Þessi keppni, fyrir mér, snýst um upplifunina fyrst og fremst. Cyclocross er ekki forgangsatriði hjá mér, en ég er stoltur af því að eiga tækifæri á að taka þátt þarna fyrir Íslands hönd, þannig að ég ætla að grípa tækifærið, hafa gaman af þessu og reyna að lifa af í einni af erfiðustu brautum seinni ára!

Það styttist í keppnistímabilið, sem hefst með Andalucia Bike Race í lok Febrúar. Þaðan byrja æfingar að verða þyngri og styttri, með áherslu á fjallahjólið í tækni, og erfiðar interval keyrslur til að vera í formi fyrir 90 mínútna keppnir þar sem mælirinn er í rauðu frá upphafi til enda. Þetta verður rosalegt ár í keppnum, og ég er búinn að setja mér lengsta lista af markmiðum sem ég hef nokkurntíman gert, og planið er að fylgja því eftir með reglulegu bloggi 🙂