Ég hljóma eins og biluð plata þegar ég tala um hvað þetta er uppáhalds keppnin mín á landinu, og hvað ég held upp á brautina, samkeppnina, veðrið, ferðalagið, og bara allt sem tengist Vesturgötunni, sem er 55km fjallahjólakeppni, hluti af Hlaupahátíð Vestfjarða.

Þetta er merkileg keppni á margann hátt. Stærst er sennilega sú staðreynd að þetta er ein af örfáum keppnum utan höfuðborgarsvæðisins, en það eitt að það er mikið ferðalag að komast á staðinn, gerir ótrúlega mikið fyrir þessa keppni. Þetta er ekki keppni sem maður tekur þátt í á “inn-út” háttinn, með litlu skipulagi og undibúningi. Það að finna gistingu fyrir helgina í kring um keppnina er nógu stórt verkefni fyrir flesta. Keppnin er haldin í pínulitla bænum á Þingeyri, og er hjólað inn í lítinn dal, upp og yfir fallegt skarð, þaðan niður í fjöru í öðrum firði, og farið meðfram ströndinni til baka á Þingeyri. Brautin sem slík er ansi merkileg því hún þróast á andstæðann hátt við hina klassísku hjólreiðabraut, þar sem byrjað er á rólegheitum og stærsta klifrið geymt þar til undir lokin til að magna upp spennuna fyrir lokasprettinn. Þetta gerir það að verkum að keppnin getur aðeins þróast á tvenna vegu: annaðhvort stingur maður af í stóra klifrinu í byrjun keppninnar, og heldur út alla leið, eða maður hjólar klifrið með öðrum og bíður eftir endasprett.

Ég átti ekki sem bestann undirbúning fyrir keppnina, síðasta vika var erfið og það voru ekki margir klukkutímar af svefni á næturna fram að föstudegi. Við Iðunn lögðum af stað frekar seint, og vorum ekki komin á Hótel Ísafjörð, þar sem við gistum, fyrr en um miðnætti, en þá átti ég eftir þessa vanalegu rútínu, kvöldið fyrir keppni. Hárið var skafað af löppunum, skinsuit gallinn dreginn fram og farið yfir alla næringu fyrir keppnina, og svo var farið að sofa, einhversstaðar milli 2 og 3 um nóttina. Við vöknuðum rétt fyrir 8 um morguninn, algjörlega mygluð og handónýt eftir afskaplega stuttann svefn, en rifum okkur af stað, beint í morgunmat og svo var rokið út í bíl og keyrt yfir á Þingeyri. Skoda á Íslandi hjálpaði þó helling með því að lána mér bíl fyrir helgina, og þetta langa ferðalag. Í stað þess að taka sénsa á gömlum og afskaplega tæpum bílnum okkar, fórum við á glænýjum Skoda Superb, þar sem fór vel um hjólið í risastóru skottinu. Þegar ein keppnishelgi inniheldur yfir 1000km af akstri þá skiptir þetta máli.

Eftir létta upphitun, slatta af hæum og hallóum, og snögga yfirferð á öllum búnaði, var komið að fjörinu. Þarna voru allir þessir helstu mættir, Hafsteinn, Bjarki, Gústaf, Stefán Haukur og svo margir fleiri góðir vinir, og allt stefndi í góðann dag. Meira að segja veðrið stóð við sitt, þrátt fyrir rigningu og þung ský fram að keppni, og við fengum smá hlýju og enga rigningu á meðan keppnin var í gangi. Planið mitt var ekki flókið, ég ætlaði að bíða þar til eftir að fylgdarbíllinn, sem leiðir okkur út úr bænum í átt að klifri dagsins, væri farinn, og myndi keyra upp hraðann eftir fyrstu beygju. Eins og keppnin þróaðist í fyrra sá ég lítið annað í stöðunni en að reyna að hjóla klifrið eins hratt og ég gæti, meta stöðuna á toppnum, og halda svo áfram eftir brunið niður að fjörunni. Þegar nokkrar mínútur voru liðnar af keppninni var staðan nákvæmlega eins og ég sá fyrir mér: ég var fremstur að keyra hópinn áfram, með Haffa á hælunum á mér, og restina fyrir aftan hann. Ég fann fyrir smá þreytu þegar bættist í hallann á leiðinni upp, en klifrið tekur um 20-25 mínútur í heildina. Á leiðinni upp byrjaði Haffi að missa takið á mér og það kom smá bil á milli okkar, en það var aldrei mikið. Hann var aldrei meira en 30 sekúndum á eftir mér, þrátt fyrir mínar tilraunir til að stækka bilið. Mér fannst ég vera ótrúlega þungur og svifaseinn á leiðinni upp, ekki alveg með sjálfum mér, og ég gat ekki hugsað um annað en hvað ég væri að fara hægt upp, og þetta væri engann veginn það sem ég á að geta gert. Gaman er að segja frá því að ég var í tómu rugli og setti nýtt met í þessu klifri, og Haffi með nokkurnveginn sama tíma, þannig að ég held að staðan hafi bara verið góð hjá okkur báðum!

Eftir klifrið byrjaði brunið niður, sem tekur um 8 mínútur og er eitt skemmtilegasta brun á landinu að mínu mati. Fullt af grjóti og drasli á leiðinni, árfarvegir til að hoppa yfir eða þruma í gegn um, og nóg af lausum beygjum með smá drullu hér og þar, en mestmegnis lausamöl og grjót. Ég stóð mig ágætlega á leiðinni niður, en þarna var ég þó kominn í varnarstöðu, búinn að ákveða að þetta yrði ekki dagurinn til að hjóla einn. Neðst í dalnum er stór á sem þarf að fara yfir, en það gekk ekki svo vel hjá mér. Á einhvern ótrúlegann hátt tókst mér að reka mig í grjót, losa báða fætur frá pedulunum á sama tíma, og reka mig hressilega fast í stýrið, á miðri leið yfir ánna. Þetta var óheppilegt þar sem Haffi var rétt á eftir mér, og náði mér þegar ég var að koma mér af stað aftur. Ég hentist í gang á eftir Haffa, sem var svo kurteis að nýta ekki tækifærið til að stinga mig af, og við tókum stefnuna á fjörugrjótið handan við hornið.

Megnið af leiðinni eru skemmtilegir slóðar og malarvegir, sem eru ansi beinskeittir og án tæknilegra kafla. Þó eru staðir þar sem maður þarf að tækla lausar og stórar beygjur, örfáar mjög brattar brekkur, og fyrst og fremst laust grjót og náttúrulegar hraðahindranir, sem gera fulldempuð hjól einstaklega heppileg fyrir þessa keppni. Við Haffi skiptumst á að keyra upp hraðann, en verandi báðir keppnismenn í húð og hár, vorum við aldrei í vafa um að hjálpast að við að hjóla þetta eins hratt og við gátum. Þegar komið var á lokakaflann, 10km malarveg sem breytist í malbik við og við, í áttina að Þingeyri, vorum við að skiptast á reglulega, og hjóluðum þetta eins og götuhjólakeppni. Skyndilega spyr Haffi hvort ég muni hver besti tíminn í brautinni sé, og þá átta ég mig á að við gætum átt möguleika á að bæta þann tíma, sama og Haffi var að hugsa. Ég var mikið að hugsa um endasprettinn, langaði að beita smá taktík og spara kraftana fyrir sprettinn, en ég hafði lika áhuga á að bæta metið þannig að ég geymdi taktíkina þar til alveg undir lokin.

Þegar uþb 1km var í mark vorum við alveg að rúlla inn í bæinn, komnir á malbikið og byrjaðir að hugsa um sprettinn. Ég náði að setja mig fyrir aftan Haffa, og þegar olnboginn hans bað um að ég tæki við fremst, gerði ég ekkert. Þá var samvinnan búin, og alvaran byrjuð. Við fórum saman inn í lokabeygjuna, og ég beið þar til aðeins um 150 metrar voru eftir, og gaf allt í botn fram úr Haffa. Það dugði til að taka sigurinn, aðeins 1-2 hjólalengdum á undan. Keppnin hefur ekki verið svona tæp síðan 2014, en það gerði hana svo ótrúlega góða í ár. Í fyrra sigraði ég einn, með nokkurra mínútna bili, en það var engann veginn jafn góð og spennandi keppni og þessi. Við bættum tímametið um 3 mínútur frá því 2014, sem gerir næsta ár að enn betri áskorun.

Ég stóð upp sem ósigraður Íslandsmeistari í maraþon fjallahjólreiðum, feginn að halda titlinum í eitt ár til viðbótar, fékk 10 verðmæt UCI stig, sem gagnast mér í erlendum keppnum, og skellti mér með Iðunni í sumarbústað hjá pabba, þar sem ég fékk loksins svefninn sem ég skuldaði sjálfum mér.

Takk kærlega fyrir mig, skipuleggjendur, keppinautar, styrktaraðilar, stuðningsmenn, vinir og fjölskylda!

Novator
Kría hjól
SAFFRAN
Hreysti
WOW air
Lauf forks
Garmin búðin
Iron Viking
Tindur
Skoda á Íslandi
Slippurinn hárgreiðslustofa

Comments

comments