Category: Time trial

Fyrsta keppni 2019

Það er orðið ansi langt síðan jafn margir dagar liðu á milli keppna hjá mér. Undanfarin ár hef ég tekið þátt í 2-3 cyclocross keppnum yfir veturinn til að halda hausnum gangandi og hafa gaman af vetraræfingum, en bæði Holland og Danmörk buðu upp á gott úrval af svona keppnum. Eftir að ég flutti heim hef ég aðeins tekið þátt í einu móti, sem var þó ekki minna en Íslandsmeistaramót, en ég verð að játa að þegar Hörður spurði hvort mig langaði til Akureyrar í lítið tímaþrautarmót um Vaðlaheiðargöng, gat ég ekki annað en sagt já.

Þetta var með afskaplega litlum fyrirvara og með mjög litlu skipulagi. Ég byrjaði á að kíkja í heimsókn til vina minna í Kríu, sem lánuðu mér eitt hraðskreiðasta hjól allra tíma, Specialized S-Works Shiv tímaþrautarhjólið. Rosaleg græja sem er hönnuð til að fara eins hratt og mögulegt er í beina línu, og gefur í leiðinni rosalega fallegt „gjarðahljóð“ með lokaðri diskagjörð að aftan. Pabbi var svo góður að lána bíl og þá var ekkert eftir að gera en að sækja Hörð og hjólið hans, og leggja í hann á föstudagsmorgni.

Bíltúrinn til Akureyrar var merkilega fljótur að líða, sem ég vil kenna afskaplega góðum félagsskap og endalausum hlutum til að spjalla um á leiðinni, ég þekki fáa sem þola mig í mínum hjólaspjallgír eins vel og Hörð. Við fengum að gista hjá vini hans honum Birgi, sem var hinn besti gestgjafi og mjög gaman að kynnast honum.

Svo kom að keppnisdegi og við Hörður búnir að fara í gegn um allt ferlið sem fylgir svona dögum. Startlistinn skoðaður, samkeppnin rannsökuð, vekjaraklukkur stilltar, keðjur smurðar og Garmin tæki sett í hleðslu. Við vorum klárir í slaginn. En til að gera daginn enn meira spennandi sváfum við aðeins yfir okkur, fórum full seint af stað og ákváðum að rjúka bara beint í bakaríið, í karamellusnúð og kókómjólk. Beint þaðan í göngin þar sem okkur var sagt að hitastig gæti verið frá 1 gráðu upp í 25 gráður. Það stóðst nokkurn veginn, stingandi frost við gangamunna og sólarlandastemning innst inni. Keppnin, sem var haldin af Hjólreiðafélagi Akureyrar var frábærlega skipulögð, allt á réttum tíma og samkvæmt plani.

Það má segja að við höfum staðið okkur vel, Hörður tók silfur og ég gull, en allir keppendur skemmtu sér mjög vel. Hörður setti ný viðmið í afli á hjólinu, og það eftir vandræðalega lélega upphitun sem ég gat ekki annað en leikið eftir fyrir mína eigin keppni. Við vorum búnir að ákveða að ef við tækjum sigurinn myndum við fara beint á Greifann í stærstu og erfiðustu pizzuna þar.

Pizzan reyndi álíka mikið á okkur og keppnin sjálf, en eftir hetjudáðir náðum við að klára og lögðum af stað í bæinn. Það var byrjað að snjóa, frysta og smá rok í leiðinni, og við mjög flottir á sumardekkjum. 70km meðalhraði alla leið í bæinn dugði til og við komum heim hressir eftir fyrstu keppni ársins. Þetta var skemmtileg keppni, enn skemmtilegra ferðalag og það má segja að hápunkturinn hafi verið þegar við félagarnir vorum nýmættir aftur til Reykjavíkur og við áttuðum okkur á því, að á engum tímapunkti hafði verið kveikt á útvarpinu á meðan við vorum að keyra.

TT – 1.bikar – Krýsuvík

Mynd: Óskar Ómarsson

2.sæti í fyrstu tímatökukeppni sumarsins… hvað get ég sagt?

Þetta kemur ótrúlega mikið á óvart enda hafði ég fyrir kvöldið aðeins tekið þátt í einni alvöru TT keppni, en þetta var líka fyrsta keppnin á nýju hjóli, þannig að ég var ekki 100% viss um hvernig þetta yrði. Markmiðin voru að ná undir 28 mínútur og komast í top 4, en það gekk vægast sagt betur með lokatímann 27:20.

Þetta var snilld og ég þakka kærlega fyrir mig, beint í háttinn enda 2.bikar í fjallahjólreiðum annað kvöld! 

© 2021 On your left

Theme by Anders NorenUp ↑