Áherslurnar fyrir keppnistímabilið, og hvaða keppnir skipta málið hafa breyst ansi mikið undanfarin ár. Það sem áður var, þegar hver einasta keppni var hjóluð í tilraun til sigurs, fær í dag aðeins meiri hugsun og skipulagningu. Það koma A keppnir, eins og UCI C1/C2 keppnir, þar sem stig eru í húfi og mikil samkeppni, og yfirleitt dýrar ferðir í hverja keppni. Svo eru B keppnir, eins og bikarmótin á Íslandi, UCI C3 keppnir og minni keppnir í Norðurlöndunum. Og svo eru sérstöku keppnirnar, A+ keppnir ef svo má segja, World Cup, heimsmeistara og Evrópumót, og Íslandsmeistaramótin. Mér finnst gott að skipta keppnum upp í þessa flokka þegar ég skipulegg tímabilið, því það getur gefið mér góða hugmynd um hvenær allt þarf að ganga upp, og hvenær ég get hugsað keppni sem góða æfingu. Það fylgir heilmikil pressa og álag þegar kemur að stærstu keppnunum, og það getur verið þægilegt að losa aðeins um það þegar maður mætir í keppni sem hefur löngu verið merkt sem B-keppni, og þannig er minna stress, meira verið að njóta, og engin pressa til að ná góðum árangri. Þessi helgi var ein af þeim helgum.

Rye Terrengsykkelfestival er 3 daga keppni, með samanlögðum tíma fyrir lokaúrslit, og er á UCI S1 stigi, sem er næst hæsta stigið fyrir fjöldægrakeppnir í fjallahjólreiðum. Haldin í útjaðri Oslóar, í Noregi, sem er þægilegt fyrir ferðalagið og gistingu. Fyrsti dagurinn er rúmlega 2km tímataka, á sæmilega tæknilegri braut sem inniheldur klifur á malarvegum, rótarkafla sem liggja bæði upp og niður, stökk fram af klettum og nóg af mold og grasi. Tímatakan er hönnuð til að ákveða startröð fyrir 2.dag, og einnig gefa efstu sæti tímabónusa til lokaúrslita. Seinni dagurinn er hefðbundin XCO keppni, 90 mínútur í lengri hring, en brautin er frekar grýtt, og nóg af trjárótum til að gera hlutina spennandi. Þriðji dagurinn er svokallað short track, þar sem farinn er hringur sem er ekki ósvipaður hringnum sem er notaður í tímatökunni, og er um 2km að lengd. Elite karlaflokkurinn fer 5 hringi sem gerir ekki nema um 25 mínútna keppni fyrir fremstu menn. Hér eru líka tímabónusar þannig að ef heildarkeppnin er tæp milli fremstu manna má reikna með hörðum sprettum miðað við stutta keppni.

Ég ákvað að skella mér, þar sem þetta tímabil er einskonar undirbúningstímabil fyrir stórmótin sem framundan eru, World Cup í Tékklandi um miðjann Maí, og Smáþjóðaleikana í byrjun Júní. Sumar keppnir virka vel sem æfing, en eru líka frábærar til að meta ástand og form. Ég hafði hinsvegar mestann áhuga á stigunum sem gætu fengist í þessarri keppni, en í S1 keppnum eru stig gefin upp í 34.sæti. Með mér í ferðinni voru Gústaf og Helgi Olsen, helstu æfingafélagarnir í Danmörku. Við keyrðum alla leið og gistum á fínu hóteli rétt hjá brautinni.

Vikan fram að keppni var þó ekki sú besta, því miður. Eftir frábærann árangur síðustu 2 helgar, og formið í góðu standi, var ég tilbúinn í æfingaálag vikunnar. Sú tilfinning entist ekki lengi því í byrjun vikunnar byrjaði ég að finna fyrir óþægindum í hálsi, máttleysi á hjólinu, og mér leið eins og ég væri ekkert að jafna mig eftir átök síðasta Sunnudags. Mig grunaði að ég væri að ná mér í einhver veikindi en hélt þó áfram samkvæmt plani, og var harðákveðinn í að sleppa ekki þessarri keppni jafnvel þó heilsan myndi versna fram að helgi. Eins og við mátti búast, þá breyttist hálsbólgan í kvef, og áður en ég vissi af var nefið stíflað, máttleysið orðið verra og erfitt að sofa á næturnar. En ég skellti mér samt í keppni.

Bengt Ove Sannes (Creativity In Action)

Bengt Ove Sannes (Creativity In Action)

Dagur 1 var ekki sá besti, en eftir langt ferðalag frá Danmörku vorum við ekki mættir á keppnisstað fyrr en um 1klst fyrir start, og fengum uþb 20 mínútur af æfingum í brautinni. Það mætti segja að sú brautarskoðun hafi verið ábótavant, og það kom skýrt fram í keppninni. Ég tók á því eins og ég gat, en þar sem ég var ekki með allar beygjur á hreinu gat ég ekki annað en haldið pínulítið aftur af mér. Ég endaði 52. af 60 keppendum, og þar með var startröðin fyrir aðalviðburð helgarinnar, daginn eftir, alveg farin í ruslið. Beint í pizzu og svo á hótel að gera allt klárt fyrir morgundaginn.

Dagur 2 hefði getað verið mun verri. Tókum daginn snemma með öflugum morgunmat, 3 tímum fyrir start, og hjóluðum upp í hæðina sem keppnin var haldin á. Eftir 3 hringi í brautinni var komin ágætis tilfinning fyrir tæknilegum köflum, og allt klárt eftir nokkra góða spretti á malbiki til að gera líkamann tilbúinn. Ég var settur á öftstu röð, kunnuglegur staður frá stórmótum, en ekki sá staður sem mér fannst ég eiga skilið að vera á. Á fyrsta hring er alltaf umferðaröngþveiti, og oftar en einusinni þurfti að stoppa, setja annan fótinn niður, og reyna svo að ryðjast í gegn um mannfjöldann, þegar brautin varð þröng og færri komust að en vildu. Á 6 hringjum tókst mér þó á einhvern hátt að vinna mig upp, og þrátt fyrir stöðugann hósta og erfiðleika með að drekka og troða í mig gelum, þá tíndi ég upp hina og þessa andstæðinga alveg fram að síðasta hring, en síðasta manni náði ég í síðustu beygjunni. Ég endaði í 30.sæti af 58, sem ég get ekki kvartað yfir, miðað við ástand og aðstæður.

Dagur 3 hefði mátt vera betri. Eftir 2 daga var ég í 30.sæti í heildarkeppninni, sem verður að segjast að var betra en ég bjóst við, en mér leið ekki sem best þessa helgi, hvort sem það var á hjólinu, eða ekki. Mér fannst tilvalið að gera mitt besta til að ná að hanga í top 30, til að krækja mér í nokkur stig sem gætu gagnast seinna í sumar. Startið var hratt eins og við mátti búast í svona stuttri keppni, en mér tókst að hanga um miðjann hóp eftir fyrstu brekku. Á fyrstu 2 hringjunum vann ég mig upp um nokkur sæti og var á þægilegum stað til að enda í stigasæti, og var alveg til í að halda mér bara þarna án þess að gera of mikið. Kvefið tók hressilega á mér sem sást best á púlsinum, sem var óvenju rólegur yfir keppnina, merki um að líkaminn sé ekki í standi til að taka svona á því. Í lok 3.hrings lenti ég þó í óhappi, skellti afturdekkinu full harkalega í grjót, en tók ekki eftir neinu eftirá, þannig að ég hélt bara áfram inn í 4.hring. 2 mínútum síðar hvarf allt loft úr afturdekkinu, þannig að ég komst ekki lengra. Keppnin var ótrúlega stutt, aðeins 1 og hálfur hringur eftir, þannig að auka gjarðir og hjálp í drykkjarstöðum hefði ekki breytt neinu, tíminn sem ég þurfti að ná var horfinn og áður en ég vissi af voru allir keppendur komnir framhjá mér. Ég labbaði þá bara til baka og fékk þannig hið afskaplega leiðinlega DNF (did not finish) í kladdann. Gengur betur næst.

Comments

comments