Ég tók þátt á Evrópumeistaramóti í fjallahjólreiðum í 4.skiptið á ferlinum núna í vikunni, og eftir nokkrar vikur af keppnum á Íslandi kom á óvart hvað lappirnar gátu á meðal bestu manna í Evrópu. Keppnin var hluti af Evrópuleikunum, sem er nýtt fyrirbæri, tilraun til að sameina fleiri íþróttir í einn stórann viðburð, en ásamt öðrum keppnum fór þetta fram í Glasgow, Skotlandi.

Eitt merkilegt sem ég hef tekið eftir á síðustu árum, er að spenningurinn og stressið sem fylgir stórmótum minnkar og minnkar. Á sama tíma, á furðulegann hátt, minnkar sami spenningur ekki þegar kemur að Íslenskum mótum, þó töluvert minni séu. Það var þægilegt að mæta á svæðið á fimmtudegi, þegar keppni fór fram á þriðjudegi, nógur tími til að undir búa allt, og hvíla í leiðinni. Staðlaða rútínan að bögglast upp á flugvöll með fullt af farangri eldist ekki, en eftir flugið til Edinborgar var tekin rúta til Glasgow. Ég lagði ekki í að gera mína frumraun til aksturs vinstra megin vegarins á sama tíma og ég var að koma mér í keppnis hugarástandið. Tékkað inn á hótel nálægt miðbæ borgarinnar, og beint út að hjóla daginn eftir.

Það kom á óvart að það var ekkert mál að hjóla á öfugum vegarhelmingi. Ég reyndar lagði út með hugarfarið að ég væri á stríðssvæði og fylgdist með bókstaflega öllu sem hreyfðist í kring um mig. En eftir um 20 mínútur var ég bara orðinn þræl-breskur. Næstu dagar fóru í að skoða brautina, aðlagast hitanum og reyna að passa að hafa lappirnar í keppnisástandi. Það er merkilegt jafnvægi sem þarf til að vera í réttu standi fyrir stóra keppni. Mótsögnin að hugsa að það sé best að hvíla og gera ekki neitt getur komið öllum í vandræði, en á sama tíma gera sumir allt of mikið fram að keppni og mæta með tómann bensíntank að startlínunni. Það þarf nákvæmnisvinnu og góða tilfinningu fyrir líkamanum, að hafa fæturna “ferska”, en ekki “þunga” eða “lata”. Mér finnst best að stytta æfingarnar, en halda sama álagi, og stundum jafnvel bæta í álagið. Að taka hressilega á því daginn fyrir mót getur gert merkilega hluti fyrir vel þjálfaðann íþróttamann.

Brautin var skemmtileg, örlítið krefjandi, en fyrst og fremst þung. Hún hefst með stöðugu klifri upp í skóginn sem keppt er í, og fer í gegn um skóginn með nokkrum snöggum og stuttum brunköflum, smá grjóti en mest megnis gras og möl. Í miðri braut kemur svokölluð “dual slalom” eða svigbraut þar sem tveir keppendur geta hjólað hlið við hlið, sem er skemmtileg viðbót rétt fyrir lengsta klifur brautarinnar sem er allt í mjög þungu grasi. Eftir það kemur tæknilegur en sléttur kafli með helling af grjóti áður en farið er aftur niður við hliðina á svigbrautinni, eins konar mini-downhillbraut sem er mjög skemmtileg og hröð. Þannig er hringurinn, sem tekur um 14-16 mínútur fyrir hröðustu keppendur.

Á milli æfinga var farið um borgina með eins litlu labbi og mögulegt var. Hún Iðunn mín sem var með sem aðstoðarmaður/matarsækjari/borðpantari/búðahlaupari/liðsstjóri/brúsaréttari/ofl/ofl nýtti tímann og skoðaði helstu söfn, sýningar, háskóla og megnið af menningunni sem var boðið upp á, á meðan ég reyndi að slappa af. Það fylgir svona ferðum að keppnin sjálf er í öllum forgangi, og allt annað verður að víkja ef það hefur slæm áhrif á frammistöðu, en við vorum samt sniðug og náðum að skoða bæinn í 20 þúsund skrefum eða meira, daginn eftir keppni. Og já, ég mátaði skotapils 🙂

Þegar kom að keppni nýtti ég tímann og hjólaði á keppnisstað sem tók um 40 mín, fínasta upphitun og hugleiðsla til að komast í rétt hugarástand. Ég er alveg hættur að stressa mig á aðstæðum eða finna fyrir ögrun frá öðrum stærri nöfnum sem eru fyrir framan mig á startlínunni. Þetta er keppni eins og hver önnur, og það besta sem ég get gert er það besta sem ég get gert. Ég var settur á öftustu röð þrátt fyrir öll mín UCI stig, en það eitt og sér segir nóg um erfiðleikastigið á slíku móti. Aðeins tveir keppendur af 53 voru með færri en 200 stig, en til samanburðar fást 100 stig fyrir að sigra Íslandsmeistaramótið, og Nino Schurter heimsmeistarinn er með rúmlega 2000 stig.

Keppnin fór af stað af látum, en helsti ókostur brautarinnar kom strax í ljós eftir 2 mínútna langa startlúppu, þar sem var farið á einbreiðum stíg inn í skóg. Allir fóru inn í einfaldri röð, sem býr til umferðarteppu aftast, þar sem allir eru að reyna að troðast á staði sem er ekkert pláss. Ég varð að vera þolinmóður og bíða eftir að það opnaðist pláss, og keppnin hófst ekki af fullri alvöru fyrr en á öðrum hring. Ég eyddi keppninni í slag við mann frá Ísrael, annan frá Slóvakíu og enn annan frá Finnlandi. Eftir hörku eltingaleik þurfti ég að sleppa Ísraelanum, en fyrir þá sem þekkja mitt álit á Ísrael sem ríki þá má segja að það hafi verið leiðinlegt að geta ekki sigrað kauða. Slóvakinn stakk líka af og ég byrjaði að velta fyrir mér hvort ég væri nokkuð aftastur i keppninni, en sá svo að það var einn frá Portúgal og einn frá Írlandi fyrir aftan. Hélt bara áfram með mína vinnu, en þegar ég kláraði 4.hring af 6 kom nokkuð á óvart að ég var ekki tekinn úr keppni samkvæmt hringunarreglunni. Ég hlaut að vera að gera eitthvað rétt. Eftir smá stund kom Finnski keppandinn aftan að mér, fór fram úr og ég gerði allt sem ég gat til að ná honum. Ég náði honum næstum því, en á leiðinni í gegn um 5.hring sást aftur í gæjann frá Slóvakíu og við náðum honum báðir eins og hann væri standandi kyrr, greinilega orðinn þreyttur. Þegar ég sá að ég fengi að halda áfram inn á síðasta hring tók hjartað smá kipp. Það er erfitt að lýsa því fyrir þeim sem hafa ekki keppt á þessu leveli, hversu merkilegt það er að klára keppni í fullri lengd, ég var ansi hress með þetta. Ég hélt áfram að reyna að ná Finnanum, en eins og samlandar sínir þá vildi hann halda sínu “personal space” auðu, þannig að ég náði honum því miður ekki. Kom í mark einhverjum 30 sek á eftir honum, en var mest ánægður með að vera að klára án þess að vera hringaður.

Get ég kallað þetta minn besta árangur á EM/HM stiginu? Mér finnst ennþá eins og HM í maraþon XC 2016 sé mitt besta, þegar ég var í 75.sæti af 150 keppendum, en þetta kemst nokkuð nálægt. Það er gaman að sjá svona merki um bætingu, og að ég er á uppleið í sportinu. Það verður vægast sagt spennandi að sjá hvernig enn stærri mót fara, sem verða í September.