Category: Road (page 1 of 2)

Hvernig virka sprettir?

Sprettir eru eitthvað sem allir ættu að æfa reglulega, en fæstir gera. Sumum finnst það ekki skipta máli af því þeir eru ekki að spretta til sigurs, og aðrir gera kannski of mikið af því en gleyma úthaldsæfingum. Það eru hins vegar margir sem ekkert endilega tapa endasprettum af því þeir eru ekki góðir sprettarar, heldur tapa tækifærum á að vera í hópnum þegar kemur að endasprettinum, af því þeim skortir sprengikraft til að loka árásum, og að taka eftir tækni og taktík annarra í hita leiksins.

Mér hefur alltaf fundist langbesta æfingin í sprettum felast í hópæfingum, í svokölluðu “fartlek” formi. Grunnhugmyndin er að hópurinn, sem er oft samsettur af hjólurum í svipuðum styrkleika, en þó ekki alltaf, hjólar á ákveðinn óformlegann hátt. Það er ekki farið nákvæmlega eftir interval prógrammi eða föstum meðalhraða, heldur er leikið sér meira með aðstæður og leiðina sjálfa, hjólað á mjög breytilegum hraða, stundum hratt og stundum hægt. En það er oftast góð ástæða fyrir hraðavali, til dæmis hjólað í rólegheitum á milli tveggja punkta, til að safna saman hópnum og hvíla lappir. Svo kemur að brekku, góðri beygju eða skilti sem er búið að ákveða og tilkynna hópnum að sé “skotmarkið”. Það er misjafnt hvernig reglur menn setja, stundum er ákveðið að það megi ekki stinga hópinn af of snemma, heldur á að bíða þar til nokkur hundruð metrar eru eftir, til að keppnin sem fer í gang í miðri æfingu, líkist sprettæfingu sem mest. En til að blanda taktík og innsæi inn í leikinn má stundum segja að allt sé leyfilegt, sem gefur mönnum tækifæri til að taka áhættur og sjá hvort hægt er að stinga af.

Það er alltaf best að æfa spretti á móti góðum andstæðing. Það er staðreynd. Allir reyna meira á sig þegar einhver annar er að spretta við hliðina á þeim, og virðist ekki ætla að gefast upp. Mér finnst þetta langskemmtilegasta leiðin til að æfa sprettina.

Sprettir koma í ótrúlega mörgum tegundum og aðstæðum. Sumir eru langir og flatir, og byrja á háum hraða til að enda í enn hærri hraða. Sumir eru stuttir, út úr mjög krappri beygju, og snúast meira um hver er sneggstur af stað úr litlum hraða (eða hver fer hraðast út úr beygjunni). Sumir fara upp stutta 30-60 sek langa brekku, sem breytir öllu með að nýta kjölsog af öðrum og að tímasetja sprettinn rétt. Mér finnst best að skoða allar þessar tegundir, meta hverju ég er bestur í, og æfa svo allt hitt. Alrei fókusa á það sem maður er bestur í, heldur styrkja það sem maður er veikastur í.

Hvað er hægt að gera til að setja upp æfingar? Hér eru nokkrar hugmyndir:

  • 10x 10s sprettir með 4 mín hvíld á milli. Þetta er gert á flötum vegi eða brekku, startað á litlum hraða en í þungum gír, og allt sett í botn frá fyrstu sekúndu þar til spretturinn er búinn. Hvíldin er mjög róleg
  • 3-5x 30s sprettir með 5 mín hvíld á milli. Langbest að gera í brekku vegna þess hve spretturinn er langur. Hraðaval er frjálst, og fer mikið eftir hallanum í brekkunni. Hvíldin mjög róleg.
  • 10x 20s sprettir með 40s hvíld á milli. Stutt hvíld þýðir að það er ekki hægt að taka alla spretti á hámarksálagi, en það skiptir meira máli að reyna að halda aflinu jöfnu frá fyrsta sprett til þess síðasta.

Ótrúlega margir tala um 1s, max power töluna sem heilagt viðmið í power mælingum. Ég skil það vel, þetta er hæsta talan sem menn sjá frá mælinum og alltaf er stærra betra. En þetta segir afskaplega lítið um menn sem sprettara, því sjaldan er sprettað í eina sekúndu. 5s power er góð mæling, en ég hef alltaf haldið meira upp á 12s power töluna. Ástæðan er að flestir sprettir sem ég hef skoðað hjá sjálfum mér taka um 18 sekúndur eða minna, og það er oft rosalegt fall í poweri frá fyrstu sekúndum þar til undir lokin. Til hvers að vera með brjálað háa powertölu í 5 sek, ef allt aflið er horfið næstu 10 sek eftir þær fyrstu 5? Ég mæli með að skoða muninn á fyrstu sekúndu spretts, og þeirri síðustu, og reyna að æfa að minnka muninn á þeim. Þetta getur þýtt að stýra álagi betur, það er ekki alltaf best að spretta undir algjöru hámarksálagi, sérstaklega þegar það eru 250 metrar í marklínuna.

Tækniatriði skipta miklu meira máli en sumir halda. Með tækniatriðum á ég við ansi margt, en til að safna saman stikkorðum þá getur þetta verið staðan á hjólinu í sprett, staðsetning handa á stýrinu (í droppum alltaf, en fremst eða aftast á stýrinu?), gíraval, bæði í upphafi spretts og enda, staðsetning í hóp og athygli á öðrum keppendum. Mér finnst gott að vera lágur á hjólinu, en ég geri það ósjálfrátt og það er ekki skynsamlegt að mæla með því við hvern sem er, því það virkar ekki fyrir alla. Frekar myndi ég segja að það skipti máli að staðsetja sig þannig að afturdekkið hefur gott grip og er ekki að kastast til hliða, og að vera með hendurnar öruggar neðst á stýrinu, þó með puttana í hæfilegri fjarlægð frá gírskiptum og bremsuhandföngum. Gíraval er rosalega persónubundið og ekki virkar það sama fyrir alla, en ég reyni alltaf að vera með sveifahraðann í kringum 85-90 rpm þegar ég byrja sprettinn, því þá hef ég nóg svigrúm til að auka sveifahraðann á meðan ég spretta, án þess að þurfa að skipta um gír. Ég hef séð allt að 150 rpm í lok spretta hjá mér, og þá skipti ég ekki um gír til að taka enga sénsa.

Íslandsmeistaramótið í götuhjólreiðum

Það eru 2 ár síðan ég tapaði síðast Íslandsmeistaramóti, þannig að ég gat verið vonsvikinn eða brjálaður eftir ósigur dagsins. En ég er glaður yfir því að nýtt nafn sigraði í dag. Anton Örn á sigurinn fyllilega skilinn, hafandi verið mjög virkur í sportinu í Danmörku, keppandi með liði í A-flokk og að ná árangri sem fæstir Íslendingar gætu jafnað, á erlendri grundu.

Ég tapaði keppninni á því að stoppa til að pissa. Það hljómar ekki jafn dramatískt þegar það er sett í eina setningu, en það var erfið staða, verandi í spreng frá því þegar 30 mín voru liðnar, og það voru læti eftir að ég hafði lokið klósettförinni. Hefði ég sigrað keppnina án stoppsins? Ekkert endilega, en líkurnar hefðu verið hærri. Ég stoppaði þegar um 50km voru búnir af 160, eftir að stórvinur minn og fyrirmynd, Elías Níelsson, fórnaði heilmiklu til að aðstoða mig í verkefninu. Það gekk eitthvað illa þannig að ég sendi hann áfram, þar sem hann átti í vændum gríðarlega eftirför, en við höfðum báðir misst af hópnum, á meðan ég stoppaði til að klára verkið. Elli, ég biðst afsökunar á þessu, og bið þig um að rifja þetta atvik upp næst þegar mér dettur í hug að gera þetta aftur!

Keppnin hafði verið afskaplega róleg fram að þessu, en hópurinn var mjög stór, og í logninu og flatri braut, var mjög erfitt fyrir lítinn hóp að slíta sig frá restinni. Það mætti segja að rólegheitin hafi gefið mér þá hugmynd að pissustoppið myndi ganga upp, en sennilega var ég að stórlega ofmeta getu mína til að ná hópnum aftur eftir þetta. Það vill svo til að þegar ég stoppaði þá gáfu sterkustu leikmennirnir í, og slitu sig frá hópnum, en þetta voru þeir sem röðuðu sér í fremstu sætin í lok dags. Sumir vildu meina að þetta hafi verið viljandi tímasett þar sem ég var ekki í stöðu til að bregðast við, en ég á erfitt með að trúa því upp á menn sem ég hef keppt við í góðu í mörg ár.

Eftir stoppið gaf ég hressilega í til að reyna að ná hópnum. Ég var ekki lengi að sjá hvað hafði gerst, en fyrir aftan fremstu menn voru komnir 2 hópar, sem höfðu myndast eftir lætin, þar sem allir reyna að hanga í, en ekki ná því allir, og þá myndast minni hópar. Ég keyrði framhjá hvorum hópnum fyrir sig, hafandi litla trú á að ég gæti fengið þá hjálp þar, sem ég þurfti til að ná fremstu mönnum, bæði vegna þess að þar voru menn sem voru í sama liði og einhverjir af þeim fremstu, og það þurfti eitthvað af hestöflum til að ná þeim. Þegar sterkustu mennirnir eru farnir, er erfitt að fá aðstoð til að ná þeim, því miður.

Við tók uþb klukkutími af hörkuhjólreiðum, þar sem ég ekki aðeins setti mitt besta 20 mín (411w) afl, heldur einnig 5 mín (465w) og 60 mín (374w) afl. Það má segja að ég hafi sett allt í þetta. Fljótlega fór ég að taka tímann á meðan ég sá fremstu menn, en mér sýndist þeir vera 4-6, sem passaði. 40 sek var tíminn á milli, en það vill svo skemmtilega til að stoppið tók 38 sek. Þetta er heilmikill tími þegar kemur að götuhjólreiðum, og ég verð að játa að þrátt fyrir stórt sjálfsálit og mikla trú á eigin getu, var ég ekki sá bjartsýnasti þegar kom að því að hjóla hraðar en hópur sem innihélt meðal annarra Hafstein Ægi, Bjarna Garðar, Anton, og Óskar, 4 af þeim bestu á landinu. Ég reyndi mitt besta og get verið ánægður með að hafa haldið bilinu í 40 sek í heilann klukkutíma, eða þar til ég var að verða bensínlaus og sá lítið annað í stöðunni en að gefast upp á eltingaleiknum, og einbeita mér að því að ná sem mestu út úr því sem ég hafði.

Þegar kom að stærstu brekkunni í brautinni, Vatnaleiðinni, var ég búinn að hinkra í smá stund eftir næsta hóp á eftir mér, sem innihélt topp hjólara á borð við Hákon, Sigga Hansen, Rafael, Ármann, Kristján og Birki Snæ, ásamt fleirum. Við hjóluðum saman upp brekkuna og inn á leiðina í átt að Grundarfirði, þar sem endamarkið stóð. Það var góð samvinna í hópnum fram að síðustu kílómetrunum, en þegar ég tók eftir að menn voru farnir að horfa á hvorn annan og búa til smá stress, ákvað ég að gefa í, með 3km í mark. Ég kláraði einn, 20 sek á undan, í 5.sæti, sem ég get ekki annað en verið ánægður með, eftir erfiðann dag í vinnunni.

Götuhjólreiðar eru ekki mín grein, þannig að ég á auðvelt með að bæta svona keppni í planið á síðustu stundu, vegna þess að það vildi svo heppilega til að fyrir viku síðan var ég á landinu með götuhjól, fyrir WOW Cyclothon, og datt þá í hug að lengja ferðina aðeins fyrir eina keppni. Það er þó alltaf erfitt að tapa keppni, og verður erfiðara eftir því sem maður nær lengra á ferlinum, og býst meir og meir við sigrum. Framundan eru þó Íslandsmeistaramótin sem ég fókusa á, í maraþon og ólympískum fjallahjólreiðum. Ég bíð spenntur eftir þeim verkefnum, og hlakka til að keppa aftur við þá bestu á landinu.

Takk fyrir mig Hjólamenn og HRÍ fyrir vel skipulagða keppni, og sérstakar þakki fá veðurguðirnir fyrir að gefa okkur besta veðrið í dag. Takk Biggi fyrir klikkað lánshjól, David fyrir að vera á svæðinu, takk Ernir og co fyrir fylgdarbílinn, og Rafael fyrir að vera skemmtilegur liðsfélagi!

Team(work)

I love racing alone. I guess that’s why mountain biking suits me better than road cycling. There’s something about the simplicity of racing by myself, going as fast or as slow as I feel like, always at my own pace. I’ve won road races by being the fastest man at the right time, but my biggest wins were always the ones that took real work, big efforts. Cross country is one big effort. If you win, it’s because you are a strong rider, there’s very little left to chance, or luck.

But there is also something about racing in a group. It’s very different from being solo, especially if you are in a team. My team is Kria Racing, named after my biggest sponsor Kria Cycles. I’ve been the team leader for as long as the team has been active, earning wins in most disciplines of cycling in Iceland with the help of my teammates. Last weekend we decided to mix things up a bit.

The race was the RB Classic. It’s a 127km road race featuring a total of 27km of fast, loose, gravel. A mini Strade Bianche. It was the final road race of the season, and the last round of the national road series. I already have the overall title in the pocket, so to make things interesting, me and my brother Óskar, who is always by my side in road races here in Iceland, decided to switch positions for the day. He had the opportunity to get a big win (cash prize!) and ride as the team leader, and I had the opportunity to give back to the team, and have a fun day of dishing out pain on others.

Most of the usual suspects were there. Our usual rival, Örninn Trek, had it’s big guns out, and HFR had a few good guys in the mix as well as some of the smaller teams and individuals. We knew it was going to be a tough race purely because of the long and difficult course, but it was also a course that suited our skills. My targets were the short, 60s climbs and stretches of gravel road.

On the first lap of two I started immediately by putting pressure on the 25-30 man group that started together. A big group like that held together mostly through the first lap, until we hit the gravel bit. It was the final part of each lap, so we would get there halfway through the race, and again in the final kilometers. The pressure was on once we got onto the gravel, and a few short attacks followed by steady surges finally reduced the group down to a select 5. One young man from HFR, two of the strongest guys in the race from Örninn Trek, and me and Óskar. I kept going, usually near my own limits, to make sure they were constantly in defense. It worked through the whole race as almost every attack came from our team. Óskar threw in a few attacks of his own to keep things exciting, and we were feeling pretty good going through the second lap. Again, the action was mostly packed into the gravel bit, and as we entered it for the second and last time, Hafsteinn (Örninn Trek) attacked in the first climb. He knew Óskar would have a harder time than me in the climbs, so it made sense for him to try and split us up. But did he know I was working for Óskar, instead of the usual opposite? We exchanged a few attacks in the coming bits, and every time we managed to drop Hákon (Örninn Trek) and Sæmundur (HFR). But every time they clawed their way back to us. It was amazing to see the pair work themselves through every attack, always coming back to us. We made it onto the final kilometer, off the gravel, and onto the sprint. I immediately started my duties as lead out man, and used everything I had left to pull Óskar to the line, where he and Hafsteinn sprinted for glory. In the end Óskar won narrowly, and I cruised in for third ahead of Sæmundur.

It’s nice to say that everything went according to plan. After the men’s race I had a front row seat watching the women of our team take a 1-2 victory, with Björk taking the win and Ágústa 2nd place after some impressive teamwork. I had a great day of hammering every climb and putting as much pressure as I could. I certainly felt the fact that this was my 32nd race of the year, but the legs were fresh as if it was spring. My racing season is not over for another month, so this is a good sign.

RR – Gullhringurinn

Gullhringurinn, 106km löng götuhjólakeppni sem fór fram í 3.skiptið í ár, hefur undanfarin tvö skipti verið keppni sem hefur skilið mig eftir vonsvikinn. Fyrsta árið átti ég ekki roð í fremstu menn og var skilinn eftir með um hálfa keppnina eftir og endaði í 6.sæti það árið, en í fyrra var ég orðinn örlítið betri og átti erfiðara með að sætta mig við 3.sæti eftir að Hafsteinn og Árni ákváðu að kveðja og hjóla í mark á nýju brautarmeti. Í ár var þetta ekki ein af mikilvægustu keppnunum, en þó ein af þessum keppnum sem er gaman að bæta við í safnið.

Keppendalistinn leit vel út, mörg kunnugleg nöfn og allir sem hafa skipt máli í sumar skráðir, að Hákoni undanskildum sem ákvað að verja Íslandsmeistaratitil í hálfum járnkarli daginn eftir í staðinn, ekki slæm ákvörðun þar sem verkefnið tókst. Ég er búinn að vera þungur á mér síðustu vikuna eftir mikla keyrslu í júní/júlí, WOW keppnin tók sinn toll og ekki síður átökin sem voru Alvogen time trial keppnin, og liðakeppni í 6 tíma löngu fjallahjólakeppninni Lauf Midnight Trail Race. Þreytan hefur látið sjá sig, og þessvegna var vikan fram að Gullhringnum tekin óvenju rólega. Stutt er síðan brautin fyrir Íslandsmeistaramót í fjallahjólreiðum var kynnt, og því verður ekki leynt að það er ein mikilvægasta keppnin mín. Vikan var því nýtt vel til að skoða brautina, sem er í Öskjuhlíð, vel og vandlega til að undirbúa fyrir átökin eftir 2 vikur.

Það var þó veðrið sem ætlaði að setja svip á keppnina í ár. Rigning en logn og hlýtt var í spánni, en þegar komið var á staðinn mætti okkur rigningin eins og við mátti búast, en þónokkuð meiri vindur en reiknað hafði verið með. Vindáttin þýddi að við myndum byrja í mótvind og berjast í honum fram að beygjunni inn á Biskupstungnabraut, en það þýddi líka að síðustu 15km á Lyngdalsheiðinni yrðu mjög erfiðir. Planið mitt var að gera árás seint í keppninni, og reyna mitt besta til að halda mér frá hópnum og koma einn í mark, en þessi vindátt þýddi að það var ólíklega að fara að gerast.

72 manns lögðu af stað frá Laugarvatni og fljótlega eftir að við komum út úr bænum og fylgdarbíllinn gaf grænt ljós á keppnina tók ég af skarið og setti hraðann nógu háann til að mynda strax lítinn 10-15 manna hóp. Þessu var vel fylgt eftir, en nokkrir af fremstu mönnum héldu uppi hraðanum á meðan aðrir sátu í aftursætinu, fegnir að vera bara með í fremsta hóp. Stuttu seinna bjó ég aftur til minni hóp með stuttri keyrslu, en eftir um 22km tók Haffi af skarið og keyrði upp hraðann, en það kom nokkrum að óvörum því að þegar við komum að fyrstu beygju inn á Biskupstungnabraut var litið aftur og séð að enginn nema Miro hafði komið með okkur. Þannig var tekin sameiginleg ákvörðun um að halda áfram keyrslunni, og skildum við félagarnir því hina eftir, með um 80 kílómetra eftir af keppninni.

Stuttu eftir að þetta gerðist lenti Óskar í óhappi og sprengdi að framan á hjólinu og varð að stoppa til að kippa því í lag. Það hefði verið gaman að hafa hann með okkur, en það geta því miður ekki allar keppnir verið góðar og því varð bara að hafa það. Hann átti svo góða keyrslu eftir þetta með ýmsum félögum og náði að koma sér í mark í 9.sæti.

Miro var með okkur Haffa í uþb 10 mínútur, en þá varð hann að gefa sig eftir að hraðinn hafði verið í kringum 47km/h og allt gert til að búa til sem stærst bil á milli okkar og hópsins sem var að elta. Eftir þetta stóðum við Haffi uppi í kunnuglegri stöðu, fremstir með rúmlega mínútu á næsta hóp. Keyrslan hélt áfram og yfir  næstu 46 kílómetrana bjuggum við til forskot upp á rúmar 3 mínútur, og beygðum við þá inn á Þingvallaveg, beint í hressann hliðarvind, en þar hófust átökin raunverulega, og þreytan lét finna fyrir sér. Við skiptum vinnunni drengilega á milli okkar, og það var klárt mál að við myndum vinna þetta vel saman til síðasta kílómetrans, en á þessum tímapunkti hefði verið ómögulegt að komast einn burt, vegna þreytu og veðurs.

Eftir ótrúlega erfiða 15 km á Lyngdalsheiðinni, sem innihélt meðal annars gríðarlega mikið af bílum sem sköpuðu mikla hættu í keppninni, mótvind sem fékk mann til að hugsa hvort væri betra að labba heldur en hjóla þetta, og ágætis stöðugt klifur sem var þó ekki bratt, komum við að brekkunni sem liggur niður á Laugarvatn, 2km eftir. Taktíska keppnin hófst þarna, og það komst ekkert annað fyrir í hausnum á með, en þau skipti sem ég hef látið Hafstein snúa á mig með mikilli keppnisreynslu. Ég hugsaði helst um síðasta skipti sem við áttumst við, í Jökulmílunni, en þar fór ég fyrstur inn í sprettinn og gat því lítið komið á óvart eða fylgst með fyrir aftan mig. Þar fór ég of seint af stað og lét Hafstein sigra mig örugglega. Enn og aftur var ég fastur fremst, eftir að við skiptumst á að hjóla yfir heiðina, en hann kom sér fyrir, fyrir aftan mig, fyrr en ég átti von á og sat ég því fastur fyrir framan. Við rúlluðum sultuslakir niður brekkuna án þess að stíga pedalana, þar til marklínan var í sjónmáli. Ég byrjaði að hjóla rólega á undan, en ákvað að gera öfugt við Jökulmíluna, og fór fyrr heldur en vanalega. Ég setti allt sem ég átti í að koma mér af stað, og 12 sekúndum síðar hafði ég þetta, ögn meira en hjólalengd á undan Haffa, og fyrsta sætið var mitt.

Mynd: Sveinn Benedikt Rögnvaldsson

Mynd: Sveinn Benedikt Rögnvaldsson

Einar Bárðarson hefur gert góða hluti með að setja þetta mót upp, og hefur uppskorið lof margra, en rúmlega 300 manns kepptu þennan dag, sem er næststærsta mæting í hjólreiðakeppni á Íslandi í ár. Allir sem aðstoðuðu við keppnishald og skipulag í kringum viðburðinn eiga þakkir skildar! Það er alltaf gaman að sjá sportið stækka, og keppnir eins og Gullhringurinn eiga flottann hlut í þeirri þróun.

RR – WOW Cyclothon

Keppnin

WOW Cyclothon. Lengsta og stærsta hjólreiðakeppni ársins, sé umgjörð, vegalengd og heildartími mældur. Það er í raun engin keppni eins og þessi, einstaklingar, 4 manna lið eða 10 manna lið keppast um að hjóla hringveginn, 1332 kílómetra á sem styðstum tíma. Liðin eru með bíl fyrir alla liðsmenn og setja út 1-2 menn í einu til að dreifa álagi, og reyna að hjóla nokkur lið saman til að mynda hóp sem hjálpast að við að brjóta vindinn og gera ferðina skemmtilegri. Álagið sem hvílir á öllum, hvort sem þeir eru hjólreiðamenn eða ökumenn, er ótrúlegt og úthaldið sem keppnin krefst er ekki síður andlegt heldur en líkamlegt.

Það er ógleymanleg lífsreynsla að taka þátt í þessarri keppni, en ég tók þátt árið 2012 þegar keppnin var haldin í fyrsta skipti. Ég var settur inn í WOW liðið á síðustu stundu, ásamt Skúla Mogensen, Gunna Gylfa og Emil Tuma, og var þá nýbúinn að taka mín fyrstu spor í götuhjólreiðum, og átti langa leið á þann stað sem ég er á í dag. Við tókum þátt með það í huga að hafa gaman að þessu, en þá var langsterkasta liðið, lið Hafsteins, Árna, Pálmars og Kára, og við þóttumst vissir um að þeir myndu taka þetta. Það árið var þetta mjög skemmtileg upplifun, við tókum flott 2.sæti ásamt 2 öðrum liðum, og deildum góðum stundum inn í húsbíl á fleygiferð.

Workforce A

10356315_724837114239410_5956405335708170098_n

Mynd: Workforce

Í ár var kominn aðeins annar tónn í mig, eftir að hafa sleppt keppninni í fyrra var áhuginn fyrir þáttöku orðinn ansi mikill. Helsti munurinn var að sjálfsögðu sá, að nú skyldum við sigra keppnina. Ég var meira að segja minntur á það að ég hafði lofað að taka ekki þátt aftur fyrr en ég vissi að liðið mitt gæti sigrað. Undanfarið hefur verið skemmtileg þróun í keppnisliðum í hjólreiðum á Íslandi, menn eru að vinna mun betur saman en áður, og ég tel að Kría-Specialized liðið eigi stórann hluta af þeirri þróun. Við settum saman góðann grunn að liði sem samanstóð af Emil Þór, Óskari og sjálfum mér, en okkur vantaði fjórða manninn. Erfitt er að finna góðann hjólara á Íslandi sem hefur áhuga, og uppfyllir þær kröfur sem þetta dúndurlið hafði sett. Bjargvætturinn var enginn annar en fyrrverandi atvinnuhjólarinn Tigran Korkotyan, frá Armeníu, en Tigran er starfsmaður hjá Specialized og mikill hjólari, ekta klifurköttur og hafði hann mikinn áhuga á að kíkja til Íslands og upplifa landið á þennan hátt. Það kom á daginn að hann var dúndurgóður hjólari og fullur af reynslu sem hann miðlaði vel til okkar áhugamannana, frábær gaur og topp liðsmaður!

Ekki má gleyma aðalmönnunum, ökumönnunum eða “managerunum” eins og við köllum þá í dag, en án þeirra hefði maður gleymt að borða, gleymt að vakna og jú, gleymt hjálminum og einum hanska inn í bíl á leiðinni út að hjóla 😉 Sölvi Sig og Ingi Már voru svo sannarlega hetjur keppninnar, og héldu lífinu í þessu liði. Það er ómetanlegt að geta einbeitt sér 100% að keppninni, að því einu að hjóla, þegar maður hefur þvílíka snillinga sem aðstoðarmenn, og ég er ekki lítið þakklátur fyrir það.

Startið

10514365_912395478777096_1653686379187875761_o

Mynd: Hjólamyndir

Startið var mjög mikilvægt í þessarri keppni, en fjölmörg lið voru á svæðinu og ekki öll á sama stað hvað varðar form og kunnáttu. Einnig var ákveðin regla í gildi, sem var þannig að séu fleiri en 4 lið að hjóla saman, mættu skiptingar ekki vera oftar en á 25 mínútna fresti. Allt í lagi fyrir okkar lið, en gæti skemmt samvinnuna með öðrum liðum. Það var því ákveðið, eftir létt eyrnahvísl með öðrum vel völdum liðum, að setja út mig og Emil til að keyra upp hraðann og teygja á hópnum, en við vorum tveir vegna þess að fyrsti leggurinn var frá bænum og alla leið að afleggjaranum inn í Hvalfjörð, þannig að ekkert mátti klikka á leiðinni. Við vissum fyrir að Trek liðið myndi setja út tvo af sínum bestu mönnum, Haffa og Árna, og var víst að hraðinn yrði mikill strax og fylgdarhjólið gæfi okkur stjórn á keppninni.

Sú var aldeilis raunin, um leið og við komum framhjá N1 í Ártúnsbrekku fór fylgdarhjólið og Haffi kom fljúgandi framhjá mér, “eigum við að byrja þetta?”. Þarna hófst leikurinn og uþb 4-5 lið byrjuðu strax að skiptast á að hjóla fremst, með nokkur önnur lið í aftursætinu, vonandi að þau gætu haldið hópinn. Ég, Haffi, Árni, Emil og Steinar í Hleðsluliðinu vorum e.t.v. duglegastir við að keyra upp hraðann, en þarna vorum við að hjóla á svipuðum hraða og við myndum gera í 60-100km keppni, ekki 1332km keppni! Planið heppnaðist mjög vel og þegar komið var undir Esjuna og í átt að Hvalfirði voru liðin afar fá eftir, og stuttu seinna byrjuðu sterkari menn að missa af okkur. Niðurstaðan var sú að aðeins þrjú lið héldu forystu, Trek, Hleðsla, og Workforce A. Ég henti mér fljótlega inn í bíl og leyfði Óskari að taka við taumunum, þarna var fjörið byrjað og strax kominn fiðringur í magann, spennandi tímar framundan!

Ferðalagið

Ó hvað ég saknaði húsbílsins þegar nokkrir tímar voru liðnir, inn í pínulitlu 13 manna rútunni okkar. 6 gaurar, 7 hjól og heill ruslahaugur af búnaði og mat, það var ekki mikið um pláss hjá okkur. Sem betur fer hafði Sölvi græjað frábært rúm aftast í bílnum, þannig að við gátum allavega lagt okkur, ef ekki sofnað í nokkrar mínútur. Við vorum þó ansi hressir, strákarnir, og var mórallinn góður alla leiðina. Jafnvel á erfiðustu tímum þegar þreytan var mikil, var hressleikinn til staðar.

Við duttum inn í ágæta rútínu sem byggðist á 25 mínútna skiptingum, menn hjóluðu 25 mínútur og fengu á móti 75 mínútna hvíld, sem var langþráð þegar liðið var á keppnina. En það sem gerði gæfumuninn voru næturvaktirnar, þar sem menn fengu að skiptast á að taka þriggja manna vaktir á meðan einn svaf yfir tvær vaktir, sem þýddi að á meðan þrír hjóluðu 25 mín hver, fékk fjórði maðurinn 150 mín (2,5 klst) hvíld, sem var yfirleitt nóg til að leggjast niður og sofna í smá stund. Ég fékk svo leyfi til að taka tvisvar sinnum 50 mínútur á hjólinu, sem uppskar örlítið meiri hvíld, en verandi í ákveðnu lykilhlutverki í liðinu var sú hvíld aldeilis velkomin!

Það er erfitt að lýsa því hvernig er að keppa í svona keppni, þegar svefnleysið og andleg þreyta byrjar að sýna sig. Minnið verður gloppótt og alls konar hlutir fara að renna saman í huganum, en maður reynir sitt besta að fókusa á verkefnið, og missa ekki jákvæðann andann. Við hjóluðum í gegnum tvær nætur, sú fyrra auðveld þar sem flestir höfðu fengið nægann svefn nóttina fyrir keppni (þó ekki nema 5 tímar hjá mér), en ég man að það var mjög hressandi að vakna rétt eftir Akureyri eldsnemma morguns og fá nýbakaðann snúð í hendurnar. Líkamlega þreytan var ekki svo mikil, í raun mikið minni en mátti búast við. Formið sýndi sig vel í þessarri keppni, og langar æfingar vetursins komu heldur betur að gagni þegar leið á.

Það var þó seinni nóttin, sú sem leið frá Öxi og inn á suðurlandið sem var erfiðasti kafli keppninnar. Ég hafði gert árás bæði rétt fyrir Egilstaði sem var ekki svo kostnaðarsöm, en einnig var ég með smá læti á Öxi og kláraði dæmið með stórárás strax og brekkan niður Öxi var búin. Þessu fann ég vel fyrir, og ég var feginn að fá smá hvíld eftir það. Ég var svo vakinn uþb 2 tímum síðar til að halda áfram keyrslunni, ég var tímastilltur nákvæmlega við Haffa í Trek liðinu og við hjóluðum aldrei hægt saman félagarnir. Þarna hófust 6 vaktir með tveimur öðrum hjólurum þar sem ég var aftastur í röðinni á leið í langa hvíld. Fullkomin tímasetning þar sem ég myndi fá mína hvíld seint, og myndi vakna rétt fyrir stærstu átökin í lok keppninnar. Þessar 6 vaktir voru þó sennilega með því erfiðara sem ég gerði á þessarri hringferð, ég byrjaði fljótlega að finna fyrir rosalegri syfju og gat engann veginn hrist hana af mér. Í hvert sinn sem ég fór út byrjaði ég að fá einhverskonar slikju yfir augun, stór grænn hringur sem huldi allt sem ég sá, og stækkaði og breytti formi eftir því sem leið á keyrsluna, og olli því að ég sá varla hvert ég var að fara. Ég man lítið eftir umhverfinu eða leiðinni sem við fórum og líðanin var ansi slæm. Fæturnir voru sennilega það eina sem virkaði, en þarna var ég sennilega hálfnaður á leið í gúmmíkallaástandið sem fylgdi á eftir undir lokin. Ástandið var líka ansi skringilegt þegar komið var inn í bílinn fyrir stutta hvíld, ég byrjaði að reyna að bæta svefnleysið með því að borða nánast hvað sem ég sá, og gat ekki hætt að borða þegar ég sat inn í bíl, matarlystin var örugglega það eina sem virkaði í hausnum á mér. Í rauninn mætti segja að það eina sem hélt mér gangandi var það að ég var alltaf úti með Haffa, við hjólum alltaf hratt saman og það er alltaf jafn öruggt að hjóla með þessum meistara, samvinnan fullkomin og allt gengur eins og í vél, en ég var þó á tímabili hræddur um að ég myndi sofna á hjólinu og hjóla kallinn út af veginum. Feginn að það gerðist ekki.

Egilsstaðir

Mynd: Emil Þór Guðmundsson

Mynd: Emil Þór Guðmundsson

Hleðsluliðið hafði staðið sig frábærlega í samvinnunni við bæði mitt lið og Trek liðið, og keyrslan var þétt og góð hjá öllum sem hjóluðu. En ég vissi frá upphafi, og ég held að það hafi allir vitað, að það kæmi sá tími þegar keppnin milli okkar og Trek liðsins myndi virkilega byrja. Það var fljótlega eftir Akureyri sem þreytumerkin byrjuðu að sjást á mönnum, fyrsta nóttin var liðin og ekkert víst að allir hefðu fengið að sofa eins og þeir vildu. Ég tók fljótlega þá ákvörðun fyrir hönd liðsins að í brekkunni fyrir Egilsstaði yrði klippt á Hleðsluliðið og forystan tekin af aðeins 2 liðum. Þetta var ekki mikið verk, í hreinskilni sagt, ég hafði hjólað úti einhverja 40km þar sem mælingar að þessarri brekku voru örlítið skakkar og ég þurfti að bíða lengur en ég átti von á. En fæturnir voru ferskir, ég hafði verið duglegur að hvíla á milli keyrslna og var tilbúinn í árásina. Bjarki og Benni voru með mér úti þegar komið var í brekkuna, en allir bílarnir tóku framúr okkur fyrir hana, og skiptu bæði mótherjaliðin út sínum mönnum, Steinar og Árni komu út á meðan ég hélt áfram að hjóla. Ég beið ekki mjög lengi þegar brekkan hófst, stóð upp og kom mér í stöðu með strákunum, og gaf svo hressilega í, en þó ekki þannig að ég myndi stressa Trek liðið of mikið. Árásin þurfti að vera hnitmiðuð til að losna við eitt lið, á meðan samvinnan við hitt liðið héldist. Þannig sprettaði ég í stutta stund, sneri mér svo við og sá að Steinar svaraði ekki, Árni nálgaðist og ég leyfði honum að loka bilinu og taka þátt í klifrinu. Nokkur  hundruð metrum síðar fóru Haffi og Óskar út og þar með var þessu lokið; toppliðin voru nú ein.

Öxi

Öxi er einstakt fyrirbæri. Enginn annar staður á hringleiðinni er jafn hættulegur, bæði tæknilega á hjólinu og taktískt fyrir liðin og einstaklingana sem keppa. 27km af þéttum malarvegi og uþb 400 metra klifur, sem er fylgt eftir af hröðu bruni niður hlykkjóttann veg, alla leið inn Berufjörðinn, Öxi er hressandi kafli sem gerir keppnina ótrúlega spennandi. Eitt af mínum verkefnum í þessarri keppni var að hjóla Öxi, ég hafði sérstakann áhuga á því, og þegar komið var að teikniborðinu fyrir keppnina var hugmyndinni að árás þar oft kastað á milli manna. Það var áhugaverð pæling, þarna hafði ég tvo styrkleika í klifri og malarvegi, og á blaði lítur enginn annar staður á landinu betur út fyrir tilraun til að slíta sig frá hinu liðinu. Ókosturinn? Bara uþb 600km af spennu, stressi og endalausri keyrslu í bæinn þegar malarveginum lýkur, ekki alveg það hentugasta, og þegar á hólminn er komið, ekki eitthvað sem menn eru tilbúnir í. Það var tekin sú ákvörðun einhverstaðar á norðurlandinu að þarna myndum við ekki gera tilraun til að komast burt, en það var haldið opnu fyrir árásum, helst til að láta reyna á Trek liðið.

Við mættum spenntir að malarkaflanum og sáum að Raggi og Bennsi voru að græja einhvern út, við sáum ekki hver það var eða á hvernig hjóli hann yrði þegar hann kæmi niður brekkuna að bílnum okkar. David hafði botnað Audiinn sinn til að athuga aðstæður áður en liðin mættu á svæðið, og hann sagðist viss um að Trek menn myndu notast við götuhjól. Ég bjóst þarna við að sjá annaðhvort Árna eða Haffa, og var vel viðbúinn þeim. Ákvörðunin var tekin, út með götuhjólið og ekkert pælt í að lækka loftþrýsting í dekkjum, Árni var kominn út og var á leiðinni og það var ekkert annað í stöðunni en að keyra á eftir honum.

Árni var með skemmtilegann stíl sem gekk í gegnum alla keppnina, amk þegar hann hjólaði gegn mér. Þetta minnti svolítið á track hjólreiðar, þar sem menn hjóla rólega til að reyna að plata andstæðinginn til að taka forystuna, það er nefnilega betra í þannig stöðu að vera fyrir aftan og geta þannig komið á óvart. Árni hjólaði í raun alltaf í vörn, fylgdist vel með mér og var alltaf tilbúinn fyrir hasa, en var þó aldrei fyrri til að gera eitthvað. Þetta sá ég hjá honum þegar við tveir tókum næstum öll mikilvægu klifur hringferðarinnar. Ég hélt á eftir honum upp malarveginn og spilaði með honum, lét hann þó yfirleitt leiða og hægði á mér í takt við það þegar hann reyndi að ýta mér framfyrir sig.

Það kom að því að mig langaði að gera eitthvað, þannig að ég setti smá kraft í þetta og athugaði hvernig Árni tók í það, hann hélt vel í við mig þannig að ég slakaði aftur á. Meiningin var aldrei að reyna að stinga af, heldur frekar að athuga formið hjá hinu liðinu. Fljótlega eftir grófa beygju gaf ég meira í og þá aðeins lengur, bjó fljótlega til bil og Árni þurfti að gefa vel í til að loka því, sló þá aftur af. Restin af leiðinni var tíðindalaus, við hjóluðum saman inn í þokuna og fljótlega sáum við aðeins framdekkin á hjólunum okkar, ekkert annað. Þegar komið var á toppinn sáum við bílana og Bjarka og Óskar klára í slaginn, við skiptum og ég stökk inn í bíl til að fylgjast með bruninu niður.

Eftir æsilegann bílaeltingaleik komum við loksins niður úr skýiinu og mér til mikillar gleði sá ég að Óskar var kominn töluvert á undan Bjarka þegar þeir komu niður á flatann. Ég sagði við strákana að mig langaði út til að gera eitthvað úr þessu tækifæri, þannig að bíllinn var botnaður (70km/klst!) og mér fleygt út þegar nokkurhundruð metrar voru eftir af malarveginum. Ég leit aftur fyrir mig og brá pínu, þarna var Hafsteinn mættur á hjólið og alveg helillur! Ég gaf hressilega í og byrjaði nánast strax að hamra á pedulunum til að ná að halda bilinu, sem mér tókst að gera. Árna var fleygt út til að aðstoða Haffa og þegar ég sá það kom smá bros á vör; þeir voru smeykir við þessa árás og voru greinilega ekki nógu öruggir með að setja einn út á móti mér. Við tók ansi æsilegur eltingaleikur, þar sem ég á einum tímapunkti taldi gróflega 15 sek forskot, en ég setti þarna í 20 mínútur hæstu afltölur sem ég hef séð fyrir þessa tímalengd. Við komum inn á malbikið og æsingurinn hélt áfram, ég sá að Haffi skipti um hjól, TT hjólið var tilbúið fyrir hann og Valli fylgdi á eftir á öðru TT hjóli. Það var greinilega mikil alvara í mönnum og ég hrópaði á strákana í bílnum að setja einhvern út. Út kom Emil sem reyndi sitt besta en var ekki alveg nógu heitur til að halda hraðanum, enda nýmættur út. Þess má einnig geta að Haffi var svo æstur í fjörið að hann hafði líka stungið Valla af og við vorum einir í eltingaleik.

Þarna var nóg komið af fjöri, ég hafði fengið langþráða spennu og sá ekki fram á að hjóla alla leið í bæinn á þennan hátt. Ég hætti keyrslunni, lækkaði hraðann og sá Haffa og hans lið ná mér á augabragði. Þarna fór ég inn og Óskar út, og á nákvæmlega sama tíma fórum við Haffi í langþráðann svefn, til að gera okkur klára fyrir hið skemmtilega óendanlega suðurland.

Kambarnir

Mynd: Arnold Björnsson

Mynd: Arnold Björnsson

Við vissum að Trek liðið væri með tvö TT hjól. Við vissum líka að það væri erfitt, ef ekki ómögulegt að ná einhverjum sem fer einn af stað á slíku hjóli efst á heiðinni eftir Kambana upp frá Hveragerði. Þarna var komin stór áhætta í leikinn og klárlega eitthvað sem við vildum hafa áhrif á. Eftir æsinginn á Öxi róuðust bæði liðin og stífar 25 mín vaktir hófust, þar sem mönnum var spilað saman skv formi til að koma í veg fyrir ójafnvægi og einnig halda báðum liðum rólegum. Ingi og Sölvi tóku eftir að í hvert sinn sem ég var settur út, var Haffi settur á móti mér. Árni gegn Óskari, Emil gegn Bjarka og Valli gegn Tigran.

Þegar lokaspenningurinn byrjaði að magnast upp, uþb þegar við fórum að nálgast Selfoss, vorum við búnir að leggja örlítið á ráðin. Okkur datt í hug að Trek liðið væri líklegt til að hvíla Haffa og Árna eins mikið og hægt væri, svo þegar kæmi að Kömbunum myndu þeir setja Árna út til að klifra, og Haffi myndi vera klár með TT hjólið á toppnum, til að reyna að keyra allt í botn alla leið í markið. Við vorum nokkuð öruggir með að láta þetta ráðast af endaspretti, þannig að næsti hluti plansins fór að snúast um hvernig við gætum spilað með hitt liðið. Við tókum til ráðs að setja mig út með öðrum hjólara, til að plata þá til þess að setja Haffa út. Svo þegar allir væru komnir saman myndi ég strax hætta að hjóla og fara aftur inn í bíl. Þetta myndi riðla til planinu þeirra. Þetta var svo sett í gang, fyrst milli Selfoss og Hveragerðis, en þá kom það fyrir að Haffi lenti í vandræðum með hjólið, keðjan var föst og hann virtist ekki ætla að ná skiptingu. Þarna voru tveir möguleikar, annaðhvort myndum við notfæra okkur þetta eða ekki. Ég held ekki mikið upp á það að sigra keppnir út á mistök eða óheppni annarra, ég gaf Óskari merki um að halda áfram og stökk sjálfur inn í bíl og beið næsta tækifæris. Við endurtókum leikinn rétt fyrir Hveragerði, settum út mig og Tigran, og Haffi fór út á móti. Ég lét eins og ég ætlaði að halda áfram en stoppaði og fór aftur inn í bíl.

Þannig hófst klifrið á því að Haffi, Tigran og Óskar fóru saman inn í Kambana, ég beið spenntur nokkur hundruð metrum ofar og Árni líka. Við skiptum allir og við Árni tókum við. Taflið hélt áfram milli okkar Árna, með þeirri undantekningu að vörubílstjóri á vegum Eimskips virtist halda að hann ætti eina af tveim akreinum og hafði hug á að keyra okkur út af veginum. Nokkrum orðaskiptum síðar héldum við upp bröttustu brekkuna og þá síðustu á leið upp á heiðina. Árni sló skyndilega af og hægði mikið á sér, en mér tókst að bregðast við og hanga fyrir aftan hann, og nokkrum auglitum aftur fyrir mig til að athuga með umferð síðar, gerði ég öfluga árás. Það verður að segjast að þarna setti ég allt sem ég átti í þetta og sikksakkaði upp brekkuna. Fyrir aftan mig sá ég Árna fjarlægjast, og bíl Arnarins koma á fullri ferð framhjá mér, mér hafði tekist að sprengja Árna og neyða Haffa út, og það á götuhjóli því þarna voru allir orðnir svo spenntir að það var sennilega stutt í raflost í rigningunni, ekkert mátti klikka og TT hjólið var út úr myndinni. Ég sló strax af, settist niður og beið eftir að Haffi næði mér, sem tók ekki langann tíma. Við hjóluðum upp á heiðina og sáum að báðir bílarnir voru komnir fyrir framan okkur og voru að dæla út mönnum.

Lokaspretturinn

10421619_1437631889848728_8799100543861757452_n

Mynd: Arnold Björnsson

“Allir út” heyrði ég Haffa segja inn í bílinn sinn, og það var sko raunin. Bæði liðin hentu út öllum sínum hjólurum og á augabragði vorum við 8 talsins á veginum þegar hann hætti loks að fara upp í móti. Þarna voru 27 kílómetrar í mark, rúmlega 1300 kílómetrar búnir og allir hjóluðu eins og það hefði bara verið upphitun. Andrúmsloftið var ansi magnað, það hellirigndi, smá vindur og brjálað stress í mönnum. Við byrjuðum að raða okkur upp í einhverskonar fylkingu, ég passaði að nýta Óskar sem skjól og Emil til að fylgjast með hinum, en Tigran datt aftur úr hópnum þegar við byrjuðum að nálgast Litlu kaffistofuna. Þarna varð ég viti af þvílíkum krafti sem Bjarki og Valli sýndu, en fyrir þetta var ég alveg viss um að þeir yrðu ekki til vandræða þegar hraðinn myndi aukast á leið í markið. Svo var ekki, báðir voru oftar en ekki fremstir í hópnum og unnu sína vinnu mjög vel, Haffi var að miklu leyti laus við að vera fremstur, en Árni kom svo líka inn í spilið þegar lítið var eftir.

Ég var alveg að farast úr spennu þegar við skutumst framhjá beygjunni sem liggur inn í Heiðmörk. Þarna voru aðeins nokkur hundruð metrar eftir og einn pínulítill hóll stóð á milli okkar og marklínunnar. Ég sá að Árni setti allt í botn fyrir framan Haffa og hraðinn jókst rosalega. Það munaði ekki miklu að ég missti af hópnum þarna, ég þurfti að taka svoleiðis rosalega á til að hanga í hópnum en það rétt hafðist. Við komum yfir hæðina og Árni fór þá aftar í hópinn og var uppröðunin þá Haffi, Óskar, ég. Ég fylgdist vel með og reyndi að vera eins slakur og hægt var, sá að Haffi byrjaði að keyra upp hraðann, og tók þá ákvörðun að koma mér fyrir framan Óskar til að vera eins nálægt Haffa og hægt var. Þetta var að mestu leyti vegna þess að ég var hjólandi á vegöxlinni og hafði ekkert pláss til að vinna með, þannig að það mátti ekki taka neina sénsa. Spretturinn fór í gang og ég stóð upp, en beið í örskamma stund beint fyrir aftan Haffa, áður en ég sá línuna og byrjaði minn sprett. Allt var sett í þetta, mér leið eins og fæturnir væru úr gúmmíi og ég væri á deyfilyfjum, tilfinningin var engin og mér fannst eins og ég væri að ýta mér áfram með hugaraflinu einu. Kanski var það svoleiðis, en það var greinilega nóg, ég rétt skaust framúr, og kom yfir línuna, fyrstur með hjólalengd í Haffa.

Tilfinningin var ótrúleg, þetta var án efa einn stærsti sigur í mínum ferli og það frábæru liði og einstakri samvinnu milli liðsfélaga og keppinauta að þakka. Það er í raun ólýsanlegt, hvernig það er að taka endasprett eftir rúmlega 39 tíma ferðalag umhverfis landið, ýmist á hjóli eða sitjandi í keng í lítilli rútu. Menn sögðu að þessi keppni færi í sögubækurnar, og það er vægast sagt frábært að vera hluti af þeirri sögu.

 

RR – Jökulmílan

Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson

Jökulmílan er ein af þessum keppnum sem þarf meiri undirbúning en aðrar, ekki bara vegna þess að verandi lengsta eins-dags götuhjólakeppni ársins, 160km, heldur líka vegna þess að það þarf að ferðast dágóðann spotta upp í Grundarfjörð til þess að taka þátt. Ég hef svolítið gaman að þessu, það er ekkert leiðinlegt að eyða heilum degi í hjólreiðakeppni, og ferðalagið til og frá gerir þetta bara skemmtilegra. Í fyrra var þessi keppni á sama degi og KexReiðin sem ég sigraði, þannig að það var fúlt að geta ekki verið með þá, en stærri hópur og stóraukin samkeppni gerðu það að verkum að keppnin í ár leit út fyrir að ætla að vera enn betri en í fyrra.

Ég tel mig hafa ágætis úthald á hjólinu, enda er það með betri hlutunum sem koma til manns eftir mikinn æfingavetur, þannig að ég var spenntur fyrir að sjá hvernig ég myndi tækla svona langa keppni. Brautin leit vel út, þessi týpíski Íslenski flati staðreynd sem maður venst með hverju ári (afhverju eru Íslenskir hjólreiðamenn hræddir við brekkur?), en ég hafði keyrt þetta áður og vissi að landslagið væri frábært og vegirnir góðir. Aðalpælingin hinsvegar, var hverjum maður myndi hjóla með, og startlistinn gaf góðar vísbendingar. Þarna voru kunnugleg nöfn frá síðustu keppnum, Hafsteinn, Miro, Árni og Óskar, auk nokkurra annarra sem gætu komið sterkir inn. Ég var með í kollinum hugmynd að 6-8 manna hóp sem ég vissi að gætu verið í formi til að hjóla í fremsta hóp, en maður veit svo aldrei hvernig menn eru, eða hvað gerist í keppninni.

Veðrið var bara mjög fínt þegar komið var á staðinn. Það var léttskýjað og þurrt, hiti í loftinu, og lítill vindur; uppáhaldsaðstæðurnar mínar, stuttermaveður! Það fór aðeins meiri tími en vanalega í að pæla hvernig væri best að vera klæddur, en hér á landi getur ýmislegt gerst í veðrinu á 4-5 tímum. Ég endaði á því að vera öruggur með þetta, stutta kittið toppað með stökum skálmum og ermum til að vera alveg pottþéttur í bæði miklum hita og vægum kulda. Þá tók við hin stóra pælingin, hvað tekur maður með sér að borða og drekka í svona ævintýri? Sem betur fer hafði ég kíkt í heimsókn til vina minna í Hreysti daginn áður og var með tonn af drasli með mér. Niðurstaðan var að ofan í vasana fóru 4 gel, 4 kókos-súkkulaði orkustangir, 2 hafrakubbar og 1 sími sem var þó ekki étinn. 2 stórir brúsar af orkudrykkjum dugðu hinsvegar ekki, og það byrjuðu einhverjar pælingar með að stoppa kanski á drykkjarstöð á leiðinni, ef hópurinn væri með nógu gott forskot, og allir meðlimir drengilegir 🙂

Keppnin hófst á slaginu 11:00 og við vorum leidd út úr bænum, á leið í öfugann klukkuhring í kring um Snæfellsnes. Ég held að það hafi verið eitthvað um 90-100 manns í hópnum sem fór heila Jökulmílu, og það var gaman að sjá alla langlokuna þeysa í átt að fyrstu brekkunni. Ég og nokkrir aðrir vorum með svipaðar hugmyndir um að minnka hópinn aðeins, og jafnvel mynda lítinn hóp fremst og stinga af þannig. Brekkan var tekin sæmilega rólega, og ekki mikill æsingur þar, en fljótlega eftir klifrið sást kunnuglegt “múv” frá Hafsteini, öflug keyrsla strax eftir að hópurinn hafði teygst yfir klifrið. Þetta gerði það að verkum að allir áttu erfitt með að ná hópnum saman aftur. Ég tók einhvern þátt í þessu, og kunnugleg andlit voru framarlega í hópnum. Þegar við fórum svo niður brekkuna hinum megin hélt keyrslan áfram, en ég lét mig falla rólega aftur úr hópnum, til að láta líta út fyrir að það væri ekkert of mikið að gerast. Þegar ég sá að Hafsteinn var kominn með ágætis bil í næstu menn, en þar voru Miro og Árni saman, Helgi Páll og Óskar framarlega. Ég hóf þá aðra keyrslu og brunaði fram úr öllum til að ná í skottið á Haffa, en þeir fylgdu allir með. Enginn annar náði að hanga í okkur, og þá var litli fallegi 6 manna hópurinn okkar myndaður, og samanstóð af prýðishjólurum sem er gaman að eyða 4 tímum á hjóli með.

Samvinnan gekk mjög vel hjá okkur eftir að hópurinn róaðist. Við hættum að sjá í næstu menn og byrjuðum að skipta vinnunni á milli okkar, sem gekk mjög vel enda allir góðir hjólarar. Helgi Páll kom skemmtilega á óvart sem nýliðinn sem sneri á marga vana hjólara sem voru aldrei að fara að ná okkur, og fær rokkstig dagsins. Þegar keppnin var hálfnuð sáum við drykkjarstöð númer 2, og voru menn almennt sammála um að taka pissustopp og fylla á brúsana, en það var þó ábótavant að það var enginn heitur pottur á svæðinu þannig að við vorum fljótir að koma okkur burt. Við keyrðum og keyrðum um flata vegina og það verður að segjast að á köflum var þetta ansi þurrt, en hraðinn var góður og það kom einn hóll á leiðinni sem var hægt að standa hjólið á leiðinni upp til að teygja úr fótunum. Ég byrjaði að pæla aðeins í hvernig væri best að taka lokakaflann, en ég vissi af ágætu klifri á Vatnaleiðinni, uþb 100m hækkun yfir 1.9km. Mig hefur alltaf langað að gera árás seint í keppni og komast einn eða með einum öðrum burt í markið, og þarna var fínt tækifæri til þess.

Við fyrstu beygju hjá sjoppunni Vegamót voru uþb 130km búnir og við byrjuðum að hjóla í átt að brekkunni, allir saman. Það var engin sýnileg þreyta í mönnum, og meðalhraðinn búinn að vera um 35km/klst sem er bara fínt fyrir svona hóp held ég. Þegar við komum í brekkuna sat ég annar fyrir aftan Hafstein með hina fyrir aftan. Haffi byrjaði að setja gott tempó upp brekkuna og var greinilega tilbúinn fyrir einhvern hasar því þegar brekkan var uþb hálfnuð stökk ég fram úr honum og setti hátt í 1300w til að sleppa frá hópnum. Ég stóð upp og spretti aðeins lengur og leit fyrir aftan mig, sá að Haffi var sá eini sem gat svarað og var á leiðinni til mín, hinir hurfu strax. Ég tók ákvörðun um að setjast niður og bíða eftir Haffa, en ég taldi best að hafa hann með til að eiga meiri möguleika á að sleppa. Við keyrðum vel og jafnt yfir heiðina og að næstu gatnamótum þar sem 22km af mótvindi tóku við. Fyrir aftan mig sá ég að Óskar reyndi að stinga þá félaga af, en mótvindurinn gerði það að verkum að hann komst aldrei yfir til okkar, þannig að við vorum þá ansi öruggir. Þrátt fyrir það hjóluðum við ansi vel restina af leiðinni, en síðustu 25km voru farnir á 41km/h.

Á endanum komum við inn í Grundarfjörð aftur, og hjóluðum saman þessa löngu og aflíðandi hægribeygju í átt að markinu. Vindurinn kom vinstra megin frá og ég giskaði á að þegar við færum í átt á markinu myndi hann vera örlítið í bakið, en samt smá krossvindur. Ég hafði áður lent í því að láta plata mig til að taka vindinn á leið í endasprett, og þrátt fyrir að gera það full snemma þá ákvað ég að fara út í kantinn hægra megin til að koma í veg fyrir að Hafsteinn kæmist þangað og gæti verið í skjóli af mér. Stressið byrjaði að byggjast upp og ég lækkaði hraðann töluvert, en út í kantinum voru nokkrir sandkaflar og nóg af möl og holóttu malbiki, pókerinn var byrjaður og ég vissi að eins og vanalega var ég sá reynsluminni. Ég ákvað að vera ekki sá fyrri til í sprettinn, en þegar við vorum komnir mjög, mjög nálægt markinu, held það hafi verið ekki meira en 100 metrar, tók Haffi á rás fyrir aftan mig og gaf allt í botn, mér brá pínu og allar sprettæfingar fóru út um gluggann þegar ég tvískipti niður og setti í allt of þungann gír en reyndi þó allt sem ég gat til að ná honum. Það verður að segjast að ég átti ekki séns, Haffi var með þetta frá fyrsta andartaki í sprettinum og átti sigurinn fyllilega skilinn.

Fúlt að taka 2.sætið, fjórða skiptið í röð í sumar, en eftirá að hyggja þá er alls ekki svo slæmt að taka silfur í svona keppni. Maður lærir af þessu en það eru víst margar óskrifaðar blaðsíður í sprettkaflanum í reynslubókinni 🙂

Hjólamenn eiga heiður skilinn fyrir flotta keppni og frábært framtak. Allt í kring um keppnina var glæslega framkvæmt, og fílingurinn bara góður eftir þetta. Ég benti þeim á, eftir keppnina að það hefði ekki verið þægilegt að spretta í átt að ósýnilegri línu, en án þess að hljóma leiðinlega þá gerði þetta ekki góða hluti í sprettinum sjálfum. Fallegi blái sigurboginn var þó flottur, og ég er viss um að þegar allar götuhjólakeppnir á Íslandi skarta slíkum boga og þykkri, góðri, hvítri línu til að setja framdekkið yfir, verður lífið gott!

RR – 2.bikar – Þingvellir

Mynd: Hjólreiðafélag CFRvk

Í gær fór fram 2.bikarmót í götuhjólreiðum, að þessu sinni á Þingvöllum. Hjólaðir eru 4 hringir í A-flokk, í frá þjónustumiðstöðinni á Þingvallavegi þar til beygt er til hægri hinum megin við nokkra hóla og hæðir og farið inn á Vallarveg sem liggur meðfram Þingvallavatni. Keppnin var 67km í heildina, og veðurspáin sagði til um austanátt og rigningu, en þegar komið var á staðinn uþb klukkutíma fyrir start var veðrið fínt, blautt en engin rigning og hlýtt.

Ég var ágætlega ferskur fyrir keppnina en hef þó verið að glíma við einhverja langtímaþreytu undanfarna daga, sem ég held að sé vegna of mikils æfingaálags. Ég var þó bjartsýnn fyrir átök dagsins, enda búið að vera frábær byrjun á sumrinu og sigur í fyrsta bikarmótinu. Farið var vel yfir samkeppnina og ég gat mér til að hópurinn yrði strax frekar lítill, eða um 7-8 manns, þeir sterkustu sem voru skráðir. Að vanda var minn helsti andstæðingur og fyrirmynd í íþróttinni skráður, og ég vissi vel að Hafsteinn ætlaði sér að grípa sinn fyrsta sigur á árinu.

Keppnin fór af stað og fljótlega fór að rigna, en góða veðrið virtist aðeins hafa verið bókað út upphitunina en ekki keppnina sjálfa. Ég stillti mér og nokkrum öðrum sem eru með mér í liði vel fyrir í hópnum, en keppnin fór rólega af stað upp hæðirnar á Þingvöllum. Fyrri hluti brautarinnar inniheldur slatta af fölskum flata og stuttum en þó ekki bröttum brekkum, og þegar hraðinn fór að aukast byrjuðu menn að tínast úr hópnum. Það var þó ekki fyrr en við fórum í einu bröttu brekku brautarinnar sem hópurinn slitnaði og við vorum örfáir eftir. Árni, Miro, Óskar, Emil, Siggi, Hafsteinn og ég. Seinni hluti brautarinnar var langur og nokkurnveginn beinn vegur meðfram vatninu, en aðstæður dagsins gerðu það að verkum að þar var góður meðvindur og hægt að hjóla mjög hratt, en í svona meðvind getur verið erfitt að hanga aftan í mönnum sem eru sterkari og menn nýttu sér það þarna, sér í lagi Hafsteinn. Marklínan var einnig á enda þessa vegar og það voru allir með eitt á hreinu; endaspretturinn verður ekki sá hægasti.

Fljótlega byrjuðu menn að þreytast, og það kom að því að Siggi gat ekki haldið í við okkur lengur og hann lét sig falla aftur í næsta hóp fyrir aftan, en bilið var orðið umtalsvert. Miro var duglegur að rykkja í þegar kom að honum í samvinnu hópsins, og hann virtist vera mjög sterkur eftir góðann vetur á skíðunum. Ég passaði að spara kraftana og gera ekki neitt sem gæti valdið því að menn færu að gera árásir, til að halda því sem eftir var af mínu liði ennþá saman, en það kom að því í kringum miðja keppni að Emil dróst aftur úr og náði okkur ekki aftur. Þá vorum við orðnir 5, og styrkur allra meðlima hópsins slíkur að það var ekki líklegt að hópurinn myndi minnka mikið meira. Við héldum áfram að keyra og börðumst í mótvindinum á leiðinni upp brekkurnar og reyndum að halda okkur saman í hóp í meðvindinum á leið í markið.

Undir lok 4 hrings byrjuðu menn að setja sig í stellinar, spennan fyrir endasprettinum byrjuð og menn voru örlítið farnir að líta á hvorn annan, bíðandi eftir að eitthvað myndi gerast. Árni var fyrstur til að gera árás, en þá var enn amk 2-3km í markið. Þetta var þó sniðugt hjá honum, því þarna voru sterkari menn í sprett heldur en hann, og bestu sigurlíkur hans væru með árás sem myndi senda hann einann í mark, fyrir endasprettinn. Hann reyndi nokkrum sinnum en var alltaf svarað vel af Óskari sem var að búa sig undir að leiða mig inn í endasprettinn. Árni komst aldrei burt en þegar síðasti litli hóllinn kom, 300 metrum fyrir markið byrjaði mesti hasarinn. Ég stóð upp og byrjaði að hjóla örlítið hraðar, og beið eftir að Óskar myndi klára sinn sprett og fara til hliðar til að opna fyrir mér, en áður en það gat gerst hafði Haffi byrjað sinn sprett frá því fyrir aftan mig og kom fljúgandi framhjá. Ég setti allt í botn og var við það að ná honum þegar ég festist á milli Haffa og Óskars, en vegurinn var það mjór að menn höfðu ekki mikið svigrúm og þarna var ekki nógu stórt bil á milli þeirra þannig að ég varð að slá af, Óskar færði sig og ég gaf aftur í, en það var of seint, Haffi var búinn að grípa verðskuldaðann sigur. Ég endaði þó í 2.sæti sem er ekkert til að skammast sín fyrir.

Það er ekki auðvelt að leyna því að maður sé vonsvikinn eftir svona góða keppni sem endar ekki á þann hátt sem maður hafði óskað sér. Ekkert mál að vera fúll yfir svona en það þýðir lítið, keppnin er búin og þær aðstæður sem sköpuðust í endasprettinum algjörlega tilviljanakenndar, og engum um að kenna þar. Ég er áfram jákvæður enda horfi ég fram á við; fyrsta stóra markmið sumarsins er næstu helgi og kallast það Bláalónsþrautin. Spennan er gríðarleg og ég held að ég hafi aldrei verið jafn lítið stressaður en á sama tíma jafn mikið spenntur fyrir einni keppni.

Ég vil þakka Hjólamönnum fyrir frábærlega vel heppnaða keppni. Þeir stóðu sig mjög vel í tímatöku, mótsstjórn og voru svo flottir að vera með bíl fyrir framan hópinn allan tímann, fjórhjól sem sá um að loka vegum og fengu leyfi fyrir að loka veginum sem endaspretturinn var á, sem skapaði mikla öryggistilfinninu. Það er óhætt að segja að ég hlakki smá til að taka þátt í stærstu keppni þeirra eftir 2 vikur , Jökulmílunni. Óskar, Emil og Siggi eiga þakkir skildar fyrir að sjá frábærlega um sín störf innan liðsins, sem og restin af hópnum mínum, Miro, Árni og Hafsteinn, það klikkar ekki að þessir bjóða alltaf upp á hörkukeppni!

RR – HFR Criterium – Vellir

Mynd: Arnold Björnsson

Í gær var haldin criterium götuhjólakeppni í boði HFR – Hjólreiðafélag Reykjavíkur og Porche á Íslandi, fyrir þá sem ekki þekkja til þá er criterium sérstakt form götuhjólreiða þar sem menn og konur hjóla stuttann hring margoft, eða hátt í 14 sinnum eins og í gær, og einkennast af miklum hraða, spennu og æsingi þar sem keppnin er töluvert styttri en vanalega og lítill tími til að gera hluti eða bregðast við þeim.

Keppnin fór ekki eins og ég hafði viljað, og strax eftir keppni var ég ekki sá hressasti, en eftir á að hyggja mætti kanski reka það til þess að hingað til á árinu hefur lítið farið úrskeiðis, og sennilega ekki jafn mikið sem klikkaði og á horfðist strax eftir keppni; það gengur ekki alltaf jafn vel  Svo fór að eftir nokkra hringi byrjuðu svipaðir hlutir að gerast og í fyrra, ég fékk strax á tilfinninguna að það væru í raun 3 “lið” í keppninni, auk fjölmargra sem voru að keppa aðeins fyrir sjálfa sig. Ég var fyrirliði einna þessarra liða, og þegar 1, og svo 2 meðlimir annars hinna liðanna byrjuðu að fylgja sínu plani, fóru á sama tíma hlutirnir mín megin að ganga verr. Þegar þetta gerðist kom á stuttri stundu í ljós að það var nauðsynlegt að breyta til, og hugsa frekar með hjartanu, frekar en hausnum, en það var of seint, 2 Trek-menn voru farnir, annar þeirra einn sterkasti hjólari á landinu.

Stærstu mistökin voru svo gerð þegar sigurvegari keppninnar, Árni Már Jónsson, stakk af fljótlega eftir brekkuna þar sem ég hafði tekið hressilega á því. Hann fór nánast án svars frá neinum öðrum, og ég var sjálfur of þreyttur til að ná í hann. Fljótlega eftir þetta fór megnið af hópnum í vörn, eða hreinlega gerðu ekki neitt, en með nokkrum löngum og öflugum keyrslum fráÓskar Ómarsson og sprettum upp brekkuna frá sjálfum mér fór bilið að minnka, og var ansi stutt í þremeningana fremst á tímapunkti, en þarna var sennilega rétti tíminn til að hætta taktík og keyra bara á eftir þeim, eyða sennilega of mörkum eldspýtum til að draga hópinn saman aftur, en það bara gerðist ekki, erfitt að útskýra það.

Það stóð þó upp úr í keppninni að þegar kom að lokum áttum við Hafsteinngóðann endasprett, ég rétt hafði hann en þykist viss um að hann hafi átt meira inni, enda spretturinn um 4.sæti ekki sá sami og sprettur í átt að sigri. Maður getur ekkert annað gert en að læra af svona keppni og koma klárari í næstu keppni!

Ég þakka mótshöldurum fyrir flott mót og veðurguðunum fyrir að gefa öllum nema þeim hörðustu gott veður  Styrktaraðilarnir góðu voru Kria Cycles,IronViking, Hreysti, Optical Studio og Gló

RR – 1.bikar – Reykjanes

Mynd: Árni Már Árnason

Sigraði í dag fyrsta hjólreiðamót sumarsins, götuhjólamótið á Reykjanesi. 63km og nóg af roki, 159 manns skráðir til leiks og allir alveg í stuði.

Startið var hratt, enda í meðvindi og voru menn mjög hressir, en fljótlega myndaðist um 7 manna hópur sem innihélt flesta af sterkustu hjólurum landsins. 

Um 13km inn í keppnina gaf ég í og dró Hafsteinn Ægir Geirsson með mér, en það var eiginlega alveg óvart að við komumst burt og vorum samhuga með að reyna að stinga af. Rétt fyrir snúningspunkt sem markaði að helmingur keppninnar væri búinn vorum við með 45 sekúndur á næsta hóp, en á leiðinni til baka var barist við mótvindinn sem á endanum var of sterkur fyrir okkur 2, með 5 manns á hælunum á okkur. Þegar um 53km voru búnir af keppninni sáum við að þetta væri vonlaust og létum hópinn ná okkur, og var um leið farið í vörn til að hvíla fyrir hinn óumflýjanlega endasprett.

Þegar stutt var eftir af keppninni byrjuðu menn að stilla sér upp, hraðinn minnkaði og byrjaði taktískur leikur, en þegar um 500 metrar voru eftir komÓskar Ómarsson sér fyrir fremst með það í huga að leiða hópinn inn í endasprett. Fyrir aftan mig sat Hafsteinn, og rest fyrir aftan hann. Allt fór alveg á fullt, og menn voru komnir hátt í 40km hraða á móti vindi þegar Óskar kom sér til hliðar og gaf mér beina línu í átt að markinu, tæplega 1400w (fín tala fyrir sérfræðingana) voru sett í pedalana og það dugði til sigurs, öruggur sprettur að mínu mati en þó þurfti að leggja allt til, til að halda hjólreiðamanni ársins í skefjum 

Ég þakka Hafsteini fyrir frábæra samvinnu og skemmtilega tilraun til að stinga af, líkt og við gerðum í fyrra, Óskari fyrir að vera frábær liðsmaður og koma mér á besta stað í endasprettinum, og auðvitað styrktaraðilunum: Kria Cycles, Compressport Iceland, Optical Studio, Hreysti og Gló!

RR – Íslandsmeisaramótið í götuhjólreiðum 2013

Mynd: Haraldur Guðjónsson

Tók þátt í einni af erfiðustu keppnum hingað til í dag. 100km langt Íslandsmeistaramót í götuhjólreiðum, en leiðin var þannig að hjólað var frá ION Hotel á Nesjavöllum, í gegn um Þingvelli og að Laugavatni, en þar var snúið við og farið aftur að Nesjavöllum og endað í 15% brekkunni fyrir ofan hótelið.

Startið var ansi rafmagnað, enda enginn annar en Andy Schleck mættur á svæðið til að starta dæminu, en keppnin fór hressilega af stað og byrjuðu menn strax að gera eitthvað skemmtilegt. Ég upplifði startið frekar rólega, og hélt mig bara í hópnum upp á Þingvallaveg, enda var það vitað fyrirfram að átök dagsins yrðu eftir 100km hjólreiðar, í síðustu brekkunni. Árásirnar hófust og menn tóku ýmsa kippi á leiðinni í gegn um Þingvelli, Helgi Berg fór í eins manns landið og var einn að prjóna alveg þar til hópurinn náði honum í brekkunni upp frá Laugavatni. Hraðinn var góður, eða um 37km/h og hópurinn hélt sér saman ansi vel.

Svo kom að því að ég skellti mér upp eina klifrið á Þingvöllum til að hrista aðeins upp í hópnum, en þá var aðeins Helgi sem kom með mér, Benediktvar svo ekki langt undan. Þetta leit út fyrir að ætla að vera bara létt árás en þegar Hákon renndi að okkur var fljótlega tekin sú ákvörðun að reyna að keyra þennan fámenna en góðmenna hóp í gang og reyna að klára á undan hópnum.

Við héldum góðum hraða og vorum skipulagðir, þrátt fyrir að vera 4 menn úr 3 hjólreiðafélögum. Hópurinn hélst góður alveg fram að Grafningsvegnum, en þegar rétt um 5km voru eftir var hópurinn fyrir aftan okkur búinn að átta sig á málunum og búnir að keyra að okkur. Þannig myndaðist lítill hópur sem hélst ágætlega saman yfir hæðirnar og hólana á Nesjavöllum, en svo kom að brekkunni góðu.

Við vorum 6 sem fórum saman í brekkuna, en sársaukinn byrjaði strax og staðið var upp og skipt í léttustu gírana. Fljótlega fór að sjást hverjir voru klifrararnir í hópnum, en ég, Hafsteinn og Árni stóðum einir eftir í átökunum. (Smá fróðleikur fyrir fróðleiksþyrsta: þröskuldspúls hjá mér er 180 en hámarkspúls 196). Þarna stóð ég í 191 í púls og alveg við það að springa. Þarna var þó alveg á hreinu að ég var ekki einn um það, enda þegar komið var upp meira en helming af brekkunni kom í ljós að Árni átti ekki meira inni, og varð að sleppa takinu. Ég sat límdur við Hafstein, en þegar ég fór að sjá glitta í marklínuna var aðeins ein hugsun; nú varð eitthvað að gerast, annars yrði það of seint. Skipti um gír, stóð upp, og gaf allt sem ég átti eftir í hjólið, púlsinn í 196, leit aftur fyrir mig og sá að Haffi gat ekki svarað. Sat í smá stund og lagði aftur í hann, í þetta skiptið alla leið yfir línuna.

Íslandsmeistari í götuhjólum 2013.

Older posts

© 2021 On your left

Theme by Anders NorenUp ↑