Month: April 2014

XC – 1.bikar – Rauðavatn

Mynd: David Robertson

Öruggur sigur í fyrsta fjallahjólamóti sumarsins. Keppnin var spennandi frá fyrstu mínútu, tók forystu þegar komið var í fyrstu brekku og þaðan var aldrei snúið aftur. Endaði með um 4 mínútna forskot á góðum tíma, tæplega 2 mínútum hraðar en markmið kvöldsins var. 

Brautin var mjög góð, skemmtilegri en sú sem hefur vanalega verið hjóluð, og það að mestu leyti vegna viðbótar á Paradísardalnum. HFR stóðu sig vel í skipulagi mótsins, og mér var td. bent á að startið var aldrei þessu vant á hárréttum tíma, sem er bara snilld.

Þetta var fyrsta mótið mitt á nýju hjóli sem ég keppi á fyrir Lauf Forks, en hjólið heitir Specialized S-Works Stumpjumper World Cup, lengsta nafn í heimi en hjólið er hreint út sagt frábært og ekki skemmir að það sé undir 8 kílóum, búið besta dempara sem ég gæti hugsað mér fyrir aðstæður kvöldsins. Það er frábært að geta verið á þeim stað í sportinu, að hafa besta búnaðinn til þess að ná toppsæti.

Ég þakka HFR fyrir flott mótshald, og styrktaraðilum mínum fyrir góðann stuðning: Kria Cycles, Lauf Forks, Compressport Iceland, Hreysti, Optical Studio og Gló

RR – 1.bikar – Reykjanes

Mynd: Árni Már Árnason

Sigraði í dag fyrsta hjólreiðamót sumarsins, götuhjólamótið á Reykjanesi. 63km og nóg af roki, 159 manns skráðir til leiks og allir alveg í stuði.

Startið var hratt, enda í meðvindi og voru menn mjög hressir, en fljótlega myndaðist um 7 manna hópur sem innihélt flesta af sterkustu hjólurum landsins. 

Um 13km inn í keppnina gaf ég í og dró Hafsteinn Ægir Geirsson með mér, en það var eiginlega alveg óvart að við komumst burt og vorum samhuga með að reyna að stinga af. Rétt fyrir snúningspunkt sem markaði að helmingur keppninnar væri búinn vorum við með 45 sekúndur á næsta hóp, en á leiðinni til baka var barist við mótvindinn sem á endanum var of sterkur fyrir okkur 2, með 5 manns á hælunum á okkur. Þegar um 53km voru búnir af keppninni sáum við að þetta væri vonlaust og létum hópinn ná okkur, og var um leið farið í vörn til að hvíla fyrir hinn óumflýjanlega endasprett.

Þegar stutt var eftir af keppninni byrjuðu menn að stilla sér upp, hraðinn minnkaði og byrjaði taktískur leikur, en þegar um 500 metrar voru eftir komÓskar Ómarsson sér fyrir fremst með það í huga að leiða hópinn inn í endasprett. Fyrir aftan mig sat Hafsteinn, og rest fyrir aftan hann. Allt fór alveg á fullt, og menn voru komnir hátt í 40km hraða á móti vindi þegar Óskar kom sér til hliðar og gaf mér beina línu í átt að markinu, tæplega 1400w (fín tala fyrir sérfræðingana) voru sett í pedalana og það dugði til sigurs, öruggur sprettur að mínu mati en þó þurfti að leggja allt til, til að halda hjólreiðamanni ársins í skefjum 

Ég þakka Hafsteini fyrir frábæra samvinnu og skemmtilega tilraun til að stinga af, líkt og við gerðum í fyrra, Óskari fyrir að vera frábær liðsmaður og koma mér á besta stað í endasprettinum, og auðvitað styrktaraðilunum: Kria Cycles, Compressport Iceland, Optical Studio, Hreysti og Gló!

XC – Sea Otter

Mynd: Friðrik Örn

Ein stærsta keppni sumarsins var einnig sú fyrsta, en það komst ekki á hreint fyrr en nokkrum dögum fyrir keppnina sjálfa.

Eins og margir vita keppi ég í völdum keppnum fyrir Lauf forks í sumar, og hef verið í góðu samstarfi við þá við að prufa gafflana þeirra og gefa þeim punkta út frá reynslu, upplifun og persónulegri þekkingu. Í ár fengu þeir að taka þátt í einni af stærstu hjólasýningum í heimi, Sea Otter. Sýningin er haldin ár hvert á Laguna Seca kappakstursbrautinni í Californiu í Bandaríkjunum, og hefur síðustu ár fengið mikla athygli fyrir að bjóða upp á fjölda keppna og annarra atburða, fyrir áhugamenn og atvinnumenn, en keppnishald er ekki jafn algengt á öðrum eins sýningum.

Mér var boðið á síðustu stundu að koma með á sýninguna sem íþróttamaður á vegum Lauf, með það hlutverk að taka þátt í fjallahjólakeppninni sem var einn af stærstu keppnunum á sýningunni. Eftir litla umhugsun ákvað ég að slá til, enda gefast svona tækifæri ekki á hverjum degi. Ég skráði mig í Cat1 flokkinn, en í Bandaríkjunum eru menn settir í flokka, frá Cat5 upp í Cat1, en þaðan er aðeins einn flokkur eftir, Pro.

Staðurinn var í einu orði sagt, frábær. California er þekkt sem eitt af helstu hjólreiðafylkjunum, og enginn skortur á hjólreiðafólki og leiðum til að hjóla. Í hæðunum í kring um Laguna Seca er allt fullt af slóðum og göngustígum, en það er alltaf ákveðið gæðaþrep þegar slóðar eru sérstaklega gerðir til hjólreiða. Veðrið var nánast það sama allan tímann, svalt og þokukennt á morgnanna, en upp úr hádegi rauk hitinn upp í kring um 25 gráður og sólin var á lofti alla dagana.

Ég nýtti tímann vel til að skoða brautina og aðstæður, en ég passaði þó upp á að hjóla ekki of mikið til að geta verið ferskur í keppninni. Brautin, sem var 37 kílómetrar á lengd var ein sú skemmtilegasta sem ég hef hjólað. Ekkert voðalega tæknileg, en hraðinn var alltaf góður og þetta “flæði” sem Amerískar hjólreiðar eru þekktar fyrir var svo sannarlega til staðar. Brautin bauð upp á uþb 1000 metra hækkun, en brekkurnar samanstóðu af stuttum, bröttum klifrum, sem hentar mér mjög vel. Ég tók sérstaklega vel eftir síðustu 7-8 kílómetrunum, en þegar uþb 8km voru eftir komu tvær stuttar en brattar brekkur á breiðum malarvegi, og eftir þær dágóður spölur á sléttum og beinum vegi, fullkominn staður til að reyna eitthvað, en strax eftir þennan veg tók við einbreiður vegur sem bauð ekki upp á framúrakstur, nánast alla leið í mark.

Keppnisdagurinn byrjaði vel, startið var kl 7:30 sem þýddi upphitun 6:30, sem þýddi vakna kl 5:00. Eftir hafragrautinn keyrðum við uppeftir, þar sem allt var á fullu að gerast, ótal hjólarar að hita upp og loksins búið að opna hliðin inn á sjálfa kappakstursbrautina, en startið í Cat1/2/3 keppnunum var inn á brautinni, og fólk gat hjólað þar til að hita upp. Sérstök tilfinning að hita upp á hring sem maður þekkir vel úr kappakstursleikjum fyrir Playstation. Veðrið var sennilega það besta við þennan morgunn, það var ekki nema 8 gráðu hiti og skýjað og rakt, eitthvað sem innfæddum fannst kalt og óþægilegt, en fullkomið fyrir okkur Íslendingana.

Keppnin hófst og menn flugu af stað, mjög hratt start og greinilegt að þarna voru margir mættir til að sigra. Ég tók eftir nokkrum sem virtust vera vel vanir svona keppnum og hafði þá í sigtinu, en þegar komið var út fyrir kappakstursbrautina, á litlum kafla rétt fyrir fyrstu beygjuna ákvað ég að gefa örlítið í til að sjá hvernig menn myndu svara. Það kom á óvart að ég hélt forystu í gegn um beygjuna og upp fyrstu brekku, og jafnvel niður þá næstu, en mér sýndist þetta hafa valdið því að hópurinn slitnaði strax í byrjun og lítill hópur myndaðist fremst sem ég var hluti af. Þarna voru varla 5 mínútur liðnar af keppninni og ég lenti í einhverju sem á tímanum virtist ætla að enda líkur mínar á góðum árangri: vatnsbrúsinn tók flug og skaust af hjólinu, greinilega þreyttur á hristingnum. Mér leist ekkert á þetta en ákvað að keyra áfram, vitandi að Bergur væri með brúsa fyrir mig fyrir miðja braut. Ég setti mig hinsvegar í vörn og leiddi hópinn aldrei, en fljótlega eftir þetta byrjuðu 2 keppendur að pressa hressilega, sem olli því að við 3 komumst burt.

Þegar keppnin var hálfnuð leið mér betur en ég bjóst við miðað við algjört vökvaleysi, strákarnir með mér voru duglegir að pressa og virtust vera að reyna að stinga mig af, en eftir að ég greip brúsa hjá Berg tók allt annað við. Stór gúlpsopi sem kláraði nánast brúsann skaut mér áfram og í þægilega stöðu. Á þessum tímapunkti byrjuðum við að ná öðrum flokkum, og framúraksturinn alveg með þeim skemmtilegri, enda slatti af öflugum strákum í brautinni. Ég mundi eftir 8km punktinum í brautinni og þegar þangað var komið ákvað ég að gefa allt í botn til að sjá hvað myndi gerast. Á toppi fyrstu brekkunnar leit ég aftur og sá þá báða í miðri brekkunni, ég hélt áfram og setti svo allt í botn aftur í næstu brekku, leit aftur og sá þá dragast aftur úr. Þarna var þetta komið, time trial staðan sett í gang og þétt tempó alla leið í mark. Ég sá aldrei neinn fyrir aftan mig það sem eftir var keppninnar og kláraði með 20 sek forskoti á næsta mann, sigur í fyrstu keppninni minni í Bandaríkjunum og það gegn ekki slæmum andstæðingum.

Þetta var ótrúleg keppni og án efa ein sú erfiðasta sem ég hef tekið þátt í. Ég er gríðalega þakklátur Lauf strákunum fyrir að gefa mér þetta tækifæri, og ekki er verra að geta gefið þeim eitthvað til baka með því að sigra svona stóra keppni á gafflinum þeirra. Þetta gerði mikið fyrir sjálfstraustið og hefur kveikt í mér neista, sem segir mér að kanski er ekki útilokað að komast lengra í þessu sporti.

© 2024 On your left

Theme by Anders NorenUp ↑