Mynd: Árni Már Árnason

Sigraði í dag fyrsta hjólreiðamót sumarsins, götuhjólamótið á Reykjanesi. 63km og nóg af roki, 159 manns skráðir til leiks og allir alveg í stuði.

Startið var hratt, enda í meðvindi og voru menn mjög hressir, en fljótlega myndaðist um 7 manna hópur sem innihélt flesta af sterkustu hjólurum landsins. 

Um 13km inn í keppnina gaf ég í og dró Hafsteinn Ægir Geirsson með mér, en það var eiginlega alveg óvart að við komumst burt og vorum samhuga með að reyna að stinga af. Rétt fyrir snúningspunkt sem markaði að helmingur keppninnar væri búinn vorum við með 45 sekúndur á næsta hóp, en á leiðinni til baka var barist við mótvindinn sem á endanum var of sterkur fyrir okkur 2, með 5 manns á hælunum á okkur. Þegar um 53km voru búnir af keppninni sáum við að þetta væri vonlaust og létum hópinn ná okkur, og var um leið farið í vörn til að hvíla fyrir hinn óumflýjanlega endasprett.

Þegar stutt var eftir af keppninni byrjuðu menn að stilla sér upp, hraðinn minnkaði og byrjaði taktískur leikur, en þegar um 500 metrar voru eftir komÓskar Ómarsson sér fyrir fremst með það í huga að leiða hópinn inn í endasprett. Fyrir aftan mig sat Hafsteinn, og rest fyrir aftan hann. Allt fór alveg á fullt, og menn voru komnir hátt í 40km hraða á móti vindi þegar Óskar kom sér til hliðar og gaf mér beina línu í átt að markinu, tæplega 1400w (fín tala fyrir sérfræðingana) voru sett í pedalana og það dugði til sigurs, öruggur sprettur að mínu mati en þó þurfti að leggja allt til, til að halda hjólreiðamanni ársins í skefjum 

Ég þakka Hafsteini fyrir frábæra samvinnu og skemmtilega tilraun til að stinga af, líkt og við gerðum í fyrra, Óskari fyrir að vera frábær liðsmaður og koma mér á besta stað í endasprettinum, og auðvitað styrktaraðilunum: Kria Cycles, Compressport Iceland, Optical Studio, Hreysti og Gló!

Comments

comments