Það er alltaf smá spenna í manni þegar það fer að vora, veturinn að skríða í burtu og öll vinnan sem maður hefur lagt í æfingar yfir síðustu mánuði bíður spennt eftir að fá að sýna afraksturinn og vonast eftir hæstu einkunn. Það er ekki alltaf sem árangur fer eftir beinni línu upp á við, stundum er undirbúningurinn fyrir stóru markmiðin langur og felur í sér lítil markmið sem hafa meiri tilgang sem góðar æfingar, frekar en mikilvægar keppnir. Svokallaðar B, eða jafnvel C-keppnir eru algengar hjá hjólreiðamönnum sem hafa náð langt og eru komnir yfir það tímabil þar sem hver keppni skiptir öllu máli, og alltaf keyrt í botni.

La Montagnetta var mín leið til að mæla núverandi form, bera saman árangur milli ára og skoða hvar ég þarf að bæta mig, og hvar ég er orðinn betri en ég var. Þetta er frábær keppni til þess, bæði vegna þess að hún er ein af fyrstu UCI keppnum ársins, sem gefur nóg svigrúm eftirá til að skoða hvað vantar upp á, og vegna þess að ég hef áður tekið þátt þá hef ég þekkingu á brautinni og aðstæðum. Það er líka frábært að geta borið sig saman við fyrri árangur í sömu keppni, og skoðað hvernig maður stendur sig miðað við aðra keppendur sem maður þekkir vel. Keppnin er haldin í Mílanó, í almenningsgarðinum Parco Monte Stella. UCI C1 merking þýðir að hún er ansi hátt sett í UCI styrkleikaröðinni, en það þýðir að fleiri stór nöfn mæta til leiks í leit að stigum fyrir sumarið. Brautin er samsett af bröttum klifrum á harðri mold og grasi, erfiðum brunköflum í hliðarhalla, og inniheldur td stökk fram af háum köntum, moldarstökkpalla, “pump track” kafla og grjótagarð. Hún hentar mér vel vegna klifursins, og tæknilegu kaflarnir eru ekki of erfiðir, en eftir æfingar vetursins finn ég að sjálfstraustið er að aukast í hröðum beygjum og tæpum brekkum sem liggja niður á við.

Því miður tók heilsan sig til og skellti á mig ljótum hósta nokkrum dögum fyrir keppni, en þar sem ég fann lítið fyrir því á æfingum, gerði ég engar breytingar á keppnisplaninu. Svona keppnisferðir eru ekki gefins, og ferðalögin sem ég fer í til að stunda þetta sport sem atvinnu eru langstærstu útgjöldin. Það er ekki í boði að vera svo lánssamur að geta stundað þetta af kappi með stuðning góðra vina og stórra fyrirtækja, og sleppa dýrum ferðum vegna veikinda. Þannig sé ég það amk. Á föstudeginum var flugið til Mílanó og þá fann ég að ég var að versna, kvefið byrjaði og hóstinn versnaði. Á laugardeginum var ég farinn að átta mig á að þetta væri ekki að skána og ég þurfti að tala mig til fyrir æfingu, til að halda haus og fara ákveðinn í að skoða aðstæður og halda mínu striki.

Laugardagsæfingin var uþb 1-2 tíma rúll um brautina, þar sem ég stoppaði hjá helstu köflum sem voru að valda mönnum vandræðum, til að æfa þá alveg þar til ég var með allan hringinn á hreinu. Vaninn er að taka einn hring rétt undir keppnisálagi þegar ég er að æfa daginn fyrir keppni, til að kveikja á löppunum og sjá hvernig ég ræð við brautina á keppnishraða. Eftir æfinguna var hóstinn orðinn verri og nefið stíflað upp í heila, og ég tók eftir klassísku merki um að líkaminn sé farinn að forgangsraða rétt: púlsinn var allt of lár, jafnvel undir hámarksálagi. Þetta var skýrt merki um að keppnisdagurinn yrði ekki minn dagur.

Á keppnisdag var rútínan hin allra eðlilegasta. Morgunmatur uþb 3 tímum fyrir start, og upphitun uþb 1 klst fyrir start, með smá rúlli í brautinni en aðallega keyrt á götum í kringum keppnissvæðið. 124 keppendur voru skráðir til leiks, sem er óvenju mikill fjöldi fyrir svona keppni. Í flestum keppnum sem ég tek þátt í, eru keppendur milli 30 og 80 talsins, en maður finnur alltaf fyrir því þegar fjöldinn verður svo mikill að hópurinn lendir í einni stórri klessu nokkrum sekúndum eftir start, og enginn kemst neitt nema allra fremstu menn. Ég var heppinn að UCI stigin mín og staða á heimslista gáfu mér startnúmerið 25, þannig að ég fékk gott forskot á þessa 100 keppendur sem störtuðu fyrir aftan mig.

DSC01436

Keppnin fór af stað með látum og það liðu um 10 sekúndur frá startinu þar til hópurinn kom að fyrstu bröttu brekkunni. Jafnvel með gott start lenti ég í umferðarteppu og hoppaði af hjólinu til að hlaupa upp hólinn með öllum öðrum í kring um mig. Eftir þetta stutta hlaup komst ég aftur á hjólið og hélt áfram botnkeyrslu til að klára fyrsta hring í 38.sæti, og í mjög góðum hópi manna. Ég vissi allan tímann að þetta myndi ekki endast, en ég lét það ekki á mig fá, hætti að horfa á púlsinn og vöttin, og reyndi bara að halda út eins lengi og ég gat. Eftir 3 hringi byrjaði ég að finna fyrir óþægindum í öndun, fann sviða, eða öllu heldur, brunatilfinningu, í hálsinum, og gat ekki fengið mér að drekka eða skella í mig orkugeli. Eftir 4.hring, þar sem ég sat enn nálægt 40.sæti var eins og einhver ýtti á takka inn í mér. Það slokknaði algjörlega á mér, með 3 hringi eftir, og ég gat ekkert gert í því. Brekkurnar sem ég hafði flogið upp áður breyttust í veggi og jafnvel flatir kaflar voru eins og kviksyndi. Ég vissi þarna að ég væri búinn með alla sénsa sem líkaminn gæfi mér og ég átti ekkert meira inni. Eftir 2 hringi var ég hringaður út, búinn að missa fram úr mér allt of marga keppendur, og ég endaði í 67.sæti af 124.

Í fyrra náði ég 61.sæti með næstumþví fullkominni keppni. Ég man að ég var ánægður með árangurinn og leit á þá keppni sem merki um að góðir hlutir væru í vændum fyrir síðasta ár. Ef það er hægt að taka eitthvað jákvætt frá keppninni í ár, þá er það að ég var ekki langt frá eigin árangri síðasta árs, þrátt fyrir bullandi kvef og ógeð. Þegar ég lít á úrslitalistann sé ég nöfn þeirra sem ég hafði hjólað með fyrstu 4 hringi keppninnar, og leið vel þegar þeir reyndu sitt besta til að stinga mig af. Þarna eru menn í 38-45.sæti og þá verð ég bara að gefa mér þá bjartsýni að hugsa til þess að þarna hefði ég endað með fullri heilsu.

DSC01362

Ég gæti ekki verið heppnari með aðstoðina frá Iðunni minni í svona ferðum. Á meðan ég var í fýlu út í heilsuna gerði hún ekkert annað en að hjálpa mér í gegn um daginn, hvort sem það var að finna mat og drykk, sækja keppnisgögn eða rétta mér brúsa og segja mér í hvaða sæti ég var í miðri keppni. Takk elskan mín!

Árið er nýbyrjað og spennandihlutir að gerast á næstunni. Æfingaferðirnar eru ekki búnar enn, og stóru keppnirnar í Apríl og Maí bíða. Ég er spenntur fyrir framhaldinu og keyri á fullu inn í vorið, en fyrst ætla ég að losa mig við smá kvef.

Comments

comments