Keppnissumarið 2017 er búið. 3.árið í röð sem ég get hef getað litið á hjólreiðar sem atvinnugrein, og beitt mér af fullu afli til þess að ná sem lengst í keppnishjólreiðum.

Það er magnað að fá tækifæri til að hugsa og gera allt tengt hjólum í svona langann tíma. Að fá að afreka hluti eins og að taka þátt í heimsmeistaramótum, evrópumeistaramótum og heimsbikarmótum. Að standa á sömu ráslínu og bestu fjallahjóla og cyclocross keppendur í heiminum. Að vera fagnað sem Íslending, keppandi á stigi í sportinu sem enginn Íslendingur hefur sést á áður. Að búa til ómetanlegar minningar fyrir framtíðina.

Það fylgja þessu ótal fórnir, og það tekur sinn toll að frysta allt annað í lífinu til að uppfylla stærsta drauminn. Keppnishjólreiðar, sérstaklega með erlenda búsetu, getur verið einmanalegt líf á köflum, og manni getur fundist maður vera að missa af vinum og fjölskyldu á meðan æfingar og keppnir taka forgang. Þetta er réttlætanlegur kostnaður þegar góðum árangri er náð, og tækifærin sem bjóðast fullnýtt, sem mér finnst ég hafa gert undanfarin ár.

Mér finnst þó mikilvægt að taka fram að þetta er ekki eins manns verkefni. Án fjárhagslegs stuðnings frá Novator og góðum vinum væri ekkert af þessu hægt, en áður en ég náði svona langt þurfti að byrja á því að leggja grunninn, í samstarfi við vini og fyrirtæki sem sjá tækifæri í samstarfi. Ég mun alla ævi vera þakklátur fyrir þá aðstoð sem ég hef fengið, styrkina sem hafa haldið mér á lofti, og stuðning vina og fjölskyldu.

Stór munur á þessu ári og árinu áður er hversu mikinn tíma fjallahjólið fékk, bæði á æfingum og í keppnum. Ég skilgreini mig sem fjallahjólara, þannig að það er eðlilegt að ég geri meira af því heldur en öðru. Ólíkt fyrstu árunum í sportinu, þegar ég tók þátt í nokkurnveginn öllu sem bauðst, þá hefur ákveðin sérhæfing fylgt því að klifra á hærra stig í alþjóðlegum keppnum.

Bikarmótin í fjallahjólum voru aðeins 3 talsins, en þó var gaman að geta mætt í þau öll, vel skipulögð af HFR og Tind. Upp úr stendur ný braut á Hvaleyrarvatni, skemmtilega krefjandi braut sem líkist brautum sem finna má erlendis.

RB Classic var merkileg keppni, en þrátt fyrir að hafa mætt til leiks í góðu formi 2014 og 2015, hafði mér ekki enn tekist að gera allt rétt í keppni þar sem keppnin getur endað á hverri sekúndu vegna erfiðrar brautar. Í ár gekk allt upp og ég stóð uppi sem sigurvegari, feginn að bæta þessarri keppni við safnið. Þetta er sennilega uppáhalds götuhjólakeppnin mín á Íslandi, að hluta til vegna þess að vegalengdin hentar mér, en helst vegna þess að brautin er byggð á „classic“ keppnunum í Belgíu og Hollandi, þar sem holóttir vegir og hellusteinar ráða ríkjum og láta keppnina snúast um meira en að hjóla hratt og í góðum hóp.

WOW Cyclothon stendur uppi sem hápunktur sumarsins í Íslenskum keppnum. Ég fékk tækifæri til að taka þátt með góðum vinum og spennandi útlendingum fyrir lið CCP. Með samstarfi við Zwift liðið sigraði liðið mitt eftir frábæra keppni. Það er eitthvað magnað við þessa keppni sem dregur mann að henni á hverju ári, en þetta ár er sennilega það besta hingað til.

Íslandsmeistaramótin í fjallahjólreiðum (ólympískum og maraþon) voru spennandi í ár, þökk sé góðri samkeppni frá Hafsteini sem virðist ætla að vera í góðu formi alla ævi. Vesturgatan hefur aldrei verið jafn góð, en ólíkt fyrra ári þar sem ég hjólaði alla leið einn, var keppnin þetta árið töluvert harðari og spennan entist alveg fram að lokametrunum. Sama gildir um ólympísku keppnina, ég leiddi keppnina en var aldrei með nógu öruggt forskot til að geta slakað á, þannig að ég þurfti að setja allt sem ég átti í þetta. Báðir titlarnir voru þó endurnýjaðir, sem gerir góða hluti fyrir mig í UCI keppnum erlendis, þökk sé stigunum sem þessar keppnir gefa.

Ferðalögin til Íslands eru stundum löng og gefa góðann tíma til að heilsa upp á sem flesta og njóta heimalandsins, en flestar eru þær þó heldur stuttar. Það gerir það enn verðmætara að heilsa upp á vini mína í Kríu, grípa góðann mat á Saffran, eða fylla á bensíntankinn fyrir keppnir sumarsins hjá Hreysti. Reglulegar heimsóknir til Iron viking fyrir Compressport vörur, og að heilsa upp á Rikka í Garmin búðinni, og ævinlega skemmtilegt spjall við Ævar á Slippnum á meðan hann forðar mér frá hellisbúa lúkkinu. Ferðalagið sjálft er í boði WOW air, sem hafa aðstoðað mig með ferðalögin frá upphafi. Í ár bættist við Skoda á Íslandi, eftir frábært samstarf við Skoda liðið sem ég keppti með í WOW Cyclothon árið 2016, og ég gæti ekki verið ánægðari með það sem við höfum gert og ætlum okkur saman í framtíðinni.

Eins og sjá má er listinn af stuðningsmönnum og styrktaraðilum langur og öflugur. Þetta er eina leiðin til að ná langt í sporti sem gengur á einhverju sem enskumælendur myndu kalla „grit“. Eins konar þörf fyrir að standa upp aftur eftir hvert áfall eða mistök.

Ef ég er ekki að gera þetta fyrir sjálfann mig, eða þá sem styðja mig og búast við góðum árangri, þá veit ég ekki afhverju ég er að þessu. Draumurinn er skýr: að ná eins langt og ég get, með þann tíma sem mér er gefinn, og þau tækifæri sem mér bjóðast. Þetta er gluggi sem lokast hægt og rólega, og ef maður stekkur ekki í gegn núna, þá verður það ekki gert seinna.

Takk allir fyrir mig í sumar. Takk fyrir að koma út að hjóla með mér, skoða brautir og blaðra um nýjustu græjurnar. Takk allir sem ég keppti við og veittu mér samkeppni. Takk fyrir að koma með í keppnisferðir og aðstoða mig með allt sem lætur mér líða eins og ég geti fókusað á eitt: að hjóla hratt. Takk fyrir að hafa trú á mér sem íþróttamanni, að líta upp til mín sem fyrirmynd, og leyfa mér að gefa af þeirri reynslu sem ég hef safnað. Takk fyrir að draga mig niður á jörðina þegar sjálfið nær aðeins of háum hæðum, takk fyrir að minna mig á afhverju ég er að þessu, og takk fyrir að hvetja mig áfram.

Comments

comments