Month: July 2013

RR – Íslandsmeisaramótið í götuhjólreiðum 2013

Mynd: Haraldur Guðjónsson

Tók þátt í einni af erfiðustu keppnum hingað til í dag. 100km langt Íslandsmeistaramót í götuhjólreiðum, en leiðin var þannig að hjólað var frá ION Hotel á Nesjavöllum, í gegn um Þingvelli og að Laugavatni, en þar var snúið við og farið aftur að Nesjavöllum og endað í 15% brekkunni fyrir ofan hótelið.

Startið var ansi rafmagnað, enda enginn annar en Andy Schleck mættur á svæðið til að starta dæminu, en keppnin fór hressilega af stað og byrjuðu menn strax að gera eitthvað skemmtilegt. Ég upplifði startið frekar rólega, og hélt mig bara í hópnum upp á Þingvallaveg, enda var það vitað fyrirfram að átök dagsins yrðu eftir 100km hjólreiðar, í síðustu brekkunni. Árásirnar hófust og menn tóku ýmsa kippi á leiðinni í gegn um Þingvelli, Helgi Berg fór í eins manns landið og var einn að prjóna alveg þar til hópurinn náði honum í brekkunni upp frá Laugavatni. Hraðinn var góður, eða um 37km/h og hópurinn hélt sér saman ansi vel.

Svo kom að því að ég skellti mér upp eina klifrið á Þingvöllum til að hrista aðeins upp í hópnum, en þá var aðeins Helgi sem kom með mér, Benediktvar svo ekki langt undan. Þetta leit út fyrir að ætla að vera bara létt árás en þegar Hákon renndi að okkur var fljótlega tekin sú ákvörðun að reyna að keyra þennan fámenna en góðmenna hóp í gang og reyna að klára á undan hópnum.

Við héldum góðum hraða og vorum skipulagðir, þrátt fyrir að vera 4 menn úr 3 hjólreiðafélögum. Hópurinn hélst góður alveg fram að Grafningsvegnum, en þegar rétt um 5km voru eftir var hópurinn fyrir aftan okkur búinn að átta sig á málunum og búnir að keyra að okkur. Þannig myndaðist lítill hópur sem hélst ágætlega saman yfir hæðirnar og hólana á Nesjavöllum, en svo kom að brekkunni góðu.

Við vorum 6 sem fórum saman í brekkuna, en sársaukinn byrjaði strax og staðið var upp og skipt í léttustu gírana. Fljótlega fór að sjást hverjir voru klifrararnir í hópnum, en ég, Hafsteinn og Árni stóðum einir eftir í átökunum. (Smá fróðleikur fyrir fróðleiksþyrsta: þröskuldspúls hjá mér er 180 en hámarkspúls 196). Þarna stóð ég í 191 í púls og alveg við það að springa. Þarna var þó alveg á hreinu að ég var ekki einn um það, enda þegar komið var upp meira en helming af brekkunni kom í ljós að Árni átti ekki meira inni, og varð að sleppa takinu. Ég sat límdur við Hafstein, en þegar ég fór að sjá glitta í marklínuna var aðeins ein hugsun; nú varð eitthvað að gerast, annars yrði það of seint. Skipti um gír, stóð upp, og gaf allt sem ég átti eftir í hjólið, púlsinn í 196, leit aftur fyrir mig og sá að Haffi gat ekki svarað. Sat í smá stund og lagði aftur í hann, í þetta skiptið alla leið yfir línuna.

Íslandsmeistari í götuhjólum 2013.

XC – Vesturgatan

Sigraði Vesturgötuna í dag eftir harða baráttu við Hafsteinn Ægir Geirsson! Dagurinn byrjaði vel; logn, þurrt, hlýtt og lítil sól. 

Keppnin hófst rólega, en þegar fylgdarbíllinn kom sér burt kom ég mér fyrir fyrir aftan Haffa, á eftir okkur komu svo restin, en það leið ekki á löngu þar til við Haffi vorum orðnir einir með risastórt klifrið fyrir framan okkur. Haffi var ótrúlega sterkur í klifrinu, og ég sá mér ekki fært að gera árás þar, en lét mér nægja að rétt skjótast fram úr til að ná Fjallakonungs titlinum annað árið í röð. Bætingin upp brekkuna hljóðaði upp á tæpar 4 mínútur upp úr dalnum og upp á topp frá því í fyrra. Við skutumst svo saman niður hinum megin, og var ekkert hægt á, enda bættum við metið þar líka um ca 50 sek.

Við tók góð keyrsla, en ég fann að kvefið sem er búið að vera í mér síðan um helgina var ekkert að hjálpa til, þar að auki var Haffi gríðarlega öflugur og var alveg nóg að halda í við hann. Við skiptumst örlítið á að leiða, en svo kom að því að hann stoppaði, en þá hafði lekið úr afturdekkinu og lítið hægt að gera annað en að stoppa og henda smá lofti í.

Ég greip tækifærið og keyrði af stað, en þarna græddi ég einhvern tíma sem varð að endast í markið. Ég keyrði og keyrði alveg í botn en þó jafnt og þétt til að sprengja mig ekki. Þegar komið var á flata kaflann undir lok keppninnar, en hann er um 15km, sá ég í Haffa aftur, en þarna var ég ekki í mínum óskaaðstæðum, en Haffi er öflugur í tímaþrautum og var betur settur heldur en ég. Stefnan var bara tekin á að halda 34-35km meðalhraða og reyna að halda út restina af keppninni. Spennan var orðin ansi mikil þegar komið var inn í bæinn og ekki nema 50 metrar í kappann, en það dugði til að ná sigrinum með 10sek forskoti.

Klárlega ein harðasta keppni sumarsins, og gríðarlega skemmtileg. Ég þakka mótshöldurum fyrir frábært mótshald, styrktaraðilum mínum, Kríu, Hreysti og IronViking, og sérstaklega Haffa fyrir að gefast ekki upp! 

© 2024 On your left

Theme by Anders NorenUp ↑