Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson

Jökulmílan er ein af þessum keppnum sem þarf meiri undirbúning en aðrar, ekki bara vegna þess að verandi lengsta eins-dags götuhjólakeppni ársins, 160km, heldur líka vegna þess að það þarf að ferðast dágóðann spotta upp í Grundarfjörð til þess að taka þátt. Ég hef svolítið gaman að þessu, það er ekkert leiðinlegt að eyða heilum degi í hjólreiðakeppni, og ferðalagið til og frá gerir þetta bara skemmtilegra. Í fyrra var þessi keppni á sama degi og KexReiðin sem ég sigraði, þannig að það var fúlt að geta ekki verið með þá, en stærri hópur og stóraukin samkeppni gerðu það að verkum að keppnin í ár leit út fyrir að ætla að vera enn betri en í fyrra.

Ég tel mig hafa ágætis úthald á hjólinu, enda er það með betri hlutunum sem koma til manns eftir mikinn æfingavetur, þannig að ég var spenntur fyrir að sjá hvernig ég myndi tækla svona langa keppni. Brautin leit vel út, þessi týpíski Íslenski flati staðreynd sem maður venst með hverju ári (afhverju eru Íslenskir hjólreiðamenn hræddir við brekkur?), en ég hafði keyrt þetta áður og vissi að landslagið væri frábært og vegirnir góðir. Aðalpælingin hinsvegar, var hverjum maður myndi hjóla með, og startlistinn gaf góðar vísbendingar. Þarna voru kunnugleg nöfn frá síðustu keppnum, Hafsteinn, Miro, Árni og Óskar, auk nokkurra annarra sem gætu komið sterkir inn. Ég var með í kollinum hugmynd að 6-8 manna hóp sem ég vissi að gætu verið í formi til að hjóla í fremsta hóp, en maður veit svo aldrei hvernig menn eru, eða hvað gerist í keppninni.

Veðrið var bara mjög fínt þegar komið var á staðinn. Það var léttskýjað og þurrt, hiti í loftinu, og lítill vindur; uppáhaldsaðstæðurnar mínar, stuttermaveður! Það fór aðeins meiri tími en vanalega í að pæla hvernig væri best að vera klæddur, en hér á landi getur ýmislegt gerst í veðrinu á 4-5 tímum. Ég endaði á því að vera öruggur með þetta, stutta kittið toppað með stökum skálmum og ermum til að vera alveg pottþéttur í bæði miklum hita og vægum kulda. Þá tók við hin stóra pælingin, hvað tekur maður með sér að borða og drekka í svona ævintýri? Sem betur fer hafði ég kíkt í heimsókn til vina minna í Hreysti daginn áður og var með tonn af drasli með mér. Niðurstaðan var að ofan í vasana fóru 4 gel, 4 kókos-súkkulaði orkustangir, 2 hafrakubbar og 1 sími sem var þó ekki étinn. 2 stórir brúsar af orkudrykkjum dugðu hinsvegar ekki, og það byrjuðu einhverjar pælingar með að stoppa kanski á drykkjarstöð á leiðinni, ef hópurinn væri með nógu gott forskot, og allir meðlimir drengilegir 🙂

Keppnin hófst á slaginu 11:00 og við vorum leidd út úr bænum, á leið í öfugann klukkuhring í kring um Snæfellsnes. Ég held að það hafi verið eitthvað um 90-100 manns í hópnum sem fór heila Jökulmílu, og það var gaman að sjá alla langlokuna þeysa í átt að fyrstu brekkunni. Ég og nokkrir aðrir vorum með svipaðar hugmyndir um að minnka hópinn aðeins, og jafnvel mynda lítinn hóp fremst og stinga af þannig. Brekkan var tekin sæmilega rólega, og ekki mikill æsingur þar, en fljótlega eftir klifrið sást kunnuglegt “múv” frá Hafsteini, öflug keyrsla strax eftir að hópurinn hafði teygst yfir klifrið. Þetta gerði það að verkum að allir áttu erfitt með að ná hópnum saman aftur. Ég tók einhvern þátt í þessu, og kunnugleg andlit voru framarlega í hópnum. Þegar við fórum svo niður brekkuna hinum megin hélt keyrslan áfram, en ég lét mig falla rólega aftur úr hópnum, til að láta líta út fyrir að það væri ekkert of mikið að gerast. Þegar ég sá að Hafsteinn var kominn með ágætis bil í næstu menn, en þar voru Miro og Árni saman, Helgi Páll og Óskar framarlega. Ég hóf þá aðra keyrslu og brunaði fram úr öllum til að ná í skottið á Haffa, en þeir fylgdu allir með. Enginn annar náði að hanga í okkur, og þá var litli fallegi 6 manna hópurinn okkar myndaður, og samanstóð af prýðishjólurum sem er gaman að eyða 4 tímum á hjóli með.

Samvinnan gekk mjög vel hjá okkur eftir að hópurinn róaðist. Við hættum að sjá í næstu menn og byrjuðum að skipta vinnunni á milli okkar, sem gekk mjög vel enda allir góðir hjólarar. Helgi Páll kom skemmtilega á óvart sem nýliðinn sem sneri á marga vana hjólara sem voru aldrei að fara að ná okkur, og fær rokkstig dagsins. Þegar keppnin var hálfnuð sáum við drykkjarstöð númer 2, og voru menn almennt sammála um að taka pissustopp og fylla á brúsana, en það var þó ábótavant að það var enginn heitur pottur á svæðinu þannig að við vorum fljótir að koma okkur burt. Við keyrðum og keyrðum um flata vegina og það verður að segjast að á köflum var þetta ansi þurrt, en hraðinn var góður og það kom einn hóll á leiðinni sem var hægt að standa hjólið á leiðinni upp til að teygja úr fótunum. Ég byrjaði að pæla aðeins í hvernig væri best að taka lokakaflann, en ég vissi af ágætu klifri á Vatnaleiðinni, uþb 100m hækkun yfir 1.9km. Mig hefur alltaf langað að gera árás seint í keppni og komast einn eða með einum öðrum burt í markið, og þarna var fínt tækifæri til þess.

Við fyrstu beygju hjá sjoppunni Vegamót voru uþb 130km búnir og við byrjuðum að hjóla í átt að brekkunni, allir saman. Það var engin sýnileg þreyta í mönnum, og meðalhraðinn búinn að vera um 35km/klst sem er bara fínt fyrir svona hóp held ég. Þegar við komum í brekkuna sat ég annar fyrir aftan Hafstein með hina fyrir aftan. Haffi byrjaði að setja gott tempó upp brekkuna og var greinilega tilbúinn fyrir einhvern hasar því þegar brekkan var uþb hálfnuð stökk ég fram úr honum og setti hátt í 1300w til að sleppa frá hópnum. Ég stóð upp og spretti aðeins lengur og leit fyrir aftan mig, sá að Haffi var sá eini sem gat svarað og var á leiðinni til mín, hinir hurfu strax. Ég tók ákvörðun um að setjast niður og bíða eftir Haffa, en ég taldi best að hafa hann með til að eiga meiri möguleika á að sleppa. Við keyrðum vel og jafnt yfir heiðina og að næstu gatnamótum þar sem 22km af mótvindi tóku við. Fyrir aftan mig sá ég að Óskar reyndi að stinga þá félaga af, en mótvindurinn gerði það að verkum að hann komst aldrei yfir til okkar, þannig að við vorum þá ansi öruggir. Þrátt fyrir það hjóluðum við ansi vel restina af leiðinni, en síðustu 25km voru farnir á 41km/h.

Á endanum komum við inn í Grundarfjörð aftur, og hjóluðum saman þessa löngu og aflíðandi hægribeygju í átt að markinu. Vindurinn kom vinstra megin frá og ég giskaði á að þegar við færum í átt á markinu myndi hann vera örlítið í bakið, en samt smá krossvindur. Ég hafði áður lent í því að láta plata mig til að taka vindinn á leið í endasprett, og þrátt fyrir að gera það full snemma þá ákvað ég að fara út í kantinn hægra megin til að koma í veg fyrir að Hafsteinn kæmist þangað og gæti verið í skjóli af mér. Stressið byrjaði að byggjast upp og ég lækkaði hraðann töluvert, en út í kantinum voru nokkrir sandkaflar og nóg af möl og holóttu malbiki, pókerinn var byrjaður og ég vissi að eins og vanalega var ég sá reynsluminni. Ég ákvað að vera ekki sá fyrri til í sprettinn, en þegar við vorum komnir mjög, mjög nálægt markinu, held það hafi verið ekki meira en 100 metrar, tók Haffi á rás fyrir aftan mig og gaf allt í botn, mér brá pínu og allar sprettæfingar fóru út um gluggann þegar ég tvískipti niður og setti í allt of þungann gír en reyndi þó allt sem ég gat til að ná honum. Það verður að segjast að ég átti ekki séns, Haffi var með þetta frá fyrsta andartaki í sprettinum og átti sigurinn fyllilega skilinn.

Fúlt að taka 2.sætið, fjórða skiptið í röð í sumar, en eftirá að hyggja þá er alls ekki svo slæmt að taka silfur í svona keppni. Maður lærir af þessu en það eru víst margar óskrifaðar blaðsíður í sprettkaflanum í reynslubókinni 🙂

Hjólamenn eiga heiður skilinn fyrir flotta keppni og frábært framtak. Allt í kring um keppnina var glæslega framkvæmt, og fílingurinn bara góður eftir þetta. Ég benti þeim á, eftir keppnina að það hefði ekki verið þægilegt að spretta í átt að ósýnilegri línu, en án þess að hljóma leiðinlega þá gerði þetta ekki góða hluti í sprettinum sjálfum. Fallegi blái sigurboginn var þó flottur, og ég er viss um að þegar allar götuhjólakeppnir á Íslandi skarta slíkum boga og þykkri, góðri, hvítri línu til að setja framdekkið yfir, verður lífið gott!

Comments

comments