Bláalónsþrautin er ansi mögnuð keppni. Það er engin hjólreiðakeppni á keppnisárinu sem hefur jafn stórt nafn og jafn marga þáttakendur, og það eitt dugir til að gera þetta mót að einskonar árshátíð keppnishjólreiðamanna á Íslandi. Margir æfa sérstaklega fyrir þessarri keppni og bíða heilt ár á milli keppna til að bæta tímann sinn, sigra æfingafélagana og fá sér bjór í Lóninu eftirá. Það er ekki erfitt að sjá afhverju fólk hefur svona gaman að þessu sporti, þegar maður tekur þátt í þessu móti.

Keppnin hefur frá því ég byrjaði í þessu sporti aldrei verið “A-markmið” sem slíkt, fjallahjól eru vissulega mín uppáhaldsgrein en ég held mest upp á tæknilegar brautir með miklu klifri, tveir hlutir sem eiga ekki við brautina í þessarri keppni. Í ár ákvað ég að setja hana þó í hæsta forgang og var þetta því mín fyrsta A-keppni á þessu ári. Vikan fram að keppni var plönuð vandlega, og æfingar voru stigvaxandi styttri og léttari, með fleiri rólegum dögum en þó passað að vera ekki of slakur til að missa ekki skerpuna sem þarf til að bregðast við árásum í keppnum (og setja pressu sjálfur!).

Keppnisdagurinn var hinn rólegasti frá því ég byrjaði að keppa í þessu sporti. Startið var kl 16:00 sem þýddi að engin þörf var á að fara snemma að sofa daginn fyrir, vakna snemma og vera með allt klárt. Þvert á móti vaknaði ég um 11 leytið og kíkti út í sólina, veðrið gat ekki hafa verið betra. Tvær kjúklingabringur flugu á grillið og það var ansi mikil sumarstemmning í bakgarðinum heima, lognið fyrir storminn. Við félagarnir frá Kríu brunuðum uppeftir og vorum vel tímanlegir og lítið af fólki mætt þegar við settum allt upp. Upphitunin fór í gang og það var smá spenningur í loftinu. Af gömlum vana fann ég Hafstein og tók í spaðann á honum og óskaði honum góðs gengis.

Það var ansi magnað að sjá 600 manns raða sér upp við Ásvallalaug þegar Albert formaður HFR byrjaði að smala öllum saman fyrir startið, en það fór fram við hesthúsin hinum megin við hæðina sem við hjóluðum yfir til að mynda röðina. Ég kom með fyrir fremst, til að tryggja að ég væri með góðann stað á startlínunni, og fór yfir planið í hausnum. Þetta var einfalt; ég vissi hverjum átti að fylgjast með, uppstillingin á Krísuvíkurveginum skipti einhverju máli, en það var seinni brekkan eftir að við förum inn á mölina, Hrútagil, sem var fyrsta verkefnið. Þar þurfti að setja allt í botn til að hrista sem flesta af, en ná þó nokkrum lykilmönnum með til að hjóla restina af keppnina ekki einn. Ég vissi að vindáttin gerði það að verkum að það yrði mótvindur frá Ísólfsskálabrekku og inn að Grindavík, þannig að það þýddi lítið að vera með æsing í brekkunni. Niðurstaðan var einföld, þetta yrði að vera endasprettur, og þá minn fyrsti í þessarri keppni.

Keppnin hófst með látum, bókstaflega. Hafsteinn ákvað að taka smá moldartékk í fyrstu beygju og þurfti að snúa niður hjólið og athuga málin með annarri hlið líkamans. Niðurstaðan var laus möl, þurrt, og smá blóð, en kanski fullt af adrenalíni í staðinn sem er ekki verra. Við flugum upp Krísuvíkurveginn og það leið ekki á löngu þar til Hafsteinn var mættur á svæðið og hópurinn keyrði á fullri ferð með fínni samvinnu uppeftir. Þegar við fórum inn á Djúpavatnsleið kom ég mér fyrir fremstur en sá að Eirik, Norðmaðurinn frá Merida, 19 ára strákur sem keppnir í elite flokk í Noregi og var mættur til að sigra daginn, var með sínar eigin hugmyndir um staðsetningu í hópnum. Hann fór fyrir framan mig og ég beint fyrir aftan hann, Hafsteinn var með okkur og einhverjir aðrir líka, en eftir fyrstu brekku var hópurinn strax farinn að slitna. Ég setti aðeins meiri hraða í þetta á leiðinni í næstu brekku og hópurinn minnkaði furðu hratt, en þegar komið var að Hrútagili kom Hafsteinn sér fyrir fremst, trúlega vegna þess að hann vissi alveg hvað ég ætlaði mér, og við byrjuðum að hamra upp brekkuna, en þarna var allt sett í botn til að hrista sem flesta af. Ég fór fram úr Haffa og reyndi mitt besta til að valda sem mestum skaða, og niðurstaðan var sú að aðeins einn maður komst með okkur Hafsteini, Eirik.

Þarna var það komið á hreint sem maður spurði sig að fyrir keppnina, Eirik var klárlega einn af þeim sterkari þennan dag. Fljótlega eftir klifrið sló ég af til að fá strákana með mér til að vinna smá á meðan ég náði andanum, en þá sást ekki í neinn fyrir aftan okkur og við héldum áfram keyrslunni. Nokkrum kílómetrum síðar byrjaði ég að sjá glitta í bróður minn, Óskar, fyrir aftan okkur og leist vel á að leyfa honum að ná okkur til að hafa einhvern til að vinna með, þannig að ég byrjaði að vinna minna fyrir hópinn til að gera honum auðveldara fyrir, en það var ekkert smáverk fyrir að ná þessum 2 sem ég var með. Hann stimplaði sig vel inn í hópinn og þá vorum við 4, en á þessum tímapunkti vorum við alveg búnir að skilja við restina, við sáum hina aldrei aftur út keppnina. Keyrslan hélt áfram framhjá Djúpavatni, en ég var ennþá staðráðinn í að losna við Eirik, og nýtti nánast hverja brekku til þess. Pressan var alltaf há, og það var þægilegt að vita til þess að maður væri í þeirri stöðu að geta sett mesta pressu í brekkum. Hafsteinn tók alltaf vel í brekkurnar og virtist ráða best við þær af strákunum, en Eirik og Óskar þurftu nánast alltaf að loka bilinu eftir brekkuna, sem eflaust þreytti þá mikið. Ókosturinn við stöðuna var að til þess að losna við Eirik þurfti ég að gera hluti sem myndu líklega hrista Óskar af mér líka, sem var ekki alveg jafn gott, þannig að það þurfti að fara fínt í hlutina.

Þegar keppnin var rúmlega hálfnuð og við vorum farnir að nálgast Vigdísarvelli og drykkjarstöðina var Eirik farinn að dragast aftur úr hópnum, Óskar hafði hangsað aðeins hjá honum í von um að geta valdið því að hann næði mér og Haffa ekki, en ákvað svo að skilja strákinn eftir og kom yfir til okkar sjálfur. Þarna vorum við búnir að hrista Eirik af okkur, og um leið og við byrjuðum að keyra á grófum veginum í átt á Ísólfsskálabrekku, og mótvindinum sem tók við þar, var alveg á hreinu að hann myndi eiga erfitt með að ná okkur einn.

Ég hugsaði vel og lengi um möguleikann á að stinga sjálfur af í Ísólfsskálabrekunni, en fæturnir höfðu aldrei verið svona ferskir á þessum tímapunkti í fyrri keppnum, og ég vissi að ég væri líklega sterkastur í brekkunum þennan dag. En mótvindurinn sem við vissum allir af, sem þurfti að glíma við alla leið inn í Grindavík, sló öll slík plön í gólfið og ég byrjaði að hugsa meira um endasprettinn. Við þremeningarnir héldum áfram góðri siglingu með jafnri og þægilegri samvinnu, í gegn um Grindavík og í áttina að síðasta malarkaflanum áður en við fórum inn á 3km langann lokakaflann sem lá að Bláa lóninu. Eftir að komið var á malbikið hrósaði Haffi samvinnunni og allir voru sammála um að hafa skemmt sér konunglega síðustu 100 mínúturnar.

Við stilltum okkur upp og leikurin hófst. Hraðinn var ekki mikill og menn skiptust reglulega á að leiða hópinn. Óskar gaf hressilega í og Haffi neyddist til að elta á meðan ég elti hann. Keppnin hélt áfram og áður en við vissum af voru aðeins 1000 metrar í mark. Fljótlega gaf Óskar aftur í, en um leið og Haffi byrjaði að elta hann setti ég líka allt í botn og fór hinum meginn á veginn til að gera erfiðara fyrir hinum. Ég var ekki alveg með vegalengdina í markið á hreinu þannig að ég hugsaði í hita leiksins að betra væri að láta Haffa ná mér, stinga mér fyrir aftan hann og gefa svo aftur í. Ég gerði það, Haffi fór siglandi fram úr mér og ég kom mér fyrir, fyrir aftan hann. En þarna kom svolítið í ljós, eitthvað sem myndi kosta mig sigurinn. Við Haffi vorum báðir með sömu tannhjól og þar af leiðandi sömu gírahlutföll, við vorum einnig báðir í þyngsta gír, þannig að það var ekki hægt að þyngja og keyra upp hraðann. Haffi sat eins lágt og hann gat á hjólinu, sennilega búinn að átta sig á þessu. Það eina sem ég gat gert var að reyna að snúa sveifunum eins hratt og ég gat, en á þessum punkti var snúningurinn það hraður að það var nánast ómögulegt að auka hraðann. Nokkrum metrum fyrir markið sá ég að þetta var ekki að gerast, við höfðum hjólað á nákvæmlega sama hraða, snúandi nákvæmlega jafn hratt, og það var allt of stutt í línuna. Hafsteinn sigldi beint í mark, fyrstur í tíunda skiptið í þessarri keppni. Ég fylgdi á eftir í öðru sæti, þó minn besti árangur en óneitanlega einn súrasti ósigur á stuttum ferli. Óskar átti besta daginn af okkur öllum og skaut sér í 3.sæti.

Alltaf lærir maður eitthvað af svona keppnum og það er aðeins of auðvelt að vera snjall eftirá, þegar maður fer að hugsa “hvað ef ég hefði verið með stærra tannhjól, osfrv.”. En staðreyndin er sú að keppnin er búin og Haffi vann glæsilega. Það situr þó eftir að þetta var án efa skemmtilegasta Bláalónsþraut sem ég hef tekið þátt í, en frábært veðrið, skemmtilegir hjólarar, frábært form og góður árangur spilaði allt vel inn í. HFR eiga heiður skilinn fyrir að standa að frábæru móti, ég er strax orðinn spenntur fyrir næsta ári!

Comments

comments