Month: August 2017

Lengsta keppnin hingað til: EM í maraþonfjallahjólreiðum

Maraþon er svolítið sérstök grein. Mér finnst greinin skemmtileg því hún er allt önnur tegund af áskorun heldur en XCO keppnir. Á meðan XCO keppnir eru haldnar í flóknum og tæknilegum brautum, sem eru oft um 4km að lengd, og farnir 5-9 hringir eftir aðstæðum, þá eru maraþonkeppnir oftast haldnar í einum risastórum hring, allt frá 60km upp í 160km, en það er breytilegt eftir klifri og tæknilegum atriðum sem hafa áhrif á meðalhraða keppenda. XCO keppnir eru bundnar við 90 mínútur en það er engin tímarammi í maraþon keppnum, bara vegalengd og grófar hugmyndir um lokatíma, sem getur verið frá 3 tímum allt að 7-8 tímum. Áskorunin sjálf snýst meira um langtímaúthald, frekar en sprengikraft. Það þarf að kunna að stilla sig af frá upphafi, þekkja eigin styrkleika mjög vel til að geta látið orkubirgðir endast alla leið, og það er algjört lykilatriði að kunna að passa upp á orkustöðu líkamans. Líkaminn getur bara geymt um 90 mínútna virði af orku fyrir átök af þessarri tegund, þannig að svona keppni er ekki unnin án aðstoðarmanna sem vita hvað þeir eru að gera. Oft eru drykkjarstöðvarnar margar, og mikilvægt að geta fengið nýja brúsa fulla af vatni, orkugel og ýmislegt annað til að geta haldið fullri ferð.

Þetta var eina maraþonkeppnin á planinu mínu í ár, á atvinnumannastigi. Ég hugsa að með tímanum fari þeim að fjölga, þar sem úthald vex með aldrinum, og endist mun lengur en sprengikraftur. Um er að ræða Evrópumeistaramótið, næst stærstu maraþonkeppni heims, á eftir sjálfu Heimsmeistaramótinu. Keppnin var haldin í hinum heppilega nefnda bæ, Svit, í Slóvakíu, en það er alltaf ákveðið ævintýri að fara örlítið austar í Evrópu til að taka þátt í hjólreiðakeppnum. Ég ákvað snemma í vetur að ég myndi taka þátt, þegar ég var að leggja línurnar að stærstu keppnum sumarsins, en þar á meðal voru 2 Evrópumót og amk 1 heimsbikarmót. Það sem ég gerði hins vegar ekki fyrr en 2 vikum fyrir keppni, var að skoða nákvæmlega hvað ég væri að koma mér út í. Eina sem ég hafði athugað var dagsetning og staðsetning.

Það var ákveðið sjokk að skoða upplýsingabæklingin fyrir keppnina. 134km var lengdin á brautinni, og 4200m hækkun samtals. Það er tæplega hálft Everest í klifri. Vegalengdin hljómaði ekki svo slæm þar til ég sá að áætlaður sigurtími væri 6 tímar. Úff! Lengsta keppnin hingað til í ár, var 100km dagleið í Andalucia Bike Race í Mars, en sú tók ekki mikið meira en 3 tíma vegna þess hvað  brautin var flöt og einföld.

Ferðalagið hófst með 1600km bíltúr frá Kaupmannahöfn til Svit í Slóvakíu, en til að minnka álag þá var ákveðið að taka þetta með millilendingu í Berlín, þar sem skyldustopp var á einum af bestu kebabstöðunum, K-Ups. Á fimmtudagskvöldi vorum við mætt til Svit, svolítið þreytt eftir aksturinn en þó ágætlega úthvíld. Það getur verið ákveðinn mínus að taka 2 daga án hjóls í röð, og ég reyndi að sporna gegn “lötum löppum” með því að taka léttann hring á föstudeginum, eftir að við fórum og náðum í keppnisgögn. Sören Nissen var búinn að hafa samband við mig og við fórum saman í að skoða síðustu 10km í brautinni, og fyrstu 10km, en það var lítill tími til að skoða restina af brautinni. Brautarskoðun er ekki alveg jafn gríðarlega mikilvæg fyrir maraþonkeppnir, vegna þess hversu mikið minna tæknilegar þær eru, og vegna vegalengdarinnar, geta sekúndur ekki skipt jafn miklu máli og í styttri keppnum. Eftir föstudagsæfinguna var laugardagurinn tekinn rólega, og passað að borða vel til að fylla á bensíntankinn fyrir keppnina. Við nýttum daginn þó í bíltúr um svæðið, komum við á öllum drykkjarstöðum sem Iðunn þurfti að finna á meðan keppnin væri í gangi, og merktum inn á kort allar staðsetningar, í réttri röð. Veðurspáin var með besta móti, og aldrei þessu vant var ég ansi spenntur fyrir óvenju köldum sunnudagsmorgni. Á meðan flestir dagar fram að keppni voru milli 25 og 30 gráðu heitir, sem er allt, allt of mikið fyrir Íslending, þá lofaði veðurspáin smá rigningu snemma morguns fyrir start, og ekki nema 13 gráðum eða svo, en þó sól.

Keppnisdagurinn byrjaði með öflugum morgunmat, sem samanstóð af hafragraut, samlokum, banönum og smá Nutella. Hótelið, sem er ekki beint á hæsta gæðastaðli, var ekki að bjóða upp á mikið úrval í morgunmat, og ekki hjálpaði að startið var kl 8 um morguninn. Ég reyni mitt besta, og tekst oftast, að halda mig við 3 tíma reglu þegar kemur að mat fyrir keppni, en þetta þýddi að ég þurfti helst að vera að  borða um 5-leytið. Það gekk því miður ekki eftir, því ég fékk lítinn svefn um nóttina á skelfilega erfiðu rúmi, og tímdi ekki að fórna tímanum sem ég þurfti til að vera úthvíldur. Ég gerði þau mistök að borða of seint, og var strax farinn að finna fyrir því þegar keppnin byrjaði. Við skelltum okkur niður að startinu um klukkutíma fyrir, og ég var svo heppninn að vera lesinn upp fyrstur keppenda (fyrir utan top 10 sem fá sérmeðferð), þannig að ég fékk góðann stað í startinu.

Keppnin fór af stað í rigningu og þoku, og það veður var þannig út daginn. Hópurinn, sem var um 70-80 manns, fór á fullri ferð inn að fyrsta klifrinu, sem var einnig síðasta niðurbrekkan á leiðinni til baka. Stígurinn var þröngur og menn voru að gera mistök, þannig að ég þurfti að hlaupa smá spotta með hjólið áður en ég komst upp á topp, þar sem var stuttur flatur kafli fyrir niðurbrekku hinum megin á hólnum. Eftir þá brekku var hópurinn búinn að slitna aðeins í sundur, en eftir öfluga keyrslu á malbiki náðu flestir aftur inn í “pelotonið”. Löng keppni þýðir að menn hjóla örlítið meira eins og í götuhjólakeppni, og þar sem næsti stóri kafli var eitt samfellt klifur sem tók um 60 mínútur, voru flestir á því að halda hópinn og spara orku. Það var þó ekki mikil orka spöruð því ég leit reglulega á mælinn á leiðinni upp og sá oftar en ekki 400 vött eða meira, sem eru hörkuátök á mínum skala. Þegar þessi langa brekka var búin var aftur snúið niður, og í átt að fyrstu drykkjarstöð, en sem betur fer þurfti ég ekki mikla aðstoð svona snemma í keppninni þannig að ég hélt fókus á að hanga í fremstu mönnum. Enn ein langa brekkan byrjaði, álíka löng og sú fyrri, en þarna voru tæpir 2 tímar búnir af keppninni, og þreytan farin að segja til sín. Hópurinn byrjaði að losna í sundur, fremstu menn voru farnir að gera árásir á hvorn annan til að mynda litla hópa, og litlu karlarnir voru að missa af lestinni. Ég fann að þarna var komið að stundinni þar sem ég þarf að ákveða hvort ég vil eyða öllu sem ég á í að halda í við fremstu menn, eða slá af til að spara kraftana. Ég er ágætur í svona löngum keppnum og stóð mig vel á HM í fyrra, þannig að ég ákvað að taka áhættu og reyna mitt besta þar til ég gæti ekki meira. Þetta gekk vel í dágóða stund, en ég endist ekki að eilífu í hámarks átökum þannig að ég gat einfaldlega ekki haldið sama hraða og aðrir.

Ég missti af hópnum, en var langt frá því að vera fyrstur til þess. Þarna tók við langur kafli í svokölluðu “no man’s land”, en ég hjólaði aleinn í vel yfir klukkutíma, á leðinni í stærsta klifrið. Á þessum klukkutíma byrjaði ég loksins að finna fyrir slæmum maga eftir erfiðann morgunn, og á tímabili stoppaði ég reglulega í nokkrar sekúndur því mér fannst ég þurfa að kasta upp. Þetta er mjög óþægileg tilfinning í miðri keppni, en á endanum skilaði ég hluta morgunmatarins og var fljótlega orðinn betri í maganum. Þetta hjálpaði mér að vera duglegri við að drekka reglulega, og fá mér smá af nestinu sem ég fyllti vasana af. Stærsta klifrið kom fljótlega, en þá voru um 3 tímar liðnir af keppninni og óþægilega tilfinningin um að ég væri ekki einusinni hálfnaður, var farin að læðast að mér. Að klifra úr 900m hæð upp í 1900m hæð tók mig rétt rúmlega klukkutíma, en þarna var ég byrjaður að ná mönnum, á sama tíma og aðrir voru farnir að ná mér. Uppleiðin var viðburðalítil fyrir utan það að ég náði 5 manns, og 5 aðrir náðu mér, þannig að ég skellti mér niður eftir að ég komst upp úr skýjunum á toppinn, og hélt áfram, glaður með að vera búinn með megnið af klifri dagsins.

Áður en ég vissi af voru 100km búnir og ég kominn í góðann gír eftir um 5 klukkutíma af hjólreiðum með hjartað í botni. Ég hélt áfram að ná hinum og þessum og neyddist sjaldan til að hleypa fram úr mér. Þarna var mér farið að líða ágætlega, og var ákveðinn í að keyra mig út næsta klukkutímann, en persónulegt markmið í keppninni var að ná að klára undir 6 tímum og 30 mínútum. Einn hjólari merktur Trek sem hafði verið með mér í gegn um mestalla keppnina var búinn að stinga mig af, og tveir aðrir komnir á hælana á mér, en eftir síðasta drykkjarstoppið þar sem ég fékk gríðarlega hjálplegt orkugel frá Iðunni, fann ég smá auka styrk til að pína mig áfram. Ég sá skilti merkt 10km og vissi strax hvað það þýddi. Lítið eftir, og ég var farinn að sjá í skottið á Trek gæjanum, og ekki nóg með það heldur var ég búinn að stinga af hina félagana sem voru að ná mér áður. Ég flaug fram úr Trek treyjunni á leiðinni upp síðasta stóra klifrið, fór inn á sama hól og ég hafði klifrað upp úr andstæðri átt í byrjun keppnninnar, og byrjaði að skjótast niður ansi bratta og langa brekku, sem var þröng og umkringd grjóti og trjám. Svo flaug ég á hausinn.

Ég valdi ranga línu neðst í brekkunni, en ég man ekki meira en það. Ég man að ég var í loftinu, á 40km hraða, og ég vissi að þetta myndi enda illa. Ég man að ég átti samtal við brautarvörð, man þó ekki hvernig hann leit út, en ég horfði niður og sá hjálminn minn brotinn á nokkrum stöðum. Ég man að ég sagði aftur og aftur við gæjann að ég þyrfti að klára keppnina, og loksins hleypti hann mér af stað. Mér finnst eins og ég hafi hjólað í um 10 mínútur áður en ég kom í mark, en eftir smá skoðun á Strava sá ég að ég var í um 20 mínútur að þessu, eftir 8 mínútna stopp. Dagurinn og nóttin var ótrúlega erfið en ég var blár og marinn út um allann líkamann. Sérstaklega á baki og mjöðm, en það var ekki fyrr en daginn eftir sem ég fann fyrir líklega brákuðu rifbeini. Erfitt að anda, hlæja, og ýmis takmörkuð hreyfigeta.

 

Það breytir því þó ekki að ég er stoltur af því að hafa náð 35.sæti á svona stóru móti, og það með tímanum 6klst og 57 mín. Ég veit að ég hefði getað komist í mark um 15 mín fyrr ef ég hefði ekki flogið á hausinn, en aðalatriðið var að klára þetta, til að gera alla vinnuna og kostnaðinn í kringum þetta verkefni, þess virði. Þetta var mín fjórða þáttaka á Evrópumeistaramóti í ýmsum greinum, en fyrsta þáttaka Íslands í maraþon greinninni, og mjög gaman að hafa náð að flagga Íslenska fánanum á svona stórum viðburði. Sumarið er þó ekki búið, og þó ég taki mér nokkra daga, jafnvel viku, til að ná mér eftir meiðslin, verður gaman að takast á við síðustu keppnir sumarsins, og klára keppnistímabilið með stæl!

Dagarnir fyrir keppni

Ég hef alltaf verið varkári hjólarinn, sem tekur aðeins meiri tíma í að skoða hlutina áður en ég læt vaða. Ég tók snemma eftir þessu þegar ég byrjaði að leika mér á BMX hjóli 15 ára gamall með strákunum í hverfinu, þegar við vorum að byrja að feta okkur áfram á “grunnstiginu”. Bunnyhop upp stærri og stærri kanta, smá snúningur á hjólinu í loftinu hér og þar, fyrst 90 gráður með fullt af dettum, svo 180 gráður og loks 360 gráður, grasbrekka sem breyttist í stökkpall, og skúrar notaðir til að láta sig detta fram af, í lendingu eða flata jörð, ég var alltaf síðastur til að þora, og láta vaða. En það tókst alltaf allt á endanum. Ég náði stökkinu, kláraði “trikkið”, lenti droppinu, en stundum var það eftir að allir aðrir voru löngu búnir að ná þessu, og þá hafði afrekið tapað einhverju gildi fyrir mér, og öðrum. Ég held þó að ég hafi, með þessarri varkárni, sloppið við allskonar meiðsli og brotna hjólaparta, þannig að ég skammast mín ekki mikið fyrir að vera ekki sá fyrsti til að prufa eitthvað heimskulegt, sama hversu frábær maður lítur út fyrir að vera ef það tekst.

Undirbúningurinn fyrir fjallahjólakeppni er langt ferli, sem skiptist í marga hluta, en er ekki alltaf jafn flókið. Einföldustu keppnirnar eru til dæmis minni keppnirnar á Íslandi, eins og Heiðmerkuráskorunin eða slíkar keppnir. Það þarf ekki að plana mikið fyrir þær, en sama hversu einföld keppnin er, eða hversu oft maður hefur tekið þátt áður, þá er alltaf hægt að klúðra smáatriðum sem maður tekur sem gefnum. Erlendar keppnir bæta við nýrri vídd, þegar kemur að skipulagi á ferðadögum, flugi, bíl, dóti sem þarf að pakka, hóteli eða gistihúsi, skráningu í keppnina, aðstoðarmenn, og ýmislegt annað.

En hvernig tæklar maður hlutina þegar komið er á staðinn? Það sem skiptir sennilega mestu máli í fjallahjólakeppnum er brautin.

Mér finnst mikilvægt að eyða nógu miklum tíma í brautinni til að líða vel með alla hluta hennar, og að geta rúllað hana í heilu lagi, á góðum hraða, án vandræða. Það er lykilatriði að finna gott jafnvægi í brautinni, þekkja erfiðu kaflana, og rólegu kaflana, vita hvar á að gefa allt í botn og hvar er hægt að slaka á, án þess að tapa tíma. Allir hafa sína veikleika, allir hjólreiðamenn eru misjafnir, og það getur verið svo margt sem kemur manni úr jafnvægi. Brattar brekkur, laus möl, “offcamber” beygjur (td hægri beygja sem er í brekku sem hallar til vinstri), trjárætur, stór grjót, stökkpallar, háar hengjur, mjög brattir niðurkaflar, þröngar beygjur, sandur, og svo mætti lengi telja. Það er líka misjafnt eftir fólki hvernig veðuraðstæður breyta brautinni, sumir verða óöruggir þegar það byrjar að rigna, og þétt mold verður að rennisleipri drullu, trjárætur verða ótrúlega sleipar, og grjótakaflar verða bara frekar óskemmtilegir. En sumir elska það, og nýta sér eigið öryggi í hættulegum aðstæðum, til að ná yfirhöndinni gegn þeim sem vilja passa sig meira, og þora ekki að sleppa tökum og taka sénsa.

Ég legg oft á minnið þá kafla sem standa mest upp úr, til að hjálpa mér með að komast yfir áskoranir framtíðarinnar, eftir því sem ég prufa mig áfram í fleiri keppnisbrautum. Grjótakaflinn í heimsbikabrautinni í Nove Mesto var alvöru áskorun, og sama gildir um þreföldu stökkpallana í Mílanó. Rennisleipa og langa brekkan á heimsmeistaramótinu í Lúxemborg var ótrúlega flókin í hausnum á mér, en einfaldaðist mikið þegar ég prufaði hana loksins. Fyrsti tæknikaflinn í heimsbikarbrautinni í Lenzerheide byrjar með öflugu sikksakki, í sleipum trjárótum og miklum niðurhalla, en verður þægilegur þegar maður er ekki umkringdur 100 hjólurum, föstum í tregt. Á EM í XCO í fyrra, í Huskvarna, var merkilega flókin hægri-vinstri beygja, sem lá niður grjót, með mjög bröttum og þröngum beygjum, þar sem maður varð að finna réttu línuna til að ná kaflanum án vandræða.

Ég byrja á að rúlla brautina í rólegheitum, passa að fara ekki of geyst í brött klifur, hef augun á flestum tæknilegum köflum, en er ekkert sérstaklega að vanda mig við að finna réttu línurnar til að byrja með. Ég stoppa á erfiðustu köflunum, skoða mig um, glápi aðeins á línurnar og reyni að sjá hvernig er best að tækla, og fylgist með reyndari keppendum prufa sig áfram. Ef kaflinn virðist ekki vera of erfiður, þá prufa ég, en annars held ég áfram og geymi kaflann þar til síðar.
Ég hef gert þau mistök að einblína á kafla sem var of erfiður fyrir mig, en mér fannst ég verða að ná honum til að geta liðið vel í brautinni. Mistökin voru að ég eyddi svo miklum tíma í að æfa þetta, að ég hugsaði ekkert um restina af brautinni, og var ekki undirbúinn fyrir marga aðra kafla þegar kom að keppninni. Eftir þetta lærði ég að líta fljótlega á þá kafla sem mér finnst erfiðir, en gleymi þó ekki heildarmyndinni, sem er öll brautin.
Það er misjafnt hversu mikinn tíma maður hefur til að æfa brautina. Keppnin er vanalega á sunnudegi, og stundum mæti ég á föstudegi og hef ekki mikið meira en 1-2 daga til að skoða brautina. Í stærri UCI mótum, eins og HM/EM/World Cup, þá eru fastir tímar á hverjum degi þar sem brautin er opin fyrir æfingar, en er lokuð annars, sem flækir málin meira. Mér finnst þægilegt að byrja rólega, fara þennan fyrsta hring, og meta stöðuna eftir hann, eftir því hversu flókin brautin er, og hvort mér finnst einhver kafli vera að flækjast fyrir mér. Þegar ég næ að fara nokkra hringi, á jöfnum hraða, og þarf ekki að stoppa neinstaðar, eða er ekki í sérstökum vandræðum, þá líður mér vel með brautina og mér finnst ég tilbúinn til að keppa.

 

© 2021 On your left

Theme by Anders NorenUp ↑