Það eru 2 ár síðan ég tapaði síðast Íslandsmeistaramóti, þannig að ég gat verið vonsvikinn eða brjálaður eftir ósigur dagsins. En ég er glaður yfir því að nýtt nafn sigraði í dag. Anton Örn á sigurinn fyllilega skilinn, hafandi verið mjög virkur í sportinu í Danmörku, keppandi með liði í A-flokk og að ná árangri sem fæstir Íslendingar gætu jafnað, á erlendri grundu.

Ég tapaði keppninni á því að stoppa til að pissa. Það hljómar ekki jafn dramatískt þegar það er sett í eina setningu, en það var erfið staða, verandi í spreng frá því þegar 30 mín voru liðnar, og það voru læti eftir að ég hafði lokið klósettförinni. Hefði ég sigrað keppnina án stoppsins? Ekkert endilega, en líkurnar hefðu verið hærri. Ég stoppaði þegar um 50km voru búnir af 160, eftir að stórvinur minn og fyrirmynd, Elías Níelsson, fórnaði heilmiklu til að aðstoða mig í verkefninu. Það gekk eitthvað illa þannig að ég sendi hann áfram, þar sem hann átti í vændum gríðarlega eftirför, en við höfðum báðir misst af hópnum, á meðan ég stoppaði til að klára verkið. Elli, ég biðst afsökunar á þessu, og bið þig um að rifja þetta atvik upp næst þegar mér dettur í hug að gera þetta aftur!

Keppnin hafði verið afskaplega róleg fram að þessu, en hópurinn var mjög stór, og í logninu og flatri braut, var mjög erfitt fyrir lítinn hóp að slíta sig frá restinni. Það mætti segja að rólegheitin hafi gefið mér þá hugmynd að pissustoppið myndi ganga upp, en sennilega var ég að stórlega ofmeta getu mína til að ná hópnum aftur eftir þetta. Það vill svo til að þegar ég stoppaði þá gáfu sterkustu leikmennirnir í, og slitu sig frá hópnum, en þetta voru þeir sem röðuðu sér í fremstu sætin í lok dags. Sumir vildu meina að þetta hafi verið viljandi tímasett þar sem ég var ekki í stöðu til að bregðast við, en ég á erfitt með að trúa því upp á menn sem ég hef keppt við í góðu í mörg ár.

Eftir stoppið gaf ég hressilega í til að reyna að ná hópnum. Ég var ekki lengi að sjá hvað hafði gerst, en fyrir aftan fremstu menn voru komnir 2 hópar, sem höfðu myndast eftir lætin, þar sem allir reyna að hanga í, en ekki ná því allir, og þá myndast minni hópar. Ég keyrði framhjá hvorum hópnum fyrir sig, hafandi litla trú á að ég gæti fengið þá hjálp þar, sem ég þurfti til að ná fremstu mönnum, bæði vegna þess að þar voru menn sem voru í sama liði og einhverjir af þeim fremstu, og það þurfti eitthvað af hestöflum til að ná þeim. Þegar sterkustu mennirnir eru farnir, er erfitt að fá aðstoð til að ná þeim, því miður.

Við tók uþb klukkutími af hörkuhjólreiðum, þar sem ég ekki aðeins setti mitt besta 20 mín (411w) afl, heldur einnig 5 mín (465w) og 60 mín (374w) afl. Það má segja að ég hafi sett allt í þetta. Fljótlega fór ég að taka tímann á meðan ég sá fremstu menn, en mér sýndist þeir vera 4-6, sem passaði. 40 sek var tíminn á milli, en það vill svo skemmtilega til að stoppið tók 38 sek. Þetta er heilmikill tími þegar kemur að götuhjólreiðum, og ég verð að játa að þrátt fyrir stórt sjálfsálit og mikla trú á eigin getu, var ég ekki sá bjartsýnasti þegar kom að því að hjóla hraðar en hópur sem innihélt meðal annarra Hafstein Ægi, Bjarna Garðar, Anton, og Óskar, 4 af þeim bestu á landinu. Ég reyndi mitt besta og get verið ánægður með að hafa haldið bilinu í 40 sek í heilann klukkutíma, eða þar til ég var að verða bensínlaus og sá lítið annað í stöðunni en að gefast upp á eltingaleiknum, og einbeita mér að því að ná sem mestu út úr því sem ég hafði.

Þegar kom að stærstu brekkunni í brautinni, Vatnaleiðinni, var ég búinn að hinkra í smá stund eftir næsta hóp á eftir mér, sem innihélt topp hjólara á borð við Hákon, Sigga Hansen, Rafael, Ármann, Kristján og Birki Snæ, ásamt fleirum. Við hjóluðum saman upp brekkuna og inn á leiðina í átt að Grundarfirði, þar sem endamarkið stóð. Það var góð samvinna í hópnum fram að síðustu kílómetrunum, en þegar ég tók eftir að menn voru farnir að horfa á hvorn annan og búa til smá stress, ákvað ég að gefa í, með 3km í mark. Ég kláraði einn, 20 sek á undan, í 5.sæti, sem ég get ekki annað en verið ánægður með, eftir erfiðann dag í vinnunni.

Götuhjólreiðar eru ekki mín grein, þannig að ég á auðvelt með að bæta svona keppni í planið á síðustu stundu, vegna þess að það vildi svo heppilega til að fyrir viku síðan var ég á landinu með götuhjól, fyrir WOW Cyclothon, og datt þá í hug að lengja ferðina aðeins fyrir eina keppni. Það er þó alltaf erfitt að tapa keppni, og verður erfiðara eftir því sem maður nær lengra á ferlinum, og býst meir og meir við sigrum. Framundan eru þó Íslandsmeistaramótin sem ég fókusa á, í maraþon og ólympískum fjallahjólreiðum. Ég bíð spenntur eftir þeim verkefnum, og hlakka til að keppa aftur við þá bestu á landinu.

Takk fyrir mig Hjólamenn og HRÍ fyrir vel skipulagða keppni, og sérstakar þakki fá veðurguðirnir fyrir að gefa okkur besta veðrið í dag. Takk Biggi fyrir klikkað lánshjól, David fyrir að vera á svæðinu, takk Ernir og co fyrir fylgdarbílinn, og Rafael fyrir að vera skemmtilegur liðsfélagi!

Comments

comments