Ok, Evrópumeistaramótið í ólympískum fjallahjólreiðum (XCO). Keppnin var haldin í litlum bæ sem heitir Darfo Boario Terme á Ítalíu, inn á milli risafjalla á Lombardy svæðinu, sem er þekkt í götuhjólreiðum. Bærinn er á neðsta punkti í litlum dal, en keppnin var færð þangað eftir ákvörðun UEC (Evrópusambandið í hjólreiðum) um að hætta við að halda hana á upprunalegu staðsetningunni í Istanbúl. Brautinni var vippað upp af brautarhönnuðum á svæðinu á aðeins 2 mánuðum, og það er magnað að sjá hvað hefur gerst á þessum tíma, en svæðið er ekki mikið meira en einn stór hóll, fullur af grasi, trjám og grjóti, en engum hjólaleiðum. Útkoman var braut sem mætti segja að sé á World Cup stigi í erfiðleika.

Hjólreiðasamband Íslands var ekki með neina skipulagða ferð í þessa keppni, en það breytti litlu fyrir mig og Gústaf, sem kom með í ferðina, því hún hefur verið á planinu frá því fyrir áramót, og líkt og Evrópu -og heimsmeistaramótin voru farin án stuðnings árið 2016, þá var lítið mál að halda því áfram. Við vorum bara 2 keppendur, og þurftum því að sjá um að aðstoða hvorn annan, en sem betur fer vorum við að keppa á sitthvorum deginum.

Við komum með flugi til Mílanó á miðvikudagsnótt, og eftir stutta dvöl á flugvallarhóteli tókum við bílaleigubíl og rúntuðum að hótelinu, sem er í um 40mín akstursfjarlægð frá brautinni. Þar sem svona stórmótum fylgja allskonar formlegheit, eins og liðsstjórafundir, lokaðir æfingatímar, margar keppnir yfir marga daga, og ýmisskonar skipulagsverkefni, náðum við ekki sem mestum tíma til að æfa brautina, en nýttum þó tímann eins vel og við gátum.

Í stuttu máli er brautin 4km, inniheldur langt klifur og langt brun niður, í afskaplega bröttum brekkum sem eru gerðar að mestu leyti úr grófri möl, mold og grasi, með sléttum grjótum inn á milli. Þar á milli er einn sérlega tæknilegur klettur, sem þarf að fara mjög varlega að til að fljúga ekki framfyrir sig og yfir stýrið, nokkrir kaflar með sleipum hnullungum sem þarf að rúlla varlega, þröngum beygjum inn á milli brattra niðurkafla, og smá “pumptrack” í endann. Ég lenti í því óhappi á æfingu að fara full hratt og endaði framan á tré, skaust yfir stýrið og lenti á báðum fótum, en því miður brotnaði stýrið við höggið. Fimmtudagurinn fór því í að leita að bráðabirgðastýri, til að geta haldið áfram undirbúningi fyrir keppnina.

Það má segja að stærsti óvinurinn þessa vikuna hafi verið hitinn. Á þessum tíma árs er afskaplega heitt á þessum heimshluta, sérstaklega þegar maður er staddur í djúpum dal, milli risafjalla, þar sem myndast eins konar hitapollur. Flestir dagarnir voru milli 25 og 30 gráðu heitir, og það var augljóst frá upphafi að þetta myndi hafa áhrif á okkur Gústa. Við höfum eytt síðustu vikum á Íslandi, þar sem við höfum vanist hitastiginu þar, á ansi köldu sumri, og þannig vorum við engann veginn tilbúnir í þessa hitabreytingu.

Á föstudaginn var ég loksins orðinn ágætur í brautinni, en það verður að segjast að ég hef sjaldan verið jafn “off” þegar kemur að svona brautum. Það er ekkert endilega það að brautin hafi verið óvenju erfið, hafandi keppt í World Cup brautum og heimsmeistaramótum, ég bara komst einhvern veginn aldrei í stuð í þessum aðstæðum. En það þýddi lítið að láta það leggjast illa í mig, og ég hristi allar slæmar tilfinningar af mér í morgun, á sjálfum keppnisdeginum.

Keppnin byrjaði með látum, á heitasta tíma dagsins (34 gráður), og þeir bestu í Evrópu voru allir klárir í slaginn. Mitt plan var að fara í gegn um fyrsta hringinn án þess að reyna of mikið á mig, til að spara orku sem fer oft til spillis í tilraunum til að taka fram úr öðrum keppendum, á þröngum stígum og bröttum brekkum. Planið hélt áfram á beinu og flötu köflunum á malbiki í kring um byrjunar og endamarkið, en skv UCI reglum þarf þetta svæði alltaf að innihalda greiða kafla, sérstaklega í átt að markinu og eftir það, en þar ætlaði ég að spara sem mesta orku til að geta farið hratt upp brekkuna, en þar var planið að fara eins hratt og ég gæti til að nýta klifurhæfileikana til fulls.

Þetta gekk, nokkurnveginn. Vandamálið er að ég fann strax fyrir áhrifum hitans, þar sem púlsinn fór upp úr öllu valdi á aðeins nokkrum mínútum, og aflið var engann veginn í samræmi við púlsinn. Þannig hélt þetta áfram, en á fyrsta hring var umferðarteppan mikil á köflum, og ég þurfti reglulega að hoppa af hjólinu, labba með það á eftir öllum fyrir framan mig, og hoppa aftur á það til að komast af stað. Ég átti enga orku í dag, gjörsamlega grillaður í hitanum og gat engann veginn nýtt það form sem ég er í þessa dagana. Þetta er mjög svekkjandi, sérstaklega í ljósi þess að síðustu helgi, á Íslandsmeistaramótinu í XCO, komst ég nálægt því að setja mínar bestu tölur í afli, en var þó ekki að leggja mig allann fram. Gústaf stóð sig hinsvegar með prýði í drykkjarstöðunum, og hjálpaði mér með brúsa fullann af vatni, ómissandi aðstoð í svona keppnum, og alltaf vel metið. Á mínum síðasta hring lenti ég í hinni óöfundsverðu stöðu að fremstu menn (Florian Vogel, Stephane Tempier, David Valero og Julien Absalon) nálguðust mig til að hringa mig, en ég var ekki nema hálfnaður með hringinn. Það sem eftir var, var brattur niðurkafli á þröngum stígum, og ansi erfiðar og þröngar beygjur í átt að markinu, og ég var engann veginn í standi til að láta vaða niður á fullri ferð, á sama tíma og ég var að stressast upp yfir þeirri hugmynd að verða fyrir fremstu mönnum, og hafa áhrif á keppnina um Evrópumeistaratitilinn. Ég lét mig rúlla niður og leit afturfyrir mig reglulega, en svo komu þeir, og ég fór út í kannt rétt í tæka tíð á meðan Absalon, sem var að verja titilinn, kom hrópandi fram úr mér. Ég rúllaði heim í mark, algjörlega bugaður, í 49.sæti.

Það er oft erfitt að útskýra erfiðleikastigið sem svona keppnir eru á, og hvar maður stendur í þeim gagnvart öðrum keppendum frá öðrum löndum. Með fleiri keppnum byrja ég að þekkja fleiri keppendur, sem ég keppi við oftar en einusinni, og fæ betri hugmynd um hvar ég stend. Ein vísbending um hversu erfið svona keppni er, sést þegar horft er á þá keppendur sem voru einnig á Smáþjóðaleikunum í San Marino í vor. Í þessarri keppni, ásamt mér, voru tveir keppendur frá Svartfjallalandi, þar á meðal Demir Mulic. Hann kláraði keppni í 50.sæti, nokkrum mínútum á eftir mér, en í miðri keppni hjóluðum við einn hring saman, þar til ég náði að stinga hann af. 51 keppandi kláruðu keppni í dag (6 störtuðu en kláruðu ekki), Demir vann silfur var í 9.sæti á Smáþjóðaleikunum í fjallahjólreiðum.

Framundan eru fleiri stórmót, en eitt af þeim er Evrópumeistaramótið í maraþon fjallahjólreiðum (XCM). Ég segi ekki mikið um það hér, en 134km og 4200m hækkun segir ansi mikið um það verkefni!

Novator
Kría hjól
SAFFRAN
Hreysti
WOW air
Lauf forks
Garmin búðin
Iron Viking
Tindur
Skoda á Íslandi
Slippurinn hárgreiðslustofa

Comments

comments