Ég tók þátt í minni fyrstu keppni á erlendri grundu árið 2013, á Smáþjóðaleikunum í Lúxemborg. Það ár var mitt fyrsta sem einn af þeim bestu á Íslandi, ég hafði átt góða byrjun á árinu með því að sigra td. úrtökumótið fyrir valið í landsliðið, sem var haldið í Vífilstaðahlíðinni. Sigur þar þýddi sjálfkrafa val í liðið, og þá var ég búinn að næla mér í þáttökurétt á mitt fyrsta stórmót utan Íslands. Keppnin sjálf fór ekki eins og ég hafði séð fyrir mér, en reynsluleysi felldi mig niður í eitt af síðustu sætunum þegar upp var staðið. En ég kynntist góðu fólki þarna, öðlaðist mikilvæga reynslu, og sennilega það mikilvægasta: ég fékk að skygnast fyrir um erfiðleikastigið í þessarri íþrótt utan Íslands.

4 árum síðar (hjólreiðar voru ekki með þegar leikarnir voru haldnir á Íslandi árið 2015), var kominn tími á að gera aðra tilraun, og sjá hvort ég gæti gert betur eftir að hafa safnað reynslu á síðustu árum, og orðið sterkari sem fjallahjólari. Í fyrra þegar ég byrjaði að velta þessarri keppni fyrir mér, hófst rannsóknarvinnan sem felur í sér að skoða samkeppnina vel, kynna sér aðstæður og mögulega braut sem væri notuð, og skipuleggja æfingar fram að keppni. Mín fyrsta spurning var hvar ég stæði gegn fyrrverandi sigurvegara keppninnar, Christian Helmig frá Lúxemborg. Ég hafði keppt oftar en einu sinni með honum í fyrra, og var yfirleitt á svipuðum stað og hann í keppnum, auk þess að hann tók þátt í Glacier 360 keppninni hérna á Íslandi með mér, þar sem við stóðum nokkuð jafnir. Þetta var jákvætt merki og eitthvað sem ég gat notað til að sannfæra mig um að ég ætti góða möguleika. En margt getur gerst á 4 árum, yngri hjólarar orðið sterkari og ólíklegir keppendur, ég þar á meðal, gætu komið á óvart. Ég ákvað þó að nota staðreyndirnar til að setja háleitt markmið, að sigra þessa keppni.

Keppnisvikan hófst með brautarskoðun, en fyrsta hugsun þegar komið var í brautina var að þetta yrði keppni fyrir klifrarana. Brautin, sem er um 3.5km löng með uþb 150m hækkun, inniheldur 4 brött klifur, og 3 brattar niðurbrekkur með tilheyrandi hólum, hæðum, trjábrúm, grjóti og skemmtilegum beygjum. Þrátt fyrir tæknilega kafla var ljóst að keppnin yrði ráðin með góðu formi, en ekki góðri tæknikunnáttu, vegna þess hversu brött og erfið klifrin eru. En brautin var ekki eina atriðið sem skipti máli. Hitastigið yfir vikuna fór varla undir 25 gráður, og á köflum var vel yfir 30 stiga hiti, með ekki ský á himni og lítinn vind. Brautin er í þéttu skóglendi þar sem vindurinn hreyfist ekki, og allt stefndi í vandamál fyrir okkur Íslendingana, sem erum alls ekki gerð fyrir svona aðstæður. Þrátt fyrir allt þá leið mér vel í brautinni. Ég er mjög léttur og held mikið upp á klifur, þannig að ég gladdist yfir brekkunum, frekar en að vera smeykur við þær. Tæknilegu kaflarnir voru tæklaðir sæmilega vel, þó alltaf megi fara hraðar þegar tími gefst til æfinga. Þarna var þó lykilatriði að spara kraftana eins vel og mögulegt var, til að eiga nóg inni fyrir keppnisdeginum.

Þegar kom að keppni var allt klárt. Fyrsta keppnin í ansi flottum landsliðsbúning, hjólið búið að fara í megrun, 10,08kg á vigtinni góðu, og lappirnar hressar og til í slaginn. Hitinn kom engum á óvart og sólin skein hressilega þannig að leitað var að skuggum og köldu vatni við hvert tækifæri. Ég fékk góða aðstoð frá þjálfurum landsliðsins og umsjónarmönnum hópsins, bæði með köldu vatni til að hella yfir mig reglulega, og góðann sopa af orkudrykk í báðum drykkjarstöðvum sem voru við brautina. Ég fékk ekki að njóta þess að vera númer 2 á keppendalista í styrkleikaröð skv heimlista UCI, heldur var dregið úr hatti startröð keppenda. Ég endaði lengst til vinstri á 2.röð, en hægra megin var aðeins betra aðgengi í stuttum upphafskafla brautarinnar, þannig að ég þurfti að vinna mig hratt upp. 5 hringir í brautinni, sem stefndi í tiltölulega stutta keppni, eða um 70-75 mínútur samkvæmt mínum ágiskunum.

170602-_MG_4316-web-David Robertson

Keppnin fór af stað, og ég var ekki sem best staðsettur en þó framarlega í hópnum þegar komið var inn í brautina. Um leið og fjörið hófst byrjuðu menn að gera mistök, og ég var óheppinn að lenda í því að einn af keppendum San Marino hrasaði beint fyrir framan mig á þröngum kafla, og var lengi að koma sér af stað aftur. Ég komst illa fram úr honum vegna staðsetningar, en á endanum tókst það, fékk meira að segja góða aðstoð frá Bjarka sem kom rétt á eftir mér, og hinkraði aðeins til að hleypa mér af stað. Ég fór strax að vinna mig áfram og eyddi megninu af fyrsta hring í að taka fram úr mönnum, sem gekk misvel þar sem ekki voru alltaf aðstæður til framúraksturs. Eftir fyrsta hring var ég búinn að vinna mig úr 13.sæti upp í 4.sæti, og sá ennþá í fremstu menn sem voru 3 saman í hóp, uþb 30 sek á undan mér.

Næstu 3 hringir liðu hratt hjá, allt gekk vel og ég gerði mitt allra besta til að vinna upp tíma í klifrum og að fara örugglega niður tæknilegu kaflana. Á meðan ég bjó til hátt í 5 mínútna forskot á 5.sæti, fjarlægðist Sören Nissen, sem var búinn að vinna sig upp í 1.sæti og hafði hjólað í burtu frá Andreas Miltiadis frá Kýpur, og Guy Diaz frá Andorra. Þó byrjaði ég að minnka bilið yfir í Guy þegar liðið var á 4.hring, en aðeins einn hringur eftir þýddi að ég þurfti að gera allt rétt til að ná honum á lokametrunum. Eftir fyrsta klifrið af fjórum heyrði ég að ég var að vinna á hann, og hélt mínu striki án þess að taka neinar áhættur. Þegar ég var á leiðinni í bröttustu brekkuna í brautinni, þar sem hvert tré var vafið púðum til að grípa óheppna hjólara, og netum til að koma í veg fyrir að menn húrruðu niður alla hæðina og inn í næsta ríki, heyrði ég hvell og fann um leið óþægilega, en kunnuglega tilfinningu. Það hafði hvellsprungið, ekki bara á öðru dekkinu heldur báðum. Ég hoppaði af hjólinu í þvílíkum halla, hafði engann tíma til að hugsa um eigið öryggi en vissi strax að ég væri ekki að fara að laga þetta án aðstoðar. Á ótrúlegann hátt tókst mér að hlaupa niður þessa brekku án þess að fljúga á hausinn, og þá hófst  900 metra hlaup í átt að eina svæðinu í brautinni þar sem leyfilegt var að geyma varahluti, eins og gjarðasettið sem mín beið þar. 8 mínútum og 30 sekúndum síðar mætti ég móður og másandi, og rétti David og Óskari bróður hjólið og sagði að bæði dekkin væru sprungin.

170602-_MG_4351-web-David Robertson

Mér datt aldrei í hug að gefast upp og hætta keppni. Það kom ekki til greina að fá DNF fyrir þessa keppni, eftir alla vinnuna sem ég hef lagt í undirbúninginn fyrir hana. Mér var alveg sama á þessum tímapunkti, um hvaða sæti ég myndi enda í þegar upp væri staðið. Raunhæfi möguleikinn á 3.sæti var horfinn, öruggt 4.sæti var horfið, og lítið var eftir þegar ég komst loksins af stað eftir að skipt hafði verið um dekk á hjólinu. Ég hoppaði aftur af stað og kláraði hringinn, og endaði í 16.sæti af 22 keppendum.

Ég er ekki hræddur við að viðurkenna að mér hefur aldrei liðið svona illa eftir keppni, síðan ég byrjaði í þessarri íþrótt. Mér leið eins og allar þær fórnir sem ég hef gefið fyrir þetta hafi verið til einskis, eins og allt sem hefur flogið fram hjá mér í lífinu á meðan ég er einbeittur á einn hlut, eitt markmið, einn tilgang, væri eitthvað sem ég myndi sjá eftir. Þessi keppni gjörsamlega sigraði mig, og ég brotnaði niður.

Svona keppnir koma og fara, önnur tækifæri bíða og fyrri afrek lifa í minningum sem er gaman að rifja upp. Eftir 2 ár fæ ég tækifæri til að reyna við þetta aftur, og ég veit að ég verð sterkari, sneggri, og tilbúnari en ég var í ár. Ég trúi því að það séu mistök að drífa sig að gleyma svona keppnum, til að halda haus og líta fram á við. Það er alltaf hægt að læra af reynslunni, og það er stundum í lagi að vera óhress yfir mistökum eða óheppni, því maður lærir að meta þau skipti sem allt gengur upp, og þetta kennir manni að takast á við slæmu dagana. Ég veit að ég gerði allt sem ég gat, tölurnar og tilfinningarnar sýna það, og ég veit að ég hefði náð öruggu 4.sæti ef ég hefði ekki lent í óheppni á síðasta hring. Ég komst að því eftirá að áhorfandi hafði kastað glerflösku á þessu svæði, og get ýmindað mér að glerbrotin gætu hafa verið það sem reif dekkin, en það er ekki hægt að vera fullviss um það.

Landsliðið gerði góða hluti í þessarri ferð, og Hjólreiðasamband Íslands sýndi að það er flott framför í afrekshlutanum af þessarri íþrótt. Ég þakka fyrir að hafa verið valinn í liðið og að hafa fengið þetta tækifæri. Næsta skipti sem ég keppi fyrir Ísland verður á Evrópumeistaramótinu í fjallahjólreiðum á Ítalíu, í lok Júlí.

Novator
Kría hjól
SAFFRAN
Hreysti
WOW air
Lauf forks
Garmin búðin
Iron Viking
Tindur
Skoda á Íslandi
Slippurinn hárgreiðslustofa

Comments

comments