Author: ingvar (page 3 of 6)

Íslandsmeistaramótið í götuhjólreiðum

Það eru 2 ár síðan ég tapaði síðast Íslandsmeistaramóti, þannig að ég gat verið vonsvikinn eða brjálaður eftir ósigur dagsins. En ég er glaður yfir því að nýtt nafn sigraði í dag. Anton Örn á sigurinn fyllilega skilinn, hafandi verið mjög virkur í sportinu í Danmörku, keppandi með liði í A-flokk og að ná árangri sem fæstir Íslendingar gætu jafnað, á erlendri grundu.

Ég tapaði keppninni á því að stoppa til að pissa. Það hljómar ekki jafn dramatískt þegar það er sett í eina setningu, en það var erfið staða, verandi í spreng frá því þegar 30 mín voru liðnar, og það voru læti eftir að ég hafði lokið klósettförinni. Hefði ég sigrað keppnina án stoppsins? Ekkert endilega, en líkurnar hefðu verið hærri. Ég stoppaði þegar um 50km voru búnir af 160, eftir að stórvinur minn og fyrirmynd, Elías Níelsson, fórnaði heilmiklu til að aðstoða mig í verkefninu. Það gekk eitthvað illa þannig að ég sendi hann áfram, þar sem hann átti í vændum gríðarlega eftirför, en við höfðum báðir misst af hópnum, á meðan ég stoppaði til að klára verkið. Elli, ég biðst afsökunar á þessu, og bið þig um að rifja þetta atvik upp næst þegar mér dettur í hug að gera þetta aftur!

Keppnin hafði verið afskaplega róleg fram að þessu, en hópurinn var mjög stór, og í logninu og flatri braut, var mjög erfitt fyrir lítinn hóp að slíta sig frá restinni. Það mætti segja að rólegheitin hafi gefið mér þá hugmynd að pissustoppið myndi ganga upp, en sennilega var ég að stórlega ofmeta getu mína til að ná hópnum aftur eftir þetta. Það vill svo til að þegar ég stoppaði þá gáfu sterkustu leikmennirnir í, og slitu sig frá hópnum, en þetta voru þeir sem röðuðu sér í fremstu sætin í lok dags. Sumir vildu meina að þetta hafi verið viljandi tímasett þar sem ég var ekki í stöðu til að bregðast við, en ég á erfitt með að trúa því upp á menn sem ég hef keppt við í góðu í mörg ár.

Eftir stoppið gaf ég hressilega í til að reyna að ná hópnum. Ég var ekki lengi að sjá hvað hafði gerst, en fyrir aftan fremstu menn voru komnir 2 hópar, sem höfðu myndast eftir lætin, þar sem allir reyna að hanga í, en ekki ná því allir, og þá myndast minni hópar. Ég keyrði framhjá hvorum hópnum fyrir sig, hafandi litla trú á að ég gæti fengið þá hjálp þar, sem ég þurfti til að ná fremstu mönnum, bæði vegna þess að þar voru menn sem voru í sama liði og einhverjir af þeim fremstu, og það þurfti eitthvað af hestöflum til að ná þeim. Þegar sterkustu mennirnir eru farnir, er erfitt að fá aðstoð til að ná þeim, því miður.

Við tók uþb klukkutími af hörkuhjólreiðum, þar sem ég ekki aðeins setti mitt besta 20 mín (411w) afl, heldur einnig 5 mín (465w) og 60 mín (374w) afl. Það má segja að ég hafi sett allt í þetta. Fljótlega fór ég að taka tímann á meðan ég sá fremstu menn, en mér sýndist þeir vera 4-6, sem passaði. 40 sek var tíminn á milli, en það vill svo skemmtilega til að stoppið tók 38 sek. Þetta er heilmikill tími þegar kemur að götuhjólreiðum, og ég verð að játa að þrátt fyrir stórt sjálfsálit og mikla trú á eigin getu, var ég ekki sá bjartsýnasti þegar kom að því að hjóla hraðar en hópur sem innihélt meðal annarra Hafstein Ægi, Bjarna Garðar, Anton, og Óskar, 4 af þeim bestu á landinu. Ég reyndi mitt besta og get verið ánægður með að hafa haldið bilinu í 40 sek í heilann klukkutíma, eða þar til ég var að verða bensínlaus og sá lítið annað í stöðunni en að gefast upp á eltingaleiknum, og einbeita mér að því að ná sem mestu út úr því sem ég hafði.

Þegar kom að stærstu brekkunni í brautinni, Vatnaleiðinni, var ég búinn að hinkra í smá stund eftir næsta hóp á eftir mér, sem innihélt topp hjólara á borð við Hákon, Sigga Hansen, Rafael, Ármann, Kristján og Birki Snæ, ásamt fleirum. Við hjóluðum saman upp brekkuna og inn á leiðina í átt að Grundarfirði, þar sem endamarkið stóð. Það var góð samvinna í hópnum fram að síðustu kílómetrunum, en þegar ég tók eftir að menn voru farnir að horfa á hvorn annan og búa til smá stress, ákvað ég að gefa í, með 3km í mark. Ég kláraði einn, 20 sek á undan, í 5.sæti, sem ég get ekki annað en verið ánægður með, eftir erfiðann dag í vinnunni.

Götuhjólreiðar eru ekki mín grein, þannig að ég á auðvelt með að bæta svona keppni í planið á síðustu stundu, vegna þess að það vildi svo heppilega til að fyrir viku síðan var ég á landinu með götuhjól, fyrir WOW Cyclothon, og datt þá í hug að lengja ferðina aðeins fyrir eina keppni. Það er þó alltaf erfitt að tapa keppni, og verður erfiðara eftir því sem maður nær lengra á ferlinum, og býst meir og meir við sigrum. Framundan eru þó Íslandsmeistaramótin sem ég fókusa á, í maraþon og ólympískum fjallahjólreiðum. Ég bíð spenntur eftir þeim verkefnum, og hlakka til að keppa aftur við þá bestu á landinu.

Takk fyrir mig Hjólamenn og HRÍ fyrir vel skipulagða keppni, og sérstakar þakki fá veðurguðirnir fyrir að gefa okkur besta veðrið í dag. Takk Biggi fyrir klikkað lánshjól, David fyrir að vera á svæðinu, takk Ernir og co fyrir fylgdarbílinn, og Rafael fyrir að vera skemmtilegur liðsfélagi!

Smáþjóðaleikarnir 2017

Ég tók þátt í minni fyrstu keppni á erlendri grundu árið 2013, á Smáþjóðaleikunum í Lúxemborg. Það ár var mitt fyrsta sem einn af þeim bestu á Íslandi, ég hafði átt góða byrjun á árinu með því að sigra td. úrtökumótið fyrir valið í landsliðið, sem var haldið í Vífilstaðahlíðinni. Sigur þar þýddi sjálfkrafa val í liðið, og þá var ég búinn að næla mér í þáttökurétt á mitt fyrsta stórmót utan Íslands. Keppnin sjálf fór ekki eins og ég hafði séð fyrir mér, en reynsluleysi felldi mig niður í eitt af síðustu sætunum þegar upp var staðið. En ég kynntist góðu fólki þarna, öðlaðist mikilvæga reynslu, og sennilega það mikilvægasta: ég fékk að skygnast fyrir um erfiðleikastigið í þessarri íþrótt utan Íslands.

4 árum síðar (hjólreiðar voru ekki með þegar leikarnir voru haldnir á Íslandi árið 2015), var kominn tími á að gera aðra tilraun, og sjá hvort ég gæti gert betur eftir að hafa safnað reynslu á síðustu árum, og orðið sterkari sem fjallahjólari. Í fyrra þegar ég byrjaði að velta þessarri keppni fyrir mér, hófst rannsóknarvinnan sem felur í sér að skoða samkeppnina vel, kynna sér aðstæður og mögulega braut sem væri notuð, og skipuleggja æfingar fram að keppni. Mín fyrsta spurning var hvar ég stæði gegn fyrrverandi sigurvegara keppninnar, Christian Helmig frá Lúxemborg. Ég hafði keppt oftar en einu sinni með honum í fyrra, og var yfirleitt á svipuðum stað og hann í keppnum, auk þess að hann tók þátt í Glacier 360 keppninni hérna á Íslandi með mér, þar sem við stóðum nokkuð jafnir. Þetta var jákvætt merki og eitthvað sem ég gat notað til að sannfæra mig um að ég ætti góða möguleika. En margt getur gerst á 4 árum, yngri hjólarar orðið sterkari og ólíklegir keppendur, ég þar á meðal, gætu komið á óvart. Ég ákvað þó að nota staðreyndirnar til að setja háleitt markmið, að sigra þessa keppni.

Keppnisvikan hófst með brautarskoðun, en fyrsta hugsun þegar komið var í brautina var að þetta yrði keppni fyrir klifrarana. Brautin, sem er um 3.5km löng með uþb 150m hækkun, inniheldur 4 brött klifur, og 3 brattar niðurbrekkur með tilheyrandi hólum, hæðum, trjábrúm, grjóti og skemmtilegum beygjum. Þrátt fyrir tæknilega kafla var ljóst að keppnin yrði ráðin með góðu formi, en ekki góðri tæknikunnáttu, vegna þess hversu brött og erfið klifrin eru. En brautin var ekki eina atriðið sem skipti máli. Hitastigið yfir vikuna fór varla undir 25 gráður, og á köflum var vel yfir 30 stiga hiti, með ekki ský á himni og lítinn vind. Brautin er í þéttu skóglendi þar sem vindurinn hreyfist ekki, og allt stefndi í vandamál fyrir okkur Íslendingana, sem erum alls ekki gerð fyrir svona aðstæður. Þrátt fyrir allt þá leið mér vel í brautinni. Ég er mjög léttur og held mikið upp á klifur, þannig að ég gladdist yfir brekkunum, frekar en að vera smeykur við þær. Tæknilegu kaflarnir voru tæklaðir sæmilega vel, þó alltaf megi fara hraðar þegar tími gefst til æfinga. Þarna var þó lykilatriði að spara kraftana eins vel og mögulegt var, til að eiga nóg inni fyrir keppnisdeginum.

Þegar kom að keppni var allt klárt. Fyrsta keppnin í ansi flottum landsliðsbúning, hjólið búið að fara í megrun, 10,08kg á vigtinni góðu, og lappirnar hressar og til í slaginn. Hitinn kom engum á óvart og sólin skein hressilega þannig að leitað var að skuggum og köldu vatni við hvert tækifæri. Ég fékk góða aðstoð frá þjálfurum landsliðsins og umsjónarmönnum hópsins, bæði með köldu vatni til að hella yfir mig reglulega, og góðann sopa af orkudrykk í báðum drykkjarstöðvum sem voru við brautina. Ég fékk ekki að njóta þess að vera númer 2 á keppendalista í styrkleikaröð skv heimlista UCI, heldur var dregið úr hatti startröð keppenda. Ég endaði lengst til vinstri á 2.röð, en hægra megin var aðeins betra aðgengi í stuttum upphafskafla brautarinnar, þannig að ég þurfti að vinna mig hratt upp. 5 hringir í brautinni, sem stefndi í tiltölulega stutta keppni, eða um 70-75 mínútur samkvæmt mínum ágiskunum.

170602-_MG_4316-web-David Robertson

Keppnin fór af stað, og ég var ekki sem best staðsettur en þó framarlega í hópnum þegar komið var inn í brautina. Um leið og fjörið hófst byrjuðu menn að gera mistök, og ég var óheppinn að lenda í því að einn af keppendum San Marino hrasaði beint fyrir framan mig á þröngum kafla, og var lengi að koma sér af stað aftur. Ég komst illa fram úr honum vegna staðsetningar, en á endanum tókst það, fékk meira að segja góða aðstoð frá Bjarka sem kom rétt á eftir mér, og hinkraði aðeins til að hleypa mér af stað. Ég fór strax að vinna mig áfram og eyddi megninu af fyrsta hring í að taka fram úr mönnum, sem gekk misvel þar sem ekki voru alltaf aðstæður til framúraksturs. Eftir fyrsta hring var ég búinn að vinna mig úr 13.sæti upp í 4.sæti, og sá ennþá í fremstu menn sem voru 3 saman í hóp, uþb 30 sek á undan mér.

Næstu 3 hringir liðu hratt hjá, allt gekk vel og ég gerði mitt allra besta til að vinna upp tíma í klifrum og að fara örugglega niður tæknilegu kaflana. Á meðan ég bjó til hátt í 5 mínútna forskot á 5.sæti, fjarlægðist Sören Nissen, sem var búinn að vinna sig upp í 1.sæti og hafði hjólað í burtu frá Andreas Miltiadis frá Kýpur, og Guy Diaz frá Andorra. Þó byrjaði ég að minnka bilið yfir í Guy þegar liðið var á 4.hring, en aðeins einn hringur eftir þýddi að ég þurfti að gera allt rétt til að ná honum á lokametrunum. Eftir fyrsta klifrið af fjórum heyrði ég að ég var að vinna á hann, og hélt mínu striki án þess að taka neinar áhættur. Þegar ég var á leiðinni í bröttustu brekkuna í brautinni, þar sem hvert tré var vafið púðum til að grípa óheppna hjólara, og netum til að koma í veg fyrir að menn húrruðu niður alla hæðina og inn í næsta ríki, heyrði ég hvell og fann um leið óþægilega, en kunnuglega tilfinningu. Það hafði hvellsprungið, ekki bara á öðru dekkinu heldur báðum. Ég hoppaði af hjólinu í þvílíkum halla, hafði engann tíma til að hugsa um eigið öryggi en vissi strax að ég væri ekki að fara að laga þetta án aðstoðar. Á ótrúlegann hátt tókst mér að hlaupa niður þessa brekku án þess að fljúga á hausinn, og þá hófst  900 metra hlaup í átt að eina svæðinu í brautinni þar sem leyfilegt var að geyma varahluti, eins og gjarðasettið sem mín beið þar. 8 mínútum og 30 sekúndum síðar mætti ég móður og másandi, og rétti David og Óskari bróður hjólið og sagði að bæði dekkin væru sprungin.

170602-_MG_4351-web-David Robertson

Mér datt aldrei í hug að gefast upp og hætta keppni. Það kom ekki til greina að fá DNF fyrir þessa keppni, eftir alla vinnuna sem ég hef lagt í undirbúninginn fyrir hana. Mér var alveg sama á þessum tímapunkti, um hvaða sæti ég myndi enda í þegar upp væri staðið. Raunhæfi möguleikinn á 3.sæti var horfinn, öruggt 4.sæti var horfið, og lítið var eftir þegar ég komst loksins af stað eftir að skipt hafði verið um dekk á hjólinu. Ég hoppaði aftur af stað og kláraði hringinn, og endaði í 16.sæti af 22 keppendum.

Ég er ekki hræddur við að viðurkenna að mér hefur aldrei liðið svona illa eftir keppni, síðan ég byrjaði í þessarri íþrótt. Mér leið eins og allar þær fórnir sem ég hef gefið fyrir þetta hafi verið til einskis, eins og allt sem hefur flogið fram hjá mér í lífinu á meðan ég er einbeittur á einn hlut, eitt markmið, einn tilgang, væri eitthvað sem ég myndi sjá eftir. Þessi keppni gjörsamlega sigraði mig, og ég brotnaði niður.

Svona keppnir koma og fara, önnur tækifæri bíða og fyrri afrek lifa í minningum sem er gaman að rifja upp. Eftir 2 ár fæ ég tækifæri til að reyna við þetta aftur, og ég veit að ég verð sterkari, sneggri, og tilbúnari en ég var í ár. Ég trúi því að það séu mistök að drífa sig að gleyma svona keppnum, til að halda haus og líta fram á við. Það er alltaf hægt að læra af reynslunni, og það er stundum í lagi að vera óhress yfir mistökum eða óheppni, því maður lærir að meta þau skipti sem allt gengur upp, og þetta kennir manni að takast á við slæmu dagana. Ég veit að ég gerði allt sem ég gat, tölurnar og tilfinningarnar sýna það, og ég veit að ég hefði náð öruggu 4.sæti ef ég hefði ekki lent í óheppni á síðasta hring. Ég komst að því eftirá að áhorfandi hafði kastað glerflösku á þessu svæði, og get ýmindað mér að glerbrotin gætu hafa verið það sem reif dekkin, en það er ekki hægt að vera fullviss um það.

Landsliðið gerði góða hluti í þessarri ferð, og Hjólreiðasamband Íslands sýndi að það er flott framför í afrekshlutanum af þessarri íþrótt. Ég þakka fyrir að hafa verið valinn í liðið og að hafa fengið þetta tækifæri. Næsta skipti sem ég keppi fyrir Ísland verður á Evrópumeistaramótinu í fjallahjólreiðum á Ítalíu, í lok Júlí.

Novator
Kría hjól
SAFFRAN
Hreysti
WOW air
Lauf forks
Garmin búðin
Iron Viking
Tindur
Skoda á Íslandi
Slippurinn hárgreiðslustofa

World Cup – Nove Mesto

Það eru keppnir, og svo eru stórar keppnir. Og svo eru World Cup keppnir. Það er eitthvað við það að taka þátt í stærstu mótaröð í fjallahjólasportinu, eitthvað sem er sambærilegt við WorldTour götuhjólakeppnir, þær stærstu í heiminum, nema á allt annan hátt. Í staðinn fyrir 4-5 tíma götuhjólakeppni með svakalegum liðum, hrikalega flókinni taktík og kröfu um ótrúlegt úthald, fæ ég 90 mínútna keppni þar sem ég þarf að geta hjólað algjörlega í botni frá upphafi til enda, spretta út úr öllum beygjum og vona það besta á leiðinni niður stórhættulegar brekkur. Það sem þessar 2 tegundir af keppnum eiga sameiginlegt er það að þetta er gert meðal bestu keppenda í heiminum.

Fyrsta World Cup keppni ársins var haldin í Nove Mesto na Morave, í Tékklandi. Mjög skemmtilegur staður, og pínulítið öðruvísi en restin af Evrópu, þar sem Tékkland virkar á mann eins og einskonar bland af vestrænni menningu og austur-Evrópu. Keppnisbrautin er þekkt sem sú erfiðasta í sportinu, henni er best lýst sem endalausum trjárótum innan um 6 stuttar og mjög brattar brekkur, með 2 grjótagörðum og einu grjótaklifri. Það sem einkennir hana mest að mínu mati er að það tekur hressilega á að hjóla hana, maður er eiginlega laminn af henni á hverjum hring, og það er engin leið að hjóla einn hring í rólegheitunum. Þetta er klárlega braut sem hentar keppni á þessu stigi.

Þetta var önnur World Cup keppnin mín, en ég átti mína fyrstu tilraun í Lenzerheide, Sviss, í fyrra. Það var ákveðinn bónus að heimsmeistaramótið í ólympískum fjallahjólreiðum var haldið í Nove Mesto í fyrra, í nákvæmlega sömu braut. Þetta gerði lífið einfaldara, og róaði mig helling þegar kom að því að taka fyrstu brautarskoðun, vegna þess að ég var bara að rifja upp gamlar línur og athuga hversu mikið hraðar ég gæti farið, tæplega ári eftir að ég keppti þarna síðast. Ég tók 2 daga af brautarskoðunum þar sem ég stoppaði við alla tæknikaflana og æfði mismunandi línur, sem er mjög mikilvægt vegna þess að í svona erfiðri keppni getur maður lent í því að vera innan um fjölmarga aðra hjólara, og neyðst til að taka aðra línu en þá sem maður æfði. Það var allt klárt fyrir góða keppni, sérstaklega með það í huga að einn af æfingahringjunum var tæplega mínútu hraðari en hraðasti hringurinn hjá mér í fyrra. Mjög jákvætt.

Svona keppni inniheldur alla þá bestu. Nino Schurter, Julien Absalon, Jaroslav Kulhavy, Maxime Marotte, Marco Fontana, og svo mætti lengi telja. Þarna voru allir þeir bestu. Verandi #245 í heiminum þýðir vanalega að ég fæ að starta einhverstaðar um miðju eða framar. Í Danmörku fæ ég vanalega að vera á fremstu röð eða næstfremstu röð. En innan um þvílíkann hóp af topp hjólurum fékk ég startnúmerið #97, af uþb 130 manns, sem segir allt um hversu margir góðir voru á startlistanum. En þetta var samt gott, ég var ekki aftastur, en þegar kom að keppnisdegi voru 120 keppendur staðfestir sem er ótrúlega mikill fjöldi fyrir 4km hring í 90 mínútur.

DSC02830

Keppnin fór af stað með látum, bókstaflega. Ég sprettaði hressilega af stað, rúmlega 1300w fyrir þá sem hafa áhuga á tölum, og komst uþb 20-30 metra áður en ég sá Þjóðverjann fyrir framan mig fljúga á hausinn, og fyrir framan hann sá ég nokkra nú þegar liggjandi á malbikinu. Viðbrögðin mín voru snögg, þó ég segi sjálfur frá, en það var ekki nóg til að koma í veg fyrir að ég fór með framdekkið í hjól Þjóðverjans, læsti framdekkinu og flaug yfir stýrið. Ég lenti nokkurnveginn ofan á hjólinu hans, og sennilega honum sjálfum, og stóð strax upp til að rífa hjólið upp, en það var fast í afturgjörðinni hjá Þjóðverjanum. Eftir smá brölt hljóp ég af stað með hjólið, hoppaði á hnakkinn og beitti gömlu trixi til að ná keðjunni aftur á framtannhjólið (notaði framskiptinn til að leiða keðjuna aftur á réttann stað). Spretturinn var endurtekinn meðal þeirra sem höfðu líka flogið á hausinn, og keppnin var þá hafin á ný.

Fyrsti hringur er svokölluð startlúppa, en vegna þess hve tæknilega erfið brautin er, þá er hættulegt að senda svona stórann hóp beint inn í hana. Þannig að það er farinn malarvegur sem liggur meðfram brautinni, þar til komið er að lokakaflanum, þar sem farið er inn í brautina til að klára hringinn, og svo er næsti hringur farinn í sjálfa brautina. Ég lenti í mikilli umferðarteppu á þessum fyrsta hring, og þurfti að labba nokkra kafla meðal annarra hjólara, í miklu stressi og hamagangi þar sem menn voru mikið að reyna að troðast áfram í staðinn fyrir að bíða í röð. Eftir þetta byrjaði ég að keyra allt í gang fyrir 2.hring af 6, en ég var nokkurnveginn aftastur eftir krassið í startinu.

Á 2.hring byrjaði ég að finna fyrir orkuleysi, og máttleysi í brekkunum. Ólíkt undanförnum keppnum, sem hafa gengið mjög vel, gat ég ekki haldið því álagi sem ég er vanur, og fann strax að eitthvað var að. Ég hélt þó áfram, enda keppnin nýbyrjuð, og mögulega gæti þetta hafa verið byrjunarvandræði sem leystust með tímanum. En ég versnaði bara, og var kominn á það stig að mig langaði að gefast upp og hætta, en eftir smá umhugsun um hvað þetta er ótrúlegt tækifæri að fá að taka þátt í svona keppni, þá gat ég ekki fengið mig til að hætta þarna. Ég var hringaður út á 4 hring eftir uþb 75 mínútur, og endaði í 109.sæti af 126.

DSC02896

Þetta var engann veginn sú útkoma sem ég hafði séð fyrir mér, fyrir keppni. Ég hef unnið menn sem náðu inn í topp 90, og veit að ég átti að geta betur. En eitthvað klikkaði, hvort sem það var undirbúningurinn fyrir keppnina, svefnleysi eða næringarleysi. Þetta er eitthvað sem maður leggur inn í reynslubankann og notar til að læra meira fyrir næstu keppni.

Svona ævintýri eru ómöguleg án stuðnings, og þó ég sjái um mestalla vinnuna sjálfur, þegar kemur að skipulagi, æfingum og keppnum, þá get ég ekki gert þetta einn. Iðunn mín sér um að ég passi upp á mataræðið, taki vítamínin, gleymi ekki hinu og þessu, vakni á réttum tíma, nær í keppnisgögnin og mætir á liðsstjórafundina, rífst við flugfélög og skýst út í búð eftir mat og snarli, og réttir mér brúsann þegar ég þarf hann í miðri keppni.  Svo er ég líka með þennan magnaða hóp af styrktaraðilum:

Novator
Kría hjól
SAFFRAN
Hreysti
WOW air
Lauf forks
Garmin búðin
Iron Viking
Tindur
Skoda á Íslandi
Slippurinn hárgreiðslustofa

Takk fyrir mig!

Rye Terrengsykkelfestival

Áherslurnar fyrir keppnistímabilið, og hvaða keppnir skipta málið hafa breyst ansi mikið undanfarin ár. Það sem áður var, þegar hver einasta keppni var hjóluð í tilraun til sigurs, fær í dag aðeins meiri hugsun og skipulagningu. Það koma A keppnir, eins og UCI C1/C2 keppnir, þar sem stig eru í húfi og mikil samkeppni, og yfirleitt dýrar ferðir í hverja keppni. Svo eru B keppnir, eins og bikarmótin á Íslandi, UCI C3 keppnir og minni keppnir í Norðurlöndunum. Og svo eru sérstöku keppnirnar, A+ keppnir ef svo má segja, World Cup, heimsmeistara og Evrópumót, og Íslandsmeistaramótin. Mér finnst gott að skipta keppnum upp í þessa flokka þegar ég skipulegg tímabilið, því það getur gefið mér góða hugmynd um hvenær allt þarf að ganga upp, og hvenær ég get hugsað keppni sem góða æfingu. Það fylgir heilmikil pressa og álag þegar kemur að stærstu keppnunum, og það getur verið þægilegt að losa aðeins um það þegar maður mætir í keppni sem hefur löngu verið merkt sem B-keppni, og þannig er minna stress, meira verið að njóta, og engin pressa til að ná góðum árangri. Þessi helgi var ein af þeim helgum.

Rye Terrengsykkelfestival er 3 daga keppni, með samanlögðum tíma fyrir lokaúrslit, og er á UCI S1 stigi, sem er næst hæsta stigið fyrir fjöldægrakeppnir í fjallahjólreiðum. Haldin í útjaðri Oslóar, í Noregi, sem er þægilegt fyrir ferðalagið og gistingu. Fyrsti dagurinn er rúmlega 2km tímataka, á sæmilega tæknilegri braut sem inniheldur klifur á malarvegum, rótarkafla sem liggja bæði upp og niður, stökk fram af klettum og nóg af mold og grasi. Tímatakan er hönnuð til að ákveða startröð fyrir 2.dag, og einnig gefa efstu sæti tímabónusa til lokaúrslita. Seinni dagurinn er hefðbundin XCO keppni, 90 mínútur í lengri hring, en brautin er frekar grýtt, og nóg af trjárótum til að gera hlutina spennandi. Þriðji dagurinn er svokallað short track, þar sem farinn er hringur sem er ekki ósvipaður hringnum sem er notaður í tímatökunni, og er um 2km að lengd. Elite karlaflokkurinn fer 5 hringi sem gerir ekki nema um 25 mínútna keppni fyrir fremstu menn. Hér eru líka tímabónusar þannig að ef heildarkeppnin er tæp milli fremstu manna má reikna með hörðum sprettum miðað við stutta keppni.

Ég ákvað að skella mér, þar sem þetta tímabil er einskonar undirbúningstímabil fyrir stórmótin sem framundan eru, World Cup í Tékklandi um miðjann Maí, og Smáþjóðaleikana í byrjun Júní. Sumar keppnir virka vel sem æfing, en eru líka frábærar til að meta ástand og form. Ég hafði hinsvegar mestann áhuga á stigunum sem gætu fengist í þessarri keppni, en í S1 keppnum eru stig gefin upp í 34.sæti. Með mér í ferðinni voru Gústaf og Helgi Olsen, helstu æfingafélagarnir í Danmörku. Við keyrðum alla leið og gistum á fínu hóteli rétt hjá brautinni.

Vikan fram að keppni var þó ekki sú besta, því miður. Eftir frábærann árangur síðustu 2 helgar, og formið í góðu standi, var ég tilbúinn í æfingaálag vikunnar. Sú tilfinning entist ekki lengi því í byrjun vikunnar byrjaði ég að finna fyrir óþægindum í hálsi, máttleysi á hjólinu, og mér leið eins og ég væri ekkert að jafna mig eftir átök síðasta Sunnudags. Mig grunaði að ég væri að ná mér í einhver veikindi en hélt þó áfram samkvæmt plani, og var harðákveðinn í að sleppa ekki þessarri keppni jafnvel þó heilsan myndi versna fram að helgi. Eins og við mátti búast, þá breyttist hálsbólgan í kvef, og áður en ég vissi af var nefið stíflað, máttleysið orðið verra og erfitt að sofa á næturnar. En ég skellti mér samt í keppni.

Bengt Ove Sannes (Creativity In Action)

Bengt Ove Sannes (Creativity In Action)

Dagur 1 var ekki sá besti, en eftir langt ferðalag frá Danmörku vorum við ekki mættir á keppnisstað fyrr en um 1klst fyrir start, og fengum uþb 20 mínútur af æfingum í brautinni. Það mætti segja að sú brautarskoðun hafi verið ábótavant, og það kom skýrt fram í keppninni. Ég tók á því eins og ég gat, en þar sem ég var ekki með allar beygjur á hreinu gat ég ekki annað en haldið pínulítið aftur af mér. Ég endaði 52. af 60 keppendum, og þar með var startröðin fyrir aðalviðburð helgarinnar, daginn eftir, alveg farin í ruslið. Beint í pizzu og svo á hótel að gera allt klárt fyrir morgundaginn.

Dagur 2 hefði getað verið mun verri. Tókum daginn snemma með öflugum morgunmat, 3 tímum fyrir start, og hjóluðum upp í hæðina sem keppnin var haldin á. Eftir 3 hringi í brautinni var komin ágætis tilfinning fyrir tæknilegum köflum, og allt klárt eftir nokkra góða spretti á malbiki til að gera líkamann tilbúinn. Ég var settur á öftstu röð, kunnuglegur staður frá stórmótum, en ekki sá staður sem mér fannst ég eiga skilið að vera á. Á fyrsta hring er alltaf umferðaröngþveiti, og oftar en einusinni þurfti að stoppa, setja annan fótinn niður, og reyna svo að ryðjast í gegn um mannfjöldann, þegar brautin varð þröng og færri komust að en vildu. Á 6 hringjum tókst mér þó á einhvern hátt að vinna mig upp, og þrátt fyrir stöðugann hósta og erfiðleika með að drekka og troða í mig gelum, þá tíndi ég upp hina og þessa andstæðinga alveg fram að síðasta hring, en síðasta manni náði ég í síðustu beygjunni. Ég endaði í 30.sæti af 58, sem ég get ekki kvartað yfir, miðað við ástand og aðstæður.

Dagur 3 hefði mátt vera betri. Eftir 2 daga var ég í 30.sæti í heildarkeppninni, sem verður að segjast að var betra en ég bjóst við, en mér leið ekki sem best þessa helgi, hvort sem það var á hjólinu, eða ekki. Mér fannst tilvalið að gera mitt besta til að ná að hanga í top 30, til að krækja mér í nokkur stig sem gætu gagnast seinna í sumar. Startið var hratt eins og við mátti búast í svona stuttri keppni, en mér tókst að hanga um miðjann hóp eftir fyrstu brekku. Á fyrstu 2 hringjunum vann ég mig upp um nokkur sæti og var á þægilegum stað til að enda í stigasæti, og var alveg til í að halda mér bara þarna án þess að gera of mikið. Kvefið tók hressilega á mér sem sást best á púlsinum, sem var óvenju rólegur yfir keppnina, merki um að líkaminn sé ekki í standi til að taka svona á því. Í lok 3.hrings lenti ég þó í óhappi, skellti afturdekkinu full harkalega í grjót, en tók ekki eftir neinu eftirá, þannig að ég hélt bara áfram inn í 4.hring. 2 mínútum síðar hvarf allt loft úr afturdekkinu, þannig að ég komst ekki lengra. Keppnin var ótrúlega stutt, aðeins 1 og hálfur hringur eftir, þannig að auka gjarðir og hjálp í drykkjarstöðum hefði ekki breytt neinu, tíminn sem ég þurfti að ná var horfinn og áður en ég vissi af voru allir keppendur komnir framhjá mér. Ég labbaði þá bara til baka og fékk þannig hið afskaplega leiðinlega DNF (did not finish) í kladdann. Gengur betur næst.

Flammen Liga – Rude

Hér er keppni sem ég er búinn að vera að bíða eftir síðan ég byrjaði æfingar vetrarins í Nóvember á síðasta ári. Á meðan hjólað var á hverjum degi í frosti/snjó/ískaldri drullu/salti var mikið hugsað út í hvernig það skyldi virka að keppa á “heimavelli” í stórri UCI keppni, eins og útlitið var þegar keppnisdagatalið var birt í byrjun árs. Það gat ekki annað verið, hugsaði ég, en að það hefði áhrif að hafa svona keppni nálægt, á svæði sem maður hjólar reglulega á, og kannski það helsta, að sleppa við vanalegu rútínuna sem inniheldur að pakka hjóli, fara á flugvöllinn, fljúga, ná í bílaleigubíl, keyra á hótel, setja saman hjól, finna brautina, og svo mætti áfram telja.

DSC01688

Flammen Liga mótaröðin (áður kölluð SRAMLiga) hófst í gær með fyrstu umferð í Rude skov, sem er skógur í nágrenni Holte, rétt fyrir utan Kaupmannahöfn. Brautin bauð upp á allt sem þarf að hafa í braut á þessu stigi, brött klifur, hraða niðurkafla, þröngar beygjur, grjótakafla og jafnvel stökkpalla. Startlistinn innihélt mörg af stærstu nöfnum Norðurlandanna, þar á meðal þá bestu frá Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Einnig voru keppendur frá Þýskalandi og Hollandi, þannig að það stefndi allt í erfiða keppni á háu stigi. Keppnin er skilgreind sem UCI C2, en á UCI þrepalistanum er C2 einskonar milliþrep, og algengast að keppnir fái þann stimpil. Stig fyrir top 10, alþjóðlegir þáttakendur og allt skv UCI reglum.

Undanfarnar vikur hef ég tekið mataræðið í gegn, og með aðstoð nokkurra aðila, þar á meðal Sigurjóns Ernis hjá Fitness Sport, óvenju miklum bókalestri og nýjum venjum sem allir sem mig hafa þekkt í gegn um tíðina myndu ekki tengja við mig og mína matarsiði. Þetta hefur breytt ýmsu, hvort sem það er keppnisþyngd, vellíðan, geta til að jafna mig og halda mér vel nærðum á erfiðum æfingatímabilum, eða bara almenn heilsa, þá verður því ekki neitað að ég er að gera þetta í einum tilgangi. Mikið af því sem ég hef lesið hefur með markmið og hugarástand að gera, og þá þarf maður að vera hreinskilinn við sjálfann sig og spyrja sig, afhverju er ég að þessu? Í mínu tilfelli er það einfalt: ég er ekki að hugsa um að vera hollur og heilsusamlegur, ég er að hugsa um að hjóla hraðar.

Á keppnisdag var hressleikinn til staðar. Veðrið var ágætt miðað við undanfarna daga, en það hefur verið einhver kuldi yfir landinu (og restinni af meginlandi Evrópu). En það var þurrt, það var logn, og það glitti í sólina, og þá verður ekki kvartað. Pabbi var í heimsókn og kom með sem sérlegur ljósmyndari og aðstoðarmaður, ásamt Iðunni sem er alltaf tilbúin á hliðarlínunni, hvort sem það er til að rétta mér vatnsbrúsa, hrópa á mig hvar ég er í röðinni, eða rétta mér loft í sprungið dekk. Keppnir á þessu þrepi væru ómögulegar án öruggra aðstoðarmanna, það er klárt mál.

DSC01819

Ég fékk númerið 9 í startlistanum, af 48, og var því kallaður upp í 2.röð á startlínunni. Þetta var þægilegur staður til að vera á, rétt hjá sterkustu mönnum og með góða möguleika á að koma mér framarlega á fyrstu metrunum áður en komið var í þrengri kafla þar sem framúrakstur er ómögulegur. Keppnin hófst og ég náði að vinna mig í gegn um hópinn á fyrstu 500 metrunum og var uþb 6-7. maður inn í fyrsta klifrið. Þegar það var klárað og næsti tæknilegi kafli búinn áttaði ég mig á að ég hafði komið mér í óvenju góða stöðu, og hafði ekki fórnað neinum kröftum í það. Þetta var skemmtileg staða til að vera í, og ég lifnaði allur við þegar ég hugsaði út í þetta, en passaði þó að halda mér innan þægilegra marka, og ganga ekki fram af mér í tilraun til að ná lengra. Á fyrstu hringjunum var ég um 6-8 sæti, með fremstu menn komna úr augsýn, en hægt og rólega tíndust menn saman í einn hóp, á 3-4 hring (af 7 hringjum). Það var kominn ágætis hópur í kring um mig, og fljótlega bættust fleiri við, en ég passaði að hugsa þetta örlítið taktískt. Í staðinn fyrir að líta á hópinn sem ógn, og gefa í til að losna við hann, hélt ég mig aftarlega og hafði augun á fremsta manni til að fylgjast með stöðunni. Ég var tilbúinn í lætin ef einhverjum skyldi detta í hug að stinga af, og þegar Emil Linde, Evrópumeistarinn í eliminator cross country, keyrði frá hópnum rétt áður en síðasti hringur hófst, var ég með honum. Fljótlega minnkaði hópurinn niður í 4, og í næsta klifri stakk Jonas Lindberg af, en hann er einn af þeim bestu hér í Danmörku. Emil náði ekki að halda í hópinn og þegar aðeins nokkrar mínútur voru eftir af keppninni var komið að síðasta klifrinu þar sem Anders Laustsen ætlaði að stinga af, og ég setti allt í botn til að ná honum. Aðeins nokkrir metrar voru á milli okkar á toppnum á þessu klifri, en svo kom uþb 500 metra langur beinn kafli þar sem við vorum báðir í þyngsta gír, með allt í botni. Ég náði honum ekki, og kom í mark örfáum metrum fyrir aftan, en var ótrúlega feginn þegar ég heyrði frá pabba að ég væri í 9.sæti.

DSC01920

Þetta er minn besti árangur í keppni í Danmörku, UCI keppni og mögulega alþjóðlegum keppnum yfir höfuð. Eftir langann og erfiðann vetur, og óheppni og veikindi í síðustu keppnum, fékk ég loksins þá staðfestingu sem ég þurfti. Bætingin er augljós, hvort sem það er hausinn, tæknin eða formið. Ég gæti ekki verið spenntari fyrir framhaldinu, og þeim stórmótum sem eru rétt handan við hornið.

Ég vil nýta tækifærið og þakka mínum stuðnings, og styrktaraðilum fyrir allt sem þeir hafa gert fyrir mig. Án styrktaraðila er þetta ómögulegt, að keppa á þessu stigi, og æfa svona mikið. Ég gæti þetta ekki án ykkar!

DSC02067

Internazionali d’Italia – La Montagnetta

Það er alltaf smá spenna í manni þegar það fer að vora, veturinn að skríða í burtu og öll vinnan sem maður hefur lagt í æfingar yfir síðustu mánuði bíður spennt eftir að fá að sýna afraksturinn og vonast eftir hæstu einkunn. Það er ekki alltaf sem árangur fer eftir beinni línu upp á við, stundum er undirbúningurinn fyrir stóru markmiðin langur og felur í sér lítil markmið sem hafa meiri tilgang sem góðar æfingar, frekar en mikilvægar keppnir. Svokallaðar B, eða jafnvel C-keppnir eru algengar hjá hjólreiðamönnum sem hafa náð langt og eru komnir yfir það tímabil þar sem hver keppni skiptir öllu máli, og alltaf keyrt í botni.

La Montagnetta var mín leið til að mæla núverandi form, bera saman árangur milli ára og skoða hvar ég þarf að bæta mig, og hvar ég er orðinn betri en ég var. Þetta er frábær keppni til þess, bæði vegna þess að hún er ein af fyrstu UCI keppnum ársins, sem gefur nóg svigrúm eftirá til að skoða hvað vantar upp á, og vegna þess að ég hef áður tekið þátt þá hef ég þekkingu á brautinni og aðstæðum. Það er líka frábært að geta borið sig saman við fyrri árangur í sömu keppni, og skoðað hvernig maður stendur sig miðað við aðra keppendur sem maður þekkir vel. Keppnin er haldin í Mílanó, í almenningsgarðinum Parco Monte Stella. UCI C1 merking þýðir að hún er ansi hátt sett í UCI styrkleikaröðinni, en það þýðir að fleiri stór nöfn mæta til leiks í leit að stigum fyrir sumarið. Brautin er samsett af bröttum klifrum á harðri mold og grasi, erfiðum brunköflum í hliðarhalla, og inniheldur td stökk fram af háum köntum, moldarstökkpalla, “pump track” kafla og grjótagarð. Hún hentar mér vel vegna klifursins, og tæknilegu kaflarnir eru ekki of erfiðir, en eftir æfingar vetursins finn ég að sjálfstraustið er að aukast í hröðum beygjum og tæpum brekkum sem liggja niður á við.

Því miður tók heilsan sig til og skellti á mig ljótum hósta nokkrum dögum fyrir keppni, en þar sem ég fann lítið fyrir því á æfingum, gerði ég engar breytingar á keppnisplaninu. Svona keppnisferðir eru ekki gefins, og ferðalögin sem ég fer í til að stunda þetta sport sem atvinnu eru langstærstu útgjöldin. Það er ekki í boði að vera svo lánssamur að geta stundað þetta af kappi með stuðning góðra vina og stórra fyrirtækja, og sleppa dýrum ferðum vegna veikinda. Þannig sé ég það amk. Á föstudeginum var flugið til Mílanó og þá fann ég að ég var að versna, kvefið byrjaði og hóstinn versnaði. Á laugardeginum var ég farinn að átta mig á að þetta væri ekki að skána og ég þurfti að tala mig til fyrir æfingu, til að halda haus og fara ákveðinn í að skoða aðstæður og halda mínu striki.

Laugardagsæfingin var uþb 1-2 tíma rúll um brautina, þar sem ég stoppaði hjá helstu köflum sem voru að valda mönnum vandræðum, til að æfa þá alveg þar til ég var með allan hringinn á hreinu. Vaninn er að taka einn hring rétt undir keppnisálagi þegar ég er að æfa daginn fyrir keppni, til að kveikja á löppunum og sjá hvernig ég ræð við brautina á keppnishraða. Eftir æfinguna var hóstinn orðinn verri og nefið stíflað upp í heila, og ég tók eftir klassísku merki um að líkaminn sé farinn að forgangsraða rétt: púlsinn var allt of lár, jafnvel undir hámarksálagi. Þetta var skýrt merki um að keppnisdagurinn yrði ekki minn dagur.

Á keppnisdag var rútínan hin allra eðlilegasta. Morgunmatur uþb 3 tímum fyrir start, og upphitun uþb 1 klst fyrir start, með smá rúlli í brautinni en aðallega keyrt á götum í kringum keppnissvæðið. 124 keppendur voru skráðir til leiks, sem er óvenju mikill fjöldi fyrir svona keppni. Í flestum keppnum sem ég tek þátt í, eru keppendur milli 30 og 80 talsins, en maður finnur alltaf fyrir því þegar fjöldinn verður svo mikill að hópurinn lendir í einni stórri klessu nokkrum sekúndum eftir start, og enginn kemst neitt nema allra fremstu menn. Ég var heppinn að UCI stigin mín og staða á heimslista gáfu mér startnúmerið 25, þannig að ég fékk gott forskot á þessa 100 keppendur sem störtuðu fyrir aftan mig.

DSC01436

Keppnin fór af stað með látum og það liðu um 10 sekúndur frá startinu þar til hópurinn kom að fyrstu bröttu brekkunni. Jafnvel með gott start lenti ég í umferðarteppu og hoppaði af hjólinu til að hlaupa upp hólinn með öllum öðrum í kring um mig. Eftir þetta stutta hlaup komst ég aftur á hjólið og hélt áfram botnkeyrslu til að klára fyrsta hring í 38.sæti, og í mjög góðum hópi manna. Ég vissi allan tímann að þetta myndi ekki endast, en ég lét það ekki á mig fá, hætti að horfa á púlsinn og vöttin, og reyndi bara að halda út eins lengi og ég gat. Eftir 3 hringi byrjaði ég að finna fyrir óþægindum í öndun, fann sviða, eða öllu heldur, brunatilfinningu, í hálsinum, og gat ekki fengið mér að drekka eða skella í mig orkugeli. Eftir 4.hring, þar sem ég sat enn nálægt 40.sæti var eins og einhver ýtti á takka inn í mér. Það slokknaði algjörlega á mér, með 3 hringi eftir, og ég gat ekkert gert í því. Brekkurnar sem ég hafði flogið upp áður breyttust í veggi og jafnvel flatir kaflar voru eins og kviksyndi. Ég vissi þarna að ég væri búinn með alla sénsa sem líkaminn gæfi mér og ég átti ekkert meira inni. Eftir 2 hringi var ég hringaður út, búinn að missa fram úr mér allt of marga keppendur, og ég endaði í 67.sæti af 124.

Í fyrra náði ég 61.sæti með næstumþví fullkominni keppni. Ég man að ég var ánægður með árangurinn og leit á þá keppni sem merki um að góðir hlutir væru í vændum fyrir síðasta ár. Ef það er hægt að taka eitthvað jákvætt frá keppninni í ár, þá er það að ég var ekki langt frá eigin árangri síðasta árs, þrátt fyrir bullandi kvef og ógeð. Þegar ég lít á úrslitalistann sé ég nöfn þeirra sem ég hafði hjólað með fyrstu 4 hringi keppninnar, og leið vel þegar þeir reyndu sitt besta til að stinga mig af. Þarna eru menn í 38-45.sæti og þá verð ég bara að gefa mér þá bjartsýni að hugsa til þess að þarna hefði ég endað með fullri heilsu.

DSC01362

Ég gæti ekki verið heppnari með aðstoðina frá Iðunni minni í svona ferðum. Á meðan ég var í fýlu út í heilsuna gerði hún ekkert annað en að hjálpa mér í gegn um daginn, hvort sem það var að finna mat og drykk, sækja keppnisgögn eða rétta mér brúsa og segja mér í hvaða sæti ég var í miðri keppni. Takk elskan mín!

Árið er nýbyrjað og spennandihlutir að gerast á næstunni. Æfingaferðirnar eru ekki búnar enn, og stóru keppnirnar í Apríl og Maí bíða. Ég er spenntur fyrir framhaldinu og keyri á fullu inn í vorið, en fyrst ætla ég að losa mig við smá kvef.

Andalucia Bike Race

Týpískur vetur hjá mér hingað til hefur verið ansi einfaldur. Fyrra keppnistímabili lýkur í sept/okt og þá tekur við bland af grunnþjálfun, lyftingum og cyclocross keppnum fram að áramótum. Eftir áramót er cyclocross tímabilið að klárast, en oft eru stærstu keppnirnar þó í des/jan og þá eru æfingar orðnar þyngri og klukkutímar fleiri. Einhvertimann á þessu tímabili hefur verið hin staðlaða Tenerife ferð í jan/feb og að henni lokinni hefst keppnistímabilið aftur í mars, með fyrstu fjallahjólakeppnunum og sérhæfðari æfingum.

Í fyrra var þetta allt öðruvísi, en í ár er þetta líka öðruvísi. Eftir veturinn sem ég eyddi hér í Danmörku, auk ferða til Íslands og Gran Canaria, sé ég að það voru færri cyclocross keppnir en áður, fleiri klukkutímar á fjallahjólinu og færri á götuhjólinu. Þetta eru breytingar sem ég gerði til að fókusa meira á fjallahjólreiðar, eðlilegt þar sem það er mín aðalgrein.

Auka viðbót við undirbúninginn fyrir vorið og sumarið er eitt stykki fjöldagakeppni á fjallahjóli. Í September í fyrra var ákveðið að skella Andalucia Bike Race inn á planið sem eins konar æfingakeppni, bæði fyrir tækni á hjólinu og úthald fyrir langt tímabil.

DSC00631

Keppnin er 6 dagar, uþb 400km og 8000m hækkun allt í allt. Fyrsti dagurinn er „prologue“ dagur, sem er í rauninni einstaklings tímataka, til að gefa ákveðna hugmynd um styrkleika hvers og eins fyrir restina af keppninni. Árangurinn á þessum degi ákveður td. startröðina fyrir næstu daga.
Aðrir dagar í keppninni eru keyrðir áfram eins og venjulegar fjallahjólakeppnir, þó í maraþon formi, sem þýðir lengri vegalengdir og A-B form, í stað hringjaforms eins og venjulegar XCO keppnir notast við.

Það tóku 600 manns þátt í keppninni, og þar af 180 manns í pro/elite flokknum sem ég var í. Þarna voru mörg af stærstu nöfnum í sportinu, td Tiago Ferreira heimsmeistarinn í maraþon fjallahjólreiðum, Jose Hermida fyrrverandi heimsmeistari og stærsta stjarnan í spænskum fjallahjólreiðum, Alban Lakata tvöfaldur heimsmeistari, og Joaquim Rodriguez, einn frægasti götuhjólreiðamaður síðari ára. Þetta þýddi aðeins að keppnin yrði hörkuerfið og nóg af öflugum andstæðingum.

Fyrsta keppni ársins er alltaf stórt spurningamerki. Jafnvel fyrir þá sem prófa sig reglulega til að athuga ástand og fylgjast með bætingum, þá er ómögulegt að segja til um hvar maður stendur fyrr en fyrsta keppnin er afstaðin. Power test og annað eru frábær, en ekkert er betri mælikvarði en keppni. Ég var óviss með ástandið eftir frekar óreglulegann Janúar mánuð en átti þó mjög góðann Febrúar með ansi öflugum æfingum og 20 tíma vikum að meðaltali. Þannig að ég var jákvæður fyrir þetta.

DSC00203

Þetta var fyrsta keppnin mín á nýju hjóli, en ég hafði nýlega fengið 2017 módelið af Specialized S-Works Epic Di2 frá hjólreiðaversluninni Kríu, sem ég er ótrúlega þakklátur fyrir. Þetta er topp módelið í línunni hjá Specialized, fulldempað hjól fókusað á XC keppnir, og það verður að segjast að það hjálpar helling að hafa svona græju þegar maður er að keppa á svona háu stigi í sportinu. Yfir svona langar dagleiðir getur verið ótrúlega mikilvægt að hafa góða fjöðrun og létt hjól, til að minnka þreytuna sem sest í líkamann, bæta í sjálfstraustið á tæknilegum köflum, og vera öruggur með áreiðanleika búnaðarins sem notaður er. Ég er í engum vafa um að eftir fjölmörg hjól sem ég hef notað í gegn um tíðina, þá er þetta hjól það besta.

Dagur 1: 30km time trial með uþb 1100m klifri í tæknilegri braut. Keppnin hófst í borginni Cordoba og var þar fyrstu 3 dagana. Keppt var á svipuðum slóðum alla dagana, og var þetta bland af þurrum moldarstígum, malarvegum og grasi, með smá malbiki inn á milli. Ég var með start númerið 23, frekar hátt á lista sem þýddi að ég startaði seint, en það var startað í öfugri röð, besti hjólarinn síðastur. Keppnin gekk vel og endaði ég í 43.sæti, ekki of langt frá fremsta manni, þannig að þetta gaf góðann tón fyrir næstu daga.

Dagur 2: 80km með 1800m klifri. Þetta var flottur dagur fyrir mig, þar sem það var mikið af klifri, sérstaklega þar sem fyrstu 20km voru flatir. Það þýddi að klifrin voru mörg og brött, og ég átti ansi góðann dag. Planið fyrir alla keppnina var að hugsa ekki of mikið út í að þetta væri fjöldagakeppni, heldur í staðinn að keyra alla dagana eins og ég þyrfti ekkert að spara mig fyrir næstu daga. Ég komst inn í góðann hóp frá fyrsta klifri og kláraði með sama hóp í 48.sæti og var þá á fínum stað í heildarkeppninni. Sérstakur bónus á þessum degi var sá merki áfangi að taka fram úr Joaquim Rodriguez í klifri, í keppni.

Dagur 3: 80km með 2000m klifri. Ég var farinn að finna fyrir þreytu þarna, en á annan hátt en ég er vanur. Þreytan var dýpri, og sat í manni lengi. Fæturnir voru ekki aumir eða stirðir, heldur leið mér eins og ég væri kominn með eins konar hraðatakmörkun, sem stoppaði mig þegar ég vildi fara hraðar. Púlsinn var orðinn töluvert lægri vegna þreytunnar, en powermælirinn sagði þó sömu söguna og daginn áður, sem er jákvætt fyrir langtíma úthald. Þessi dagur var eins og afrit af degi 2. komst í góðann hóp og hélt mér á réttum stað alla leið. 40.sæti kom skemmtilega á óvart, en það benti til þess að ég væri mögulega að ráða betur við þreytuna en þeir sem voru ferskari daginn áður.

Dagur 4: 70km með 1900m klifri. Þetta var sérstakur dagur því hann var eins konar „transfer stage“, eða millistaður á leiðinni á nýjann keppnisstað. Við færðum okkur í borgina Andújar, en það var aðeins keppt þar í þennan eina dag. Þetta var fyrsti virkilega heiti dagurinn, með mikilli sól, þannig að það skipti miklu máli að vera með nóg að drekka og borða. Fram að þessu hafði ég fengið Iðunni til að standa við brautina í drykkjarstöð svo ég gæti skipt út einum brúsa, þannig að ég fór í gegn um flestar dagleiðirnar á 3 brúsum. Auk þess var ég með 3-4 SIS Go gel í vasanum og 1-2 SIS Go Energy orkustykki til að fá orku yfir langann tíma á hjólinu. Dagurinn gekk mjög vel, en ég var farinn að finna fyrir meiri þreytu og varð á tímabili að sleppa mér úr hópnum sem ég var í, og endaði á að klára einn í 45.sæti. Þarna var ég að nálgast 40.sæti í heildarkeppninni og var mjög jákvæður eftir 4 góða daga.

Dagur 5: 100km með 1900m klifri. Lengsti dagurinn var þó ekki jafn langur og flestir bjuggust við. Þarna var komið á þriðja staðinn í keppninni, borgina Linares. Brautirnar þar voru öðruvísi en í Cordoba og Andújar að því leyti að klifrin voru styttri, vegirnir jafnari og minna um tæknilega kafla. Þetta var farið að líkjast flötum maraþon keppnum, sem er ekki mín sérgrein, en þó hörku áskorun. Þessi dagur var líkari götuhjólakeppni en fjalahjólakeppni, meðalhraðinn ansi hár og mjög mikilvægt að vera í réttum hóp alla leið, til að lágmarka tímatap. Þarna lenti ég í fyrsta skipti í keppninni í að fara vitlausa leið, en hópurinn sem ég var í elti einn hjólara sem vissi ekki að hann væri að fara vitlausa leið. Eftir smá þras á spænsku var ákveðið að snúa við, en það gerðist fljótt og tapið var lítið miðað við hvað hefði getað gerst. Ég náði að klára í góðum hóp, með auka bónus á síðustu 10km þar sem ég fór með öðrum sterkum hjólara í árásarham, við stungum hópinn af og kláruðum tveir, þar sem ég vann sprettinn og endaði í 47.sæti.

Dagur 6: 50km með 1000m klifri. Þarna voru allir þreyttir. Allir tilbúnir í að klára keppnina og segja þetta gott. Það voru um 15-16klst af keppnum búnir, og sérstök tilfinning að fara í stutta dagleið með miklum hamagang, á sama tíma og lappirnar voru í engu stuði til að hreyfa sig. Þetta var líka svolítið götuhjólalegur dagur, en þó tæknilegri kaflar og vegna vegalengdarinnar var keyrt ansi hressilega frá byrjun. Mér tókst einhvernveginn að hanga inn í 2.hóp alla leið, og þegar 12 manna hópurinn kom að markinu tók við svakalegur endasprettur, þar sem ég kom yfir línuna á eftir 2 öðrum. Komst að því seinna að Alban Lakata var í hópnum, og kláraði á eftir mér. Ekki slæmt! 35.sæti á þessum degi kom mjög skemmtilega á óvart.

Ég endaði í 37.sæti í elite flokki, af 180 sem hófu keppni. Top 20% er sjaldgæfur árangur hjá mér, en oft er ég að slást um top 50% í svona stórum keppnum. Þetta er skýrt merki um bætingu vetrarins, og setur markið hátt fyrir næstu keppnir. Keppnistímabilið er að hefjast hægt og rólega með fáum keppnum í Mars, en í Apríl tekur svo alvaran við.

DSC01031

Best year ever

It‘s been a great year. Starting on square one in January, having been released from the hospital just days before Christmas, I was still in a grey area, not fully recoved, and anything could have happened. My recovery was amazingly quick after coming so close to death, let‘s call it a mixture of luck and top quality medical assistance, with a hint of fighting spirit. My year started when I got back on the bike. Sure, I was happy to be back home with friends and family, but my mind was in a dark place and me being who I am, I needed a goal. I needed a mission.

My mission was a 5 week training camp on Tenerife. Armed with my road bike I went from being dropped in climbs by people I‘ve never had trouble with, to long rides at speeds I hadn‘t seen for months at the time. It was a period of healing for both my mind and body, and I felt that despite some lingering mental problems, I was ready to get back into professional cycling.

I raced in 10 countries this season, from the USA to Switzerland to the Czech Republic. Of course Iceland featured some of my regular goals such as national championships, but my mind has been set on racing in Europe and beyond for a while, and while I love racing on home soil, my aspirations lie elsewhere.

Starting my international season in Italy in March, I already had a good feeling for the season, but still had some reservations due to an extremely difficult winter, and reduced training volume in the past months. A fun-packed trip to California for a couple of US Cup races, Sea Otter Classic included, showed me some progress with a nice top 50 at a UCI HC race. The low point of my season would be a trip with my favorite teammate Gústaf to the European Cross Country Championships in Sweden, May. I had gotten a bad skin infection caused by insect bites on my leg, and the pain combined with strong antibiotics threw my racing form in the trash for weeks. The Euro champs was my first ever DNF, and I felt like I was hitting rock bottom. After a 4 week buildup period I had a strong performance at one of the biggest races in Iceland, the Blue Lagoon Challenge. Coming in 3rd after one of the strongest marathon racers in the world, Soren Nissen, yet beating the European Eliminator Champion Emil Linde, was a big sign of my form getting better. Part of my training period was joining an amazing group of guys as Team Skoda, for the WOW Cyclothon, a relay road race around Iceland. I had a great experience with good friends, feeling a mental boost for the rest of the season.

The rest of the season included 5 weeks of the biggest goals of the season, all in a row. Starting with the UCI marathon World Championships, followed by the UCI XCO World Championships and then a UCI XCO World Cup, along with the Icelandic marathon National Championships and the Icelandic XCO National Championships. A tough period of racing, to say the least. The marathon Worlds, in Laissac, France, is something I still count as the most difficult race I‘ve ever done, due to the technical course, heat, incredibly high level, and total race length. Still it was my best result, relatively, with finishing 75h out of almost 150 riders. It was an amazing trip, and I‘ll never forget it as my first ever World Championship race. In Nove Mesto, at the XCO Worlds I encountered a very difficult course, and a much more competitive environment. I‘m happy I managed to stay out of Nino Schurter‘s way when he passed me on the 5th lap, moments after he made his winning move. This was a race I was glad just to finish, and I learned so much from it. The World Cup in Lenzerheide, Switzerland, was a very similar experience, although made much more friendly with the help of Christian Helmig and Hanna Klein, my room mates during the racing week. I was the first Icelandic individual to participate in all of these events, and I‘m very proud to have raced for my home country in such big events.

A double national championship victory, both for marathon and XCO, was a relief for me, to be honest. I don‘t feel much pressure when racing in Iceland, as I‘m surrounded by friends and family, but racing for the national title always puts me under stress, no matter how many I win. To have the jersey for one more year means a lot to me, and I look forward to putting it on again when I start my 2017 season.

30 flights and 94 nights at various hotels later I‘m thankful for so many things. The support of my girlfriend, Iðunn, is by far the most important thing in my life right now, and having friends and family who happily listen to me going on about this race and that bike component, is more helpful than they realize. But trying to make it in the world of professional cycling isn‘t free. In fact, it‘s quite an expensive sport for the individual, and I‘m not just talking about putting everything in life on hold, like studies or work, while I‘m at it. I‘ve been lucky to be in the position of being in the spotlight in Icelandic cycling for a while, and it‘s gotten me invaluable help from companies, organizations and individuals.

When I signed a deal with Novator, an investment firm founded by an Icelandic investor and entrepreneur, Björgólfur Thor Björgólfsson, it was the first and most important step into making cycling my profession and future career. Without their help I wouldn‘t be able to travel the world for training and racing my bike, and I thank them for believing in me, and for a unique opportunity to become Iceland‘s first full time pro cyclist. I‘m also supported by a group of individuals who‘s passion for cycling and vision of my potentials as an athlete have helped me along the way and made sure I can go through every month of training and racing without worry.

I can only count one brand of bicycles I‘ve used since I started racing in 2011: Specialized. When I made a deal with my long time friends Emil and David at Kria Cycles 5 years ago, it was the beginning of an amazing journey. I‘ve learned a lot, encountered obstacles and grown as a person and as an athlete, and been an important factor in representing Specialized in Iceland, and I plan to keep it that way. Lauf forks showed their faith in me by awarding me with a custom painted Lauf TR 29 in Icelandic colors, representing my 5 national titles in mountain biking. Hreysti have kept me going with energy products from Science in Sport, WOW air are an incredibly important part of all my traveling plans throughout the year,  and Garmin Iceland provide some of the necessary training equipment I use on every ride. Compressport Iceland have helped me with my recovery with their products, also useful for the occasional run when preparing for cyclocross. This year‘s addition of Saffran, an Icelandic chain of healthy and delicious food, has been a surprisingly big one. Being part of their marketing material is an honor, and getting nutritional support from them in every flavor imaginable is simply amazing.

I‘m feeling better today, after a long season, than I did when I was at my best in 2015. Next year is going to be an exciting one, with big goals such as the Small Nations Games, and trying out different World Cup races as well as mountain bike marathon racing. I keep going over the same thing in my head when training these days: if I had such a great summer after a horrible winter, what will next year be like after a great winter?

My first World Championships

I remember back in 2012 when I was in France for the UCI XCO/DHI World Cup in Val d’ Isere. I wasn’t there to race, I wasn’t even there to ride a bike. I was there with Iðunn and my Australian friend Jason, to watch the race and take some photos. When talking about the event, I got into the typical thinking, saying to myself I’d love to race at this level some time in my life. But I wasn’t talking about any plans or goals, I was daydreaming.

Last week me and my trusty do-it-all assistant/girlfriend/team manager Iðunn, took a 1300km drive from our home in Rotterdam, through Belgium and into France, eventually landing in Rodez in the middle of the country. We were there for the UCI Marathon cross country World Championships, held in a small town called Laissac. One of the toughest kinds of mountain bike racing, this would be Iceland’s, and my, first ever mountain biking World Championship participation.

Featuring 90km of nasty climbs, tricky descents and fast transition sections, along with approximately 3000 meters of climbing, this looked on paper to become the toughest race on my resume as a cyclist. Add in the world class level of elite riders picked by their national federations to represent their country, and you’ve got a race that might be extremely tough for an experienced rider, but surely a little bit scary for the new kid on the block.

After we settled in the smallest hotel room I’ve ever seen, at 4 in the morning on Tuesday after 18 hours of traveling, it took a few seconds to fall asleep, batteries completely empty. The next day the usual routine started, unpacking the bike, assembling everything and checking race schedule and organization. Part of being the only rider from my country, with my girlfriend as my assistant, at the biggest yearly event in the sport, is having to do a lot of things that have nothing to do with actually riding a bike. I quite like it, but it’s time and energy consuming to make sure all the information about the team is correct, showing up for a manager’s meeting and picking up numbers/accreditation and everything else the team needs to race. I’m sure in time this will get better and easier on the riders, but for now I enjoy being part of the organization as well as racing for Iceland.

My first pre-ride of the course was a little big unsettling. I started to ride from Laissac where the official start is, and immediately got into some steep and loose climbing, followed by fun singletrack with some deep ditches that were waiting to eat up my front wheel and send me flying over the bars. This went on for about 20 kilometers, which took about 2 hours at the “not easy but not too fast” pace I was fixed on. Naturally I assumed the rest of the 90km course was just like the first 20km, and I started thinking I might be in over my head. I didn’t have much time to ride the rest of the course over the few days before the race, so I knew I would be racing the rest of the course blindingly, which is something I believe can make a rider better at handling unexpected situations.

After doing a couple of days of easy riding to keep the legs fresh, I felt the heat was having a serious impact on performance and my ability to stay hydrated and full of energy. The average temperature over the days before race day was around 30-35°C which is way too much for a person from Iceland, or any other Nordic country. The forecast was on our side though, on Friday it looked like Sunday, the day of the race, would be the coldest one in the week, and when accompanied by the early start at 8:45 am, the temperature would start around 17 degrees and go up to 30 later in the day.

Race day came, and I somehow managed to sleep for about 6 hours during the night, not getting much help from the fact that we had to wake up around 6 am in order to get enough food and prepare everything to race. I had so much to eat, I felt like exploding, but apparently that is exactly what most endurance racers recommend for fueling up before a long race. I’m very goal driven, and I try to set myself some realistic goals when racing internationally. My favorite goal is to place in the top 50% in a top level race, it sort of gives me the feeling that I belong on that level, being better than half the field. For a race like the World Champs however, I was being realistic by telling myself I was there because I’ve put in the work and given myself the opportunity to represent my country. I had been told this would be a 4-5 hour race for most of the racers, with last year’s win coming in around 4 hours. There were 143 names on the list, so I set simple goals: don’t be the last one in, and try to stay under 5 hours.

I finished my 30 minute warmup and went to the starting box, which had some big names in it. The second to last box meant I was in a difficult position for getting to the front, but in a long race like this I wasn’t really aiming for that so I was happy to start where I was. Around me were guys I admire and follow like a fan kid: Jaroslav Kulhavy, Howard Grotts and Emil Lindgren, along with Todd Wells and Jeremiah Bishop. Some pretty strong guys going for a big result. Soon I heard the 60 second warning, then 30 seconds, then 15 seconds. The gun went off and I started by sprinting hard into the next corner and narrowly escaped a pileup caused by too many guys trying to go fast at the same time. The pack spread out pretty fast, but as the first climb came after only a few minutes, it felt like everyone was together again going up. The first climb was about 8 minutes long and I moved through a few spots while there, making me feel good but also wondering if I was starting a long race too fast. After the first descent there were just about 30 minutes to the first technical zone, where Iðunn was with the first bottle of 4 over the day. We had planned it as well as possible given the situation. Iðunn had to handle all tech support by herself, surrounded by huge support teams with everything from energy gels to spare wheels. With 7 tech zones in the course, and one of them being used twice, as the 1st and the 4th, we decided to put Iðunn there to be able to hand me 2 bottles each time I went by. This meant I was able to start with 1 small bottle to stay light, and swap it for 2 big ones at the first tech zone, and then 2 more bottles at the halfway point at tech zone 4. 5 bottles for 5 hours sounded like a good plan, and it went smoothly without problems.

When I reached the first tech zone I was sitting between small groups, about 6 guys in total. In a few kilometers the groups merged and I managed to stay in there, which really helped keep the pace high and push myself through a long day of suffering. After about 1 hour of racing I was starting to feel fatigue in the legs in the steepest climbs, but I was determined to stay in the pack as long as possible. Along with the long, steep climbs and loose descents, the course also featured some fast, relatively smooth, transition sections, and some very nice and technical singletrack. There was almost zero asphalt except for the start/finish area, and there were even a few river crossings to make things interesting. The race went on without much changing until the 4 hour mark when we started to approach the final big climb of the day. I had been dropped from the group and rejoined it a few times and I was certain that I wasn’t going to hold on when going into the last hour, but then the surprise of the day happened. The final climb was very simple, only a grass hill followed by a long, flat field, before the final descent into Laissac. As the group started to climb, I saw a few guy up ahead who seemed to be shutting down after perhaps starting too fast. I kept the heart rate as high as possible, with the fatigue forcing it down, and the legs aching and begging me to slow down. To my surprise I started to ride away from some of the guys in the group I had stayed with all day, and when the group started to stretch on the steep parts, I only gained a few bike lengths. Noticing this, I started to feel confident and excited that I was strong at this stage in the race, so I just kept going, all the way to the top. Reaching the top, I shook off the only remaining rider, a very nice guy from Germany who I had shared smiles and laughs with during some awkward times in the race. I put it in high gear, and started to ride away from everyone, but reminding myself that I still had about 1 hour to go.

The final descent was a mixture of dead legs, exhausted mind and excitement for being close to the finish line. I picked up a few more guys, from Latvia and finally a Dutchman, only a few km’s from the line. In the final few hundred meters I noticed some of the guys from my group had closed the gap and had overtaken the Dutchman, but I kept going and finished ahead of the chasers, putting a very positive end to an incredibly tough day in the saddle.

The feeling is indescribable, finishing my first World Championships. Never say never, but the chances of ever racing at the Olympics are slim to say the least, so that means the Worlds are the biggest races available to me, and I’ve just finished one of them, with a second one coming in exactly one week. It took me a while before I started to feel the tiredness, fatigue, and general shit feeling after getting off the bike. Salt stains everywhere on my national team jersey, and my bike so completely soaked in mud, there was no telling the color of the frame. I finished with a time of 4 hours and 40 minutes, some 20 minutes faster than I hoped for. But the real surprise was finding out I had not only finished in the top 100, I was in 75th place of 143 starters, meaning I was just around the middle. This is beyond my wildest dreams of success, and was probably the biggest confirmation of my status as a professional cyclist I’ve ever seen.

I’d like to thank Kria Cycles for supplying me with the Specialized Epic, a bike that can handle the abuse of a long, hard race, and still climb like a rocket. The guys in Hreysti helped me out with all the energy drinks, gels and bars I needed for the race and training before it, Garmin Iceland provided the excellent device that is the Edge 1000, and Iron Viking got me Compressport socks and compression wear to be able to recover faster than normal. Without financial help from Novator, and a special group of friends (you know who you are!) I would not be here right now, and none of the racing opportunities I’ve had would have been possible.

Thank you all for believing in me, supporting me, and being part of this adventure!

Getting back in the game

The last few weeks have been the biggest training weeks in my career, both in intensity and volume. It’s quite a way to start training for the season, let alone a way to recover from an almost career-ending injury. But it has been exciting times, ever since starting to get back on my feet in early January. To put into perspective, at the first weeks of the year, getting two bike riding days in a row was a big task. It wasn’t so much my body being unable to handle the training load, as it was mentally draining to stay motivated, and positive. Staying positive has taken it’s toll for some time now, and although I appear to be just fine on the surface, I’m still fighting a war inside.

People have been very supportive in my journey back from the injury, regularly asking me how I’m doing and checking up on me to see how everything is holding up. I think I have a different perspective on things today, I didn’t pay close attention to people around me when they were suffering from injuries, sickness or big changes in their life. It was difficult to relate, to connect and feel how support was needed, even simple things like just talking about life.

Some people have asked me recently if I feel okay with talking about what happened, and how I’m recovering. I get the sense that while I maintain a positive attitude and stay motivated to reach my goals, I appear not to need to talk about it. But I like talking about it. It’s something that happened, and there is no way to change that, so why hide it, or ignore it? Go ahead and ask me about it, it makes me feel better to unwind and get everything out in the open.

My training took a big leap forward when I arrived here on Tenerife in late January, 3 weeks ago. It marked a point where I was going to put myself through unusual amounts of training hours, and see how the body, and mind, reacted. I’ll admit that even though I’m known for being very confident in my abilities, I was feeling nervous about starting my training. I had very low expectations, and felt that if I would believe too much, I would have a hard time accepting failure.

It turns out that I underestimated myself. The first 2 weeks of training amounted to approximately 55 hours on the bike, and just 10 days after starting my coach Thomas put me through a 20 minute test to measure my fitness. The test blew me away, and shocked me to the point where I thought it was wrong, because the results showed better form than I had in February 2015, only a few percent off my best ever test. I guess things are going well.

My arm however is still a question mark. As I’ve talked about before, both bones in my forearm broke in half, requiring 2 titanium plates and multiple titanium screws to hold everything together. Recovery has been very promising and the bones appear to heal very well. But there is no denying the amount of force and pressure caused by a mountain bike race. I have put it through some suffering here on the island, but how it handles a race remains to be seen.

My club Tindur arrived here on Tenerife 2 weeks after me, and spent 1 week of training here. I was very excited to see everyone again, including new faces that were taking cycling seriously. Riding with the group felt good, especially since I’ve not spent much time riding with people from Iceland after moving to the Netherlands last year. I wouldn’t say I’m feeling homesick or lonely, but there is something special about spending time with people of the same nationality.
I had the opportunity to guide one of the groups of people through the longest days of their training camp, and it was an amazing experience. Recently I have tried to adopt a passive approach to giving advice about racing, training and cycling in general, equipment choices, my own racing stories and who should win the Tour this summer, instead of putting everyone through hours of cycling related monologues. The response has been quite surprising, as people in the Tindur group were happy to ask about my opinion of  their own plans and how I would do things. They asked about my own plans, and wanted to know what the future has to hold for me, but what I liked most of all was being able to point in the right direction, to use my experience to guide people and get them excited about their racing plans and training.

In only a few weeks my racing season will start. It’s a bit later than originally planned, but things have changed and I’m extremely lucky to be able to stick to my summer plans, which are ambitious to say the least. Starting with local races in the Netherlands to test my racing form and see how my arm and head can handle things, I’ll put it in the high gear when I do races in Italy, Belgium and the USA before competing at the European Cross Country Championships in May.

Older posts Newer posts

© 2020 On your left

Theme by Anders NorenUp ↑