Ég hef prufað bæði að vera með einkaþjálfara og reyna að skipuleggja sjálfann mig í æfingum og keppnum. Það getur verið ansi misjafnt hvernig maður skilgreinir “einkaþjálfara”, oftast fer það eftir kostnaði og metnaði hjá báðum aðilum.

Einfaldasta formið á einkaþjálfun að mínu mati er að hafa einhvern sem hefur góða þekkingu og reynslu, sem setur saman mánaðarlegt, eða vikulegt, æfingaplan. Planið byggir á almennri þekkingu um hvaða æfingar henta hverju sinni, og byggir á tímabili, tegund hjólara (götuhjólari, fjallahjólari, ofl) og markmiðum eins og keppnum eða stórum viðburðum.
Flóknasta formið, af því sem ég þekki, er einhver sem sér um allt sem tengist æfingum og keppnum, frá A til Ö. Æfingaplanið er sérhannað fyrir tegund hjólara, og þá mun nákvæmar (götuhjólari er sprettari eða klifrari? fjallahjólari er maraþon eða ólympísk týpa?), og miðar við power mælingar, greiningu á veikleikum og styrkleikum, og er sett undir smásjá þannig að hver dagur fær mikla athygli. Keppnisplanið er búið til í samræmi við þetta, þjálfarinn hefur reynslu af hvaða keppnir henta og hverjar ekki, og hvernig er best að raða upp svokölluðum “A-keppnum, B-keppnum og C-keppnum”. Álagspróf eru gerð reglulega til að athuga þróun á formi og fylgjast með því að æfingar séu að gera það sem þær eiga að gera.

En hvað er gott við að hafa þjálfara, hvað græðir maður mest af því, og hvað af þessu sem þjálfarinn býður upp á er hægt að leysa án hans?

Jú, þjálfarinn býr yfir ótrúlega miklu magni af reynslu og þekkingu. Hann hefur mögulega lesið allar bækurnar, greinarnar og viðtölin um æfingahugmyndir nútímans, en er það nóg?
Ég sé fyrir mér tvær tegundir af þjálfurum.

Annarsvegar sá sem hefur, jú, lesið allt um allar gerðir af æfingahugmyndafræðum, hefur lokið við þjálfunarnámskeiðin og getur þulið upp öll helstu hugtökin eins og TSS, NP, w’ balance, VAM, CTL, TSB ofl ofl. Hann þekkir þær pælingar sem eru gamaldags og hafa verið gerðar úreldar, og þekkir allar nýjustu aðferðirnar.

Hinsvegar er sá sem hefur sjálfur verið hinum megin við borðið, sem afreksíþróttamaður, og á að baki mörg ár af ótrúlega erfiðum æfingavetrum, tugi sigra, ósigra, og titla. Hann hefur farið í gegn um háu punktana og lágu punktana sem allir íþróttamenn upplifa, og hefur eigin reynslu af því að vera með þjálfara.

Persónulega myndi ég velja þann síðarnefnda. Að mínu mati skiptir bókaþekking gríðarlega miklu máli, og er grunnurinn af því að geta veitt ráðgjöf í æfingum, og að geta greint það sem vantar upp á til að íþróttamaðurinn geti orðið sterkari og betri. En það sem gerir þjálfarann enn betri er að hafa persónulega reynslu af því sem íþróttamaðurinn, sem hann er að aðstoða, er að ganga í gegn um. Það skiptir svo miklu máli að geta séð litlu smáatriðin sem eru að valda vandræðum, og sjást ekki á Strava eða Trainingpeaks. Það er svo margt sem íþróttamaðurinn sér sem þjálfarinn sér ekki, eins og andlega hliðin sem snýr að því hvernig er best að undirbúa sig fyrir stórmót, að takast á við aðra keppendur í miðri keppni, og að gleyma ekki til hvers maður er að þessu öllu.

Það sem mér finnst vera best við að hafa þjálfara er að taka af sjálfum mér ábyrgðina á því að búa til plan og fylgja því. Það hljómar kannski ekki vel, en staðreyndin er sú að það er auðveldara að svíkja sjálfann sig. Kannski er 4 tíma æfing á föstudaginn, sem inniheldur samtals um 30 mínútur af interval æfingum yfir þröskuld. Veðurspáin lítur vel út en þegar kemur að æfingunni er veðrið skelfilegt og aðstæður til æfinga ekki sem bestar. Hausinn fer í mínus, mann langar ekki að klæða sig í öll vetrarfötin og leggja af stað út í kuldann, og vera þar í ekki 1,2 eða 3, heldur 4 klukkutíma. Eftir tæpa 2 tíma er komið að interval æfingum og maður segir við sjálfann sig að það sé ekkert voðalega sniðugt að taka svona mikið á því í dag, líkaminn er þreyttur og það eru erfiðar æfingar um helgina. Það er kannski betra að stytta æfinguna til að forðast ofþjálfun og taka bara meira á því næst?
Þarna, fyrir mér, er þetta spurning um að vera góður við sjálfann sig og rúlla heim, sannfærður um að þetta hafi verið rökrétt ákvörðun.
En hvað ef æfingin var skipulögð af einkaþjálfaranum? Sá sem eyðir tíma í að setja saman plönin, spjallar við þig um árangurinn og framhaldið, og fær borgað fyrir það? Það er erfitt að óhlýðnast honum, þegar maður kemur heim fær maður skilaboð frá þjálfaranum, “afhverju kláraðiru ekki æfinguna í dag?”, mórallinn leggst yfir mann og manni líður eins og krakka í skóla sem skilaði ekki heimavinnunni.

Með góðri samsetningu af aga, metnaði, og vilja til að læra, er hægt að sjá um æfingarnar án aðstoðar. Eftir 3 ár með einkaþjálfa, sem gerði frábæra hluti fyrir mig og kom mér á “næsta level”, hef ég ákveðið að prufa að þjálfa sjálfann mig. Undanfarin 2 ár hef ég aðstoðað hina og þessa á Íslandi við æfingar og keppnisundirbúning, með góðum árangri. Ég hef meiri áhuga en mig grunaði á því að þjálfa og gefa af mér, en með tímanum hefur aukist sú tilfinning fyrir því að það sé ákveðin skylda að gefa af þeirri reynslu sem ég hef verið heppinn að geta safnað með því að keppa á atvinnumannastigi í hjólreiðum.

Það er endalaust hægt að lesa og læra um þessa hluti, svo lengi sem áhuginn er til staðar. Ekki gleyma þó að hafa gaman af þessu, stundum eru frjálsu, óskipulögðu dagarnir, bestu dagarnir. Hvort sem þú ert byrjandi eða lengra kominn, þá er mín besta ráðlegging einföld: vertu alltaf með einhvern betri/sterkari/sneggri fyrir framan þig eða með þér á æfingum. Spurðu þá sem hafa náð lengra en þú, út í allt milli himins og jarðar, oftast finnst þeim gaman að hjálpa til og gefa ráð.

Comments

comments