Undanfarin ár hef ég fengið með nokkuð reglulegu millibili spurningar um hvert ég stefni í þessu sporti, og hvort ég ætli mér á Ólympíuleikana. Það er auðvelt að gefa ódýra svarið, „ÓL eru draumurinn og auðvitað langar mig að taka þátt“, en það er svo margt sem tengist þessu verkefni sem er erfitt að útskýra hálfa leið. Í stuttu máli, þá væri það eitt að taka þátt á Ólympíuleikunum í hjólreiðum, fyrir Ísland, margfalt stærra en öll afrek sem náðst hafa í íþróttinni á Íslandi.

Til að komast á ólympíuleikana eru þrjár leiðir sem ég veit af. Fyrsta, og hefðbundna leiðin, er að ná lágmarksfjölda stiga sem land, og þannig vera meðal efstu 23 þjóða á heimslistanum. Stigin eru samanlögð stig efstu þriggja einstaklinga, í hvoru kyninu, og í hverri grein. Í mínu tilfelli karlar í fjallahjólreiðum (XCO). Þetta geta verið á bilinu 1300-1500 stig, en til samanburðar fást 200 stig fyrir að sigra heimsbikarmót og 250 fyrir að sigra heimsmeistaramót. Önnur leiðin er að taka þátt á heimsmeistaramótinu í ár, og ná besta árangri af öllum þjóðum sem eru ekki meðal efstu 23 þjóða. Það gefur eitt sæti fyrir karl og eitt fyrir konu, í fjallahjólreiðum. Þetta er vanalega að ná top 30 í þessarri keppni, sem er gríðarlega mikið afrek fyrir hvern sem er, en svo sannarlega ekki ómögulegt. Þriðja leiðin er að sækja um svokallað „wildcard“ eða að fá sérstakt boðskort til að taka þátt frá Alþjóða Ólympíusambandinu. Það sem ég veit um þetta er takmarkað, en umsóknin er gerð af sambandi þess einstaklings sem vill sækja um, eða Hjólreiðasambandi Íslands, og er rökstutt með afrekum og sögu einstaklingsins, til að sannfæra nefndina sem tekur við umsókninni um að viðkomandi eigi efni á að taka þátt.

Það telst eðilegast að sá einstaklingur sem hefur náð mestum árangri á alþjóðasviði íþróttarinnar sé valinn til að sækja um svona verkefni, þannig að ég hef gert það sem ég get til að biðja HRÍ um að aðstoða mig í þessu. Það er spennandi að sjá hvort það er hægt að ná svona langt, en í mínum huga eru engar líkur á að þetta gerist nema allir sem geta haft áhrif á ferlið hérna á Íslandi taki þátt í því.

Mig dreymir um að taka þátt í þessarri keppni, en finnst ég líka þurfa að vera upp á mitt allra besta til að „eiga heima þarna“. Ólympíuleikarnir eru á næsta ári og heil tvö keppnistímabil í millitíðinni, nóg af keppnum og tækifærum til að gera mitt besta, ná betri árangri og sýna framför í alþjóðakeppnum. Það þýðir að ég fórna keppnum á Íslandi, tek erlendar keppnir og set þær í fyrsta, annað og þriðja sæti, en eftir 4 ár af þessu er ég orðinn nokkuð vanur þeirri nálgun.

Comments

comments