Íslenska hjólasumrinu mínu er að ljúka, og eftir frábæra keppni á Akureyri er gott að horfa á farinn veg og sjá góðann árangur í helstu mótum í sumar. Ég ákvað í byrjun árs að skipta keppnistímabilinu mínu, sem telur 7 mánuði, í þrjá hluta. Vorið fór í margar flottar keppnir erlendis, þar á meðal voru tvö World Cup mót í fjallahjólreiðum, og minn fyrsti sigur í fjallahjólakeppni í Danmörku. Júní/Júlí innihélt öll mín stærri markmið sem tengdust Íslandi þannig að ég ákvað að gera úr því eina langa ferð, með stuttu skreppi til Noregs fyrir flotta maraþon fjallahjólakeppni þar. Íslandsmeistaratitlar í þremur mismunandi greinum, sigrar í flestu stóru götuhjólamótum ársins fram að þessu, ásamt Bláalónsþrautinni og öðrum mótum, samtals 9 sigrar. Allt eitthvað til að vera stoltur af.

Og nú hefst þriðji hlutinn, sá stærsti og mikilvægasti af þeim öllum.

Hér er listi yfir þau mót sem eru framundan hjá mér:

  • Evrópumeistaramótið í ólympískum fjallahjólreiðum (XCO) – 7.ágúst í Glasgow, Skotlandi
  • UCI C1 Kolding Race Days – 12.ágúst í Kolding, Danmörku
  • UCI MTB World Cup La Bresse – 26.ágúst í La Bresse, Frakklandi
  • Skaidi Xtreme – 1.september í Skaidi, Noregi
  • Heimsmeistaramótið í ólympískum fjallahjólreiðum (XCO) – 9.september í Lenzerheide, Sviss
  • Heimsmeistaramótið í maraþon fjallahjólreiðum (XCM) – 16.september í Auronzo di Cadore
  • UCI C2 Shimano Liga Bagsværd – 23.september í Bagsværd, Danmörku

Þetta er vægast sagt metnaðarfullt. Tvö heimsmeistaramót, eitt evrópumeistaramót og eitt heimsbikarmót er nóg til að gera hvern sem er sáttann við ferilinn. Þetta ár er búið að ganga stórvel hjá mér, og þó ég segi sjálfur frá, þá er gaman að sjá að ég er á uppleið eftir bráðum fjögur keppnistímabil sem atvinnu keppnishjólari. Ég vil nýta tímann sem ég hef á þeim stað sem ég er á í dag, nýta formið og tækifærin sem mér eru gefin, og ná sem mestu út úr lífinu.

Þetta verður magnað ferðalag, og það verður gaman að njóta þess með Iðunni, en á sama tíma og hún er kærastan mín þá á hún líka til að vera yfiraðstoðarmaður, brúsaréttari, fundarmætari, matarreddari og jú, liðsstjóri landsliðsins í fjallahjólreiðum. Án hennar væri þetta ekki bara leiðinlegt og einmanalegt, heldur líka mjög erfitt og stundum of mikið fyrir mig einann.

Án styrktaraðilanna minna væri þetta ævintýri ómögulegt. 8 flug, 4 hótel og 2 bílaleigubílar yfir 7 vikna tímabil hleypur á hundruðum þúsunda króna, og er ekki auðvelt fyrir fólk í fullu starfi með nóg að gera í lífinu. Ég er heppinn að geta sett fullan kraft í þetta, og á sama tíma er ég með restina af lífinu á pásu, og fórna öðrum tækifærum. Ég kann ótrúlega vel að meta allt sem mínir stuðningsmenn, styrktaraðilar og góðir vinir gera fyrir mig, og verð þakklátur út ævina.

Fyrir þá sem vilja fylgjast með verð ég að sjálfsögðu duglegur á samfélagsmiðlum eins og Instagram og Facebook. Nokkur af þessum mótum verða sýnd í beinni útsendingu, í sjónvarpi eða á Youtube, og ég set inn linka þegar ég kemst í þá.

Comments

comments