Gullhringurinn, 106km löng götuhjólakeppni sem fór fram í 3.skiptið í ár, hefur undanfarin tvö skipti verið keppni sem hefur skilið mig eftir vonsvikinn. Fyrsta árið átti ég ekki roð í fremstu menn og var skilinn eftir með um hálfa keppnina eftir og endaði í 6.sæti það árið, en í fyrra var ég orðinn örlítið betri og átti erfiðara með að sætta mig við 3.sæti eftir að Hafsteinn og Árni ákváðu að kveðja og hjóla í mark á nýju brautarmeti. Í ár var þetta ekki ein af mikilvægustu keppnunum, en þó ein af þessum keppnum sem er gaman að bæta við í safnið.

Keppendalistinn leit vel út, mörg kunnugleg nöfn og allir sem hafa skipt máli í sumar skráðir, að Hákoni undanskildum sem ákvað að verja Íslandsmeistaratitil í hálfum járnkarli daginn eftir í staðinn, ekki slæm ákvörðun þar sem verkefnið tókst. Ég er búinn að vera þungur á mér síðustu vikuna eftir mikla keyrslu í júní/júlí, WOW keppnin tók sinn toll og ekki síður átökin sem voru Alvogen time trial keppnin, og liðakeppni í 6 tíma löngu fjallahjólakeppninni Lauf Midnight Trail Race. Þreytan hefur látið sjá sig, og þessvegna var vikan fram að Gullhringnum tekin óvenju rólega. Stutt er síðan brautin fyrir Íslandsmeistaramót í fjallahjólreiðum var kynnt, og því verður ekki leynt að það er ein mikilvægasta keppnin mín. Vikan var því nýtt vel til að skoða brautina, sem er í Öskjuhlíð, vel og vandlega til að undirbúa fyrir átökin eftir 2 vikur.

Það var þó veðrið sem ætlaði að setja svip á keppnina í ár. Rigning en logn og hlýtt var í spánni, en þegar komið var á staðinn mætti okkur rigningin eins og við mátti búast, en þónokkuð meiri vindur en reiknað hafði verið með. Vindáttin þýddi að við myndum byrja í mótvind og berjast í honum fram að beygjunni inn á Biskupstungnabraut, en það þýddi líka að síðustu 15km á Lyngdalsheiðinni yrðu mjög erfiðir. Planið mitt var að gera árás seint í keppninni, og reyna mitt besta til að halda mér frá hópnum og koma einn í mark, en þessi vindátt þýddi að það var ólíklega að fara að gerast.

72 manns lögðu af stað frá Laugarvatni og fljótlega eftir að við komum út úr bænum og fylgdarbíllinn gaf grænt ljós á keppnina tók ég af skarið og setti hraðann nógu háann til að mynda strax lítinn 10-15 manna hóp. Þessu var vel fylgt eftir, en nokkrir af fremstu mönnum héldu uppi hraðanum á meðan aðrir sátu í aftursætinu, fegnir að vera bara með í fremsta hóp. Stuttu seinna bjó ég aftur til minni hóp með stuttri keyrslu, en eftir um 22km tók Haffi af skarið og keyrði upp hraðann, en það kom nokkrum að óvörum því að þegar við komum að fyrstu beygju inn á Biskupstungnabraut var litið aftur og séð að enginn nema Miro hafði komið með okkur. Þannig var tekin sameiginleg ákvörðun um að halda áfram keyrslunni, og skildum við félagarnir því hina eftir, með um 80 kílómetra eftir af keppninni.

Stuttu eftir að þetta gerðist lenti Óskar í óhappi og sprengdi að framan á hjólinu og varð að stoppa til að kippa því í lag. Það hefði verið gaman að hafa hann með okkur, en það geta því miður ekki allar keppnir verið góðar og því varð bara að hafa það. Hann átti svo góða keyrslu eftir þetta með ýmsum félögum og náði að koma sér í mark í 9.sæti.

Miro var með okkur Haffa í uþb 10 mínútur, en þá varð hann að gefa sig eftir að hraðinn hafði verið í kringum 47km/h og allt gert til að búa til sem stærst bil á milli okkar og hópsins sem var að elta. Eftir þetta stóðum við Haffi uppi í kunnuglegri stöðu, fremstir með rúmlega mínútu á næsta hóp. Keyrslan hélt áfram og yfir  næstu 46 kílómetrana bjuggum við til forskot upp á rúmar 3 mínútur, og beygðum við þá inn á Þingvallaveg, beint í hressann hliðarvind, en þar hófust átökin raunverulega, og þreytan lét finna fyrir sér. Við skiptum vinnunni drengilega á milli okkar, og það var klárt mál að við myndum vinna þetta vel saman til síðasta kílómetrans, en á þessum tímapunkti hefði verið ómögulegt að komast einn burt, vegna þreytu og veðurs.

Eftir ótrúlega erfiða 15 km á Lyngdalsheiðinni, sem innihélt meðal annars gríðarlega mikið af bílum sem sköpuðu mikla hættu í keppninni, mótvind sem fékk mann til að hugsa hvort væri betra að labba heldur en hjóla þetta, og ágætis stöðugt klifur sem var þó ekki bratt, komum við að brekkunni sem liggur niður á Laugarvatn, 2km eftir. Taktíska keppnin hófst þarna, og það komst ekkert annað fyrir í hausnum á með, en þau skipti sem ég hef látið Hafstein snúa á mig með mikilli keppnisreynslu. Ég hugsaði helst um síðasta skipti sem við áttumst við, í Jökulmílunni, en þar fór ég fyrstur inn í sprettinn og gat því lítið komið á óvart eða fylgst með fyrir aftan mig. Þar fór ég of seint af stað og lét Hafstein sigra mig örugglega. Enn og aftur var ég fastur fremst, eftir að við skiptumst á að hjóla yfir heiðina, en hann kom sér fyrir, fyrir aftan mig, fyrr en ég átti von á og sat ég því fastur fyrir framan. Við rúlluðum sultuslakir niður brekkuna án þess að stíga pedalana, þar til marklínan var í sjónmáli. Ég byrjaði að hjóla rólega á undan, en ákvað að gera öfugt við Jökulmíluna, og fór fyrr heldur en vanalega. Ég setti allt sem ég átti í að koma mér af stað, og 12 sekúndum síðar hafði ég þetta, ögn meira en hjólalengd á undan Haffa, og fyrsta sætið var mitt.

Mynd: Sveinn Benedikt Rögnvaldsson

Mynd: Sveinn Benedikt Rögnvaldsson

Einar Bárðarson hefur gert góða hluti með að setja þetta mót upp, og hefur uppskorið lof margra, en rúmlega 300 manns kepptu þennan dag, sem er næststærsta mæting í hjólreiðakeppni á Íslandi í ár. Allir sem aðstoðuðu við keppnishald og skipulag í kringum viðburðinn eiga þakkir skildar! Það er alltaf gaman að sjá sportið stækka, og keppnir eins og Gullhringurinn eiga flottann hlut í þeirri þróun.

Comments

comments