Ég hef alltaf verið varkári hjólarinn, sem tekur aðeins meiri tíma í að skoða hlutina áður en ég læt vaða. Ég tók snemma eftir þessu þegar ég byrjaði að leika mér á BMX hjóli 15 ára gamall með strákunum í hverfinu, þegar við vorum að byrja að feta okkur áfram á “grunnstiginu”. Bunnyhop upp stærri og stærri kanta, smá snúningur á hjólinu í loftinu hér og þar, fyrst 90 gráður með fullt af dettum, svo 180 gráður og loks 360 gráður, grasbrekka sem breyttist í stökkpall, og skúrar notaðir til að láta sig detta fram af, í lendingu eða flata jörð, ég var alltaf síðastur til að þora, og láta vaða. En það tókst alltaf allt á endanum. Ég náði stökkinu, kláraði “trikkið”, lenti droppinu, en stundum var það eftir að allir aðrir voru löngu búnir að ná þessu, og þá hafði afrekið tapað einhverju gildi fyrir mér, og öðrum. Ég held þó að ég hafi, með þessarri varkárni, sloppið við allskonar meiðsli og brotna hjólaparta, þannig að ég skammast mín ekki mikið fyrir að vera ekki sá fyrsti til að prufa eitthvað heimskulegt, sama hversu frábær maður lítur út fyrir að vera ef það tekst.

Undirbúningurinn fyrir fjallahjólakeppni er langt ferli, sem skiptist í marga hluta, en er ekki alltaf jafn flókið. Einföldustu keppnirnar eru til dæmis minni keppnirnar á Íslandi, eins og Heiðmerkuráskorunin eða slíkar keppnir. Það þarf ekki að plana mikið fyrir þær, en sama hversu einföld keppnin er, eða hversu oft maður hefur tekið þátt áður, þá er alltaf hægt að klúðra smáatriðum sem maður tekur sem gefnum. Erlendar keppnir bæta við nýrri vídd, þegar kemur að skipulagi á ferðadögum, flugi, bíl, dóti sem þarf að pakka, hóteli eða gistihúsi, skráningu í keppnina, aðstoðarmenn, og ýmislegt annað.

En hvernig tæklar maður hlutina þegar komið er á staðinn? Það sem skiptir sennilega mestu máli í fjallahjólakeppnum er brautin.

Mér finnst mikilvægt að eyða nógu miklum tíma í brautinni til að líða vel með alla hluta hennar, og að geta rúllað hana í heilu lagi, á góðum hraða, án vandræða. Það er lykilatriði að finna gott jafnvægi í brautinni, þekkja erfiðu kaflana, og rólegu kaflana, vita hvar á að gefa allt í botn og hvar er hægt að slaka á, án þess að tapa tíma. Allir hafa sína veikleika, allir hjólreiðamenn eru misjafnir, og það getur verið svo margt sem kemur manni úr jafnvægi. Brattar brekkur, laus möl, “offcamber” beygjur (td hægri beygja sem er í brekku sem hallar til vinstri), trjárætur, stór grjót, stökkpallar, háar hengjur, mjög brattir niðurkaflar, þröngar beygjur, sandur, og svo mætti lengi telja. Það er líka misjafnt eftir fólki hvernig veðuraðstæður breyta brautinni, sumir verða óöruggir þegar það byrjar að rigna, og þétt mold verður að rennisleipri drullu, trjárætur verða ótrúlega sleipar, og grjótakaflar verða bara frekar óskemmtilegir. En sumir elska það, og nýta sér eigið öryggi í hættulegum aðstæðum, til að ná yfirhöndinni gegn þeim sem vilja passa sig meira, og þora ekki að sleppa tökum og taka sénsa.

Ég legg oft á minnið þá kafla sem standa mest upp úr, til að hjálpa mér með að komast yfir áskoranir framtíðarinnar, eftir því sem ég prufa mig áfram í fleiri keppnisbrautum. Grjótakaflinn í heimsbikabrautinni í Nove Mesto var alvöru áskorun, og sama gildir um þreföldu stökkpallana í Mílanó. Rennisleipa og langa brekkan á heimsmeistaramótinu í Lúxemborg var ótrúlega flókin í hausnum á mér, en einfaldaðist mikið þegar ég prufaði hana loksins. Fyrsti tæknikaflinn í heimsbikarbrautinni í Lenzerheide byrjar með öflugu sikksakki, í sleipum trjárótum og miklum niðurhalla, en verður þægilegur þegar maður er ekki umkringdur 100 hjólurum, föstum í tregt. Á EM í XCO í fyrra, í Huskvarna, var merkilega flókin hægri-vinstri beygja, sem lá niður grjót, með mjög bröttum og þröngum beygjum, þar sem maður varð að finna réttu línuna til að ná kaflanum án vandræða.

Ég byrja á að rúlla brautina í rólegheitum, passa að fara ekki of geyst í brött klifur, hef augun á flestum tæknilegum köflum, en er ekkert sérstaklega að vanda mig við að finna réttu línurnar til að byrja með. Ég stoppa á erfiðustu köflunum, skoða mig um, glápi aðeins á línurnar og reyni að sjá hvernig er best að tækla, og fylgist með reyndari keppendum prufa sig áfram. Ef kaflinn virðist ekki vera of erfiður, þá prufa ég, en annars held ég áfram og geymi kaflann þar til síðar.
Ég hef gert þau mistök að einblína á kafla sem var of erfiður fyrir mig, en mér fannst ég verða að ná honum til að geta liðið vel í brautinni. Mistökin voru að ég eyddi svo miklum tíma í að æfa þetta, að ég hugsaði ekkert um restina af brautinni, og var ekki undirbúinn fyrir marga aðra kafla þegar kom að keppninni. Eftir þetta lærði ég að líta fljótlega á þá kafla sem mér finnst erfiðir, en gleymi þó ekki heildarmyndinni, sem er öll brautin.
Það er misjafnt hversu mikinn tíma maður hefur til að æfa brautina. Keppnin er vanalega á sunnudegi, og stundum mæti ég á föstudegi og hef ekki mikið meira en 1-2 daga til að skoða brautina. Í stærri UCI mótum, eins og HM/EM/World Cup, þá eru fastir tímar á hverjum degi þar sem brautin er opin fyrir æfingar, en er lokuð annars, sem flækir málin meira. Mér finnst þægilegt að byrja rólega, fara þennan fyrsta hring, og meta stöðuna eftir hann, eftir því hversu flókin brautin er, og hvort mér finnst einhver kafli vera að flækjast fyrir mér. Þegar ég næ að fara nokkra hringi, á jöfnum hraða, og þarf ekki að stoppa neinstaðar, eða er ekki í sérstökum vandræðum, þá líður mér vel með brautina og mér finnst ég tilbúinn til að keppa.

 

Comments

comments