Month: July 2017

Evrópumeistaramótið í ofhitnun

Ok, Evrópumeistaramótið í ólympískum fjallahjólreiðum (XCO). Keppnin var haldin í litlum bæ sem heitir Darfo Boario Terme á Ítalíu, inn á milli risafjalla á Lombardy svæðinu, sem er þekkt í götuhjólreiðum. Bærinn er á neðsta punkti í litlum dal, en keppnin var færð þangað eftir ákvörðun UEC (Evrópusambandið í hjólreiðum) um að hætta við að halda hana á upprunalegu staðsetningunni í Istanbúl. Brautinni var vippað upp af brautarhönnuðum á svæðinu á aðeins 2 mánuðum, og það er magnað að sjá hvað hefur gerst á þessum tíma, en svæðið er ekki mikið meira en einn stór hóll, fullur af grasi, trjám og grjóti, en engum hjólaleiðum. Útkoman var braut sem mætti segja að sé á World Cup stigi í erfiðleika.

Hjólreiðasamband Íslands var ekki með neina skipulagða ferð í þessa keppni, en það breytti litlu fyrir mig og Gústaf, sem kom með í ferðina, því hún hefur verið á planinu frá því fyrir áramót, og líkt og Evrópu -og heimsmeistaramótin voru farin án stuðnings árið 2016, þá var lítið mál að halda því áfram. Við vorum bara 2 keppendur, og þurftum því að sjá um að aðstoða hvorn annan, en sem betur fer vorum við að keppa á sitthvorum deginum.

Við komum með flugi til Mílanó á miðvikudagsnótt, og eftir stutta dvöl á flugvallarhóteli tókum við bílaleigubíl og rúntuðum að hótelinu, sem er í um 40mín akstursfjarlægð frá brautinni. Þar sem svona stórmótum fylgja allskonar formlegheit, eins og liðsstjórafundir, lokaðir æfingatímar, margar keppnir yfir marga daga, og ýmisskonar skipulagsverkefni, náðum við ekki sem mestum tíma til að æfa brautina, en nýttum þó tímann eins vel og við gátum.

Í stuttu máli er brautin 4km, inniheldur langt klifur og langt brun niður, í afskaplega bröttum brekkum sem eru gerðar að mestu leyti úr grófri möl, mold og grasi, með sléttum grjótum inn á milli. Þar á milli er einn sérlega tæknilegur klettur, sem þarf að fara mjög varlega að til að fljúga ekki framfyrir sig og yfir stýrið, nokkrir kaflar með sleipum hnullungum sem þarf að rúlla varlega, þröngum beygjum inn á milli brattra niðurkafla, og smá “pumptrack” í endann. Ég lenti í því óhappi á æfingu að fara full hratt og endaði framan á tré, skaust yfir stýrið og lenti á báðum fótum, en því miður brotnaði stýrið við höggið. Fimmtudagurinn fór því í að leita að bráðabirgðastýri, til að geta haldið áfram undirbúningi fyrir keppnina.

Það má segja að stærsti óvinurinn þessa vikuna hafi verið hitinn. Á þessum tíma árs er afskaplega heitt á þessum heimshluta, sérstaklega þegar maður er staddur í djúpum dal, milli risafjalla, þar sem myndast eins konar hitapollur. Flestir dagarnir voru milli 25 og 30 gráðu heitir, og það var augljóst frá upphafi að þetta myndi hafa áhrif á okkur Gústa. Við höfum eytt síðustu vikum á Íslandi, þar sem við höfum vanist hitastiginu þar, á ansi köldu sumri, og þannig vorum við engann veginn tilbúnir í þessa hitabreytingu.

Á föstudaginn var ég loksins orðinn ágætur í brautinni, en það verður að segjast að ég hef sjaldan verið jafn “off” þegar kemur að svona brautum. Það er ekkert endilega það að brautin hafi verið óvenju erfið, hafandi keppt í World Cup brautum og heimsmeistaramótum, ég bara komst einhvern veginn aldrei í stuð í þessum aðstæðum. En það þýddi lítið að láta það leggjast illa í mig, og ég hristi allar slæmar tilfinningar af mér í morgun, á sjálfum keppnisdeginum.

Keppnin byrjaði með látum, á heitasta tíma dagsins (34 gráður), og þeir bestu í Evrópu voru allir klárir í slaginn. Mitt plan var að fara í gegn um fyrsta hringinn án þess að reyna of mikið á mig, til að spara orku sem fer oft til spillis í tilraunum til að taka fram úr öðrum keppendum, á þröngum stígum og bröttum brekkum. Planið hélt áfram á beinu og flötu köflunum á malbiki í kring um byrjunar og endamarkið, en skv UCI reglum þarf þetta svæði alltaf að innihalda greiða kafla, sérstaklega í átt að markinu og eftir það, en þar ætlaði ég að spara sem mesta orku til að geta farið hratt upp brekkuna, en þar var planið að fara eins hratt og ég gæti til að nýta klifurhæfileikana til fulls.

Þetta gekk, nokkurnveginn. Vandamálið er að ég fann strax fyrir áhrifum hitans, þar sem púlsinn fór upp úr öllu valdi á aðeins nokkrum mínútum, og aflið var engann veginn í samræmi við púlsinn. Þannig hélt þetta áfram, en á fyrsta hring var umferðarteppan mikil á köflum, og ég þurfti reglulega að hoppa af hjólinu, labba með það á eftir öllum fyrir framan mig, og hoppa aftur á það til að komast af stað. Ég átti enga orku í dag, gjörsamlega grillaður í hitanum og gat engann veginn nýtt það form sem ég er í þessa dagana. Þetta er mjög svekkjandi, sérstaklega í ljósi þess að síðustu helgi, á Íslandsmeistaramótinu í XCO, komst ég nálægt því að setja mínar bestu tölur í afli, en var þó ekki að leggja mig allann fram. Gústaf stóð sig hinsvegar með prýði í drykkjarstöðunum, og hjálpaði mér með brúsa fullann af vatni, ómissandi aðstoð í svona keppnum, og alltaf vel metið. Á mínum síðasta hring lenti ég í hinni óöfundsverðu stöðu að fremstu menn (Florian Vogel, Stephane Tempier, David Valero og Julien Absalon) nálguðust mig til að hringa mig, en ég var ekki nema hálfnaður með hringinn. Það sem eftir var, var brattur niðurkafli á þröngum stígum, og ansi erfiðar og þröngar beygjur í átt að markinu, og ég var engann veginn í standi til að láta vaða niður á fullri ferð, á sama tíma og ég var að stressast upp yfir þeirri hugmynd að verða fyrir fremstu mönnum, og hafa áhrif á keppnina um Evrópumeistaratitilinn. Ég lét mig rúlla niður og leit afturfyrir mig reglulega, en svo komu þeir, og ég fór út í kannt rétt í tæka tíð á meðan Absalon, sem var að verja titilinn, kom hrópandi fram úr mér. Ég rúllaði heim í mark, algjörlega bugaður, í 49.sæti.

Það er oft erfitt að útskýra erfiðleikastigið sem svona keppnir eru á, og hvar maður stendur í þeim gagnvart öðrum keppendum frá öðrum löndum. Með fleiri keppnum byrja ég að þekkja fleiri keppendur, sem ég keppi við oftar en einusinni, og fæ betri hugmynd um hvar ég stend. Ein vísbending um hversu erfið svona keppni er, sést þegar horft er á þá keppendur sem voru einnig á Smáþjóðaleikunum í San Marino í vor. Í þessarri keppni, ásamt mér, voru tveir keppendur frá Svartfjallalandi, þar á meðal Demir Mulic. Hann kláraði keppni í 50.sæti, nokkrum mínútum á eftir mér, en í miðri keppni hjóluðum við einn hring saman, þar til ég náði að stinga hann af. 51 keppandi kláruðu keppni í dag (6 störtuðu en kláruðu ekki), Demir vann silfur var í 9.sæti á Smáþjóðaleikunum í fjallahjólreiðum.

Framundan eru fleiri stórmót, en eitt af þeim er Evrópumeistaramótið í maraþon fjallahjólreiðum (XCM). Ég segi ekki mikið um það hér, en 134km og 4200m hækkun segir ansi mikið um það verkefni!

Novator
Kría hjól
SAFFRAN
Hreysti
WOW air
Lauf forks
Garmin búðin
Iron Viking
Tindur
Skoda á Íslandi
Slippurinn hárgreiðslustofa

Vesturgatan / ÍSLM XCM

Ég hljóma eins og biluð plata þegar ég tala um hvað þetta er uppáhalds keppnin mín á landinu, og hvað ég held upp á brautina, samkeppnina, veðrið, ferðalagið, og bara allt sem tengist Vesturgötunni, sem er 55km fjallahjólakeppni, hluti af Hlaupahátíð Vestfjarða.

Þetta er merkileg keppni á margann hátt. Stærst er sennilega sú staðreynd að þetta er ein af örfáum keppnum utan höfuðborgarsvæðisins, en það eitt að það er mikið ferðalag að komast á staðinn, gerir ótrúlega mikið fyrir þessa keppni. Þetta er ekki keppni sem maður tekur þátt í á “inn-út” háttinn, með litlu skipulagi og undibúningi. Það að finna gistingu fyrir helgina í kring um keppnina er nógu stórt verkefni fyrir flesta. Keppnin er haldin í pínulitla bænum á Þingeyri, og er hjólað inn í lítinn dal, upp og yfir fallegt skarð, þaðan niður í fjöru í öðrum firði, og farið meðfram ströndinni til baka á Þingeyri. Brautin sem slík er ansi merkileg því hún þróast á andstæðann hátt við hina klassísku hjólreiðabraut, þar sem byrjað er á rólegheitum og stærsta klifrið geymt þar til undir lokin til að magna upp spennuna fyrir lokasprettinn. Þetta gerir það að verkum að keppnin getur aðeins þróast á tvenna vegu: annaðhvort stingur maður af í stóra klifrinu í byrjun keppninnar, og heldur út alla leið, eða maður hjólar klifrið með öðrum og bíður eftir endasprett.

Ég átti ekki sem bestann undirbúning fyrir keppnina, síðasta vika var erfið og það voru ekki margir klukkutímar af svefni á næturna fram að föstudegi. Við Iðunn lögðum af stað frekar seint, og vorum ekki komin á Hótel Ísafjörð, þar sem við gistum, fyrr en um miðnætti, en þá átti ég eftir þessa vanalegu rútínu, kvöldið fyrir keppni. Hárið var skafað af löppunum, skinsuit gallinn dreginn fram og farið yfir alla næringu fyrir keppnina, og svo var farið að sofa, einhversstaðar milli 2 og 3 um nóttina. Við vöknuðum rétt fyrir 8 um morguninn, algjörlega mygluð og handónýt eftir afskaplega stuttann svefn, en rifum okkur af stað, beint í morgunmat og svo var rokið út í bíl og keyrt yfir á Þingeyri. Skoda á Íslandi hjálpaði þó helling með því að lána mér bíl fyrir helgina, og þetta langa ferðalag. Í stað þess að taka sénsa á gömlum og afskaplega tæpum bílnum okkar, fórum við á glænýjum Skoda Superb, þar sem fór vel um hjólið í risastóru skottinu. Þegar ein keppnishelgi inniheldur yfir 1000km af akstri þá skiptir þetta máli.

Eftir létta upphitun, slatta af hæum og hallóum, og snögga yfirferð á öllum búnaði, var komið að fjörinu. Þarna voru allir þessir helstu mættir, Hafsteinn, Bjarki, Gústaf, Stefán Haukur og svo margir fleiri góðir vinir, og allt stefndi í góðann dag. Meira að segja veðrið stóð við sitt, þrátt fyrir rigningu og þung ský fram að keppni, og við fengum smá hlýju og enga rigningu á meðan keppnin var í gangi. Planið mitt var ekki flókið, ég ætlaði að bíða þar til eftir að fylgdarbíllinn, sem leiðir okkur út úr bænum í átt að klifri dagsins, væri farinn, og myndi keyra upp hraðann eftir fyrstu beygju. Eins og keppnin þróaðist í fyrra sá ég lítið annað í stöðunni en að reyna að hjóla klifrið eins hratt og ég gæti, meta stöðuna á toppnum, og halda svo áfram eftir brunið niður að fjörunni. Þegar nokkrar mínútur voru liðnar af keppninni var staðan nákvæmlega eins og ég sá fyrir mér: ég var fremstur að keyra hópinn áfram, með Haffa á hælunum á mér, og restina fyrir aftan hann. Ég fann fyrir smá þreytu þegar bættist í hallann á leiðinni upp, en klifrið tekur um 20-25 mínútur í heildina. Á leiðinni upp byrjaði Haffi að missa takið á mér og það kom smá bil á milli okkar, en það var aldrei mikið. Hann var aldrei meira en 30 sekúndum á eftir mér, þrátt fyrir mínar tilraunir til að stækka bilið. Mér fannst ég vera ótrúlega þungur og svifaseinn á leiðinni upp, ekki alveg með sjálfum mér, og ég gat ekki hugsað um annað en hvað ég væri að fara hægt upp, og þetta væri engann veginn það sem ég á að geta gert. Gaman er að segja frá því að ég var í tómu rugli og setti nýtt met í þessu klifri, og Haffi með nokkurnveginn sama tíma, þannig að ég held að staðan hafi bara verið góð hjá okkur báðum!

Eftir klifrið byrjaði brunið niður, sem tekur um 8 mínútur og er eitt skemmtilegasta brun á landinu að mínu mati. Fullt af grjóti og drasli á leiðinni, árfarvegir til að hoppa yfir eða þruma í gegn um, og nóg af lausum beygjum með smá drullu hér og þar, en mestmegnis lausamöl og grjót. Ég stóð mig ágætlega á leiðinni niður, en þarna var ég þó kominn í varnarstöðu, búinn að ákveða að þetta yrði ekki dagurinn til að hjóla einn. Neðst í dalnum er stór á sem þarf að fara yfir, en það gekk ekki svo vel hjá mér. Á einhvern ótrúlegann hátt tókst mér að reka mig í grjót, losa báða fætur frá pedulunum á sama tíma, og reka mig hressilega fast í stýrið, á miðri leið yfir ánna. Þetta var óheppilegt þar sem Haffi var rétt á eftir mér, og náði mér þegar ég var að koma mér af stað aftur. Ég hentist í gang á eftir Haffa, sem var svo kurteis að nýta ekki tækifærið til að stinga mig af, og við tókum stefnuna á fjörugrjótið handan við hornið.

Megnið af leiðinni eru skemmtilegir slóðar og malarvegir, sem eru ansi beinskeittir og án tæknilegra kafla. Þó eru staðir þar sem maður þarf að tækla lausar og stórar beygjur, örfáar mjög brattar brekkur, og fyrst og fremst laust grjót og náttúrulegar hraðahindranir, sem gera fulldempuð hjól einstaklega heppileg fyrir þessa keppni. Við Haffi skiptumst á að keyra upp hraðann, en verandi báðir keppnismenn í húð og hár, vorum við aldrei í vafa um að hjálpast að við að hjóla þetta eins hratt og við gátum. Þegar komið var á lokakaflann, 10km malarveg sem breytist í malbik við og við, í áttina að Þingeyri, vorum við að skiptast á reglulega, og hjóluðum þetta eins og götuhjólakeppni. Skyndilega spyr Haffi hvort ég muni hver besti tíminn í brautinni sé, og þá átta ég mig á að við gætum átt möguleika á að bæta þann tíma, sama og Haffi var að hugsa. Ég var mikið að hugsa um endasprettinn, langaði að beita smá taktík og spara kraftana fyrir sprettinn, en ég hafði lika áhuga á að bæta metið þannig að ég geymdi taktíkina þar til alveg undir lokin.

Þegar uþb 1km var í mark vorum við alveg að rúlla inn í bæinn, komnir á malbikið og byrjaðir að hugsa um sprettinn. Ég náði að setja mig fyrir aftan Haffa, og þegar olnboginn hans bað um að ég tæki við fremst, gerði ég ekkert. Þá var samvinnan búin, og alvaran byrjuð. Við fórum saman inn í lokabeygjuna, og ég beið þar til aðeins um 150 metrar voru eftir, og gaf allt í botn fram úr Haffa. Það dugði til að taka sigurinn, aðeins 1-2 hjólalengdum á undan. Keppnin hefur ekki verið svona tæp síðan 2014, en það gerði hana svo ótrúlega góða í ár. Í fyrra sigraði ég einn, með nokkurra mínútna bili, en það var engann veginn jafn góð og spennandi keppni og þessi. Við bættum tímametið um 3 mínútur frá því 2014, sem gerir næsta ár að enn betri áskorun.

Ég stóð upp sem ósigraður Íslandsmeistari í maraþon fjallahjólreiðum, feginn að halda titlinum í eitt ár til viðbótar, fékk 10 verðmæt UCI stig, sem gagnast mér í erlendum keppnum, og skellti mér með Iðunni í sumarbústað hjá pabba, þar sem ég fékk loksins svefninn sem ég skuldaði sjálfum mér.

Takk kærlega fyrir mig, skipuleggjendur, keppinautar, styrktaraðilar, stuðningsmenn, vinir og fjölskylda!

Novator
Kría hjól
SAFFRAN
Hreysti
WOW air
Lauf forks
Garmin búðin
Iron Viking
Tindur
Skoda á Íslandi
Slippurinn hárgreiðslustofa

Íslandsmeistaramótið í götuhjólreiðum

Það eru 2 ár síðan ég tapaði síðast Íslandsmeistaramóti, þannig að ég gat verið vonsvikinn eða brjálaður eftir ósigur dagsins. En ég er glaður yfir því að nýtt nafn sigraði í dag. Anton Örn á sigurinn fyllilega skilinn, hafandi verið mjög virkur í sportinu í Danmörku, keppandi með liði í A-flokk og að ná árangri sem fæstir Íslendingar gætu jafnað, á erlendri grundu.

Ég tapaði keppninni á því að stoppa til að pissa. Það hljómar ekki jafn dramatískt þegar það er sett í eina setningu, en það var erfið staða, verandi í spreng frá því þegar 30 mín voru liðnar, og það voru læti eftir að ég hafði lokið klósettförinni. Hefði ég sigrað keppnina án stoppsins? Ekkert endilega, en líkurnar hefðu verið hærri. Ég stoppaði þegar um 50km voru búnir af 160, eftir að stórvinur minn og fyrirmynd, Elías Níelsson, fórnaði heilmiklu til að aðstoða mig í verkefninu. Það gekk eitthvað illa þannig að ég sendi hann áfram, þar sem hann átti í vændum gríðarlega eftirför, en við höfðum báðir misst af hópnum, á meðan ég stoppaði til að klára verkið. Elli, ég biðst afsökunar á þessu, og bið þig um að rifja þetta atvik upp næst þegar mér dettur í hug að gera þetta aftur!

Keppnin hafði verið afskaplega róleg fram að þessu, en hópurinn var mjög stór, og í logninu og flatri braut, var mjög erfitt fyrir lítinn hóp að slíta sig frá restinni. Það mætti segja að rólegheitin hafi gefið mér þá hugmynd að pissustoppið myndi ganga upp, en sennilega var ég að stórlega ofmeta getu mína til að ná hópnum aftur eftir þetta. Það vill svo til að þegar ég stoppaði þá gáfu sterkustu leikmennirnir í, og slitu sig frá hópnum, en þetta voru þeir sem röðuðu sér í fremstu sætin í lok dags. Sumir vildu meina að þetta hafi verið viljandi tímasett þar sem ég var ekki í stöðu til að bregðast við, en ég á erfitt með að trúa því upp á menn sem ég hef keppt við í góðu í mörg ár.

Eftir stoppið gaf ég hressilega í til að reyna að ná hópnum. Ég var ekki lengi að sjá hvað hafði gerst, en fyrir aftan fremstu menn voru komnir 2 hópar, sem höfðu myndast eftir lætin, þar sem allir reyna að hanga í, en ekki ná því allir, og þá myndast minni hópar. Ég keyrði framhjá hvorum hópnum fyrir sig, hafandi litla trú á að ég gæti fengið þá hjálp þar, sem ég þurfti til að ná fremstu mönnum, bæði vegna þess að þar voru menn sem voru í sama liði og einhverjir af þeim fremstu, og það þurfti eitthvað af hestöflum til að ná þeim. Þegar sterkustu mennirnir eru farnir, er erfitt að fá aðstoð til að ná þeim, því miður.

Við tók uþb klukkutími af hörkuhjólreiðum, þar sem ég ekki aðeins setti mitt besta 20 mín (411w) afl, heldur einnig 5 mín (465w) og 60 mín (374w) afl. Það má segja að ég hafi sett allt í þetta. Fljótlega fór ég að taka tímann á meðan ég sá fremstu menn, en mér sýndist þeir vera 4-6, sem passaði. 40 sek var tíminn á milli, en það vill svo skemmtilega til að stoppið tók 38 sek. Þetta er heilmikill tími þegar kemur að götuhjólreiðum, og ég verð að játa að þrátt fyrir stórt sjálfsálit og mikla trú á eigin getu, var ég ekki sá bjartsýnasti þegar kom að því að hjóla hraðar en hópur sem innihélt meðal annarra Hafstein Ægi, Bjarna Garðar, Anton, og Óskar, 4 af þeim bestu á landinu. Ég reyndi mitt besta og get verið ánægður með að hafa haldið bilinu í 40 sek í heilann klukkutíma, eða þar til ég var að verða bensínlaus og sá lítið annað í stöðunni en að gefast upp á eltingaleiknum, og einbeita mér að því að ná sem mestu út úr því sem ég hafði.

Þegar kom að stærstu brekkunni í brautinni, Vatnaleiðinni, var ég búinn að hinkra í smá stund eftir næsta hóp á eftir mér, sem innihélt topp hjólara á borð við Hákon, Sigga Hansen, Rafael, Ármann, Kristján og Birki Snæ, ásamt fleirum. Við hjóluðum saman upp brekkuna og inn á leiðina í átt að Grundarfirði, þar sem endamarkið stóð. Það var góð samvinna í hópnum fram að síðustu kílómetrunum, en þegar ég tók eftir að menn voru farnir að horfa á hvorn annan og búa til smá stress, ákvað ég að gefa í, með 3km í mark. Ég kláraði einn, 20 sek á undan, í 5.sæti, sem ég get ekki annað en verið ánægður með, eftir erfiðann dag í vinnunni.

Götuhjólreiðar eru ekki mín grein, þannig að ég á auðvelt með að bæta svona keppni í planið á síðustu stundu, vegna þess að það vildi svo heppilega til að fyrir viku síðan var ég á landinu með götuhjól, fyrir WOW Cyclothon, og datt þá í hug að lengja ferðina aðeins fyrir eina keppni. Það er þó alltaf erfitt að tapa keppni, og verður erfiðara eftir því sem maður nær lengra á ferlinum, og býst meir og meir við sigrum. Framundan eru þó Íslandsmeistaramótin sem ég fókusa á, í maraþon og ólympískum fjallahjólreiðum. Ég bíð spenntur eftir þeim verkefnum, og hlakka til að keppa aftur við þá bestu á landinu.

Takk fyrir mig Hjólamenn og HRÍ fyrir vel skipulagða keppni, og sérstakar þakki fá veðurguðirnir fyrir að gefa okkur besta veðrið í dag. Takk Biggi fyrir klikkað lánshjól, David fyrir að vera á svæðinu, takk Ernir og co fyrir fylgdarbílinn, og Rafael fyrir að vera skemmtilegur liðsfélagi!

© 2021 On your left

Theme by Anders NorenUp ↑