Mynd: Iðunn Arna

Það er eitthvað magnað við það að keppa til Íslandsmeistaratitils í hjólreiðum. Ólíkt mörgum öðrum íþróttum þar sem slíkur titill er gefinn eftir sigur í heillri mótaröð, með samanlögðum stigum eða tíma, er þessi titill gefinn fyrir sigur í einni keppni; aðeins einn séns til að sigra. Pressan sem þessu fylgir er óvenju mikil, en minnkar óhjákvæmilega með árunum. Önnur mót eru spennandi og krefjast undirbúnings, en keppni til Íslandsmeistaratitils er eitthvað allt annað, og mætti segja að í mínu tilfelli sé þetta eina tilfellið þar sem spenna breytist í stress, rétt áður en keppnin hefst.

Í fyrra átti ég ekki góða keppni, en ég lenti í því óhappi að færa til hryggjarlið í mjóbaki á æfingu aðeins 5 dögum fyrir keppni, sem olli því að ég bólgnaði allur upp og gat hvorki setið, staðið né legið í 2-3 daga eftir atburðinn. Eftir myndatöku og greiningu frá góðum læknavinum var mér sagt að ég gæti keppt, þar sem ég myndi ekki skemma neitt með því. En það var enginn vafi á því að sársaukinn yrði óbærilegur. Á keppnisdag var sturtað í mig verkjalyfjum og lagt var af stað, en það kom svosem ekki mikið á óvart þegar ég horfði á Hafstein Ægi hjóla frá mér og skilja mig eftir í 2.sæti, sem er þó  árangur út af fyrir sig miðað við aðstæður.

Í ár voru aðstæðurnar aðrar. Undanfarnar vikur hef ég átt góðar keppnir, eftir sigur í Gullhringnum og Vesturgötunni, og var sjálfstraustið fyrir keppni nokkuð gott. Formið hefur haldið sér vel yfir sumarið, þökk sé hundruðum klukkutíma af æfingum í vetur, og ég gæti í raun ekki hafa verið betur undirbúinn. Ég vissi þó að minn helsti andstæðingur, Hafsteinn, væri líka í topp standi og með hausinn í lagi, klár í að gera sitt besta til að endurnýja titilinn frá því í fyrra.

Keppnin fór fram í nýrri braut í Öskjuhlíð. Brautin er ótrúlega skemmtileg, og inniheldur nánast allt sem má hugsa sér í fjallahjólakeppni: nokkur góð klifur, brattar brekkur, steina til að klifra yfir, trépalla, drullu, möl og gras, með smá malbiki líka. Hringurinn er eitthvað um 5km og farnir 6 hringir, meira en vanalega enda mátti gera ráð fyrir harðari keppni en menn eru vanir. Það er gaman að segja frá því að það var í fljótu bragði ekkert að sjá í brautinni sem var mér sérstaklega í hag, klifrin voru rausnarleg en ekki of mikil, og engin risastór brekka stóð í vegi fyrir keppendum. Þetta gaf keppninni jafnari mynd og enginn hafði augljósa yfirburði, sem gerir keppnina erfiðari fyrir alla.

Dagurinn hófst eins og flestir keppnisdagar, ég vaknaði 2 tímum fyrir start og tróð í mig hafragraut og byrjaði að hlaða í bílinn. Kom svo við hjá Lauf strákunum og fékk þar lánað sett af varagjörðum sem voru sem betur fer aldrei notaðar.  Veðrið var frábært, hlýtt og þurrt, en skýjað svo ekki sást til sólar. Í svona keppni og undir miklu álagi getur verið ótrúlega erfitt að hjóla í mikilli sól og hita, þannig að ég tók skýjunum fagnandi.  Allir voru hressir þar sem startið var við Perluna, og mátti finna fyrir spennu í loftinu eins og vanalega í jafn mikilvægu móti. Eftir um 45 mínútna upphitun sem var þó langt frá föstu formi og fór í raun fram þannig að ég hjólaði bara rólega um, með stöku stoppi til að spjalla við aðra hjólafélaga, var loksins komið að þessu, 5 mínútur í start.

Keppnin hófst með látum og var ég fljótur að koma mér fyrir, fyrir aftan Hafstein sem virtist ætla að spóla í burtu frá öllum. Eftir um það bil einn þriðja af fyrsta hringnum vorum við félagarnir einir, og okkar eigin prívat keppni hafin. Ég er orðinn vanur ótrúlegu átökunum sem fylgja fyrstu 20-30 mínútunum í keppni gegn Hafsteini, en hans stíll virkar mjög vel á flesta sem eru ekki jafn tilbúnir til að grafa sig ofan í átökin um leið og keppnin hefst. En það var þó eitthvað meira í gangi þennan dag, því eftir 2 hringi sem tóku okkur um 30 mínútur var hraðinn ekkert að minnka og álagið enn í botni. Við vorum greinilega báðir í hámarksátökum þar sem mátti sjá á okkur að sársaukinn var mikill og hvorugur ætlaði að gefa sig í keppninni um forystuna. Í hreinskilni þá var nógu stórt verk fyrir mig að hjóla fyrir aftan Haffa, ég ætlaði að fara fyrr framúr honum og setja mína eigin keppni í gang, en álagið var slíkt að það gafst varla tækifæri til þess. Þegar ég reyndi að fara fram úr honum á þriðja hring var hraðinn aukinn og lokað á mig, harkan var rosaleg og á köflum var ég byrjaður að hugsa að svona yrði keppnin til enda, og myndi því klárast með endasprett. Hafsteinn naut þess að hafa forystuna, en í tæknilegri keppni eins og þessarri, þar sem mikið er um hraðabreytingar, er nánast ómetanlegt að vera fyrir framan og ráða ferðinni, línuvali og hraða.

Mynd: Arnold Björnsson

Mynd: Arnold Björnsson

Það kom svo að því að ég fann fyrir að ég átti ekki jafn erfitt með að hanga í Haffa og áður. Þetta var á fjórða hring, keppnin nýhálfnuð og nóg eftir, en ég byrjaði strax að hugsa hvort möguleikinn á að fara fram úr væri ennþá til staðar. Ég ákvað að láta restina af þessum hring ráða þessu, og ég mældi út og pældi allann tímann hversu mikill munur væri á okkur, en við hjóluðum alveg límdir við hvorn annan fram að byrjun fimmta hrings, hvorugur náði að búa til bil. Þegar við komum upp litlu malarbrekkuna sem lá í átt að marklínunni í lok fjórða hrings ákvað ég að þarna yrði ég að gera eitthvað áður en tíminn myndi renna út. Ég gaf mig allan í að hjóla fram úr Haffa, og sá strax að ég átti auðveldara með það en ég bjóst við. Þarna var ég minntur á þægindin sem fylgja forystu í svona keppni, ég fór að taka mínar eigin línur á mínum hraða, og eftir fyrsta þriðjung hringsins var mér sagt að ég hefði 7 sekúndna bil á Haffa.

Ég áttaði mig á að þarna væri þetta mögulega að hafast, en minnti mig á að það væru tæpir tveir hringir eftir, og vinnan langt frá því búin. Fimmti hringur var sá erfiðasti af öllum, og ég byrjaði að taka alls konar sénsa til að stækka bilið eins mikið og mögulegt er. Flestir þekkja hvað það er óþægilegt þegar maður hættir að sjá þann sem maður er að elta, keppnin færist úr sjónmáli í næsta mann yfir í hausinn á manni, og gerir sumum erfiðara fyrir. Ég vissi að þetta hefði ekki mikil áhrif á Haffa, en ég reyndi þó allt til að koma mér úr sjónmáli fyrir hann. Um það bil hálfum hring síðar gerði ég svo mistök, ég fór allt of hratt inn í drullusvað sem var á stuttum kafla brautarinnar og missti stjórn á hjólinu. Ég hef sennilega hjólað 1-2 metra á framdekkinu, áður en ég skaust framyfir stýrið og tók kollhnís í drullunni, en ég lenti ekki styttra en 3 metrum frá hjólinu. Stressið náði hámarki þarna og ég hrifsaði til mín hjólið og hélt áfram, án þess að pæla í neinu. Ég hafði rétt nóg til að halda forskotinu og keyrði áfram inn í sjötta og síðasta hringinn. Ég fór framhjá tímaverðinum mínum, Iðunni, sem tilkynnti mér þær fínu fréttir að ég væri nú 17 sekúndum á undan Haffa, með aðeins hálfann hring eftir. Ég ákvað að setja allt í botn, því ég vissi að fyrir aftan mig væri nákvæmlega það sama að gerast. Fljótlega komu síðustu metrarnir og það var ekki fyrr en þá sem ég var öruggur með sigurinn, keppnin hafði öll verið í lausu lofti fram að þessu, en þarna vissi ég að verkinu væri lokið, með hæstu einkunn.

Mynd: Helgi Páll Einarsson

Mynd: Helgi Páll Einarsson

Íslandsmeistari í fjallahjólreiðum 2014, staðreynd.

Tindur stóð sig frábærlega við keppnishald og gerði daginn ógleymanlegann, en það hefði þó ekki verið mikið varið í keppnina án keppenda, stuðningsfólks og áhorfenda. Takk fyrir mig!

Comments

comments