Ég fór á heimsmeistaramót í hjólreiðum í fjórða skiptið síðustu helgi, og það var gott bland af gamani, erfiðleikum og drullu. Ferðalagið hófst á fimmtudegi með flugi eldsnemma frá Kaupmannahöfn. Vaknaði “eldhress” kl 5 um morgun, skellti mér í klassíska 20 mín labbið út á lestarstöð með hjólatösku, venjulega ferðatösku og handfarangur, tók lestina og metroið út á völl sem tekur um 1klst og rauk beint í flugvallar rútínuna. Eftir 3 ár í útlöndum og stanslaust brölt með hjólatöskuna verður þetta ekki gamalt!

Eftir örstutt flug til Eindhoven í Hollandi hitti ég ferðafélagana sem ég hafði þó ekki séð fyrr en eftir flugið, Gústaf og mömmu hans Fríðu. Þarna samanstóð Íslenska landsliðið í cyclocross, þetta árið. Við drifum okkur á skrifstofu Hertz og náðum í bílinn okkar, eftir að starfsmaðurinn var búinn að spyrja mig út í allt milli himins og jarðar um ferðalag til Íslands, muninn á Hollandi og Íslandi ofl ofl. Við rúntuðum þaðan til Valkenburg, sem allir sem fylgjast reglulega með cyclocross ættu að kannast við, en þarna hefur verið haldið World Cup í cyclocross nánast árlega í langann tíma, og staðurinn einnig þekktur fyrir þennan fína hól sem kallast Cauberg, séður í Amstel Gold Race, og þegar Philippe Gilbert varð heimsmeistari í götuhjólreiðum árið 2012.

Hótelstjórinn á Hotel Lahaye tók á móti okkur og var sá allra hressasti. Kallinn, sem var á besta aldri og með hressari Hollendingum sem ég hef hitt, fer rakleiðis á topplistann yfir hótelstjóra eftir þessa ferð. Hann var spenntur fyrir keppninni, sagði okkur frá hinu og þessu sem tengdist hjólasögu bæjarins, fussaði ekkert yfir okkur þegar við gengum um á skítugum skónum, þrifum hjólin með garðslöngunni hans og var alltaf brosandi. Hótelið var í um 3 km fjarlægð frá brautinni sem gerði lífið mjög auðvelt fyrir okkur.

 

Uppáhalds veitingastaðurinn okkar, sem farið var á, á hverjum degi, er De Holle Eik. Lítill bar/veitingastaður í göngufjarlægð frá hótelinu og með einfalt og gott spagetti bolognese, staðurinn gat ekki klikkað. Hjónin sem eiga staðin voru líka mestu snillingar og voru hressari með hverjum deginum sem við mættum í hádegismat.

Fyrsta æfing á brautinni hófst um leið og við kláruðum að setja saman hjólin, allir mjög hressir eftir ferðalagið (kaldhæðnin í botni), og klárir í brautarskoðun. Það var fínt að skoða brautina á fimmtudegi þar sem fæstir voru mættir á staðinn og ekki mikil umferð í brautinni. Það er smá munur á því að skoða braut í litlum keppnum þar sem fólk rúllar bara um og hmm-ar út í loftið, á stórmótunum koma Belgísku og Hollensku liðin, ásamt öðrum, eins og lestir og fljúga brautina með tilheyrandi hrópum og köllum ef einhverjum dettur í hug að vera fyrir. Brautin féll í góðann jarðveg hjá okkur Gústafi um leið og við rúlluðum hana, en fyrsta tilfinning var þó hversu þung hún var og nánast ómögulegt að rúlla hana án þess að setja smá kraft í það.

Ég lenti í vandræðum með keðjuna á hjólinu sem virtist ekki hafa neinn áhuga á að sitja kjurr á tannhjólinu, og það fór heldur betur með brautarskoðunina mína, en sem betur fer náði Gústaf að nýta tímann og fara nokkra hringi. Eftir brautarskoðunina var einfalda rútínan sett í gang: hjólin þrifin (sem tók óratíma því einhverjum fannst sniðugt að hafa bara eina garðslöngu fyrir alla keppendur), beint á hótel í sturtu, og út að finna kvöldmat. Það sofnuðu allir mjög snemma þann daginn, jafnvel á skala Gústafs og mömmu hans, sem passar vægast sagt ekki við minn, sem B- manneskja.

Föstudagurinn var ekki mjög frábrugðinn deginum áður, brautarskoðun og æfingar í brautinni, ásamt viðhaldi á græjum. Fríða fór á alla fundina hjá UCI, sótti keppnisgögn, spurði spurninga og spjallaði við liðsstjóra Norska landsliðsins, sem var í sjokki yfir ansi áhugaverðri staðreynd: Ísland var með fleiri keppendur heldur en Noregur. Við Gústaf sáum augljósann mun á brautinni milli daga eftir að nokkrir höfðu hjólað hana. Allir skurðir, eða rákir, í brautinni voru dýpri, drullan mýkri og sleipari, og allur afgangur af grasi var orðinn að drullu. Það var ljóst að brautin yrði handónýt á sunnudeginum, og stefndi allt í fjöruga keppni.

Við eyddum laugardeginum í að horfa á aðrar keppnir í sjónvarpinu eða á keppnisstað, en þá voru Junior karlar, U23 konur og Elite konur að keppa. Það var gaman að sjá hina flokkana keppa, og það var augljóst að þetta var ein erfiðasta heimsmeistarakeppni síðari ára, eitthvað sem margar sleggjur í sportinu tóku undir og lýstu yfir á félagsmiðlum. Við Gústaf tókum létta æfingu með nokkrum “leg openers” til að vera í topp standi fyrir okkar keppni.

Sunnudagurinn rann upp og við klár með planið. Gústaf var að keppa kl 11 og ég kl 15, sem þýddi að það var hægt að gera allt vel án þess að lenda í tímaþröng á milli keppna. Ég skipti um hatt og gerðist aðstoðarmaður í nokkra klukkutíma á meðan Gústaf gerði sig klárann fyrir keppnina. Við notum hjól hvors annars sem varahjól, en vegna þess að ég var í vandræðum með keðjuna mína þá var það ekki besti kostur, en var þó til staðar. Stuttu fyrir start var ég mættur í pittinn með hjólið, og Fríða var í startinu með Gústaf til að taka af honum jakkann og annað úr upphitun. Keppnin hans fór af stað og á meðan við fylgdumst með Eli Iserbyt jarða samkeppnina, Joris Nieuwenhuis skipta um skó og Tom Pidcock valda Breska heimsveldinu vonbrigðum, stóð Gústaf sig vel í baráttu við tvo Ástrali, ekki langt á eftir nokkrum strákum frá Danmörku. Hann átti góða keppni og var bara ánægður með sig eftirá.

Eftir þetta var kominn tími fyrir mig að kveikja á keppnisskapinu. Að sjálfsögðu fór ég beint á De Holle Eik í spagettí, áður en ég græjaði allt fyrir keppnina. Fullklæddur og klár í slaginn fór ég að hita upp, á meðan Gústaf tók við hlutverki aðstoðarmanns og Fríða fór og beið eftir mér í startinu. Þetta var gott skipulag hjá okkur og ekkert klikkaði, sem róar taugarnar og hjálpar manni að fókusa á keppnina.

Keppnin mín fór af stað með tilheyrandi látum, en ég ákvað að vera sniðugur og taka ekki þátt í látunum, verandi á öftustu startröð. Ég fór rólega af stað, setti lítinn kraft í að elta hópinn og uppskar nokkrum beygjum síðar þegar ég náði öllum aftur í umferðaröngþveitinu sem verður aftast í svona stórum keppnum. Það er vægast sagt erfitt að ná fram úr hópnum frá öftustu röð, þannig að það þótti skynsamlegt að bíða eftir að dreifðist úr hópnum. Eins og mátti búast við var brautin í skelfilegu ástandi, og samkvæmt mínum óvísindalegu ágiskunum hef ég sennilega hlaupið um 70% af brautinni, með hjólið á öxlinni. Við tók slagur við keppendur frá Japan og Írlandi, en ég átti nokkuð góðann fyrsta hring fyrir utan keðjuna sem hoppaði af og kostaði mig um 30 sek. Ég hélt áfram og barðist til síðustu mínútu, flaug á hausinn 3-4 sinnum og var alveg í klessu þarna, en ég er alveg sannfærður um að ég hef aldrei farið úr fullum bensíntank, niður á bensínljósið, á jafn stuttum tíma. Eftir 3 hringi var ég nokkrum metrum fyrir aftan þremeningana, en við vorum allir teknir úr keppni með hinni svokölluðu 80% reglu og þar var því lokið. Ég verð að viðurkenna, ég hef aldrei verið svona feginn að vera dreginn úr keppni.

Það var ótrúlega gaman að koma beint úr keppni, drulluþreyttur og ógeðslegur, og lenda í merkilega stöðugu streymi af fólki sem vildi taka myndir með mér, taka í höndina á mér og óska mér til hamingju með keppnina. Þetta var óvenju mikið, en ég tók líka eftir því að á meðan keppnin stóð yfir þá hættu ekki hrópin og köllin: “Iceland!”, “Hoo!”, “Go ICE!” og svo framvegis.

Þetta var skemmtileg upplifun, ekki laus við uppákomur og smá stress, en almennt séð góð ferð með góðum árangri. Ég get ekki séð að meira hefði verið hægt að gera þarna miðað við aðstæður og styrk liðsins. Takk allir sem fylgdust með, hvöttu okkur áfram og sýndu okkur að við héldum uppi heiðri Íslands í stærstu cyclocross keppni í heiminum.

Comments

comments