Týpískur vetur hjá mér hingað til hefur verið ansi einfaldur. Fyrra keppnistímabili lýkur í sept/okt og þá tekur við bland af grunnþjálfun, lyftingum og cyclocross keppnum fram að áramótum. Eftir áramót er cyclocross tímabilið að klárast, en oft eru stærstu keppnirnar þó í des/jan og þá eru æfingar orðnar þyngri og klukkutímar fleiri. Einhvertimann á þessu tímabili hefur verið hin staðlaða Tenerife ferð í jan/feb og að henni lokinni hefst keppnistímabilið aftur í mars, með fyrstu fjallahjólakeppnunum og sérhæfðari æfingum.

Í fyrra var þetta allt öðruvísi, en í ár er þetta líka öðruvísi. Eftir veturinn sem ég eyddi hér í Danmörku, auk ferða til Íslands og Gran Canaria, sé ég að það voru færri cyclocross keppnir en áður, fleiri klukkutímar á fjallahjólinu og færri á götuhjólinu. Þetta eru breytingar sem ég gerði til að fókusa meira á fjallahjólreiðar, eðlilegt þar sem það er mín aðalgrein.

Auka viðbót við undirbúninginn fyrir vorið og sumarið er eitt stykki fjöldagakeppni á fjallahjóli. Í September í fyrra var ákveðið að skella Andalucia Bike Race inn á planið sem eins konar æfingakeppni, bæði fyrir tækni á hjólinu og úthald fyrir langt tímabil.

DSC00631

Keppnin er 6 dagar, uþb 400km og 8000m hækkun allt í allt. Fyrsti dagurinn er „prologue“ dagur, sem er í rauninni einstaklings tímataka, til að gefa ákveðna hugmynd um styrkleika hvers og eins fyrir restina af keppninni. Árangurinn á þessum degi ákveður td. startröðina fyrir næstu daga.
Aðrir dagar í keppninni eru keyrðir áfram eins og venjulegar fjallahjólakeppnir, þó í maraþon formi, sem þýðir lengri vegalengdir og A-B form, í stað hringjaforms eins og venjulegar XCO keppnir notast við.

Það tóku 600 manns þátt í keppninni, og þar af 180 manns í pro/elite flokknum sem ég var í. Þarna voru mörg af stærstu nöfnum í sportinu, td Tiago Ferreira heimsmeistarinn í maraþon fjallahjólreiðum, Jose Hermida fyrrverandi heimsmeistari og stærsta stjarnan í spænskum fjallahjólreiðum, Alban Lakata tvöfaldur heimsmeistari, og Joaquim Rodriguez, einn frægasti götuhjólreiðamaður síðari ára. Þetta þýddi aðeins að keppnin yrði hörkuerfið og nóg af öflugum andstæðingum.

Fyrsta keppni ársins er alltaf stórt spurningamerki. Jafnvel fyrir þá sem prófa sig reglulega til að athuga ástand og fylgjast með bætingum, þá er ómögulegt að segja til um hvar maður stendur fyrr en fyrsta keppnin er afstaðin. Power test og annað eru frábær, en ekkert er betri mælikvarði en keppni. Ég var óviss með ástandið eftir frekar óreglulegann Janúar mánuð en átti þó mjög góðann Febrúar með ansi öflugum æfingum og 20 tíma vikum að meðaltali. Þannig að ég var jákvæður fyrir þetta.

DSC00203

Þetta var fyrsta keppnin mín á nýju hjóli, en ég hafði nýlega fengið 2017 módelið af Specialized S-Works Epic Di2 frá hjólreiðaversluninni Kríu, sem ég er ótrúlega þakklátur fyrir. Þetta er topp módelið í línunni hjá Specialized, fulldempað hjól fókusað á XC keppnir, og það verður að segjast að það hjálpar helling að hafa svona græju þegar maður er að keppa á svona háu stigi í sportinu. Yfir svona langar dagleiðir getur verið ótrúlega mikilvægt að hafa góða fjöðrun og létt hjól, til að minnka þreytuna sem sest í líkamann, bæta í sjálfstraustið á tæknilegum köflum, og vera öruggur með áreiðanleika búnaðarins sem notaður er. Ég er í engum vafa um að eftir fjölmörg hjól sem ég hef notað í gegn um tíðina, þá er þetta hjól það besta.

Dagur 1: 30km time trial með uþb 1100m klifri í tæknilegri braut. Keppnin hófst í borginni Cordoba og var þar fyrstu 3 dagana. Keppt var á svipuðum slóðum alla dagana, og var þetta bland af þurrum moldarstígum, malarvegum og grasi, með smá malbiki inn á milli. Ég var með start númerið 23, frekar hátt á lista sem þýddi að ég startaði seint, en það var startað í öfugri röð, besti hjólarinn síðastur. Keppnin gekk vel og endaði ég í 43.sæti, ekki of langt frá fremsta manni, þannig að þetta gaf góðann tón fyrir næstu daga.

Dagur 2: 80km með 1800m klifri. Þetta var flottur dagur fyrir mig, þar sem það var mikið af klifri, sérstaklega þar sem fyrstu 20km voru flatir. Það þýddi að klifrin voru mörg og brött, og ég átti ansi góðann dag. Planið fyrir alla keppnina var að hugsa ekki of mikið út í að þetta væri fjöldagakeppni, heldur í staðinn að keyra alla dagana eins og ég þyrfti ekkert að spara mig fyrir næstu daga. Ég komst inn í góðann hóp frá fyrsta klifri og kláraði með sama hóp í 48.sæti og var þá á fínum stað í heildarkeppninni. Sérstakur bónus á þessum degi var sá merki áfangi að taka fram úr Joaquim Rodriguez í klifri, í keppni.

Dagur 3: 80km með 2000m klifri. Ég var farinn að finna fyrir þreytu þarna, en á annan hátt en ég er vanur. Þreytan var dýpri, og sat í manni lengi. Fæturnir voru ekki aumir eða stirðir, heldur leið mér eins og ég væri kominn með eins konar hraðatakmörkun, sem stoppaði mig þegar ég vildi fara hraðar. Púlsinn var orðinn töluvert lægri vegna þreytunnar, en powermælirinn sagði þó sömu söguna og daginn áður, sem er jákvætt fyrir langtíma úthald. Þessi dagur var eins og afrit af degi 2. komst í góðann hóp og hélt mér á réttum stað alla leið. 40.sæti kom skemmtilega á óvart, en það benti til þess að ég væri mögulega að ráða betur við þreytuna en þeir sem voru ferskari daginn áður.

Dagur 4: 70km með 1900m klifri. Þetta var sérstakur dagur því hann var eins konar „transfer stage“, eða millistaður á leiðinni á nýjann keppnisstað. Við færðum okkur í borgina Andújar, en það var aðeins keppt þar í þennan eina dag. Þetta var fyrsti virkilega heiti dagurinn, með mikilli sól, þannig að það skipti miklu máli að vera með nóg að drekka og borða. Fram að þessu hafði ég fengið Iðunni til að standa við brautina í drykkjarstöð svo ég gæti skipt út einum brúsa, þannig að ég fór í gegn um flestar dagleiðirnar á 3 brúsum. Auk þess var ég með 3-4 SIS Go gel í vasanum og 1-2 SIS Go Energy orkustykki til að fá orku yfir langann tíma á hjólinu. Dagurinn gekk mjög vel, en ég var farinn að finna fyrir meiri þreytu og varð á tímabili að sleppa mér úr hópnum sem ég var í, og endaði á að klára einn í 45.sæti. Þarna var ég að nálgast 40.sæti í heildarkeppninni og var mjög jákvæður eftir 4 góða daga.

Dagur 5: 100km með 1900m klifri. Lengsti dagurinn var þó ekki jafn langur og flestir bjuggust við. Þarna var komið á þriðja staðinn í keppninni, borgina Linares. Brautirnar þar voru öðruvísi en í Cordoba og Andújar að því leyti að klifrin voru styttri, vegirnir jafnari og minna um tæknilega kafla. Þetta var farið að líkjast flötum maraþon keppnum, sem er ekki mín sérgrein, en þó hörku áskorun. Þessi dagur var líkari götuhjólakeppni en fjalahjólakeppni, meðalhraðinn ansi hár og mjög mikilvægt að vera í réttum hóp alla leið, til að lágmarka tímatap. Þarna lenti ég í fyrsta skipti í keppninni í að fara vitlausa leið, en hópurinn sem ég var í elti einn hjólara sem vissi ekki að hann væri að fara vitlausa leið. Eftir smá þras á spænsku var ákveðið að snúa við, en það gerðist fljótt og tapið var lítið miðað við hvað hefði getað gerst. Ég náði að klára í góðum hóp, með auka bónus á síðustu 10km þar sem ég fór með öðrum sterkum hjólara í árásarham, við stungum hópinn af og kláruðum tveir, þar sem ég vann sprettinn og endaði í 47.sæti.

Dagur 6: 50km með 1000m klifri. Þarna voru allir þreyttir. Allir tilbúnir í að klára keppnina og segja þetta gott. Það voru um 15-16klst af keppnum búnir, og sérstök tilfinning að fara í stutta dagleið með miklum hamagang, á sama tíma og lappirnar voru í engu stuði til að hreyfa sig. Þetta var líka svolítið götuhjólalegur dagur, en þó tæknilegri kaflar og vegna vegalengdarinnar var keyrt ansi hressilega frá byrjun. Mér tókst einhvernveginn að hanga inn í 2.hóp alla leið, og þegar 12 manna hópurinn kom að markinu tók við svakalegur endasprettur, þar sem ég kom yfir línuna á eftir 2 öðrum. Komst að því seinna að Alban Lakata var í hópnum, og kláraði á eftir mér. Ekki slæmt! 35.sæti á þessum degi kom mjög skemmtilega á óvart.

Ég endaði í 37.sæti í elite flokki, af 180 sem hófu keppni. Top 20% er sjaldgæfur árangur hjá mér, en oft er ég að slást um top 50% í svona stórum keppnum. Þetta er skýrt merki um bætingu vetrarins, og setur markið hátt fyrir næstu keppnir. Keppnistímabilið er að hefjast hægt og rólega með fáum keppnum í Mars, en í Apríl tekur svo alvaran við.

DSC01031

Comments

comments