Það er gott að vera kominn heim, eftir mjög góða ferð til Spánar síðustu 2 vikur. Ein af mínum uppáhalds tilfinningum þegar ég er að ferðast, er þegar það kemur sá dagur sem ég hugsa að það væri frábært að vera áfram í útlandinu, en mig langar líka heim. Engin heimþrá eða neitt slíkt, engin þreyta á að vera erlendis, bara mín upplifun á því að ég sé búinn að nýta ferðina vel, og finn ekki fyrir neinni neikvæðni við það að fara aftur heim.

Ég var einn á ferð í þetta skiptið. Margar æfingaferðir hefur maður farið í, stundum með íþróttafélagi, stundum með góðum vinahóp, og stundum erum það bara ég og Iðunn, en þetta var í fyrsta skiptið sem ég fer einn í svona ferð. Mér finnst vera margir kostir við það, en líka ýmsir gallar:

Kostir:

  • Fullkomið frelsi til að eyða tímanum eins og ég vil, óháð lífsmynstri annarra. Hvenær er vaknað/borðað/sofið/hjólað, fer allt eftir mínum haus.
  • Ég fæ óhóflega mikinn tíma til að hugsa, og vera með sjálfum mér. Þetta eru tveggja vikna langar hugleiðslubúðir, og ég get pælt í hlutum sem komast aldrei vanalega að.
  • Vinnufriður. Ég reyni alltaf eftir bestu getu að vinna í verkefnum sem tengjast forritun og vefhönnun, ásamt öðru, þegar ég er að ferðast. Það gengur yfirleitt vel, og algjör lúxus að geta tekið vinnuna með sér hvert sem er, en einveran gefur mér allan þann frið til að koma mér inn í vinnuna eins lengi og ég þarf
  • Ég get hjólað alveg eins og ég vil. Þetta þekkja margir sem æfa og keppa á háu stigi í íþróttum. Eftir því sem maður verður betri, verður þörfin fyrir að æfa einn sterkari, og það verður erfiðara að samlagast stórum hópum. Kröfurnar verða meiri og planið minna sveigjanlegt.

Gallar:

  • Fullkomið frelsi til að eyða tímanum eins og ég vil. Já, það er ekki gott fyrir mig að vera einn, fara allt of seint að sofa, og vakna á skelfilegum tíma dags. Ég slepp með skrekkinn af því ég er bara fastur í einföldu móti: fer að sofa þegar ég er þreyttur, vakna þegar ég er úthvíldur, hjóla þar til ég er úrvinda, slappa af þar til ég er þreyttur, og hringurinn endurtekur sig héðan.
  • Einhæft og einangrað umhverfi. Mér finnst svona fyrirkomlag hafa ákveðinn tímaramma og mega ekki vera mikið lengur en 2-3 vikur, ekki mjög hollt að vera of lengi einn. Að hafa skýr markmið og verkefni er gríðarlega mikilvægt til að halda manni gangandi en ég fann alveg undir lokin að þetta var komið gott.

Ég hjólaði svolítið með tveimur flottum hjólurum frá Litháen. Báðir eru að keppa á WorldTour stigi í götuhjólreiðum, hafa unnið dagleiðir í stórmótum og jafnvel medalíur á heimsmeistaramótum. Og þeir koma frá 3 milljón manna landi þar sem hjólreiðar, þó stærri en hér á Íslandi, eru ekki á heimsmælikvarða. Fyrir nokkrum árum átti landið slatta af efnilegu fólki í unglinga og ungmennaflokkum, en vegna þess að það var lítill stuðningur fyrir þetta fólk þegar það fullorðnaðist og vildi fara að beita sér í stærri mótum, varð það að stóru vandamáli hversu margir hættu á ákveðnum aldri. Þessir tveir voru þeir fyrstu til að ná á svona hátt stig í sínu landi, en voru ansi neikvæðir þegar við fórum að tala um framtíð íþróttarinnar á afreksstigi heima hjá þeim, þeir sáu ekki fram á neinn sem myndi taka við keflinu.

Þrátt fyrir það fannst mér gaman að spjalla við þá, því það var áberandi mikil tenging á milli þróunar íþróttarinnar í Litháen og á Íslandi. Þeir eru vissulega komnir lengra en við, en margar af þeim hindrunum og verkefnum sem þeir lýstu eru einmitt það sem við erum að ganga í gegn um núna. Það er bara vonandi að þetta haldi áfram í rétta átt hjá okkur, og að við náum á staði sem til dæmis þessir tveir topphjólarar hafa náð.

Comments

comments