Mynd: Guðmundur Ágústsson

Ein af mínum uppáhaldskeppnum er Vesturgatan. Það er eitthvað við það að ferðast alla leið á Þingeyri, þar sem fyrir borgarbarni eins og mér, er bókstaflega ekkert nema nokkur hús, höfn, sjoppa og sundlaug. Jú og kirkjan sem er árleg marklína í keppninni. Það er nánast nauðsynlegt að gera meira úr þessarri ferð heldur en bara að keyra á staðinn, keppa, og fara, því það er eitthvað við það að vera þarna sem róar mann og fær mann til að gleyma öllu sem skiptir ekki máli.

Keppnin er ekki aðeins einstök vegna staðsetningarinnar, en heldur vegna eðlis brautarinnar. Hjólað er frá Þingeyri í suðurátt, inn Kirkjubólsdal, og þar er farið lengsta samfellda klifur sem finnst í hjólreiðakeppni á Íslandi. 570 metrar eru klifraðir á innan við klukkutíma og gerir það að verkum að keppnin þróast mjög hratt fyrsta helminginn af tímanum sem tekur að klára hana. Hjólað er yfir skarð innst í dalnum og svo meðfram ströndinni í réttsælishring þar til komið er aftur inn á Þingeyri, samtals 55km. Leiðin er mjög krefjandi og er sjaldan slétt, mikið klifur býr til mikið af brekkum til að þjóta niður, auk þess að hjólað er á stórum steinum í fjöru, sandi og mold, en síðustu 10km eru svo á malarvegi, endað á stuttu malbiki inn í bæ.

Ég átti ansi góða keppni árið 2012 hér, sem verður föst í minninu vegna þess að þar átti ég mína fyrstu tilraun til að leiða keppni, en ég kom sjálfum mér og öðrum á óvart með því að vera fyrstur upp stóru brekkuna og leiddi keppnina alla leið inn á síðustu kílómetrana, en þar náði Hafsteinn Ægir mér. Við hjóluðum svo saman inn í bæ þar sem endasprettur gerði Hafstein að sigurvegara dagsins. Mér fannst ég þó hafa sigrað sjálfann mig þar sem þetta var langbesta keppnin mín fram að þessu, seinna sama ár varð ég Íslandsmeistari í fjallahjólreiðum og hlutirnir fóru aðeins upp á við þaðan.

Það er alltaf gaman að ferðast út á land til að keppa, en við Iðunn lögðum af stað á fimmtudegi til að taka því rólega og koma okkur fyrir á gistiheimilinu inn á Þingeyri, þar sem ég hef gist síðustu 3 ár fyrir þessa keppni. Veðrið var ekta íslenskt, rigning nánast alla leiðina, en þó hlýtt, og þegar komið var á staðinn var slappað af og beðið eftir föstudeginum.  Daginn eftir var rúntað inn á Ísafjörð til að ganga frá skráningu í keppnina og troðið í sig pizzu yfir beinni útsendingu úr Tour de France, og þegar komið var til baka var sumarið mætt. Þurrir vegir og jafnvel smá sól kom skemmtilega á óvart og hentaði vel þar sem við ætluðum einmitt að skella okkur í smá brautarskoðun, en það er orðin hálfgerð hefð að hjóla fyrstu 10km inn í dalinn til að kanna aðstæður. Það vildi svo vel til að það rigndi nánast alla ferðina, nema þegar átti að hjóla, því eftir brautarskoðun kom rigningin aftur og var alveg fram að keppni, þegar hún tók 3 klukkutíma pásu fyrir keppendur.

Keppnin sjálf byrjaði skemmtilega, brautin var blaut og bauð upp á skemmtilegar aðstæður sem gerðu sumum erfitt fyrir á meðan aðrir keyrðu í drulluna með bros á vör. Fremsti hópur samanstóð af mér, Hafsteini, Óskari, Bjarka, Arnaldi og Sigga Hansen, en við Hafsteinn drógum fram kunnuglega takta þegar við skildum þá strákana eftir, aðeins 10 mínútur inn í keppnina. Ég er orðinn töluvert vanari því að setja pressu á aðra í byrjun keppna, með því að setja sjálfann mig í mikil átök sem ég veit að ég get haldið út í ákveðinn tíma, en þarna voru uþb fyrstu 30 mínúturnar ansi erfiðar, en fljótlega vorum við Hafsteinn aleinir.

Á leiðinni upp klifrið tók ég eftir að ég átti örlítið auðveldara með brekkurnar en Haffi, en það kom örlítið á óvart þegar ég byrjaði að hjóla frá honum, þegar uþb 25 mínútur voru liðnar af keppninni. Þarna var ég þó ánægður með að geta haldið plani, en það var ekki flóknara en það að ég ætlaði að búa til bil á leiðinni upp brekkuna til að geta leyft mér að fara rólegar niður hinum megin en ég hef gert undanfarin ár, en þarna var ég í fyrsta skipti ekki á fulldempuðu hjóli og þurfti því að hafa mig rólegann á kafla sem ég er vanalega ansi hress í.

Ég kom upp á topp einni mínútu á undan Haffa, og byrjaði að rúlla niðureftir, í langt brun niður dalinn. Fljótlega eftir fyrstu beygju inn að fjörunni sá ég að Hafsteinn var búinn að gleypa megnið af bilinu sem ég hafði, og var við það að ná mér. Ég gaf ekki í þarna, viljandi, til að láta hann ná mér því ég hef góða reynslu af því að hjóla með honum í lengstu keppnum. Við unnum ágætlega saman út keppnina, þar sem við tók samvinna án nokkurra árása eða æsings frá hvorum okkar, en vegurinn var skemmtilega krefjandi og á köflum var alveg nógu mikil vinna að halda sama hraða og Hafsteinn. Eftir dágóða stund komum við inn á síðasta kaflann, 10km langur malar/malbiksvegur sem inniheldur engar brekkur, bara sléttur vegur sem hægt er að hjóla hratt.

Þarna kom upp sú skemmtilega pæling um hversu stór tannhjól menn væru með. Ég hafði áður vísað í tannhjólastærð eftir tap gegn Haffa í Bláalónsþrautinni, en þar vorum við með jafnstór tannhjól, og eina leiðin til að sigra þegar við vorum báðir komnir í hámarkshraða miðað við gíraþyngd, var að setjast niður og “mæta í spinningtíma” eins og Haffi orðaði það. Ég mundi vel eftir þessu þegar ég ákvað að taka séns og veðja á eigin getu í klifrinu, með því að taka 34 tanna tannhjól. Þetta var áhætta vegna þess að í fyrra var ég með 32 tanna tannhjól, sem bauð upp á léttari gíra, og man vel eftir því að hafa verið í léttasta gír að erfiða upp brekkuna. Þetta þýddi að ég myndi þurfa að fara enn hraðar upp klifrið í ár til að eiga ekki í erfiðleikum, en ef það tækist myndi ég eiga þyngri gír ef kæmi til endaspretts.

Áhættan borgaði sig þegar tannhjólin komu til umræðu og ég áttaði mig á að líkt og ég hafði giskað á, hafði Haffi mætt með 32 tanna tannhjól, og var því ekki með jafn þungann gír og ég. Þarna vissum við held ég báðir hvað þetta þýddi. Í tilfelli Haffa þurfti hann að koma á sem minnstum hraða inn í sprettinn til að koma í veg fyrir að “spinna út” eða fara fram úr þyngsta gír sem stoppar alla hröðun. Í mínu tilfelli þurfti ég aðeins að fara nógu hratt til að minn gír myndi njóta sín betur. Við komum saman inn í bæinn og sáum síðustu beygjuna, en þaðan eru ekki nema 150 metrar í mark, niður litla brekku. Ég fór fyrstur inn í bæinn og inn í beygjuna, og fylgdist með skugganum af Haffa, en þegar við byrjuðum að auka hraðann ákvað ég að gefa allt í botn og reyna að halda út eins lengi og ég gæti. Það heppnaðist vel, ég sigraði keppnina með uþb tveimur hjólalengdum.

Þetta var frábær keppni, ekki bara vegna fólksins sem var þarna með okkur, skemmtilegra aðstæðna í brautinni og fjölgunar keppenda, heldur líka vegna þess að þetta gaf mér bikarmeistaratitil í fjallahjólreiðum þar sem ég hef fullt hús stiga eftir sigur í fyrstu 3 keppnum af 4. Sigurinn bætti í sjálfstraustið sem er mikilvægt fyrir næsta verkefni: Íslandsmeistaramótið í fjallahjólreiðum, sem haldið verður á sunnudaginn 27.júlí kl 10:00 í Öskjuhlíð, sjáumst þar!

Comments

comments