Category: Cross country (page 3 of 3)

XC – Sea Otter

Mynd: Friðrik Örn

Ein stærsta keppni sumarsins var einnig sú fyrsta, en það komst ekki á hreint fyrr en nokkrum dögum fyrir keppnina sjálfa.

Eins og margir vita keppi ég í völdum keppnum fyrir Lauf forks í sumar, og hef verið í góðu samstarfi við þá við að prufa gafflana þeirra og gefa þeim punkta út frá reynslu, upplifun og persónulegri þekkingu. Í ár fengu þeir að taka þátt í einni af stærstu hjólasýningum í heimi, Sea Otter. Sýningin er haldin ár hvert á Laguna Seca kappakstursbrautinni í Californiu í Bandaríkjunum, og hefur síðustu ár fengið mikla athygli fyrir að bjóða upp á fjölda keppna og annarra atburða, fyrir áhugamenn og atvinnumenn, en keppnishald er ekki jafn algengt á öðrum eins sýningum.

Mér var boðið á síðustu stundu að koma með á sýninguna sem íþróttamaður á vegum Lauf, með það hlutverk að taka þátt í fjallahjólakeppninni sem var einn af stærstu keppnunum á sýningunni. Eftir litla umhugsun ákvað ég að slá til, enda gefast svona tækifæri ekki á hverjum degi. Ég skráði mig í Cat1 flokkinn, en í Bandaríkjunum eru menn settir í flokka, frá Cat5 upp í Cat1, en þaðan er aðeins einn flokkur eftir, Pro.

Staðurinn var í einu orði sagt, frábær. California er þekkt sem eitt af helstu hjólreiðafylkjunum, og enginn skortur á hjólreiðafólki og leiðum til að hjóla. Í hæðunum í kring um Laguna Seca er allt fullt af slóðum og göngustígum, en það er alltaf ákveðið gæðaþrep þegar slóðar eru sérstaklega gerðir til hjólreiða. Veðrið var nánast það sama allan tímann, svalt og þokukennt á morgnanna, en upp úr hádegi rauk hitinn upp í kring um 25 gráður og sólin var á lofti alla dagana.

Ég nýtti tímann vel til að skoða brautina og aðstæður, en ég passaði þó upp á að hjóla ekki of mikið til að geta verið ferskur í keppninni. Brautin, sem var 37 kílómetrar á lengd var ein sú skemmtilegasta sem ég hef hjólað. Ekkert voðalega tæknileg, en hraðinn var alltaf góður og þetta “flæði” sem Amerískar hjólreiðar eru þekktar fyrir var svo sannarlega til staðar. Brautin bauð upp á uþb 1000 metra hækkun, en brekkurnar samanstóðu af stuttum, bröttum klifrum, sem hentar mér mjög vel. Ég tók sérstaklega vel eftir síðustu 7-8 kílómetrunum, en þegar uþb 8km voru eftir komu tvær stuttar en brattar brekkur á breiðum malarvegi, og eftir þær dágóður spölur á sléttum og beinum vegi, fullkominn staður til að reyna eitthvað, en strax eftir þennan veg tók við einbreiður vegur sem bauð ekki upp á framúrakstur, nánast alla leið í mark.

Keppnisdagurinn byrjaði vel, startið var kl 7:30 sem þýddi upphitun 6:30, sem þýddi vakna kl 5:00. Eftir hafragrautinn keyrðum við uppeftir, þar sem allt var á fullu að gerast, ótal hjólarar að hita upp og loksins búið að opna hliðin inn á sjálfa kappakstursbrautina, en startið í Cat1/2/3 keppnunum var inn á brautinni, og fólk gat hjólað þar til að hita upp. Sérstök tilfinning að hita upp á hring sem maður þekkir vel úr kappakstursleikjum fyrir Playstation. Veðrið var sennilega það besta við þennan morgunn, það var ekki nema 8 gráðu hiti og skýjað og rakt, eitthvað sem innfæddum fannst kalt og óþægilegt, en fullkomið fyrir okkur Íslendingana.

Keppnin hófst og menn flugu af stað, mjög hratt start og greinilegt að þarna voru margir mættir til að sigra. Ég tók eftir nokkrum sem virtust vera vel vanir svona keppnum og hafði þá í sigtinu, en þegar komið var út fyrir kappakstursbrautina, á litlum kafla rétt fyrir fyrstu beygjuna ákvað ég að gefa örlítið í til að sjá hvernig menn myndu svara. Það kom á óvart að ég hélt forystu í gegn um beygjuna og upp fyrstu brekku, og jafnvel niður þá næstu, en mér sýndist þetta hafa valdið því að hópurinn slitnaði strax í byrjun og lítill hópur myndaðist fremst sem ég var hluti af. Þarna voru varla 5 mínútur liðnar af keppninni og ég lenti í einhverju sem á tímanum virtist ætla að enda líkur mínar á góðum árangri: vatnsbrúsinn tók flug og skaust af hjólinu, greinilega þreyttur á hristingnum. Mér leist ekkert á þetta en ákvað að keyra áfram, vitandi að Bergur væri með brúsa fyrir mig fyrir miðja braut. Ég setti mig hinsvegar í vörn og leiddi hópinn aldrei, en fljótlega eftir þetta byrjuðu 2 keppendur að pressa hressilega, sem olli því að við 3 komumst burt.

Þegar keppnin var hálfnuð leið mér betur en ég bjóst við miðað við algjört vökvaleysi, strákarnir með mér voru duglegir að pressa og virtust vera að reyna að stinga mig af, en eftir að ég greip brúsa hjá Berg tók allt annað við. Stór gúlpsopi sem kláraði nánast brúsann skaut mér áfram og í þægilega stöðu. Á þessum tímapunkti byrjuðum við að ná öðrum flokkum, og framúraksturinn alveg með þeim skemmtilegri, enda slatti af öflugum strákum í brautinni. Ég mundi eftir 8km punktinum í brautinni og þegar þangað var komið ákvað ég að gefa allt í botn til að sjá hvað myndi gerast. Á toppi fyrstu brekkunnar leit ég aftur og sá þá báða í miðri brekkunni, ég hélt áfram og setti svo allt í botn aftur í næstu brekku, leit aftur og sá þá dragast aftur úr. Þarna var þetta komið, time trial staðan sett í gang og þétt tempó alla leið í mark. Ég sá aldrei neinn fyrir aftan mig það sem eftir var keppninnar og kláraði með 20 sek forskoti á næsta mann, sigur í fyrstu keppninni minni í Bandaríkjunum og það gegn ekki slæmum andstæðingum.

Þetta var ótrúleg keppni og án efa ein sú erfiðasta sem ég hef tekið þátt í. Ég er gríðalega þakklátur Lauf strákunum fyrir að gefa mér þetta tækifæri, og ekki er verra að geta gefið þeim eitthvað til baka með því að sigra svona stóra keppni á gafflinum þeirra. Þetta gerði mikið fyrir sjálfstraustið og hefur kveikt í mér neista, sem segir mér að kanski er ekki útilokað að komast lengra í þessu sporti.

XC – Íslandsmeistaramótið í fjallahjólreiðum 2013

Mynd: Bjarki Freyr Rúnarsson

Það er ekki hægt að byrja þessa sögu á laugardagsmorgni, heldur verður hún að byrja síðasta mánudagskvöld.Ég var að æfa með nokkrum félögum í fjallahjólabrautinni “Bleikur” við Hvaleyrarvatn í Hafnarfirði síðasta mánudagskvöld þegar ég ákvað að taka smá tímatökuhring, til að sjá hversu hratt ég gæti hjólað brautina á þröskuldspúls (180bpm). Hringurinn gekk vel og setti ég met í brautinni sem ég held að standi enn eftir keppni dagsins, svo var pakkað saman og haldið heim en þegar heim var komið byrjaði ég að fá verk í bakið. Hélt fyrst að þetta væri einhver verkur í rófubeininu en myndataka sýndi að þetta væru neðstu hryggjarliðirnir sem væru að valda þessu. Við tók svakalegur sársauki sem olli því að ég gat varla setið, legið né staðið uppréttur, komst ekki í vinnu og hvaðekki.

En nú var gott að eiga góða að, og uppgvötaði ég kosti þess að hafa ákveðinn “status” í hjólreiðasamfélaginu. Gísli Ólafsson læknir hringdi í mig og byrjaði strax að spyrja út í málið, var ekki lengi að mynda kenningu um þetta og benti mér á hann Örnólf í Orkuhúsinu. Á svipuðum tíma byrjaði ég að heyra í fleiri sjúkraþjálfurum og læknum heldur en ég hef tölu á, og voru allir tilbúnir til að veita mér ráð og aðstoð. Ég fór svo til Örnólfs og hann skoðaði mig, sendi í myndatöku, svo sjúkraþjálfara sem hnykkjaði mig og skellti mér svo í nálastungu. Myndirnar sýndu á endanum að það var bólga í neðstu hryggjarliðum, en ekkert brot eða neitt hættulegt. Þarna var komið grænt ljós á að keppa í dag. Það var alveg frábært að heyra í öllu þessu frábæra fólki og ég þakka kærlega fyrir aðstoðina!

Ég fór í keppnina með engar væntingar, enda búinn að missa alla trú á að ná að verja titilinn, en það þýddi ekki að ég gæfist upp. Planið var einfalt: byrja þetta eins og ég myndi gera vanalega, reyna að halda í við fremstu menn en slá af um leið og sársaukinn væri orðinn of mikill. Keppnin byrjaði með látum, Hafsteinn tók sitt vanalega hlutverk fremstur og leiddi hópinn, ég kom þar á eftir og svo voru Kári og Helgi ekki langt undan. Við fórum svo inn í skóginn með tæknilega kaflanum en þar voru ræturnar sleipar og voru ekki sem auðveldastar. Kári lenti í einhverjum vandræðum og stökk af hjólinu, en ég hjólaði þetta, komst þó ekki fram úr honum og beið rólegur eftir næsta tækifæri. Ég tók svo fram úr Kára um leið og við komum úr skóginum og náði strax í Helga, en þá hafði Hafsteinn náð ægilegu forskoti og ég sá fram á að þurfa að taka hressilega á því. Rétt fyrir aðalklifrið tók ég svo fram úr Helga, en ég vildi ná eins miklu af forskotinu hans Hafsteins þar, og ég gæti. Eftir klifrið var komið að bruninu niður en það var tekið rólega til að passa að sprengja ekki, en eftir það var ég allt í einu kominn beint fyrir aftan Hafstein (komst að því eftir keppnina að hann hafði dottið á þessum stað, þar var komin skýringin). Ég náði að taka fram úr honum í “Parketbrekkunni” og leiða keppnina út fyrsta hringinn og byrjun annars hrings, en þar var bakið farið að vera ansi vont við mig. Hafsteinn náði mér og tók fram úr mér þegar ég gerði mistök í skóginum.

Eftir þetta breyttist staðan lítið, ég sá aldrei aftur í Helga en sá eitthvað í skottið á Hafsteini í 2. og 3. hring. Púlsinn byrjaði að lækka jafnt og þétt þrátt fyrir að ég væri að drekka mjög vel, en ég áttaði mig fljótt á að í hvert sinn sem ég reyndi að gera eitthvað til að klóra mig aftur til Hafsteins sagði bakið bara nei, en það var lítið í því að gera.

Marklínan kom á endanum og endaði ég í öðru sæti. Hafsteinn kláraði á frábærum tíma, 1:34, og átti glæsilega keppni, enn og aftur til hamingju með sigurinn og titilinn, það er einhvernveginn alltaf skemmtilegast að keppa við þennan spaða!

Ég væri að ljúga ef ég segðist ekki vera vonsvikinn eftir þessa keppni, enda veit ég að ég átti meira inni en ég gat nýtt. Ljóst er að maður er aðeins mannlegur og allt getur gerst, sérstaklega með svona góðri tímasetningu. En ég hugga mig þó við það að vera bikarmeistari í fjallahjólreiðum með fullt hús stiga, séu 3 keppnir taldar af 4.

XC – Vesturgatan

Sigraði Vesturgötuna í dag eftir harða baráttu við Hafsteinn Ægir Geirsson! Dagurinn byrjaði vel; logn, þurrt, hlýtt og lítil sól. 

Keppnin hófst rólega, en þegar fylgdarbíllinn kom sér burt kom ég mér fyrir fyrir aftan Haffa, á eftir okkur komu svo restin, en það leið ekki á löngu þar til við Haffi vorum orðnir einir með risastórt klifrið fyrir framan okkur. Haffi var ótrúlega sterkur í klifrinu, og ég sá mér ekki fært að gera árás þar, en lét mér nægja að rétt skjótast fram úr til að ná Fjallakonungs titlinum annað árið í röð. Bætingin upp brekkuna hljóðaði upp á tæpar 4 mínútur upp úr dalnum og upp á topp frá því í fyrra. Við skutumst svo saman niður hinum megin, og var ekkert hægt á, enda bættum við metið þar líka um ca 50 sek.

Við tók góð keyrsla, en ég fann að kvefið sem er búið að vera í mér síðan um helgina var ekkert að hjálpa til, þar að auki var Haffi gríðarlega öflugur og var alveg nóg að halda í við hann. Við skiptumst örlítið á að leiða, en svo kom að því að hann stoppaði, en þá hafði lekið úr afturdekkinu og lítið hægt að gera annað en að stoppa og henda smá lofti í.

Ég greip tækifærið og keyrði af stað, en þarna græddi ég einhvern tíma sem varð að endast í markið. Ég keyrði og keyrði alveg í botn en þó jafnt og þétt til að sprengja mig ekki. Þegar komið var á flata kaflann undir lok keppninnar, en hann er um 15km, sá ég í Haffa aftur, en þarna var ég ekki í mínum óskaaðstæðum, en Haffi er öflugur í tímaþrautum og var betur settur heldur en ég. Stefnan var bara tekin á að halda 34-35km meðalhraða og reyna að halda út restina af keppninni. Spennan var orðin ansi mikil þegar komið var inn í bæinn og ekki nema 50 metrar í kappann, en það dugði til að ná sigrinum með 10sek forskoti.

Klárlega ein harðasta keppni sumarsins, og gríðarlega skemmtileg. Ég þakka mótshöldurum fyrir frábært mótshald, styrktaraðilum mínum, Kríu, Hreysti og IronViking, og sérstaklega Haffa fyrir að gefast ekki upp! 

Newer posts

© 2024 On your left

Theme by Anders NorenUp ↑