Vikan er búin að vera rosalegt bland í poka. Æfingar eru að komast aftur á sinn vanalega stað, inni á trainer með Zwift í gangi, landsliðið í hjólreiðum var með ýmis þolpróf, fundi og æfingar, og ég er að koma mér í ákveðna rútínu með verktakavinnuna í tengslum við vefsíðugerð.

Ég hef aldrei verið mikill reglumaður þegar kemur að tímaskipulagi og rútínu. Það er eitthvað sem mér finnst ómögulegt að gera, að ná þessum litlu daglegu hlutum, alltaf á hverjum degi. Á sama tíma er ég góður í að taka tímabil sem ég geri eitthvað ákveðið mjög vel, en auðvitað er það á kostnað annarra hluta. Gott dæmi er þegar ég ákvað að lifa skv hollu mataræði í byrjun 2017, þá entist það í einhverja mánuði en um leið og ég missti áhugann þá féll ég hressilega og hef ekki komið mér á þann stað síðan. Ef það er eitthvað í lífinu sem ég get litið á sem fasta rútínu, þá er það að mæta á hjólaæfingar 😊

Þetta er tími ársins þegar allt sem tengist skipulagi í hjólavinnunni þarf að vera að smella saman. Nýr búningur þarf að vera tilbúinn fyrir fyrstu keppni, sem þýðir að ný hönnun, með réttum merkingum, þarf að vera tilbúin til að senda til framleiðandans, sem þýðir að ég þarf að vera búinn að ganga frá öllum samningum og samkomulögum við meira en 10 styrktaraðila og stuðningsmenn. Stundum gengur þetta fullkomnlega en stundum ekki, en það gengur þó töluvert betur núna heldur en fyrir ári síðan.

Ég byrjaði með nýtt samstarf við Sportvörur og 2XU æfingafatnað. Undanfarin ár hef ég átt í mjög góðu samstarfi við Ironviking með Compressport vörurnar og ég þakka þeim kærlega fyrir þeirra stuðning. 2XU virkar á mig sem spennandi vörulína, sem nýtist í ræktinni, á hlaupaæfingum á veturna, og svo er merkið að prufa sig áfram í hjólafatnaði líka, sem ég mun prufukeyra á næstu vikum.

Vikunni lauk á því að ég setti persónulegt met í afköstum á hjólinu, í svokölluðu FTP prófi. Það verður að segjast að allur minn ótti um að missa niður æfingaumhverfið sem ég naut erlendis í 3 ár, og eiga erfiðara með að koma mér í betra form, er farinn út um gluggann. Það er ekki oft sem maður lítur á stöðuna í byrjun Febrúar og telur sig tilbúinn til að stökkva beint í fyrstu keppni, en í dag líður mér þannig.

Comments

comments