2014 var án efa mitt besta ár í hjólreiðum. Það skemmtilega við þá staðreynd er að ég hef getað sagt þetta í lok hvers árs síðustu 3 ár, þannig að það virðist ennþá vera pláss fyrir bætingu.

Niðurstaða ársins er einföld: 17 sigrar í 34 keppnum (50%),  þar að  auki 2 sigrar í liðakeppni. Íslandsbikar í fjallahjólreiðum ásamt 2.sæti í götuhjólabikarnum og tímatökubikarnum. Íslandsmeistaratitlar í fjallahjólreiðum og götuhjólreiðum. Árið var svo toppað með því að vera valinn hjólreiðamaður ársins.

Þetta er búið að vera skemmtilegt ár, og það væri án efa ekki svona gaman ef það væri ekki fyrir allt fólkið sem hefur komið að þessu. Keppnisstjórar, brautarhönnuðir, starfsfólk í keppnum eru ómissandi fyrir sportið og leggja sitt fram í frábæru starfi. Liðið mitt sem keppir fyrir Kríu á Specialized hjólum, Óskar, Emil, Siggi Hansen, Helgi Páll með aðstoð frá David, stóð sig frábærlega og samvinnan var mjög góð. Margar góðar keppnir voru unnar með þeirra hjálp, WOW Cyclothon, Tour de Hvolsvöllur og íslandsmeistaramótið í götuhjólreiðum svo einhver dæmi séu tekin. Ekki má gleyma keppinautunum, það væri nú ekki mjög gefandi að keppa í nokkurri íþrótt ef engin samkeppni væri, og eiga flottir strákar á borð við Helga Berg, Hákon Hrafn, Árni Már, Óskar og Hafsteinn þakkir skildar fyrir að halda mér við efnið.

Ég er ótrúlega heppinn að geta sagst hafa fjölmörg fyrirtæki sem styðja við bakið á mér í keppnum og æfingum. Þau eiga þakkir skildar fyrir áhugann sem íþróttinni er sýndur, og að hafa trú á íþróttamönnum eins og mér.

  • Kría hjól sér mér fyrir Specialized hjólum, fatnaði, búnaði og öllu sem því tengist
  • Lauf forks gefa mér demparagaffla til að prufukeyra, og hjálpa mér með fjallahjólatengdann búnað
  • Hreysti heldur mér gangandi á æfingum og í keppnum með orkudrykkjum, gelum og orkustöngum
  • Gló gefur mér gott að borða alla daga vikunnar og heldur hollustunni uppi
  • IronViking hjálpar mér að jafna mig eftir erfiðar keppnir og æfingar með Compressport compression fatnaði
  • Garmin búðin sér mér fyrir Garmin GPS tæki og öllum aukabúnaði svo ég viti hvað ég er að gera á hjólinu
  • WOW kemur mér í flottustu keppnirnar í útlöndum, og til baka með hjól og allar græjur
  • Optical studio heldur mér flottum með Oakley gleraugum
  • Ölgerðin sér mér fyrir Kristal og Pepsi

Takk fyrir!

Næstu skref

Ég hef aldrei getað tamið mér það að halda því leyndu sem ég ætla mér í lífinu. Mig langar að ná lengra í íþróttinni, jafnvel komast í atvinnumennsku ef tækifærið býðst. Tíminn líður og tækifærin gerast ekki mörg. Það sem stendur uppúr þegar horft er yfir komandi ár eru fleiri keppnir í útlöndum. Með hjálp styrktaraðila er stefnan tekin á að taka þátt í fjallahjólamótum í Danmörku, Bretlandi, Þýskalandi og Frakklandi, auk Bandaríkjanna. Þær keppnir sem ég er að miða á fylgja hefðbundnu formi ólympískra fjallahjólreiða (XCO), en það lýsir sér í 90 mínútna keppni í tæknilegri braut þar sem nokkrir hringir eru farnir, ekki ósvipað þeim keppnum sem við höfum hérna heima. Munurinn er þó sá að samkeppnin er mun harðari og keppinautarnir sterkari og sneggri. Hvað er betra til að ná lengra í sportinu en að stökkva í djúpu laugina? Hérna heima er stefnan tekin á stærstu keppnirnar eins og Bláalónsþrautina, Vesturgötuna og Íslandsmeistaramótin. Á óskalistanum eru einnig götuhjólakeppnir í Færeyjum og þáttökuréttur á heimsmeistaramótinu í fjallahjólreiðum í Andorra, sem er haldið af UCI.

Hvað með UCI?

Talandi um UCI, alþjóðleg samtök hjólreiðamanna, þá er spennandi að sjá hvenær Ísland kemst þar inn. Með hverju ári verður mikilvægara fyrir okkur að vera hluti af samtökunum, og mig grunar að á næstu árum verði pressan enn meiri. Þetta skiptir máli fyrir alla sem vilja keppa í hjólreiðum en hjólreiðamenn eins og ég hafa mögulega mest að græða á þessu. Hver meðlimur í samtökunum, að því gefnu að hans land sé aðildarland, getur fengið skírteini sem heldur utan um keppnisferil, safnar mikilvægum stigum og kanski mikilvægast, gefur þáttökurétt í ákveðnum mótum og segir til um flokkun innan hverrar greinar íþróttarinnar.

Þetta þýðir að ef ég vil taka þátt í stærri mótum í td. fjallahjólreiðum, heimsbikarmótum eða heimsmeistaramóti, þarf ég að bíða eftir að Ísland komist inn í UCI því annars fæ ég ekki að taka þátt. Ég get ekki unnið mig upp innan íþróttarinnar eða keppt fyrir hönd Íslands. En ég hef trú á að þetta sé að gerast, og gott fólk hefur lagt sig fram við að halda ferlinu gangandi, það er ekki annað hægt en að hlakka til dagsins þegar þessar dyr opnast, og bjóða fleiri möguleika fyrir Íslenska afrekshjólreiðamenn.

 

Það stefnir í frábært ár með nýjum og stærri markmiðum. Samkeppnin hérna heima er að aukast og keppnum og keppnisfólki fjölgar með ári hverju. Tækifærin í útlöndum færast nær og bjóða upp á stærri, erfiðari og flottari keppnir sem er óneitanlega það sem maður leitar að þegar lengra er komið. Fylgist með hérna á blogginu þar sem ég set inn keppnissögur og aðrar pælingar!

Comments

comments